Tvær þjóðir á Íslandi: framboðsþjóðin og sú áhugalausa

Almenningur sýnir minni pólitískan áhuga en áður en framboðin eru aldrei fleiri. Þessi mótsögn blasir við þegar fjórir dagar eru til kosninga. Hvað veldur?

Pólitískur áhugi er bundinn við fámennan hóp. Sá hópur er tvístraður í marga enn smærri hópa sem að hluta stundar sérviskupólitík kennda við kyn, aldurshóp eða aflóga tísku liðins tíma - sósíalisma.

Hræódýrt er að stofna til framboðs og reka kosningabaráttu. Blogg, samfélagsmiðar og netfjölmiðlar eru ókeypis og þeir pólitísku framleiða texta í hjáverkum með öðrum störfum. Textinn þarf ekki að vera frumsaminn, oft er nóg að afrita, breyta lítillega og birta.

Á yfirborðinu er lýðræðinu vel þjónað. Mörg framboð þýðir margir valkostir fyrir kjósendur. En þegar almenningur er áhugalaus veit það ekki á gott. Án almennrar þátttöku í umræðu og kosningum veikist lýðræðið, fólk lætur sér fátt um finnast. Eftir því sem framboðum fjölgar verður erfiðara að fá yfirsýn, valkostir verða óskýrari. Það leiðir til afskiptaleysis, minni kosningaþátttöku. 

Framboðsþjóðin ætti að hafa hugfast að stöðugt fleiri framboð grafa undan þeim verðmætum sem framboðin þykjast öll í orði kveðnu aðhyllast. Sem er einmitt lýðræðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband