Guð, loftslag og lygi

Einu sinni notaði alþjóðalega valdaelítan, sem þá talaði latínu, guð til að hræða fólk til hlýðni. Nú talar valdaelítan ensku og hræðir líftóruna úr fólki með loftslagi.

Fyrir 20 árum talaði elítan um hlýnun. Á þessari öld hvarf meint hlýnun og þá varð að finna aðra útgáfu: loftslagsbreytingar.

Veðurfréttir segja okkur veðurspá fyrir næstu 3-5 daga; vísindin eru ekki betri en svo. En valdaelítan telur okkur trú um að ef við hættum ekki að nota bensín og dísil á bílana okkar hækkar meðalhitinn á jörðinni um eina gráðu á celsíus eftir hálfa öld og veðurfar gerir jörðina óbyggilega.

Fólk trúir þessari bábilju eins og nýju neti. Þótt það liggi fyrir að veðurfar á jörðinni hefur á sögulegum tíma margoft tekið stakkaskiptum án atbeina mannsins. Einu sinni voru vínber ræktuð á Norður-Englandi; norrænir menn stunduðu kvikfjárrækt á Grænlandi á miðöldum; á nýöld fraus áin Thames í Lundúnum á tímabili sem kölluð er litla ísöld.

En samt leggur fólk trúnað á elítuáróðurinn að ef við beygjum okkur ekki undir alþjóðalegt regluverk muni himinn og jörð farast í loftslagsfári. 

Það á svo að heita að við lifum á upplýstum tímum. En átrúnaðurinn á loftslagsáróður valdaelítunnar sýnir svart á hvítu að við erum ekki hótinu betur stödd en á myrkustu miðöldum þegar guð talaði til okkar á prestalatínu.


mbl.is „Þurfum að gera miklu meira“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í ofanskráðu gleymist, að komandi þurrð á jarðefnaeldsneyti vegna rányrkjunnar á henni, fer saman við loftslagsbreytingar, þannig að hvort eð er er þörf á aðgerðum við orkuskipti. 

Og nær aldrei er minnst á súrnun sjávar, sem er umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga. 

Og hvaðan koma þær upplýsingar að á "þessari öld hvarf meint hlýnun"?

Ómar Ragnarsson, 2.12.2018 kl. 21:37

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Súrnun sjávar er ekki partur af því loftslagshlýnunartrúboði sem var gert hér að ósveigjanlegri ríkisdogmu með "Parísar-sáttmálanum" ósveigjanlega með óbærilegum álögum á þjóðina: útrýmingu benzín- og olíubíla eftir 11 ár og hundraða milljarða yfirvofandi sektum!

En Páll, myrkustu miðaldir voru ekki gullöld kaþólskunnar (hátindur miðalda hér eins og í Evrópu), heldur barbarisminn sem ríkti frá falli Rómaveldis til loka 8. aldar, þegar latneskt menntaskeið hófst fyrir alvöru. Og samt eru miðaldir í heild sagnabrunnur sem æ fleiri hrífast af.

Jón Valur Jensson, 3.12.2018 kl. 06:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband