Bjarni, Albanía er ekki fyrirmynd

Íslenska heilbrigðiskerfið er ríkisrekið. Hugmyndin er að allir njóti sömu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Takmarkaður einkarekstur er leyfður þar sem ríkið borgar en einkaaðilar sjá um framkvæmd.

Það liggur í augum uppi að frumhlutverk einkareksturs er að skapa eigendum arð. En það er ekki hlutverk ríkisins að vera mjólkurkú einkareksturs. Það er sóun.  

Umræða um að auka hlut einkareksturs í heilbrigðisþjónustu er byggð á þeirri forsendu að einkaaðilar geri betur en ríkið, skaffi betri þjónustu fyrir lægra verð. Þessi umræða er blekking.

Einkarekstur tekur að sér þjónustu sem skapar arð. Þessi arður kemur eingöngu frá tveim aðilum, ríkinu eða sjúklingum. Þeir sem vilja aukinn einkarekstur fela þessa staðreynd vegna þess að hún afhjúpar blekkinguna. Afleiðingar staðreyndarinnar geta aðeins verið tvær:

a. ríkið borgar einkarekstri arð

b. sjúklingum er hent fyrir markaðsöflin (sem lækna þegar það borgar sig)

Talsmenn einkareksturs eiga það til að koma fram undir nafni og kennitölu. Til dæmis Ásdís Halla Bragadóttir sem hirðir arð af einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Hún sagði á ársfundi Samtaka atvinnulífsins að Ísland ætti að taka Albaníu sér til fyrirmyndar í heilbrigðismálum, - þar væri svo mikið frelsi. 

Lífsgæðin í Albaníu ættu ekki ekki að vera okkur fyrirmynd, Bjarni Benediktsson.


mbl.is Dýrasta lausnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Páll. Er ekki allt í lagi?

Heilbrigðisþjónusta er ekki óháð efnahag. Hún byggist á því að landið sé ríkt. Sé efnahagur landsins bágborinn vegna sóunar, þá kemur það fram í verri heilbrigðisþjónustu.

Þess utan getur heilbrigðisþjónusta aldrei verið algerlega ókeypis því þá er ekki hægt að vita hvað það er sem liggja þarf á hillum þannig kerfis, umfram annað, því allt er rifið niður úr þannig hillum, óháð eftirspurn. Það er líka sóun.

Þess utan þá fær ríkið arð úr ýmsum áttum vegna reksturs á þess vegum, til dæmis í formi arðs og skatta. Og ríkið fær líka arð í formi sparnaðar.

Þessa sóun á auðæfum, tíma og mannslífum þarf að stöðva.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 20.8.2018 kl. 09:45

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sammála, Gunnar, að heilbrigðisþjónusta er háð efnahag landsins. Ef við búum við slæman efnahag sem þjóð bitnar það á læknisþjónustu, menntun, löggæslu, vegasamgöngum og öðrum þáttum sem samkomulag er um að ríki og sveitarfélög annist.

Við stuðlum að velsæld þjóðarinnar með frjálsu framtaki einstaklinga og fyrirtækja sem skapa auðinn. Afleiðingin af því frelsi er að sumir efnast meira en aðrir.

Hingað til hefur verið breið samstaða um að Íslendingar áháð efnahag eigi aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. En þeir eiga ekki sama aðgang að einbýlishúsum, lúxusbílum og ferðalögum. Þar ræður efnahagur hvers og eins og hvaða forgang frjálsir einstaklingar setja sér.

Erum við ekki svona um það bil sammála um þetta, Gunnar?

Páll Vilhjálmsson, 20.8.2018 kl. 10:21

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Nei við virðumst ekki vera sammála um þetta efni minn kæri Páll.

Af hverju ætti til dæmis "æðri menntun" að vera á höndum ríkisins? Menntakerfið okkar er að verða stærsta bóla sem þetta land hefur þurft að glíma við og fjármagna. Staða háskólamenntungar er að verða eins og staða Kaþólsku kirkjunnar var á miðöldum; Aflátsbréf er það eina sem líkja má háskólagráðum úr mörgum deildum við. Við erum að fjármagna bull og ríkisrekna heiðni; Non-sense. Fólk sem kemur út úr háskólum núna er minna menntað en fyrir 80 árum síðan. Það kann minna, það veit minna og það kemur bókstaflega bæklað út úr mörgum deildum háskólanna. Skaðað fyrir lífstíð! - og fyrir fjórum sinnum hærra verð en þá, per nemanda. Þetta er bóla.

Íslenskir læknar eru hæst launuðu læknar í öllum ríkjum OECD miðað við meðallaun í landinu og þeir taka enga áhættu í rekstri. Hvað segir það okkur. Og nýting á apparatinu er ekki góð og sést það best á biðlistum. Þetta kerfi er orðið bóla.

Við höfum náð góðum árangri í heilbirgðiskerfi okkar Páll, en við höfum að sama skapi náð því stigi að þetta kerfi er orðið þannig að þó svo að allri landsframleiðslu Íslands sé hellt ofan það, þá kemur lítið betra út úr því en sem orðið er. Þetta er eðli opinbers reksturs. Við höfum náð eins langt og hægt er að ná með því sem er, og sem þú vilt varðveita. Ég skil afstöðu þína vel, en hún á ekki rétt á sér lengur.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 20.8.2018 kl. 10:47

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég ætla ekki að blanda mér í þessa yfirgripsmikla deilu ykkar en snúa mér beint að umræddu bruðli í heilbrigðisþjónustunni. Kosnaðurinn við mjaðmaaðgerðirnar er miðaður við kostnað á ríkisreknu sjúkrahúsi (LSH, HSA). Ef aðrir geta hagrætt þessari þjónustu svo þeir hafi arð af ætti ríkið að taka því fegins hendi. Aðgerðir framkvæmdar á sjúkrahúsum erlendis eru ekki bara dýrari per se heldur er líka verið að greiða kostnað við flug, gistingu og uppihald. Að það teljist eðlilegur heilbrigðiskostnaður teygir ímyndunaraflið óþarflega og krefst aðgangs að hugmyndafræði sem ætti að vera löngu útdauð en krælir enn á sér á ólíklegustu stöðum.

Ragnhildur Kolka, 20.8.2018 kl. 11:20

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Gunnar, ríkisrekstur verður alltaf þunglamalegri og ósveigjanlegri en einkarekstur, það liggur í hlutarins eðli.

Með ríkisrekstri teljum við okkur ná árangri sem yrði tæplega náð með einkarekstri.

En það er sjálfsagt að endurskoða og endurmeta ríkisrekstur á hverjum tíma. Einu sinni þótti eðlilegt að ríkið sæi um strandsiglingar og ræki prentverk og járnsmiðju. Ekki lengur.

Í menntakerfinu erum við með einkarekstur að litlum hluta, t.d. Versló og HR. Báðir skólarnir eru þó á fjárlögum og gætu ekki lifað án ríkisframlags.

Heilbrigðiskerfið er sama marki brennt. Þar þrífst óverulegur einkarekstur þar sem ríkið tryggir afkomuna að stærstum hluta.

Nú er hægt að hafa þá skoðun að einkarekstur ætti að vera ráðandi fyrirkomulag í menntun og heilbrigðisþjónustu. Það er hægt að sjá fyrir, þótt auðveldara sé um að tala en í að komast, að einkarekstur sinni þessum grunnstoðum. Það er líka hægt að hafa þá skoðun, sem ég hef, að kerfið eins og það er í dag virki í meginatriðum.

En versta útgáfan sem við gætum lent á er að hafa samhliða einkarekstur og opinberan rekstur í sömu atvinnugrein. Það er ávísun á mikla sóun og enn meiri spillingu.

Páll Vilhjálmsson, 20.8.2018 kl. 11:53

6 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Staðreynd samt að við erum að borga Svíum margfalt það sem tekið er hé á landi.

En nú er Svandís að semja við einkageirann – eða leggja meiri pening í ríkis-kerfið hvað sem verður ofaná – Sjálfur vil ég öfluga ríkisrekna heilbrigðisþjónustu!

Jón Snæbjörnsson, 20.8.2018 kl. 12:01

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég held Páll já, að það þurfi að endurskoða þetta. Það er engin ástæða til að koma í veg fyrir einkarekstur borgaranna í heilbrigðskerfi frekar en á öðrum sviðum.

Það eina sem borgararnir geta ekki séð um að reka sjálfir, er löggæsla, landvarnir og dómsmál. Allt annað geta borgararnir sjálfir séð um, ef við á annað borð ræðum um tilvistarelg prinsipp í ríkisfræðum og rekstri. Þetta er það eina sem í ýtrasta skilningi málsins getur fullkomlega réttlætt tilvist ríkisreksturs, en samtímis það sem ríkið vanrækir oftast; þ.e. að vernda líf, limi og eigur borgaranna.

Allt á milli þess, annars vegar, og fulls sovéts eða Norður-Kóreu hins vegar, er náttúrlega það sem pólitík snýst um. Viljum við 10 prósent pólitískan rekstur, eða 100 prósent pólitískan rekstur.

Prívat praktíserandi læknar drepa ekki fólk, þvert á móti. Sá (ó)réttur virðist tilreyra ríkisrekstri aðeins, ef út í það er farið. Aðhaldið er meira í einkarekstri og tortíming auðs þjóðarinnar er minni með því að fækka kreddum.

Hvað með að minnka báknið aðeins? Við erum að breytast í meira en hálft sovét.

Gunnar Rögnvaldsson, 20.8.2018 kl. 12:39

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er langt frá því að aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé jafn hérlendis. Aðgangurinn er vissulega, að mestu leyti, óháður efnahag. Hins vegar er hann mjög gjarna háður tengslum. Sá sem hefur góð tengsl inn í kerfið fær forgang fram fyrir biðlista, fær aðgang að betri læknum og almennt betri þjónustu en sá sem ekki hefur slík tengsl.

Með öðrum orðum: Kerfið er einfaldlega gegnsýrt af rótfastri spillingu á öllum stigum og spillingin veldur því að aðgangur fólks að þjónustunni er fjarri því að vera jafn.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.8.2018 kl. 13:06

9 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Áhugaverðar umræður. Heilbrigðiskerfið held ég taki til sín um 10% af þjóðarframleiðslu og, þegar öllu er á botninn hvolft, snýst málið um líf og dauða í bókstaaflegum skilningi.

Sjálfur er ég hlynntur einkarekstri þar sem hægt að koma honum við. Almennt er betur farið með fé þegar einstaklingar véla um en ekki embættismenn. En þarna er ekkert algilt. Við sáum hvernig fór fyrir einkavæddu bönkunum. Jafnframt er augljóst að sumt verður aldrei einkarekið svo vit sé í, t.d. löggæsla og dómskerfi.

Heilbrigðiskerfið í prinsippinu væri hægt að reka af einkaaðilum. En það er fjarska erfitt að sjá fyrir sér að einkarekið fyrirkomulag tryggi öllum jafnt aðgengi. Ég held að við yrðum síðra samfélag ef okkur yrði mismunað um heilbrigðisþjónustu eftir efnahag.

Páll Vilhjálmsson, 20.8.2018 kl. 14:01

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Að borgararnir fylgi málum sínum eftir með öllum tiltækum ráðum, Þorsteinn, er eðlilegt og gott. Slíkt á ekki bara við um opinber kerfi, heldur um allt.

En Páll - maður á biðlista býr ekki við heilbrigðisþjónustu. Hún er til í landinu, en hann fær hana ekki. Hann er með skírteini upp á rétt sinn til þjónustu, en fær hana ekki. Hún er uppseld. Lokuð. Ekkert aðgengi.

Fólk á biðlistum hefur ekki áhuga á akademískum umræðum um ríkisrekstur eða ekki. Það fólk vill fá það sem það er búið að borga fyrir, en fær ekki, vegna pólitískra trúarbragða í stjórnmálastétt. Það vill fá vöruna afhenda áður en síðasti notkunardagur rennur upp.

Ef ríkið getur ekki afhent þessa vöru sem búið er að borga fyrir, þá er það komið með kerfi sitt í þrot. Svandís er gjaldþrota með sína trú.

Vertu feginn að bankarnir sem fóru á hausinn voru einkareknir Páll. Það vildi okkur til happs, því hinir ríkisreknu hefðu ekki farið á hausinn, heldur þjóðin. Hinir ríkisreknu bankar fóru nákvæmlega eins að og þeir einkareknu í kreppunni Páll.

Gunnar Rögnvaldsson, 20.8.2018 kl. 14:28

11 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ef bankarnir hefðu verið ríkisreknir hefðu þeir ekki verið rændir að innan. Í áratugi voru bankar ríkisreknir, sparisjóðir á félagslegum grunni, en hvorki fóru þeir í gjaldþrot né þjóðin. En þeir fóru á hausinn innan við áratug eftir einkavæðingu.

Við búum við skert aðgengi að ýmissi opinberri þjónustu, s.s. öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Skerðingin felst fyrst og fremst í biðinni eftir þjónustunni.

Einkarekið kerfi myndi ábyggilega stytta biðlista fyrir suma. En aðrir, þeir efnaminni, myndu ekki fá sömu þjónustu þeir efnuðu og einhverjir alls enga.

Páll Vilhjálmsson, 20.8.2018 kl. 14:47

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er hvorki eðlilegt né gott, Gunnar, að tengsl inn í kerfið séu nauðsynleg til þess að fólk fái þar eðlilega þjónustu. En athugasemd þín er áhugaverð vegna þess að hún ber vott um það algenga viðhorf hérlendis að spilling sé sjálfsögð og eðlileg.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.8.2018 kl. 14:52

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ábending mín Þorsteinn var sú að þegar aðgengi er svona takmarkað, þá nota menn tengsl og þess háttar í hvers kyns kerfum. Opinberum sem og einkareknum kerfum. Varla álasar þú fólki fyrir það að vinna að sínum málum eins og það framast getur. Það er eðlileg sjálfsbjargarviðleitni allra. En að þess skuli þurfa, er frekar sú "spilling" sem þú ert að impra á hér. 

Og Páll sú "spilling" var einmitt í ríkisreknum bönkum og þeir voru rændir að innan, ekki síður en hinir einkareknu, ef út í það er farið. Nefna má Landesbanka Þýskalands og sænska bankakerfið og  hina ríkisreknu banka á Íslandi, fyrir tíma einkavæðingu.

Þessi umræða um að einkaaðilar geti ekki rekið heilbrigðisþjónustu að minnsta kosti betur en opinberir starfsmenn, minnir á umræðuna um hvort að svertingjum væri treystandi til að vinna, kjósa og gegna herþjónustu. Fjármunir hins opinbera eiga að fylgja borgrunum en ekki heiðnum trúarbrögðum stjórnmálamanna.

Gunnar Rögnvaldsson, 20.8.2018 kl. 15:25

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Held að við skiljum hvor annan Gunnar. Spillingin er innbyggð í kerfið. Vitanlega er ekki hægt að álasa fólki fyrir að bjarga sér, en kerfi sem mismunar fólki á grunni tengsla er óheilbrigt og spillt.

Og sama átti við um ríkisreknu bankana, sér í lagi meðan vextir voru neikvæðir og menn þurftu flokksskírteini til að fá lán (gjöf).

Væntanlega væri heppilegast að heilbrigðiskerfið væri alfarið einkarekið, en fólk væri um leið skyldað til að tryggja sig og þeir sem ekki hefðu efni á því (í raun og veru) væru tryggðir af hinu opinbera.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.8.2018 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband