Orð, verknaður og tvöfeldni

Munnsöfnuður, hversu ljótur sem hann kann að vera, er orðfæri. Verknaður, t.d. kynferðisleg áreitni, er sjálfkrafa alvarlegri.

Þeir sem stóðu fyrir upphlaupinu í Klausturmálinu, fjölmiðlar og vinstriflokkarnir sérstaklega, urðu heldur kindarlegir þegar kynferðisleg áreitni Ágústar Ólafs þingmanns Samfylkingar var kynntur til sögunnar fyrir viku síðan - af sjálfum gerandanum.

Hugur fjölmiðla og vinstriflokkanna stóð til að brenna sexmenningana á Klaustri á galdrabáli umræðunnar. Til að það tækist yrði að halda Klausturmenningunum í brennidepli. Ekkert mátti spilla einbeitingunni. Ekki einu sinni að Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna og Gunn­laug­ur Bragi Björns­son vara­borg­ar­full­trúi Viðreisn­ar hefðu um stund þetta kvöld átt samneyti við þá bannfærðu.

Játning Ágústar Ólafs fyrir viku setti rafrænu galdrabrennuna í uppnám. Vinstrifólkið í Borgarleikhúsinu setti ekki upp leikþátt um þingmann Samfylkingar, þótt drög að handriti lægju fyrir. Nei, leikhúslýðræði er að gefa sig á vald fjölmiðlaeinelti. ,,Berg­ur Þór Ing­ólfs­son, sem leik­stýrði leik­lestr­in­um, seg­ir að til­gang­ur­inn með leik­lestr­in­um hafi verið að setja frétt­ir síðustu daga í sam­hengi fyr­ir al­menn­ing," segir í frétt af leiklestrinum.

Hvað var gert við handritið um kynferðislega áreitni þingmanns Samfylkingar? Jú, því var stundið undir stól. Efndi Háskóli Íslands til málþings um Ágúst Ólaf og ólíka stöðu valdsmanns og ungrar konu? Neibb. Þegar vinstrimenn eiga i hlut er óþarfi að tala um feðraveldið.

Á málþingi háskólavinstrimanna um Klaustursupptökurnar sat Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar á fremsta bekk. Hvað gerði Helga Vala eftir að kynferðisleg áreitni flokksbróður komst í hámæli? Helga Vala hljóp í felur.

Málin tvö, kennd við Klaustur og Ágúst Ólaf, kenna okkur eitt: förum varlega í að taka brjálæðisköst og gefa okkur móðursýkinni á vald. Það hefnir sín.


mbl.is Vika er langur tími í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarsigur Miðflokksins

Í byrjun mánaðar sameinuðust fjölmiðlar, samfélagsmiðlar og stjórnmálakerfið að úthúða Miðflokknum. Borgarleikhúsið setti á svið sýningu og Háskóli Íslands efndi til málþings til að stafa ofan í alþjóð að Miðflokkurinn væri óalandi og óferjandi.

Undir þessari ágjöf er eðlilegt að fylgið gefi eftir, fellur á milli mánaða úr 13 prósentum í 6.

Í samhengi hlutanna er harla gott hjá Miðflokknum að halda í nægt fylgi fyrir þingsætum. Ístöðulitlir flokkar hafa þurrkast út af minna tilefni, Björt framtíð nú síðast.


mbl.is Miðflokkurinn tapar mestu fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helga Vala þegir - Samfó slær met í hræsni

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar er þögul sem gröfin um kynferðislega áreitni Ágústar Óafs. Yfirleitt er Helga Vala með skoðun á öllu, því sterkari sem hún veit minna um málið.

Samfylkingin slær met hræsni þegar mál Ágústar Ólafs og Klaustursexmenninganna eru borin saman. Ágúst Ólafur hafði í frammi kynferðislega áreitni og niðurlægði konu með háðsglósum um útlit hennar og vitsmuni. ,,Mér fannst ég líka algjör­lega nið­ur­lægð og var gjör­sam­lega mis­boðið vegna ítrek­aðra ummæla hans um vits­muni mína og útlit," skrifar fórnarlamb Ágústar Ólafs, Bára Huld Beck.

Klaustursexmenningarnir á hinn bóginn deleruðu sín á milli um mann og annan og lýstu kynferðisórum sínum. En þeir spjölluðu sín á milli og gerðu engum neitt. Samtalið var aftur hljóðritað ólöglega og gert opinbert þar sem fjölmiðlar veltu sér upp úr ósómanum.

Orð, sögð í lokuðum hópi, geta aldrei verið jafn alvarleg og sá verknaður sem Ágúst Ólafur hafði í frammi. Í tilfelli Ágústar Ólafs er gerandi og fórnarlamb. Í tilfelli orðavaðalsins á Klaustri eru engir gerendur, því ekkert var gert, og engin fórnarlömb fyrr en fjölmiðlar nýttu sér ólöglega hljóðritun og otuðu fram á opinberan vettvang einkasamtölum.

Aðeins siðlaust fólk sér ekki þennan greinarmun. Samfylkingin er siðlaus flokkur sem sér flísina í auga náungans en ekki bjálkann í eigin auga. 


mbl.is Siðareglurnar nái varla yfir mál Ágústs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband