Bjarni, Albanía er ekki fyrirmynd

Íslenska heilbrigðiskerfið er ríkisrekið. Hugmyndin er að allir njóti sömu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Takmarkaður einkarekstur er leyfður þar sem ríkið borgar en einkaaðilar sjá um framkvæmd.

Það liggur í augum uppi að frumhlutverk einkareksturs er að skapa eigendum arð. En það er ekki hlutverk ríkisins að vera mjólkurkú einkareksturs. Það er sóun.  

Umræða um að auka hlut einkareksturs í heilbrigðisþjónustu er byggð á þeirri forsendu að einkaaðilar geri betur en ríkið, skaffi betri þjónustu fyrir lægra verð. Þessi umræða er blekking.

Einkarekstur tekur að sér þjónustu sem skapar arð. Þessi arður kemur eingöngu frá tveim aðilum, ríkinu eða sjúklingum. Þeir sem vilja aukinn einkarekstur fela þessa staðreynd vegna þess að hún afhjúpar blekkinguna. Afleiðingar staðreyndarinnar geta aðeins verið tvær:

a. ríkið borgar einkarekstri arð

b. sjúklingum er hent fyrir markaðsöflin (sem lækna þegar það borgar sig)

Talsmenn einkareksturs eiga það til að koma fram undir nafni og kennitölu. Til dæmis Ásdís Halla Bragadóttir sem hirðir arð af einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Hún sagði á ársfundi Samtaka atvinnulífsins að Ísland ætti að taka Albaníu sér til fyrirmyndar í heilbrigðismálum, - þar væri svo mikið frelsi. 

Lífsgæðin í Albaníu ættu ekki ekki að vera okkur fyrirmynd, Bjarni Benediktsson.


mbl.is Dýrasta lausnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dó út vegna leti - ekki nægjusemi

Tegundin sem við tilheyrum, homo sapiens, er talin koma fram fyrir um 200 þúsund árum. Aðrar tegundir, sem deildu sameiginlegum forföður, dóu út. Ein þeirra er upprétti maðurinn, homo erectus. Tilgáta er sett fram að leti varð tegundinni að aldurtila.

Ástralskir fornleifafræðingar grófu í búsetusvæði homo erectus á Arabíuskaga á eldri steinöld. Tegundin kunni til verka að smíða sér áhöld en notaði óhentugt grjót. Skammt frá búsetusvæðinu var hægt að sækja sér gott grjót í steinverkfæri en íbúarnir hirtu ekki um það heldur notuðu það sem hendi var næst.

Homo sapiens og Neandertalsmaðurinn sóttu sér smíðaefni langar leiðir. Tilgáta áströlsku vísindamannanna er að upprétti maðurinn dó út vegna leti.

Annað orð yfir leti er nægjusemi. En tilgáta um að nægjusemi leiði til útrýmingar hljómar ekki nógu vel í eyrum homo sapiens.

 


Pútín fyrirsjáanlegur, Trump ekki

Pútín Rússlandsforseti hitti Merkel kanslara Þýskalands í gær á óformlegum vinnufundi. Enginn blaðamannafundur var haldinn eftir fundinn en endursögn þýskra fjölmiðla á þriggja klst. samræðum leiðtoganna er í stikkorðum: Sýrland, Úkraína, Íran og gasleiðsla frá Rússlandi til Þýskalands.

Það á að heita svo að ESB-ríki beiti Rússland efnahagsþvingunum vegna innlimunar Krímskaga. En þrátt fyrir það jukust viðskipti Þýskalands og Rússlands um 22 prósent á liðnu ári.

Í forsetatíð Obama í Bandaríkjunum reyndu vesturveldin að einangra Rússland. Trump reyndi að bæta samskiptin en er haldið aftur af frjálslyndum öflum í Bandaríkjunum sem ala á kaldastríðsótta. Trump fór þá leið að að efna til viðskiptastríðs við Evrópusambandsins, sem hann sakar um að leika tveim skjöldum: láta Bandaríkin borga fyrir varnir Evrópu gagnvart Rússum en stunda viðskipti við Rússland og gera sig háða orku þaðan, sbr. gasleiðsluna.

Leiðtogar í Evrópu treysta ekki Trump, sem er óhefðbundinn stjórnmálamaður. Pútín aftur er fyrirsjáanlegur.

Pútín kom hálfri klukkustund of seint á fundinn með Merkel. Hann tafðist í brúðkaupi austurríska utanríkisráðherrans. Þjóðverjum er umhugað um stundvísi en fyrirgefa þeim rússneska þá vangá. Pútín kemur kannski seint en hann eyðileggur ekki veisluna, líkt og Trump á til að gera.  


Jemen: drepum karlana, frelsum konurnar

Flaggskip frjálslyndra fjölmiðla í Bandaríkjunum, Washington Post, birti fyrirsögnina: Óvæntur árangur í Jemen; fleiri karlar elda og þrífa.

Í greininni er m.a. haft eftir jemenskri konu að stríðið hafi breytt persónuleika hennar, núna finnst henni að hún sé jafnoki karla. Jafnréttið fékkst með því að körlum fækkar vegna manndrápa annars vegar og hins vegar eru vinnustaðir þeirra sprengdir í loft upp. Karlkvikindin sitja heima, elda, þrífa og gæta barna. Sæluríki femínísks frjálslyndis er komið í höfn.

Greinin er skrifuð fyrir tveim árum, áður en Trump tók við embætti forseta. Stríðið í Jemen, líkt og stríðið í Írak og Sýrlandi er hugarfóstur frjálslyndra stjórnmálamanna, Bush, Clinton, Blair og Obama. 

Stríðsrekstur vestrænna ríkja, já, Nató var með, í miðausturlöndum var skipulagður í beinu framhaldi loka kalda stríðsins. Vestrænt frjálslyndi var sniðmátið. Smávegis manndráp fórnarkostnaðurinn.

Miðausturlönd eru ófriðarbál vegna þess að vestrænt frjálslyndi er álíka léleg útflutningsvara í miðausturlöndum og sovéskur kommúnismi var í Vestur-Evrópu.


mbl.is Fengu sprengjuna frá Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslynt Rússahatur, deyjandi pólitík

,,Þetta þýðir þó ekki að við lít­um svo á að Rúss­ar ógni Nor­egi eða NATÓ hernaðarlega," segir norski utanríkisráðherrann Söreide. En vill samt að Íslendingar taki þátt í viðskiptastríði Nató-ríkja gegn Rússlandi.

Sá norski talar fyrir Rússahatri sem einkennir frjálslynda umræðu á vesturlöndum. Í Washington trúir fólk, sem á að heita heilt á geði, að Rússar hafi tryggt Trump forsetaembættið í kosningunum fyrir tveim árum. Það eitt að funda með Pútín Rússlandsforseta eru landráð.

Frjálslynda Rússahatrið vill fá okkur til að trúa að Rússar stjórni Bandaríkjunum í gegnum Facebook-reikninga.

Merkel kanslari Þýskalands hittir einmitt Pútín næstu daga til að ræða samskipti þjóðanna sem eru við frostmark. Spiegel segir að merkilegast við þann fund sé að hann skuldi yfir höfuð haldinn.

Kalda stríðinu lauk fyrir 30 árum. Sovétríkin liðuðust í sundur og hernaðarbandalag kommúnistaríkja, Varsjárbandalagið, var lagt niður. Efnahagskerfi Rússa er álíka stórt og að ítalska, skrifar bandaríski íhaldsmaðurinn Patrick J. Buchanan og furðar sig á málflutningi þeirra frjálslyndu.

Rússahatrið grefur undan siðagildum okkar, segir bandaríski þingmaðurinn Thomas Massie.

Engin málefnaleg rök standa til þess að Rússland sé sérstakur óvinur vesturlanda. Rússland er ekki nógu öflugt til að ógna Evrópu hernaðarlega og hvað þá Bandaríkjunum. Í Rússlandi er enginn kommúnismi eða álíka hugmyndafræði sem valkostur við vestræna siði og háttu.

Rússahatrið þjónar þeim tilgangi að halda lífinu í dauðvona vinstrifrjálslyndi í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. 

Það er ekki tilviljun að Rússahatrið eflist til muna 2016. Það ár var vinstrafrjálslyndi sérstaklega erfitt. Brexit klauf Evrópusambandið og Trump tók Hvíta húsið. 


mbl.is Leitar sameiginlegra lausna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalisti skrifar sögu Sjálfstæðisflokksins

Valhöll réð sósíalista að skrifa sögu Sjálfstæðisflokksins. Nei, reyndar ekki.

En Vilhjálmur Bjarnason var ráðinn til Seðlabankans ,,í sérstök verkefni sem m.a. tengjast fullveldisafmæli Íslands."

(Takk, hjg)


Óöldin í ráðhúsinu, pólitísk og persónuleg

Borgarfulltrúi rekur út úr sér tunguna framan í annan og embættismenn herja á kjörna fulltrúa í ráðhúsinu. Ásakanir ganga á víxl um trúnaðarbrest og undirferli. Sem sagt, velkomin í ráðhús Reykjavíkur.

Hvað veldur?

Vinnutilgáta:

við síðustu kosningar komu ný pólitísk öfl inn í borgarstjórn, sem einnig varð fjölmennari. Sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins fóru beint í stjórnarandstöðu. Meirihluti vinstriflokka tapaði kosningunum en bjargaði sér með samningum Viðreisn um að stýra borginni.

Pólitíska meirihlutavaldið í borginni er veikt og það nýtir stjórnsýslan sér til að koma ár sinni fyrir borð. Embættiskerfið er þó ekki sterkara en svo að það er uppvíst að vinnulagi sem telst ekki til fyrirmyndar. Kjörnir fulltrúar svara yfirgangi embættismannavaldsins.

Veik stjórnun, sundurlyndi, bæði pólitísk og persónuleg, er rót óaldarinnar í ráðhúsinu.

Einfalt er að greina vandann, flóknara að leysa. En það má byrja á einföldum atriðum. Eins og kurteisi. 


mbl.is Ullað í borgarráði Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump: Tyrkland hryðjuverkaríki

Donald Trump segir Tyrkland taka saklausan bandarískan prest í gíslingu og krefjast lausnargjalds. Bandaríkin munu ekki borga heldur auka þrýstinginn á Tyrkland að láta prestinn lausan án skilmála.

Tyrkland er Nató-ríki, sameiginlegu hernaðarbandalagi vestrænna ríkja. Það sýnir gjaldfall Nató að forseti Bandaríkjanna, sem stendur undir rekstri Nató, skuli ásaka annað aðildarríki um starfshætti hryðjuverkasamtaka.

Siðferðileg og pólitísk innistæða Nató er orðin hverfandi. 

 


Einelti og dýrahald í ráðhúsinu

Héraðsdómur ógilti áminningar embættismanns í ráðhúsi Reykjavíkur með þessum orðum:

Um þá skil­yrðis­lausu hlýðni sem skrif­stofu­stjór­inn virðist ætla af stefn­anda verður sagt það eitt að þrátt fyr­ir stjórn­un­ar­rétt ann­ars og hlýðniskyldu hins eru und­ir­menn ekki dýr í hring­leika­húsi yf­ir­manna sinna.

Borgarritari segir núna á RÚV að dómurinn snúist ,,ekki um einelti".

Hmm. Snýst dómurinn þá um dýrahald í ráðhúsinu?


mbl.is Stríð milli stjórnsýslu og kjörins fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trójuhesturinn, fullveldið og Sjálfstæðisflokkurinn

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins vakti athygli í vor á þeirri staðreynd að Evrópusambandið reynir jafnt og þétt að útvíkka EES-samninginn og græfi þar með undan fullveldi okkar.

Evrópusambandið reynir núna að fá íhlutunarrétt í virkjanamál Íslendinga, með svokölluðum orkupakka ESB. Valdhafarnir í Brussel segjast aðeins ætla að grípa inn í fullveldisrétt okkar ef ágreiningur rís um ráðstöfun orkunnar. Í reynd getur ESB búið til ágreining hvenær sem vill og í framhaldi bæði ákært og dæmt um íslensk málefni.

EES-samningurinn var upphaflega gerður fyrir þau ríki sem voru á leið inn í Evrópusambandið. Þótt fyrir liggi að hvorki Ísland né Noregur, sem eru meginaðilar samningsins á móti ESB, eru á leið inn í sambandið er ekkert gert til að breyta samningnum til samræmis. Þvert á móti er stöðugt reynt að færa valdheimildir frá Íslandi og Noregi til ESB.

Embættismenn í Brussel nota EES-samningin í reynd til að hola að innan fullveldi Íslands. EES-samningurinn er Trójuhestur Brusselvaldsins innan borgarmúra Íslands.

Forysta Sjálfstæðisflokksins flýtur að feigðarósi með fullveldið á meðan EES-samningurinn fær að bólgna út og yfirtaka stöðugt fleiri innanríkismál Íslands. 

Tillaga Styrmis Gunnarssonar um félag fullveldissinna innan Sjálfstæðisflokksins segir sína sögu. Það þarf að spyrna við fótum.


mbl.is Sjálfstæðisfélag um fullveldismál tímabært?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband