Andrés Ingi vill völd, en afþakkar ábyrgð

Andrés Ingi Jónsson er kjörinn á þing af lista Vinstri grænna. Flokkur Andrésar Inga er gerir samning um stjórnarmeirihluta en Andrés Ingi neitar að styðja málefnasamninginn.

Engu að síður vill Andrés Ingi taka þátt í nefndarstörfum fyrir hönd síns flokks. Hann vill valdastöðu en ekki axla neina ábyrgð.

Málið er einfalt. Annað hvort er Andrés Ingi í stjórnarmeirihlutanum eða ekki. Er til of mikils ætlast að hann geri kjósendum grein fyrir stöðu sinni?


mbl.is Andrés reiknar með nefndarsetu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málsvörn Ragnars Þórs: ofbeldi gegn kennurum

Rauður þráður í málsvörn Ragnars Þórs Péturssonar, formanns KÍ, er að kennarar verði stöðugt fyrir ofbeldi. Ef ekki beinu líkamlegu ofbeldi þá óbeinu með fölskum áburði og ákærum.

Ragnar Þór gerði að opinberu máli rannsókn gegn sér vegna ábendingar um að hann hafi brotið af sér í starfi sem grunnskólakennari. Í fyrstu færslunni af nokkrum, frá desember 2013, segir í fyrstu efnisgrein:

En alveg eins og það þarf ekkert að vinna til saka til að verða fyrir barðinu á ofbeldismanni, eltihrelli eða dólgi – þá lenda kennarar í því í hverri viku einhversstaðar á landinu að verða fyrir barðinu á óþokkum og  illgjörnu fólki. Um þetta er yfirleitt ekki rætt, enda er þagnarskyldan rík og ekki við hæfi að ræða einstök dæmi opinberlega. Ég get þó nefnt (án þess að fara á svig við þagnarskyldu) að ég þekki mýmörg dæmi þess að starfsfólk skóla sé beitt ofbeldi í störfum sínum. Ég þekki t.d. ungan mann sem fór titrandi heim eftir að sterabólginn handrukkari öskraði á hann, reif í hann og gerði sig líklegan til að berja hann innan um hóp á börnum til að jafna ímyndaðar sakir.

Í gær skrifaði Ragnar Þór færslu sem hjó í sama knérunn:

Fjöldi kennara er sakaður um einelti, ofbeldi eða áreitni. Margir þeirra eru saklausir. Þetta vitum við sem störfum í skólum. Ég vinn með nokkrum aðilum sem þetta á við um. Ég þekki enn fleiri og hef upp á síðkastið fengið bréf frá allnokkrum í viðbót.

Í ítarlegri frétt visis.is, þar sem ákærandi Ragnars Þórs stígur fram, er kennarinn enn við sama heygarðshornið, að ofbeldi gegn kennurum sé útbreitt. Hann segir:

„Það skiptir máli að svona ásakanir á hendur mönnum í minni stöðu eru býsna algengar, þetta er í kringum fimmti hver kennari. Við verðum fyrir svona ásökunum - höfum snertipunkt við hverja einustu fjölskyldu á landinu.“

Ef það eru um 4000 grunnskólakennarar í landinu þá segir Ragnar Þór að um 800 þeirra, þ.e. fimmti hver, hafi orðið fyrir ofbeldi í einu eða öðru formi.

Hvergi vitnar Ragnar Þór til heimilda þegar hann dregur upp þessa mynd af stöðu kennara. Hann slær þessu fram í von um að fólk trúi.

Ragnar Þór fékk að vita í byrjun janúar 2014 hver stóð að baki ákærunni enda málið þá kært til lögreglu. Í viðtali 17. janúar 2014 segist Ragnar Þór ekki hafa hugmynd um hver kærði hann. Ragnar Þór segir: ,,Viðkomandi er líklega sjúkur og á bágt."

Í sama viðtali er ofbeldi gegn kennurum Ragnari Þór áfram hugleikið:

„Það sem er að í kerfinu er að það virðist ekki vera gert ráð fyrir þeim möguleika að kennarar geti orðið fórnarlömb árása eða ofbeldis. Það er samt algjör heimska að gera ekki ráð fyrir því,“ segir Ragnar Þór „Sjálfur veit ég um mörg dæmi. Í slíkum tilfellum er kennarinn varnarlaus því kerfið treystir sér ekki til að taka á málum sómasamlega.

Ragnar Þór var kjörinn formaður Kennarasambands Íslands í haust og á að taka við embætti í apríl. Embættið er virðingarstaða. Málsvörn Ragnars Þórs í sýndarréttarhöldunum sem hann efndi til yfir sjálfum sér sýnir ekki mikla virðingu fyrir kennarastarfinu. Samkvæmt formanninum nýkjörna eru kennarar í ofbeldissambandi við samfélagið.

Ragnar Þór er fjarska ánægður hvernig hann hefur haldið á málum. ,,Ég er af fáu stoltari en hvernig ég tók á þessu máli, ég er mjög stoltur af því hvernig ég stóð að þessu máli frá A til Ö," segir hann í viðtali á visir.is 

Sá sem dregur kennarastéttina í svaðið til að bjarga eigin skinni er ekki heppilegur formaður Kennarasambands Íslands.

 


mbl.is Vilja ekki að Ragnar verði formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og tilbeiðsla hryðjuverka

Trump lofaði kjósendum sínum að loka landamærum Bandaríkjanna fyrir hryðjuverkaógn. Ferðabann ríkisstjórnar hans beindist fyrst og fremst að múslímaríkjum.

Trúarstef helstu hryðjuverkaárása á vesturlöndum síðustu ára er múslímskt. Vesturlönd eru veraldleg og boðberar alþjóðahyggju sem eiga í vandræðum með að umgangast trúarsannfæringu.

Vandræðin birtast til dæmis í sýningu í Berlín þar sem múslímskir hryðjuverkamenn fá heiðurssess við hlið manna eins og Martin Luther King og Sókrates og eru sagðir hafa dáið píslarvættisdauða fyrir sannfæringu sína.


mbl.is Ferðabann Trumps dæmt lögmætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaður KÍ kærður fyrir kynferðisbrot á nemanda

Nýkjörinn formaður Kennarasambands Íslands, Ragnar Þór Pétursson, var kærður fyrir kynferðisbrot gagnvart nemanda. Kæran var lögð fram 7. janúar 2014, samkvæmt ítarlegri frétt á visir.is

Meint brot á að hafa gerst þegar Ragnar Þór kenndi nemandanum í grunnskóla á Tálknafirði.

Meint brot var tilefni rannsóknar fræðsluyfirvalda í Reykjavík, sem Ragnar Þór gerði að umtalsefni í nokkrum bloggfærslum og kvaðst ofsóttur.

Í bloggfærslum sínum um málið sagði Ragnar Þór að nafnlaus kæra hefði borist til fræðsluyfirvalda í Reykjavík. Það er ekki rétt. Kærandinn naut nafnleyndar, sem er allt annað en nafnlaus kæra.

Samkvæmt fréttinni á visir.is var kæra til lögreglunnar lögð fram í byrjun árs 2014. Ekki seinna en þá vissi Ragnar Þór hver ákærandinn var og hvað var kært. En þrátt fyrir að gera kæruna til fræðsluyfirvalda ítrekað að umræðuefni þóttist Ragnar Þór aldrei vita hver kærði og hvers vegna. Þvert á móti sagði Ragnar Þór að á bakvið kæruna hlyti að standa illgirni einhverra sem hann hafði móðgað með bloggskrifum.

Ásökun um brot jafngildir ekki sekt. Aftur er deginum ljósara að í vörn sinni hefur Ragnar Þór ekki komið hreint fram. Það er heildarsamtökum kennara ekki bjóðandi að Ragnar Þór taki við formennsku Kennarasambands Íslands.


Steinunni var fórnað, Sigmundi Davíð líka

Samfylkingarkonan Kristrún Heimisdóttir segir um aðförina að Steinunni Valdísi í samantekt RÚV:

Steinunni Valdísi Óskarsdóttur var fórnað fyrir heildina segir Kristrún Heimisdóttir. Setið hafi verið um heimili hennar fyrir að gera sömu hluti og aðrir. 

Sigmundi Davíð var einnig fórnað ,,fyrir heildina". Eiginkona Sigmundar Davíðs gerði ,,sömu hluti og aðrir."


Textaeitur Fréttablaðsins

Fréttablaðið ræðir nýja ríkisstjórn í leiðara dagsins og spyr hvers vegna tortryggni sé gagnvart stjórninni. Leiðarinn gefur þetta svar:

Jú, það er einfaldlega fyrst og fremst saga Sjálfstæðisflokksins með allri sinni spillingu, leyndarhyggju og sérhagsmunabrölti sem leiddi til þess að síðustu ríkisstjórnir með flokknum entust ekki kjörtímabilið að ógleymdu efnahagshruninu.

Svarið er rakinn þvættingur. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks féll 2016 ekki vegna neinna mála sem tengdust Sjálfstæðisflokknum. Aðför fjölmiðla að Sigmundi Davíð forsætisráðherra felldi þá stjórn.

,,Leyndarhyggja" felldi ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í haust heldur móðursýki á næturfundi Bjartar framtíðar. Um það liggur fyrir játning formanns Bjartar framtíðar.

Leiðari Fréttablaðsins er skýrt dæmi um hvernig fjölmiðlar, sumir hverjir, skapa andrúmsloft tortryggni og andstyggðar. Í þessu andrúmslofti eru búin til hneykslismál sem sömu fjölmiðlar nota til að réttlæta textaeitrið er þeir spýja yfir almenning.

Fréttablaðið og aðrir fjölmiðlar bera sinn hluta ábyrgðarinnar á sjúklegri tortryggni í opinberri umræðu.


Ljótar aðfarir eftir 2008/2009

Aðförin að heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur er óverjandi. Andrúmsloftið í samfélaginu eftir hrun var eitrað og þó nokkur dæmi um að fólk færi yfir strikið í mótmælum.

Taumhaldið sem að jafnaði heldur aftur af löngun fólks að jafna sakirnar við þá sem eru í valdastöðum var slakt mánuði og misseri eftir hrun.

Aðförin að heimili Steinunnar Valdísar var sérstakt. Í bloggi fyrir fjórum árum var skrifað:

Af ástæðum sem ekki eru fyllilega skýrðar urðu kröfur um afsögn Steinunnar Valdísar háværari en gagnvart öðrum þingmönnum sem mátti þola að mótmælendur gerðu umsátur um heimili hennar. Steinunn Valdís var ein um að segja af sér í þessari snerru vorið 2010.

Sú spurning vaknar hvort mótmælin í eftir-hruninu hafi öll verið sjálfssprottin. Áður hefur komið fram að auðmenn keyptu sér ,,bloggher" m.a. fyrir milligöngu Gunnars Steins almannatengils. Í tilfelli Steinunnar Valdísar voru ýmsir sem höfðu hag af því að mótmæli beindust fremur að henni en öðrum.

Kurlin eru ekki öll komin til grafar.


mbl.is „Öskureið að rifja þetta upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velmegun og fátækt; hlutverk ríkisins

Fátækt er ekki lengur skilgreind sem allsleysi. Fátæktarmörk eru reiknuð sem hlutfall af meðaltekjum. Ef meðaltekjur hækka breytir það engu um fátæktina, það eru alltaf einhver 20 prósent sem bera minnst úr býtum.

Ísland er eitt mesta jafnlaunaland í heimi. En jafnvel þótt allir fengju sömu laun, það væri sem sagt enginn launamunur, yrðu samt einhverjir fátækir. Það er vegna þess að sumir myndu ávaxta sitt fé en aðrir sólunda. Þar með yrði til ríkidæmi annars vegar og hins vegar fátækt.

Velferðarkerfið útvegar bæði beinan og óbeinan stuðning til þeirra sem standa efnahagslega og félagslega höllum fæti. Ný ríkisstjórn ætti að einfalda velferðina, skilgreina vandann og bjóða skilvirka aðstoð. En það verða alltaf einhverjir sem hafa það skítt, þó ekki sé nema í huganum. Mannfólkið er nú einu sinni þannig.

 


mbl.is Fátækt „algjört forgangsmál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Doktorar: 3 konur, 1 karl

Doktor er æðsta lærdómsgráða við háskóla. Á einu ári veitti Háskóli Íslands 53 doktorsgráður, 39 fóru til kvenna en 14 til karla. Konur taka sem sagt nær 3 doktorsgráður af hverjum fjórum frá HÍ en karlar 1.

Þessi ójöfnu kynjahlutföll endurspegla að konur sækja fremur háskólanám en karlar. Hlutföllin eru um 35/65 konum í vil. Strax við útskrift úr menntaskóla eru stúlkur öflugri en drengir. Útskriftarhópurinn í MR í vor var 60 prósent stúlkur en 40 prósent drengir.

Í grunn- og framhaldsskólum hafa stúlkur kvenfyrirmyndir en drengir mun síður. Um 80 prósent kennara eru konur.

Það er engin umræða um þessa þróun, hvaða ástæður liggja að baki og hvaða áhrif hún mun hafa. Veruleg skekkja í háskólamenntun kynjanna leiðir til kynskipts vinnumarkaðar og það telst varla jákvæð þróun.


mbl.is 53 doktorar fengu gullmerki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björt framtíð og samfélagsmiðlapólitík

Samfélagsmiðlapólitík er nýta sér stundarblossa í umræðunni til fylgisaukningar. Fyrir kosningarnar 2016 kastaði Björt framtíð sér á slíkan stundarblossa, búvörusamninginn, og bjargaði sér inn á þing. Auðvitað man enginn eftir búvörusamningnum.

Í september 2017 átti að endurtaka leikinn. Björt framtíð sat í ríkisstjórn en mældist ekki með neitt fylgi. Á næturfundi var ákveðið að slíta stjórnarsamstarfinu þegar hægt var að stökkva á annan umræðublossa, meinta leyndarhyggju vegna eldgamalla laga um uppreisn æru.

En Björt framtíð tapaði veðmálinu. Fólk keypti ekki útskýringar flokksins og fannst hann tækifærissinnaður smáflokkur án kjölfestu og málefna. Björt framtíð féll af þingi og kemst þangað ekki aftur. Samfélagsmiðlapólitík er í besta falli skammtímaávinningur.


mbl.is Kosið of snemma um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband