Málsvörn Ragnars Þórs: ofbeldi gegn kennurum

Rauður þráður í málsvörn Ragnars Þórs Péturssonar, formanns KÍ, er að kennarar verði stöðugt fyrir ofbeldi. Ef ekki beinu líkamlegu ofbeldi þá óbeinu með fölskum áburði og ákærum.

Ragnar Þór gerði að opinberu máli rannsókn gegn sér vegna ábendingar um að hann hafi brotið af sér í starfi sem grunnskólakennari. Í fyrstu færslunni af nokkrum, frá desember 2013, segir í fyrstu efnisgrein:

En alveg eins og það þarf ekkert að vinna til saka til að verða fyrir barðinu á ofbeldismanni, eltihrelli eða dólgi – þá lenda kennarar í því í hverri viku einhversstaðar á landinu að verða fyrir barðinu á óþokkum og  illgjörnu fólki. Um þetta er yfirleitt ekki rætt, enda er þagnarskyldan rík og ekki við hæfi að ræða einstök dæmi opinberlega. Ég get þó nefnt (án þess að fara á svig við þagnarskyldu) að ég þekki mýmörg dæmi þess að starfsfólk skóla sé beitt ofbeldi í störfum sínum. Ég þekki t.d. ungan mann sem fór titrandi heim eftir að sterabólginn handrukkari öskraði á hann, reif í hann og gerði sig líklegan til að berja hann innan um hóp á börnum til að jafna ímyndaðar sakir.

Í gær skrifaði Ragnar Þór færslu sem hjó í sama knérunn:

Fjöldi kennara er sakaður um einelti, ofbeldi eða áreitni. Margir þeirra eru saklausir. Þetta vitum við sem störfum í skólum. Ég vinn með nokkrum aðilum sem þetta á við um. Ég þekki enn fleiri og hef upp á síðkastið fengið bréf frá allnokkrum í viðbót.

Í ítarlegri frétt visis.is, þar sem ákærandi Ragnars Þórs stígur fram, er kennarinn enn við sama heygarðshornið, að ofbeldi gegn kennurum sé útbreitt. Hann segir:

„Það skiptir máli að svona ásakanir á hendur mönnum í minni stöðu eru býsna algengar, þetta er í kringum fimmti hver kennari. Við verðum fyrir svona ásökunum - höfum snertipunkt við hverja einustu fjölskyldu á landinu.“

Ef það eru um 4000 grunnskólakennarar í landinu þá segir Ragnar Þór að um 800 þeirra, þ.e. fimmti hver, hafi orðið fyrir ofbeldi í einu eða öðru formi.

Hvergi vitnar Ragnar Þór til heimilda þegar hann dregur upp þessa mynd af stöðu kennara. Hann slær þessu fram í von um að fólk trúi.

Ragnar Þór fékk að vita í byrjun janúar 2014 hver stóð að baki ákærunni enda málið þá kært til lögreglu. Í viðtali 17. janúar 2014 segist Ragnar Þór ekki hafa hugmynd um hver kærði hann. Ragnar Þór segir: ,,Viðkomandi er líklega sjúkur og á bágt."

Í sama viðtali er ofbeldi gegn kennurum Ragnari Þór áfram hugleikið:

„Það sem er að í kerfinu er að það virðist ekki vera gert ráð fyrir þeim möguleika að kennarar geti orðið fórnarlömb árása eða ofbeldis. Það er samt algjör heimska að gera ekki ráð fyrir því,“ segir Ragnar Þór „Sjálfur veit ég um mörg dæmi. Í slíkum tilfellum er kennarinn varnarlaus því kerfið treystir sér ekki til að taka á málum sómasamlega.

Ragnar Þór var kjörinn formaður Kennarasambands Íslands í haust og á að taka við embætti í apríl. Embættið er virðingarstaða. Málsvörn Ragnars Þórs í sýndarréttarhöldunum sem hann efndi til yfir sjálfum sér sýnir ekki mikla virðingu fyrir kennarastarfinu. Samkvæmt formanninum nýkjörna eru kennarar í ofbeldissambandi við samfélagið.

Ragnar Þór er fjarska ánægður hvernig hann hefur haldið á málum. ,,Ég er af fáu stoltari en hvernig ég tók á þessu máli, ég er mjög stoltur af því hvernig ég stóð að þessu máli frá A til Ö," segir hann í viðtali á visir.is 

Sá sem dregur kennarastéttina í svaðið til að bjarga eigin skinni er ekki heppilegur formaður Kennarasambands Íslands.

 


mbl.is Vilja ekki að Ragnar verði formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband