Netvíma og sjálfshatur

Þekkt einkenni alkahólisma er sjálfshatur. Alkinn veit að neyslan eyðileggur hann sjálfan og fjölskylduna en drekkur samt. Netvíma, sem fæst með tölvuleikjum og áráttunotkun samfélagsmiðla, virðist skila svipaðri niðurstöðu verði neyslan að fíkn.

Netfíklar geta ekki hugsað sér að vera í einrúmi án tölvu eða snjalltækja. Ef þeir eru ekki ,,tengdir" er tilveran óbærileg. Það er ein útgáfa sjálfshaturs að þola ekki að vera einn með sjálfum sér.

Algeng meðferð við alkahólisma er að fá alkann til að horfast í augu við eigin aumingjaskap og vinna sig upp í að vera maður með mönnum - en án áfengis.

Meðferð við netfíkn er lítt komin á rekspöl enda sjúkdómurinn nýr af nálinni. Úrræðin eru þó líkleg til að vera áþekk þeim sem beitt er á alkahólisma. Sá sem ekki þolir sjálfan sig er tæplega í ástandi til að eiga eðlileg samskipti við aðra. 


mbl.is Samfélagsmiðlar draga úr þroska barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvíði á tímum Trump - tvær kerfisbreytingar

Kvíði sem slær út í þunglyndi er vexandi, ekki síst meðal ungu kynslóðarinnar. Sjálfshjálparbækur við kvíða renna út eins og heitar lummur og lyfjafyrirtæki gera það gott í þunglyndislyfjum.

Freistandi er að kenna Trump Bandaríkjaforseta um sálræna kvilla samtímans. Hann er jú vargur í véum lýðgeðheilsu almennings. En, nei, segir dálkahöfundur Guardian, kvíðabylgjan tók að rísa áður en glókollur settist í Hvíta húsið.

Dálkahöfundurinn, Arwa Mahdawi, er ungur að árum. Og kannski þess vegna dettur honum ekkert frjórra í hug en að ójöfnuður, húsnæðiskostnaður og áhyggjur af afkomu séu helstu ástæður vaxandi kvíða.

En þessar ástæður hrökkva ekki til. Meiri ójöfnuður, hærri húsnæðkostnaður og þyngri efnahagur var seinni hluta síðustu aldar án þess að samfélagsleg kvíðaköst gerðu vart við sig.

Ef það er rétt að kvíði sé vaxandi eru ástæðurnar dýpri. Tvær kerfisbreytingar standa yfir þessi árin, önnur tæknileg en hin pólitísk. Þá fyrri má kenna við umbyltingu boðskipta, sem birtist skýrast í samfélagsmiðlum. Boðskiptabyltingin hefur áhrif á sjálfsmynd einstaklinga sem fá áður óþekkta innsýn í einkalífi annarra - eins og það birtist á Facebook og álíka miðlum. Tæknibyltingin býr einnig til aragrúa hópa, og um leið hópsálir, sem boðskiptakerfi fyrri tíðar, sjónvarp, útvarp og dagblöð, gátu ekki sett saman nema þá groddaralega þar sem ein hugmynd var allsráðandi, t.d. fasismi eða kommúnismi.

Seinni kerfisbyltingin, sú pólitíska, er að frjálslynd alþjóðahyggja, sem var ráðandi stjórnmálamenning á vesturlöndum frá lokum seinna stríðs, er að hruni komin. Frjálslynda alþjóðahyggjan boðaði að yfirþjóðlegt vald, Evrópusambandið, Alþjóðabankinn, Sameinuðu þjóðirnar o.s. frv., myndi skipa málum þannig að allir yrðu sáttir (ok, ekki allir en flestir). Það gekk ekki eftir.

Enginn veit hvaða áhrif boðskiptabyltingin mun hafa til lengri tíma. Enn síður er vitað hvaða fyrirkomulag leysir af hólmi frjálslynda alþjóðahyggju.

Maður gæti fengið kvíðakast af minna tilefni. 


Bloggfærslur 9. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband