Trú, fals og samfélagsmiðlar

Fésbók tengir fólk og er líka góð viðskipti, segir stofnandi samfélagsmiðilsins, Mark Zuckerberg. Á árinu sem senn er liðið tapaði Zuckerberg 15 milljörðum bandaríkjadala.

Auðvitað á stofnandi Fésbókar enn fyrir salti í grautinn og tekur tapinu af karlmennsku. Aftur er erfiðara að meta tap og gróða þess að ,,tengja fólk", sem á að vera aðall Fésbókar og samfélagsmiðla.

Áður en samfélagsmiðlar komu til sögunnar tengdist fólk í gegnum fjölskyldur, búsetu, atvinnu og fjölmargar stofnanir, s.s. kirkju, fjölmiðla, þjóðríki og svo framvegis. Allt er þetta enn fyrir hendi en samfélagsmiðlar tóku til sín stóran hluta innihaldsins. Sumar stofnanir, t.d. fjölmiðlar, eru ekki svipur hjá sjón eftir innreið samfélagsmiðla í almannarýmið.

Líf á samfélagsmiðlum er auðvelt að falsa. Ef maður kemur rytjulegur á vinnustaðinn og segist hafa það bara þrælgott, takk fyrir, en ásýnd manns og yfirbragð segir allt aðra og sannari sögu þá kemst maður ekki upp með blekkinguna. Aftur getur maður verið í sjálfsvígshugleiðingum en birt brosandi sjálfu á Fésbók og þægilega logið að ,,vinum" sínum að allt sé  í himnalagi.

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, segir orðskviðan. Samfélagsmiðlar tryggja örugga fjarlægð en ímyndaða nánd. Falslíf á Fésbók er freistandi. Vellíðun fylgir því að fá ,,læk" og safna ,,vinum" sem maður sýnir ímynd af sjálfum sér.

Falsað einkalíf kallast á við falskt almannarými en algengasta útgáfan af því er falsfréttir. Þótt falsfréttir hafi fylgt fjölmiðlum frá öndverðu margfölduðust þær með samfélagsmiðlum.

Áður tengdist fólk trúnni í gegnum fjölskyldu og stofnanir. Fésbók og aðrir samfélagsmiðlar sem ,,tengja fólk" gera fjölskyldu og stofnanir að óþarfa milliliðum að handanheimi sem er meira sannfærandi en ritmál af fæðingu frelsarans. Trú samfélagsmiðla er að hægt sé að tengjast öðrum manneskjum með myndum og texta í símskeytastíl. Altarið er ýmist tölvuskjár eða snjalltæki. Þarf maðurinn meira?

Gleðileg jól.   


Gott fólk og vont

Aðalábyrgðarmaður braggamálsins, Dagur B. borgarstjóri, tilheyrir góða fólkinu og er sem slíkur undanþeginn vondri umræðu, skrifar samflokksmaður Dags og forveri í embætti borgarstjóra, Jón Gnarr.

Góða fólkið er ekki spillt, er vörn Jóns, heldur er kerfið ónýtt.

Sérstaklega misbýður fyrrverandi borgarstjóra að fulltrúi vonda fólksins, Vigdís Hauksdóttir, skuli fá ,,fyrirsögn" á Ríkisútvarpi vinstrimanna. Jón spyr með þjósti: ,,Hver er eig­in­lega í al­vöru að pæla í því hvað henni finnst?"

Góða fólkið gerir ekkert rangt og vonda fólkið á ekki að komast að í fjölmiðlum, er uppskrift Jóns Gnarr að heilbrigðum stjórnmálum. Jón hefur áður gefið yfirlýsingu hvar góða fólkið eigi heima: í Samfylkingunni.


mbl.is Sakar Jón Gnarr um kvenfyrirlitningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband