68-kynslóðin og óreiðan

68-kynslóðin er fimmtug í ár. Réttara sagt er hugtakið fimmtugt, sjálf kynslóðin er komin á ellilífeyrisaldur. Með 68-kynslóðinni er átt við fólk sem fæddist í seinna stríði rétt þar á eftir. 

Kynslóðin er kennd við hippa, frið og öfgar. Sítt hár og eiturlyf, andóf gegn Víetnam-stríðinu og morðveislu Baader-Meinhof í Þýskalandi og Rauðu herdeildanna á Ítalíu.

Ef það er eitthvað eitt pólitískt hugtak sem 68-kynslóðin skilur eftir sig er það ekki sósíalismi, þótt margir hafi hallast þá átt, t.d. Tariq Ali, heldur frjálslyndi.

Ein besta bókin um viðhorf 68-fólksins er eftir Todd Gitlin: Ár vona, dagar reiði. Frjálslyndið hélst í hendur við sjálfhverfu. Gitlin segir frá kröfunni um að sérhver ætti að vera sinn eigin kenningarsmiður, leggja fram prívatanalísu á hnignun borgaralegs samfélags.

Hraðspólum söguna í 50 ár. 68-arfurinn, frjálslynd sjálfhverfa, er menninguna lifandi að drepa. Krafan um að hver og einn smíði sína kenningu um samfélagið leiðir til tómhyggju sjálfhverfustjórnmála. Sameiginleg gildi eru ekki lengur til né heldur sameiginlegur skilningur á hvernig samfélag skuli byggja. Allir eru spes og tefla fram eigin heimsmynd eftir naflaskoðun í 15 sekúndur. Ef allt er jafn rétt er ekkert rangt.

Vinsælasta sjálfshjálparbókin þessi misserin er 12 lífsreglur Jordan Peterson. Undirtitillinn er ,,móteitur gegn óreiðu." Þá óreiðu má rekja til 68-kynslóðarinnar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Pillan kom um svipað leyti, kannski aðeins fyrr. Áhrif hennar á líf vesturlandabúa eru óumræðuleg.

Hörður Þormar, 21.5.2018 kl. 21:21

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Þetta er allt Bítlunum að kenna! :)

Wilhelm Emilsson, 22.5.2018 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband