Sunnudagur, 2. desember 2018
Guð, loftslag og lygi
Einu sinni notaði alþjóðalega valdaelítan, sem þá talaði latínu, guð til að hræða fólk til hlýðni. Nú talar valdaelítan ensku og hræðir líftóruna úr fólki með loftslagi.
Fyrir 20 árum talaði elítan um hlýnun. Á þessari öld hvarf meint hlýnun og þá varð að finna aðra útgáfu: loftslagsbreytingar.
Veðurfréttir segja okkur veðurspá fyrir næstu 3-5 daga; vísindin eru ekki betri en svo. En valdaelítan telur okkur trú um að ef við hættum ekki að nota bensín og dísil á bílana okkar hækkar meðalhitinn á jörðinni um eina gráðu á celsíus eftir hálfa öld og veðurfar gerir jörðina óbyggilega.
Fólk trúir þessari bábilju eins og nýju neti. Þótt það liggi fyrir að veðurfar á jörðinni hefur á sögulegum tíma margoft tekið stakkaskiptum án atbeina mannsins. Einu sinni voru vínber ræktuð á Norður-Englandi; norrænir menn stunduðu kvikfjárrækt á Grænlandi á miðöldum; á nýöld fraus áin Thames í Lundúnum á tímabili sem kölluð er litla ísöld.
En samt leggur fólk trúnað á elítuáróðurinn að ef við beygjum okkur ekki undir alþjóðalegt regluverk muni himinn og jörð farast í loftslagsfári.
Það á svo að heita að við lifum á upplýstum tímum. En átrúnaðurinn á loftslagsáróður valdaelítunnar sýnir svart á hvítu að við erum ekki hótinu betur stödd en á myrkustu miðöldum þegar guð talaði til okkar á prestalatínu.
![]() |
Þurfum að gera miklu meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 2. desember 2018
Katrín jarðar þriðja orkupakkann
Fullveldisávarp forsætisráðherra geymdi eftirfarandi:
Við sem byggjum íslenskt samfélag, við vitum það að okkur hefur verið trúað fyrir miklu. Við vitum að við eigum einstaka náttúru, stærstu ósnortnu víðerni Evrópu, endurnýjanlega orkugjafa sem munu verða Íslandi dýrmætir til framtíðar, gjöful fiskimið og einstaka fegurð.
Þriðji orkupakkinn veitir Evrópusambandinu valdheimildir yfir raforku og þar með náttúru Íslands. Eftir þessi orð getur Katrín einfaldlega ekki innleitt ESB-vald yfir raforkumálum Íslendinga. Katrín er marktækur stjórnmálamaður og hún sólundar ekki orðspori sínu í fullveldisávarpi.
Embættismenn í stjórnarráðinu munu snemma í fyrramálið hafa samband við starfsbræður sína í Osló og Brussel með þessi skilaboð: forsætisráðherra Íslands jarðaði þriðja orkupakka ESB á laugardag.
![]() |
Ber skylda að standa vörð um náttúruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. desember 2018
WOW: hvers virði er 4 milljarða tap?
WOW tapaði rúmum 4 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins. Icelandair bauðst að kaupa reksturinn en hætti við. Indigo, ,,riddari á hvítum hesti", stekkur til og ber víurnar í WOW.
Ef af viðskiptunum verður þarf að afskrifa skuldir. Ríkisfélagið Isavia, sem á inni einhverja milljarða í lendingargjöld, verður ein mjólkurkú nýrra eigenda. Fundir forstjóra WOW með ráðherrum eru ekki aðeins til að veita upplýsingar heldur setja fram kröfur.
Að því gefnu skuldir fást afskrifaðar til að gera félagið rekstrarhæft eru tvær leiðir að halda félaginu á floti, eða í loftinu öllu heldur. Í fyrsta lagi að hækka fargjöld. Í harðri samkeppni lággjaldafélaga er það takmarkaður kostur. Í öðru lagi að lækka kostnað. Stærsti hluti kostnaðar er laun.
Verkalýðsfélög gera ráð fyrir að laun muni lækka og uppsagnir eru þegar hafnar.
Enginn kaupir 4 milljarða taprekstur til að halda áfram að brenna peningum. Einhver situr uppi með tapið og einhverjir missa spón úr aski sínum til að hægt sé að snúa tapi í gróða.
Enn er óvíst hver hlær best þegar WOW-kurlin koma öll til grafar. .
![]() |
Indigo riddarinn á hvíta hestinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 1. desember 2018
Sigmundur Ernir edrú á Austurvelli
Sigmundur Ernir mætti á Austurvöll að mótmæla ölæði sitjandi þingmanna á krá út í bæ.
Einu sinni var Sigmundur Ernir, þáverandi þingmaður, staðinn að verki í þingsal.
En, sem sagt, gott að Sigmundur Ernir mætti edrú á Austurvöll. Ásamt prúða fólkinu.
![]() |
Mér finnst það svo sorglegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 1. desember 2018
Strikað yfir Bandaríkin í fullveldi Íslendinga
Í byrjun árs 1918, þann 8. janúar, kynnti Woodrow Wilson forseti Bandaríkjanna 14 punkta friðaráætlun fyrir Evrópu sem stóð í fyrri heimsstríði. Fimmti punkturinn, þjóðríkjareglan, samanber inngangsorð forsetans, nánast tryggði Íslendingum fullveldi.
Ástæðan er eftirfarandi. Danir kostuðu kapps að fá tilbaka landamærahéruð sem Þjóðverjar tóku af Danmörku í stríðinu 1864. Á þeim tíma kom fram sú hugmynd í danska stjórnarráðinu að skipta við Þjóðverja á Íslandi og smávegis af danskri byggð sem Þjóðverjar sölsuðu undir sig í krafti hermáttar. Ekkert varð úr og Danir biðu færis. Tækifærið kemur 1918 þegar fyrirsjáanlegur sigurvegari fyrra stríðs, Bandaríkin, kynnir þjóðríkjaregluna.
Danir sáu fyrir sér að endurheimta danskar byggðir í Þýskalandi í friðarviðræðum um ný landamæri eftir stríðslok. Til að bæta samningsstöðu sína ákváðu Danir að senda nefnd til Íslands að semja um fullveldi okkar. Danir vissu sem var að þeir stæðu verr að vígi í samningum um dönsku byggðirnar í Þýskalandi ef þeir neituðu Íslendingum um sama rétt og þeir kröfðust handa löndum sínum á þýskri grundu.
Í sérblaði Morgunblaðsins um fullveldið, gefið út í dag, er ekkert minnst á þjóðríkjareglu Wilson og hvaða áhrif hún hafði á skyndilegan áhuga Dana sumarið 1918 að semja um fullveldi Íslands sem hafði verið vandræðamál í hálfan annan áratug, eða frá því að Íslendingar fengu heimastjórn 1904.
Sagan, líkt og blaðamennska, er alltaf valkvæð að einhverju marki. En þegar tekið er upp á því að strika út veigamikla þætti sem eiga heima í umræðunni er valið farið að nálgast sögufölsun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 1. desember 2018
Fullveldið, embættismenn og þriðji orkupakkinn
Hugvekja til Íslendinga er upphafsskjal fullveldisins. Jón Sigurðsson er höfundurinn og birtist hugvekjan í tímariti hans, Nýjum félagsritum, árið 1848. Ein 70 ár liðu áður en tillögur Jóns fengu framgang, 1. desember 1918.
Þótt 170 ár séu liðin frá hugvekjunni er enn að finna þar margt sem á beint erindi við samtímann. Hér talar Jón um embættismenn:
þjóðin er ekki til handa embættismönnum sínum, heldur eru þeir handa henni; hún á því með að krefja þá reikníngskapar fyrir stjórn þeirra, og þeir eiga að svara;
Embættismenn eiga það til, nú sem fyrr, að starfa ábyrgðalaust í þágu annarra hagsmuna en þjóðarinnar. Gefum Jóni aftur orðið:
Hafi þessvegna þjóðin ætlað að leita ábyrgðarmanns fyrir eitthvað sem aflaga fór, þá hefir enginn fundizt, hver hefir vísað frá sér og kennt yfirboðara sínum, og svo koll af kolli.
Íslenskir embættismenn hafa á síðustu árum dundað sér við að koma raforkumálum Íslendinga í hendur útlendinga - Evrópusambandsins. Veik lýðræðislega kjörin stjórnvöld, þ.e. þingmenn og ráðherrar, hafa fremur verið strengjabrúður í höndum embættismanna en fulltrúar almannahagsmuna.
Á aldarafmæli fullveldisins yrði það falleg gjöf til þjóðarinnar, og til heiðurs minningu Jóns Sigurðssonar, að stjórnmálamenn tækju fram fyrir hendur embættismanna og afþökkuðu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Í framhaldi má skila tveim fyrstu pökkunum frá Brussel.
Jón skrifaði hugvekjuna á byltingartímum. Þjóðir risu upp gegn einveldi. Óábyrgt og umboðslaust embættismannaveldi er ekki hótinu betra en einveldi.
![]() |
Fullvalda ríki í eina öld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)