FAUDA og sársauki trúarinnar

Fauda þýðir óreiða á arabísku og er nafnið á vinsælum ísraelskum sjónvarpsþáttum á Netflix. Þáttunum er talið til tekna að sýna báðar hliðar átaka Ísraela og Palestínumanna.

Aðalsöguhetjan, Doron, er hraðmælskur bæði á arabísku og hebresku og hagvanur beggja menningarheima. Hann starfar í ísraelskri leynisveit sem berst gegn hryðjuverkum. 

Söguþráðurinn er hraður og hverfist um hryðjuverk. Meðfram skothríð og ofbeldi eru sagðar tvær sögur. Önnur af ísraelsku leynisveitinni en hin af arabískum hryðjuverkamönnum. 

Ísraelarnir eru vestrænir í siðum og háttum. Þeir drekka, klæmast og halda framhjá. Trúin er aukaatriði nema þegar látnir félagar eru syrgðir. En jafnvel þá er skammt í veraldarhyggju. Steve, einn úr leynisveitinni, pælir að serða systur látins foringja í sjálfri jarðaförinni. Og menn drekka.

Arabarnir eru aftur sítautandi bænarorð og nefna allah í annarri hverri setningu. Þeir drekka ekki, stunda varla kynlíf en hafa miklar áhyggjur af orðspori kvenna sinna. Ættrækni er aröbum töm enda giftast þeir frænkum sínum þótt kvenpeningurinn mótmæli. Arabarnir eru frómir nema þegar kemur að manndrápum. Enda eru drápin alltaf guði til dýrðar, líka sjálfsmorðsárásir.

Lösturinn sem sameinar, fyrir utan manndráp, er tóbaksfíkn, sem er jú banvæn en þó saklaus sjálfstortíming.

Þriðji aukasöguþátturinn, fyrir utan félagssálfræðilegar úttektir á drápsmönnum gyðinga og araba, er sá pólitíski. Yfirmaður aðalsöguhetjunnar, Doron, heitir kafteinn Gabi. Hann er í vinsamlegu sambandi við yfirmann leyniþjónustu heimastjórnar araba. Þeir reykja saman yfir kaffibolla og býsnast yfir aukavinnu Hamas-liða að drepa gyðinga.

Þrátt fyrir stöðug átök Ísraela og Palestínuaraba, auk allra hinna arabanna, auðvitað, er heilmikil samvinna á milli yfirvalda gyðingaríkisins og heimastjórnar araba. Samhliða gagnkvæmum manndrápum verður jú að reka samfélög.

Ályktun sem má draga af Faud er að menningarheimar gyðinga og araba geti því aðeins búið hlið við hlið að þeir stundi reglulegar mannfórnir. Það er einfaldlega kostnaðurinn við allah og jehóva. Sársauki trúarinnar hefst strax við fæðingu, - þegar gyðingasveinar og arabískir bræður þeirra eru umskornir til dýrðar einum guði sem þó heitir ólíkum nöfnum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband