Þrjú ráð við verðbólgu og eitt óráð

Hver og einn getur brugðist skynsamlega við verðbólgunni með þrennum hætti. Í fyrsta lagi að hugga sig við að kaupmáttur jókst á síðasta ári um 3,4 prósent. Í öðru lagi að takmarka útgjöldin, kaupa minna. Í þriðja lagi vinna meira, afla meiri tekna.

Sá sem hugsar svona er skynsemisvera, homo economicus.

Fjórða leiðin er óráð. Kenna krónunni um verðbólgu og kjósa Viðreisn eða Samfylkingu. Sá er hugsar þannig er homo idioticus. Óþarfi að þýða.


mbl.is Mesta verðbólga í 7 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálaunakonur og ólæsir láglaunakarlar

Háskólar búa til sérfræðinga sem verða millistjórnendur og yfirmenn í fyrirtækjum og stofnunum. Konur eru nær 70 prósent háskólanema en karlar aðeins um 30 prósent. Skekkjan byrjar þegar í grunnskóla sem útskrifa læsar stúlkur en ólæsa drengi.

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar ádrepu í Kjarnann um vanræktu drengina sem bráðvantar lestrarkennslu en fá kynjafordóma pakkaða inn í fræðslu.

Ísland stefnir hraðbyri í að verða land menntaðra kvenna en ómenntaðra karla.  

 


mbl.is Konur með 16,4% hærri laun en karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæli er ekki heimili - Danir kveikja á perunni

Svokallaðir hælisleitendur eru oft ekki í leit að nýju heimili vegna óbærilegra aðstæðna heima fyrir heldur að þjónustu og/eða starfsmöguleikum sem hælisríkið veitir. Meintir hælisleitendur eru trúir heimkynnum sínum og menningararfleifð og aðlagast illa vestrænum siðum og háttum.

Margvíslegur vandi fylgir stórflutningi fólks milli landa undir formerkjum hælisþjónustu. Aðkomumenn telja sig í fullum rétti að iðka sína trú og siði í viðtökulandinu undir formerkjum fjölmenningarsamfélagsins. Af því leiðir verða þeir ekki hluti af samfélaginu sem veitir hæli enda stendur það ekki til - hæli er ekki heimili. Heimamenn á hinn bóginn horfa upp á samfélag sitt verða sér framandi. Þar sem áður var kunnugleg menning er orðin illskiljanleg fjölmenning.

Danir átta sig á þessu vonum seinna. Er ekki kominn tími til að Íslendingar kveiki á perunni?

 


mbl.is Markmiðið að enginn sæki um hæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9 flokkar á þingi - tækifæri Miðflokks og Framsóknar

Smáflokkapólitík er sjálfkrafa óreiða, því meiri sem flokkarnir eru fleiri. Könnun Maskínu segir að níu framboð næðu inn á alþingi næsta haust. 

Stærstur mælist Sjálfstæðisflokkur með liðlega 21 prósent fylgi. Fjórir minnstu flokkarnir fá ríflega 26 prósent fylgi samtals. Miðflokkur og Framsókn eru helmingur dvergflokkanna.

Gangi könnunin eftir er voðinn vís með landsstjórnina.

Þótt líkur séu á að Sjálfstæðisflokkur sígi upp í kjörfylgi, um 25 prósent, er það ekki nóg til að stemma stigu við óreiðupólitíkinni.

Hér blasir við tækifæri Framsóknar og Miðflokks að slíðra sverðin og ganga í eina sæng. Kalla saman landsfund beggja flokka og gera Sigmund Davíð að formanni elsta starfandi stjórnmálaflokksins.

Það er eftirspurn eftir stöðugleika og áræðni.

 


mbl.is Sósíalistar næðu á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svavar Gestsson

Svavar Gestsson féll frá í vikunni. Ég kynntist Svavari á Vikublaðsárunum 1992-1996. Alþýðubandalagið var útgefandi og tveggja manna ritstjórn sat á skrifstofu flokksins neðst á Laugaveginum.

Ólafur Ragnar Grímsson var formaður flokksins en Svavar fyrrum formaður. Þeir tveir voru oddvitar tveggja arma flokksins sem helst töluðust ekki við nema í illindum. Einar Karl Haraldsson var framkvæmdastjóri flokks og blaðs. Hann hafði eitt sinn á orði að þegar flokksmenn úr andstæðum fylkingum væru á gangstétt sömu megin götu tæki annar yfirleitt þann kostinn að bregða sér yfir götuna til að mæta ekki hinum. Sá sem lifir af að vinna hjá Alþýðubandalaginu, var viðkvæði Einars Karls, er ónæmur fyrir vinnustaðaófriði það sem eftir lifir starfsævinnar. Rétt, hvað mig áhrærir.

Ég var ráðinn af Einari Karli sem var trúnaðarmaður Ólafs Ragnars. Aldrei lét Svavar mig finna fyrir því að ég væri skilgreindur í öndverðum flokksarmi. Öll okkar samskipti voru vingjarnleg. Ekki get ég fyllilega sagt það sama um viðskiptin við Ólaf Ragnar. Áherslan er á ,,fyllilega". Formaðurinn sem varð forseti er stríðsmaður. Svavar var taktíker. Synd að þeir náðu ekki saman um hvert skyldi stefna. Kannski var það aldrei í kortunum. Þótt báðir séu af sömu kynslóð er annar fulltrúi Íslands aldamótanna 2000 en hinn menningarinnar er stofnaði lýðveldið, einmitt á fæðingarári Svavars.

Eitt sinn um vetur fyrir vorkosningar birtist skoðanakönnun um fylgi flokka. Ólafur Ragnar hringdi í mig snemma að morgni að ræða könnunina sem var brotin niður eftir kjördæmum. Formaðurinn hafði uppi stór orð hve staða flokksins væri slæm í Reykjavík - kjördæmi Svavars. Stuttu síðar sama dag hringdi Svavar og ræddi skelfilega stöðu flokksins á Reykjanesi - kjördæmi formannsins.

Ekki svo að skilja að allt væri stál í stál í Alþýðubandalaginu. Það mátti hlaða í fyndni. Einu sinni var spurt í Vikublaðinu hvað Svavar og Ólafur Ragnar ættu sameiginlegt. Svarið var aftarlega í blaðinu. Þeir áttu hvor sína Guðrúnu.

Á flokksfundi í Kópavogi sat ég við hlið Arthúrs heitins Morthens. Svavar var í pontu og sagði ekkert nema það sem hægt væri að vera sammála, að mér fannst. En Arthúri varð að orði undir lok ræðu Svavars ,,að hann hefði alveg mátt sleppa þessu" án þess að ég vissi hvað ,,þetta" var. Túri, eins og hann var kallaður, bað strax um orðið, fór í pontu. Ég bjóst við andmælum en heyrði engin, eða skildi þau ekki. Maður var starfsmaður flokks sem stundaði blæbrigðapólitík er aðeins örfáir hertir í áratugagömlum innanflokkserjum gátu numið. Blaðamaðurinn á Vikublaðinu áttaði sig á að orð á opinberum vettvangi eru ekki alltaf til að upplýsa og ræða valkosti heldur líka til að dylja og breiða yfir. Pólitík varð áhugaverðari sem fræðilegt viðfangsefni en miður geðþekk að stunda.

Einar Karl orðaði þetta þannig að þegar plottið væri á mörgum hæðum yrði maður að vita á hvaða hæð maður væri hverju sinni. Sennilega var blaðamaðurinn alltaf í lyftunni á milli hæða.

Svavar sagði mér þá sögu að þegar til stóð að Alþýðubandalagið tæki þátt í Reykjavíkurlistanum 1994 var álitamál hvort Ólafur Ragnar styddi framtakið. Árni Þór Sigurðsson, seinna þingmaður Vg og sendiherra, var í borgarpólitíkinni og handgenginn Svavari. Eftir einn undirbúningsfundinn með Svavari átti Árni Þór að fara til formannsins og fá blessun. ,,Blessaður segðu Ólafi Ragnari að ég sé á móti aðild að Reykjavíkurlistanum," kvaðst Svavar hafa sagt við Árna Þór sem fór með skilaboðin til formannsins. Það tryggði samþykki Ólafs Ragnars að hann taldi Svavar mótfallinn.

Svavar hætti á þingi 1999. Viðtal var við hann í Morgunblaðinu á þeim tímamótum. ,,Skoðanaverksmiðja lokar" var fyrirsögnin. Ég hitti hann fyrir tilviljun um þetta leyti og hann var sáttur við að vera ,,skoðanaverksmiðja" en hafði efasemdir um að henni væri lokað.

Svavar stimplaði sig úr stjórnmálum þegar vinstripólitík skipti um ham. Margrét Frímannsdóttir var kjörinn formaður Alþýðubandalagsins til að leggja flokkinn niður og stofna breiðfylkingu vinstrimanna, Samfylkingu. Nánir samherjar Svavars, Steingrímur J. og Ögmundur Jónasson, voru annarrar skoðunar og stofnuðu Vinstri græna. Ekki veit ég hvort eða hvaða aðkomu Svavar hafði.

Síðast heyrði ég í Svavari þegar hann hringdi í mig eftir að ég bloggaði um fyrsta Icesave-samninginn, svokallaðan Svavarssamning, sem hann var ábyrgur fyrir og var gerður í kjölfar hrunsins. Ég hafði heimildir fyrir því að í viðræðum við Breta, um að ríkissjóður Íslands ábyrgðist skuldir Landsbanka, hafi Svavar og íslenska samninganefndin lagt fram slíkt kostaboð að Bretar báðu óðara um penna til að skrifa undir. Með símtalinu vildi Svavar kanna hug minn til stöðu mála. Eins og alltaf var samtalið okkar vingjarnlegt. Hann talaði um að samningarnir hefðu verið á ,,munkalatínu" og aðalatriðið hefði verið að fá niðurstöðu. Mér varð hugsað til þegar Svavar varð kornungur viðskiptaráðherra og sagt var að hann var sá fyrsti í embættinu sem ekki ætti tékkhefti (algeng greiðslumiðlun í þá daga). Svavar kunni pólitík frá a til ö. Fjármál voru ekki hans sterkasta hlið. Samtalið styrkti trú mína að samningurinn við Breta væri afleikur, þótt gerður væri í góðri trú.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. gerði ráð fyrir að innganga í Evrópusambandið myndi skera okkur úr snöru eftirhrunsins. Við í Heimssýn litum svo á að snaran væri Icesave-samningur Svavars. Lík fullveldisins færi til brennslu í Brussel ef ekki yrði brugðist við í tæka tíð. Fornvinur Svavars, Ólafur Ragnar, þá í forsetastól, sá til þess að engir samningar voru gerðir við Breta. Skuldir einkabanka eru ekki almennings.

Svavar er sonur bónda og húsfreyju, sem fluttu á mölina og urðu verkafólk. Við erum foreldrar okkar plús þeir tímar sem við lifum. Þegar Svavar óx úr grasi var hádegissólin í austri en er dagleiðinni lýkur hnígur hún í vestri. Blessuð sé minning Svavars Gestssonar.

 


Neyðarástand í Noregi

Stór hluti Noregs er lokaður til að bregðast við afbrigði Kínaveirunnar sem þykir sérstaklega hættulegt.

Tæpu ári eftir að Kínaveiran stakk sér niður er enn á brattann að sækja.

Um leið og Norðmönnum er óskað velfarnaðar í sóttvörnum er að vona að ekki komi til sambærilegs neyðarástands á Íslandi.


mbl.is Öllu lokað á tæplega milljón Norðmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsbanki og stjórnarskráin

Sjálfstæðisflokkurinn vill selja hluta Íslandsbanka fyrir kosningar og Vinstri grænir breyta hluta stjórnarskrárinnar. Hvor stjórnmálaflokkurinn um sig vill geta sagt við afmarkaða kjósendahópa sjáið, þetta gerðum við.

Í hvorugu tilfellinu er um að ræða brýnt mál eða skýran ávinning. Bankakerfið virkar, þjónustar fólk og fyrirtæki, býr við aðhald, stuðlar að nýjungum og skilar afkomu í takt við hagkerfið í heild. Stjórnarskráin hefur virkað í marga áratugi. Hvers vegna að breyta því sem virkar?

Annar samnefnari er hrunið. Bankakerfið er á forræði ríkisins eftir að einkaframtakið keyrði alla banka landsins í gjaldþrot 2008. Stjórnarskrármálið er á dagskrá sökum þess að ýmsir jaðarhópar samfélagsins, kenndir við búsáhaldabyltingu, sögðu stjórnarskrána ábyrga fyrir hruninu.

Pólitísk mál þurfa að þroskast til að verða hæf til úrskurðar, af eða á. Hvorki salan á Íslandsbanka né stjórnarskrármálið eru nægilega þroskuð í pólitískri umræðu til að vera hæf til ákvarðanatöku. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir ættu setja sín hjartans mál neðar í forgangsröðina. Hvorugt málið er þjóðinni kært. Stjórnarflokkar ættu ekki að efna til úlfúðar þegar friður er í boði.


mbl.is „Ekkert ákall frá almenningi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rósa B., skotárás - helgartryllir Samfó

Rósa Björk var kjörinn á þing fyrir Vinstri græna, gekk í Samfylkinguna og vildi sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík. Ágústi Ólafi var fórnað fyrir Rósu, héldu menn i morgunsárinu.

Um hádegisbil bárust tvær fréttir úr herbúðum Samfylkingar. Í fyrsta lagi að Rósa B. sækist nú eftir sæti Guðmundar Andra í Kraganum. Í öðru lagi að skotárás hafi verið gerð á bækistöðvar flokksins.

Endurheimtir Ágúst Ólafur sæti sitt? Stendur Guðmundur Andri upp fyrir Rósu B. og þiggur bitling í staðinn? Finnast árásarmennirnir?

Helgartryllir Samfó. Popp og kók í boði ESB.


mbl.is Stefnir á fyrsta sætið í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágúst Ólafur í Viðreisn

Fastlega er búist við að uppgjör Samfylkingar við Ágúst Ólaf þingmanns flokksins í Reykjavík leiði til þess að þingmaðurinn gangi til liðs við Viðreisn.

Hörður Oddfríðarson formaður uppstillingarnefndar Samfylkingar í borginni sagðist vona að Ágúst Ólafur  ,,verði með okkur í kosningabaráttunni líka. Hef ekki trú á öðru.“

Rósa Björk, fyrrum Vinstri græn, kemur í stað Ágústs Ólafs á lista Samfylkingar.

Á vinstri væng stjórnmálanna er ekki spurt um hugmyndir heldur persónulegan metnað.


mbl.is Blái liturinn horfinn úr merki Viðreisnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samnefnari Jóns Ásgeirs og Gunnars Smára

Einu sinni voru Jón Ásgeir og Gunnar Smári samherjar á akrinum. Jón Ásgeir er aflakló á peninga og á enn fáeinar krónur í handraðanum. Gunnar Smári er háður fé annarra, Baugi á tíma útrásar en Eflingu á tímum sósíalisma.

Samnefnari tvímenninganna er hugsunin í setningunni ,,heimsyfirráð eða dauði". Annar vinnur með viðskiptaáætlanir en hinn gerir sér mat úr félagsauði samtaka almennings.

Fyrir aðra en þá sjálfa er eftirtekjan sú sama. Sviðin jörð.

 

 


mbl.is Gunnar Smári „sósíalistaforingi í einkaþotu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband