Mánudagur, 4. júní 2018
Persónunjósnir í grunnskóla
Grunnskólabarn sem flokkað er niður eftir nær 100 matskvörðum er orðið að talnagildi fremur en einstaklingi. Í stað þess að leggja mat á hversu vel eða illa nemandinn er búinn undir framhaldsskóla í ólíkum námsgreinum er aðskiljanlegum upplýsingum safnað til að greina nemandann niður í frumeindir.
Hlutverk kennara er að mennta, ekki að greina persónuleika nemenda. Ofuráhersla á að greina nemendur eftir smæstu atriðum leggur ekki grunn að menntun heldur persónunjósnum.
Miðstýrt ríkisvald sem leggur meiri áherslu á að flokka nemendur en á menntun þeirra er á rangri braut. Hugsunin að baki er eflaust byggð á mannúð; að greina nemandann niður í frumeindir til að ,,grípa inn í" þá matsþætti sem þar sem nemandinn skorar lágt.
En þessi mannúð er byggð á tvöföldum misskilningi. Í fyrsta lagi verður menntun ekki flokkuð niður í 98 matskvarða. Í öðru lagi er sérgrein kennara ekki að flokka fólk, heldur að kenna.
Útkoman úr miðstýrðri flokkunaráráttu ríkisvaldsins verður óhjákvæmilega ómannúðlegt skólakerfi.
![]() |
Fá hátt í 100 einkunnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. júní 2018
Fjölmiðlar eru mest pólitík
Íslenskir fjölmiðlar eru mest pólitík og minnst blaðamennska í sígildri merkingu orðsins, þ.e. hlutlæg frásögn af tíðindum dagsins.
Á dögum flokksblaða viðurkenndu fjölmiðlar pólitíkina sem þeir studdu en þegar Jón Ólafsson og síðar Jón Ásgeir lögðu undir sig æ stærri hluta fjölmiðla studdu þeir viðskiptablokkir - sem er ein gerð af pólitík.
Nýmiðlar, t.d. Kjarninn og Stundin, eru þrælpólitískir og beintengdir Samfylkingu og Pírötum.
Um RÚV þarf ekki að fjölyrða. Þar er leitað eftir hvaða vinstrastef þykir líklegt til vinsælda hverju sinni og það endurtekið sí og æ.
Þeir sem mæla fyrir mikilvægi fjölmiðla, t.d. Valgerður Jóhannsdóttir, vilja í einn stað meira opinbert fé til að reka þá en í annan stað aukið opinbert eftirlit með fjölmiðlum. Ríkið á sem sagt að setja fé í fjölmiðla sem er ekki betur treystandi en svo að það verði að hafa eftirlit með þeim. Þessi stefna er lélegur brandari.
Betur færi á því að ríkið hætti alfarið að skipta sér af frjálsri umræðu og hætti öllum stuðningi við alla fjölmiðla. RÚV meðtalið.
![]() |
Fréttamiðlar sjaldan mikilvægari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 3. júní 2018
Viðreisn er vinstriflokkur, aldrei fyrsti kostur
Viðreisn færist jafnt og þétt til vinstri á stuttri sögu sinni. Frjálslyndið, sem flokkurinn þykist standa fyrir, er samfylkingarættað fjölmenningarþvaður. Viðreisn gerir sig að varadekki vinstrimeirihlutans í höfuðborginni síðustu daga og það tekur af öll tvímæli um flokkinn í pólitíska litrófinu.
Af þessu leiðir er Viðrein aldrei fyrsti kostur Sjálfstæðisflokksins til samstarfs. Framsókn og Miðflokkurinn eru betri kostir. Ef aðstæður krefja er þjóðernisvinstrið, Vinstri grænir, betri en fjölmenningarvinstrið (Samfylking, Viðreisn og Píratar).
Sjálfstæðismenn í Kópavogi gera vel að afþakka Viðreisn og fara Hafnarfjarðarleiðina, í samstarf við Framsókn.
![]() |
Lít á þetta sem uppsagnarbréf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 3. júní 2018
FAUDA og sársauki trúarinnar
Fauda þýðir óreiða á arabísku og er nafnið á vinsælum ísraelskum sjónvarpsþáttum á Netflix. Þáttunum er talið til tekna að sýna báðar hliðar átaka Ísraela og Palestínumanna.
Aðalsöguhetjan, Doron, er hraðmælskur bæði á arabísku og hebresku og hagvanur beggja menningarheima. Hann starfar í ísraelskri leynisveit sem berst gegn hryðjuverkum.
Söguþráðurinn er hraður og hverfist um hryðjuverk. Meðfram skothríð og ofbeldi eru sagðar tvær sögur. Önnur af ísraelsku leynisveitinni en hin af arabískum hryðjuverkamönnum.
Ísraelarnir eru vestrænir í siðum og háttum. Þeir drekka, klæmast og halda framhjá. Trúin er aukaatriði nema þegar látnir félagar eru syrgðir. En jafnvel þá er skammt í veraldarhyggju. Steve, einn úr leynisveitinni, pælir að serða systur látins foringja í sjálfri jarðaförinni. Og menn drekka.
Arabarnir eru aftur sítautandi bænarorð og nefna allah í annarri hverri setningu. Þeir drekka ekki, stunda varla kynlíf en hafa miklar áhyggjur af orðspori kvenna sinna. Ættrækni er aröbum töm enda giftast þeir frænkum sínum þótt kvenpeningurinn mótmæli. Arabarnir eru frómir nema þegar kemur að manndrápum. Enda eru drápin alltaf guði til dýrðar, líka sjálfsmorðsárásir.
Lösturinn sem sameinar, fyrir utan manndráp, er tóbaksfíkn, sem er jú banvæn en þó saklaus sjálfstortíming.
Þriðji aukasöguþátturinn, fyrir utan félagssálfræðilegar úttektir á drápsmönnum gyðinga og araba, er sá pólitíski. Yfirmaður aðalsöguhetjunnar, Doron, heitir kafteinn Gabi. Hann er í vinsamlegu sambandi við yfirmann leyniþjónustu heimastjórnar araba. Þeir reykja saman yfir kaffibolla og býsnast yfir aukavinnu Hamas-liða að drepa gyðinga.
Þrátt fyrir stöðug átök Ísraela og Palestínuaraba, auk allra hinna arabanna, auðvitað, er heilmikil samvinna á milli yfirvalda gyðingaríkisins og heimastjórnar araba. Samhliða gagnkvæmum manndrápum verður jú að reka samfélög.
Ályktun sem má draga af Faud er að menningarheimar gyðinga og araba geti því aðeins búið hlið við hlið að þeir stundi reglulegar mannfórnir. Það er einfaldlega kostnaðurinn við allah og jehóva. Sársauki trúarinnar hefst strax við fæðingu, - þegar gyðingasveinar og arabískir bræður þeirra eru umskornir til dýrðar einum guði sem þó heitir ólíkum nöfnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. júní 2018
Trump sameinar hægrimenn, líkt og Obama vinstrimenn
Donald Trump varð forseti þrátt fyrir að stór hluti Repúblíkanaflokksins væri opinberlega á móti honum. Hann fékk minnihluta atkvæði og fjöldamótmæli við innsetninguna í embætti. En á innan við tveim árum er Trump búinn að sameina flokkinn að baki sér og stefnir hraðbyri á annað kjörtímabil.
Hvað gerðist?
BBC orðar það svo að forsetinn hafi virkjað þá sem ekki endilega eru fylgjandi Trump en því harðari á móti andstæðingum hans. Tilefni greiningarinnar er forsetanáðun Dinesh D'Souza sem sér samsæri vinstrimanna við hvert fótmál og er svar hægrimanna við villtum samsæriskenningum á vinstri vængnum.
Obama fráfarandi forseti sameinaði frjálslynda vinstrimenn og pólitískan rétttrúnað. Trump sameinar íhaldssama hægrimenn og hægriöfgar.
Stundum eru flókin mál býsna einföld þegar að er gáð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. júní 2018
Krónan staðfestir yfirburði sína
Með íslensku krónuna að vopni unnum við okkur hratt og örugglega úr bankakreppunni 2008. Írar og Grikkir sátu uppi með evru og lentu í áratug eymdar og volæðis - Grikkir eru enn fastir í volæðinu. Evran stendur fyrir járnbrautarslysi á Ítalíu, segir Nouriel Roubini, en hann sá fyrir kreppuna fyrir áratug.
Ísland, aftur á móti, með krónu og fullveldi skóp skilyrði fyrir samfelldu hagvaxtarskeiði, sem fær framlengingu um 3 ár enn, samkvæmt spám. Ofvöxtur í ferðaþjónustu og fasteignum fær mjúka lendingu næsta vetur. Eðlilegur hagvöxtur upp á tæp 3 prósent, verðbólgu haldið í skefjum og atvinnuleysi sömuleiðis er krónunni og skynsamlegri hagsstjórn að þakka.
Eina sem gæti klúðrað efnahagslegri velmegun krónu og fullveldis er pólitískt klúður annars vegar og hins vegar verðbólgusamningar á vinnumarkaði.
![]() |
Minni hagvöxtur og meiri verðbólga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. júní 2018
Falsfréttin um morðingjann Pútín
Úkraínsk stjórnvöld sviðsettu morð á blaðamanni til að kenna Pútín Rússlandsforseta um ódæðið. Vestrænir fjölmiðlar féllu fyrir falsfréttinni og birtu æðisgengnar árásir á Rússa, eins og rekið er í fréttaskýringu antiwar.com
Úkraína lifir meira og minna á framfærslu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, sem freista þess að komast í kjörstöðu að ógna Rússlandi og skipa málum þar í samræmi við vestræna hagsmuni. Stjórnvöld eru gjörspillt.
Vestræn ríki, með Bandaríkin í fararbroddi, leggja sig í líma við að halda Rússagrýlunni frá kalda stríðinu lifandi. Þorri vestrænna fjölmiðla tekur þátt í blekkingunni og trúir hvaða falsfrétt sem vera skal, bara að hún máli Rússa, Pútín sérstaklega, með horn og klaufa.
![]() |
Notuðu svínablóð til að sviðsetja morðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 1. júní 2018
Óvinaímyndir, Bandaríkin, Evrópa og Ísland
Múslímar eru í þeim skilningi óvinaímynd í Evrópu að menning þeirra er gegnsósa af kvenfyrirlitningu og ágengni trúar í daglegu lífi. Hvorttveggja er talið óæskilegt í evrópskri menningu. Það er stórfrétt þegar Danir banna tákn um múslímska kvenfyrirlitningu, að konur hylji ásjónuna, enda heggur bannið nærri múslímskri trúarmenningu.
Óvinaímyndin af múslímum í Evrópu er af menningarlegum toga. Evrópa er ekki í pólitískum eða landfræðilegum átökum við múslímaríki um völd og áhrif í heiminum. Til þess er Evrópa of sterk og múslímaríki of veik. Stórir minnihlutahópar múslíma búa í Evrópu og þar ríkir trúfrelsi. Í menningarátökunum er jafnframt undirliggjandi krafa samlyndi.
Bandaríkin eru ekki með nógu marga múslíma til að þeir verði óvinaímynd sem bragð er af. Óvinaímyndir Bandaríkjanna eru síður menningarlegar en pólitískar og landfræðilegar. Nýja kalda stríðið milli Bandaríkjanna og Rússa er háð á menningarlegum forsendum en það snýst um valdaforræði, sem Bandaríkin hafa í Evrópu, en ekki í Rússlandi. Stórveldi búa til ímyndir takt við hagsmuni en hugsjónir.
Óvinaímyndir eru öflugt áróðurstæki og skipta sköpum í pólitík, að því gefnu að saman fari hagsmunir og hugsjónir. Í fyrri heimsstyrjöld gerði bresk óvinaímynd af Þjóðverjum útslagið að Bretar lögðust á árarnar með Frökkum, jafnvel þótt breska konungsfjölskyldan væri að stofni til þýsk.
Til að óvinaímynd verði hreyfiafl pólitískrar framvindu þarf hún að skilgreina hagsmuni en ekki aðeins hugsjónir. Evrópska óvinaímyndin um múslíma tekur til mjúkra gilda, s.s. mannréttinda, en ekki hagsmuna. Enda er Evrópa í bullandi vandræðum með að skilgreina hagsmuni sína, samanber viðvarandi kreppu Evrópusambandsins.
Ísland stendur landfræðilega á milli meginlandanna Evrópu og Ameríku. Menning okkar er að hluta mótuð af uppruna, sem er norræn og evrópsk en einnig af landafræði. Við erum eyja og aldrei átt í landvinningastríðum nema landhelgisdeilunni við Breta. Óvinaímyndir okkar eru byggðar á hagsmunum en ekki hugsjónum, sbr. þorskastríð við Breta og sjálfstæðisbaráttu gagnvart Dönum. Að þessu leyti eru óvinaímyndir Íslendinga bandarískar fremur en evrópskar.
Hvernig er það annars, er blæjubann á Íslandi?
![]() |
Danir banna andlitsblæjur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 1. júní 2018
Víkingar, þrælar og Íslendingar
Ísland byggðist frá Noregi og byggðum norrænna manna á eyjum undan Írlandi og Skotlandi. Tímabil landnámsins er kennt við víkingaöld í evrópskri sögu, frá um 800 til 1100.
Víkingar tóku sér þræla í löndum sem þeir lögðu undir sig. Ritheimildir gefa til kynna að þrælarnir, sem líklega voru flestir af keltneskum uppruna, hafi fljótlega orðið frjálsir eftir landnám, samanber Vífil og Karla, þræla Ingólfs landnámsmanns.
Ólíklegt er að allir keltar sem komu til Íslands hafi verið þrælar. Norrænu byggðirnar á Hjaltlandi og Orkneyjum voru ekki skipulagðar sem þrælanýlendur norrænna manna þar sem innfæddir voru í ánauð. Þeir norrænu litu upp til keltneskra fyrirmanna, smákonunga, segja fornar sögur.
Afkomendur landnámsmanna sögðu sögur af uppruna sínum um óhagræði þrælahalds, til dæmis af afdrifum fóstbróður Ingólfs, Hjörleifi. Hann var veginn af þrælum sínum þegar hann reyndi að nota þá sem dráttarklára. Lærdómurinn af sögunni er að þrælahald sé óheppilegt fyrirkomulag í landnemasamfélagi.
Fyrstu höfðingjar Íslandssögunnar voru þeir sem fyrstir komu til landsins og afkomendur þeirra. Meira en líklegt er að einhverjir þeirra hafi verið með keltneskt blóð í æðum sínum. Ríkjandi menning var aftur norræn. Það sést á fornminjum og ekki síst tungumálinu, þar sem lítið fer fyrir keltneskum áhrifum.
![]() |
Nánast eins og að hafa aðgang að tímavél |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)