Fjölmenningarsamfélagið, flóttamenn og Evrópa

Ungverjar vilja ekki endurtaka mistök Vestur-Evrópu með tilraunum með fjölmenningarsamfélag. Reynslan af fjölmenningarsamfélögum Vestur-Evrópu er slík að ekki er ástæða til að reyna leikinn í Austur-Evrópu.

Í Þýskalandi eru vaxandi efasemdir um að lífvænlegt sé að opna landamærin fyrir straumi flóttamanna. Merkel kanslari er gagnrýnd fyrir að senda ekki skilaboð um að Þýskaland geti ekki tekið við öllum sem vilja koma. Í Bæjaralandi eru samherjar Merkel sérlega gagnrýnir og buðu Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands í heimsókn til að sýna samstöðu með ákvörðun Ungverja að loka landamærunum fyrir flóttamönnum.

Í Austur-Evrópu er andstaða við ákvörðun Evrópusambandsins um að sérhvert ríki skuli taka við ákveðnum fjölda flóttamanna. Í Lettlandi eru mótmælafundir sem sýna Juncker forseta framkvæmdastjórnar ESB með Hitlers-skegg. Mótmælin sameina Letta og rússneska minnihlutann. Báðir hóparnir telja vonlaust að múslímskir flóttamenn aðlagist lettnesku samfélagi. Sömu sögu er að segja í Póllandi, Tékklandi og Slóvakíu.

Fjölmenningarsamfélagið í Vestur-Evrópu er í raun og sann misheppnað. Jafnvel Merkel viðurkenndi það fyrir fimm árum. 

Vandamálið fyrir evrópsk stjórnmál og almenning í ESB er að fjölmenningarsamfélagið er eina hugmyndafræðin í boði í umræðunni um viðtöku flóttamanna. Valkosturinn við hugmyndafræði fjölmenningarsamfélagsins er þjóðernishyggja. Á meginlandi Evrópu, einkum í Þýskalandi, er það sérlega vandmeðfarin pólitísk stefna.


mbl.is Meintur stórsmyglari drepinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðin á Hitler

Stalín kallaði sósialdemókrata ,,sósíalfasista" og gerði sitt til að koma í veg fyrir samstöðu kommúnista og krata gegn valdatöku Hitlers í Þýskalandi, sem fór fram á lýðræðislegum forsendum.

Bretland skammaðist sín fyrir aðildina að Versalasamningnum eftir fyrra stríð þar sem Þýsklandi var einu kennt um upphaf fyrri heimsstyrjaldar -  hrein sögufölsun. Afleiðing var friðþæginarstefna gagnvart Hitler sem kom honum á bragðið að krefjst landvinninga.

Bretar og Frakkar útilokuðu Sovétríkin sem bandamann gegn Hitler. Stalín taldi sig kaupa tíma með griðasáttmmálanum viku fyrir upphaf seinna stríðs í Evrópu.

Ábyrgðin á vexti og viðgangi Hitlers og nasista er nokkuð víða. Mest þó hjá Þjóðverjum sjálfum.


mbl.is Að hluta Pólverjum að kenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú, kynlíf og heimspeki

Trúariðkun á það sameiginlegt kynlífi að séu athafnirnar hlutlægt skráðar og þeim lýst kemur iðjan fremur hallærislega fyrir sjónir og lítt áhugaverð. Engu að síður stundar fólk hvorttveggja trú og kynlíf af nokkrum móð og talsverðri innlifun nú um stundir sem löngum áður.

Fastur dálkahöfundur Guardian gerir þennan samanburð í pistli þar sem hann reynir að útskýra tilhöfðun trúarinnar. Trú er eins og kynlíf, fáránlegt en virkar, skrifar Jonathan Freedland, sem sjálfur stundar gyðingdóm án þess að gera mikið með yfirnáttúrulega þáttinn, þetta með guð og spámennina í beinu sambandi við æðri máttarvöld.

Kenning Freedland er að trú auki samheldni og sé félagslegur þáttur sem samfélagið geti illa verið án þrátt fyrir skringilegheit trúarsiða. Svo líkingunni sé haldið til haga; trú er meira en tilbeiðsla, kynlíf meira en kirtlastarfsemi.

Trú er valkvæð í okkar heimshluta. Hverjum og einum er í sjálfsvald sett að tileinka sér hverja þá trú sem vera skal. Rök gegn trú, sem byggja á ófrelsi, eiga ekki lengur við í vestrænni menningu. Annað gildir um mið-austurlönd. 

Gagnrýnni hugsun er oft teflt fram sem valkosti við trúarbrögð. Páll heitinn Skúlason heimspekingur setti fram undir þeim formerkjum eftirfarandi lögmál: það er rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum.

Páll kannaðist við að hnífskörp skynsemin er ein og sér of takmörkuð til að seðja mennskuna. Hann greindi, með aðstoð Charles Sanders Peirce, þrjár leiðir sem við notum samhliða gagnrýnni hugsun að komast að sannindum um heiminn.

Páll nefnir þessar þrjár leiðir þrjóskuleiðina, kennivaldsleiðina og fordómaleiðina og ættu nafngiftirnar að gefa hugboð um hvað er átt við.

Heimspeki og trú geta það sem köld vísindi eru ófær um, orðið ,,þjónustuliður í samskiptum manns og náttúru" eins og Páll Skúlason sagði snemma á ferli sínum. Kynlíf er, samkvæmt skilgreiningu, einnig ,,þjónustuliður" manns og náttúru.


mbl.is Slysið „æðra mannlegri stjórn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútín verður fyrirmynd Þjóðverja

Þjóðverjar draga fram rauða dregilinn fyrir Pútin Rússlandsforseta. Die Welt segir Pútin stofuhæfan á ný eftir að Bandaríkin og Evrópusambandið reyndu að gera Rússa að hornkerlingu vegna Úkraínudeilunnar.

Ástæðan fyrir stóraukinni velvild Þjóðverja til Pútín er holskefla múslímskra flóttamanna sem skellur á meginlandi Evrópu frá mið-austurlöndum, einkum Sýrlandi. Bandaríkin eru að stórum hluta ábyrg fyrir borgarastyrjöldinni í Sýrlandi og Írak,  sem er afleiðing af innrás Bandaríkjanna í Írak árið 2003.

Aukinn hernaðarviðvera Rússa í Sýrlandi gefur evrópskum stjórnmálamönnum von um stöðugleika í þessum heimshluta sem gæti dregið úr flóttamannastraumnum til Evrópu.

Eftir því sem vegur Pútín vex í Evrópu gætir meiri tortryggni gagnvart Bandaríkjunum. Ekki aðeins klúðruðu Bandaríkin mið-austurlöndum heldur líka Úkraínu-málinu. Bandaríkin keyrðu áfram þá þróun að Úkraína yrði Nató-land sem fyrst - en rákust þar á rússneskan vegg. Í framhaldi var búið til lítt ígrundað viðskiptabann á Rússa, sem smáríki eins og Ísland bera hitann og þungann af.

Næstu nágrannar Rússa í Evrópu, til dæmis Eystrassaltsríkin, eru ekki alltof kát með vaxandi pólitískan styrk Pútíns og Rússa. Greinendur með þann bakgrunn leggja áherslu á hve hættulegt það er bandarískum og evrópskum hagsmunum að Rússar styrkist.

Tilraunir til að setja ,,rétt" sjónarhorn á fyrirætlanir Rússa í Sýrlandi leiða til skrítinna fyrirsagna, eins og Rússar gætu hjálpað Ríki íslams ætlunarverk sitt, að stofna kalífadæmi, með því að styðja Assad Sýrlandsforseta, sem er svarinn andstæðingur Ríkis íslam.

Í stóra samhenginu er lykillinn að öflugri Pútín veik og sjálfri sér sundurþykk Evrópa annars vegar og hins vegar ráðleysi Bandaríkjanna í alþjóðamálum.


mbl.is Hafa farið eftirlitsflug yfir Sýrland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónusamsæri forstjóranna

Íslenskir forstjórar komast upp með það trekk í trekk að skenkja sjálfum sér ósjálfbær laun. Launaskrið forstjóranna fer niður í millistjórnendur.

Þegar, seint og um síðir, launaskriðið nær til almennra starfsmanna stökkva forstjórarnir til og heimta gengisfellingu krónunnar. Forstjórakórinn syngur einum rómi þar sem tóninn er sleginn í höfuðstöðvum þeirra í Borgartúni.

Forstjórarnir læra ekki sína lexíu fyrr en fyrirtækin þeirra fara á hausinn vegna ósjálfbærrar launastefnu.

Í stað gengisfellingar eigum við að fara gjaldþrotaleiðina. 


mbl.is „Aldrei aftur haftalaus króna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Corbyn og Árni Páll

Andstæðingar nýkjörins formanns breska Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, eiga að bíða eftir úrskurði almennings, um að flokksinn sé ekki hægt að kjósa, og í framhaldi að velta Corbyn úr sessi.

Þetta skrifar náinn samstarfsmaður Tony Blair fyrrverandi formanns Verkamannaflokksins, Peter Mandelson, í minnisblaði sem gengur manna á meðal í flokknum og Guardian birtir.

Ólíkt hafast þeir að í Verkamannaflokknum breska og Sammfylkingunni íslensku. Kjósendur eru fyrir löngu búnir að afskrifa flokkinn undir forystu Árna Páls. Með fylgi undir tíu prósentum hjakkar Samfylking í sama farinu, útjöskuð, lífvana og ókjósanleg.


Bandarísk hermennska í 70% ríkja heims

Bandaríkin eru með hernaðarviðveru í 135 ríkjum í heiminum, en það eru um 70 prósent af öllum ríkjum jarðarkringlunnar. Tölfræðin birtist í grein í dag í Nation, þar sem fjallað er um hernaðaríhlutun Bandaríkjanna.

Viðfangsefni greinarinnar er starfsemi sérsveita, Special Operations Command (SOCOM), sem Bandaríkin beita fyrir sér án þess að hafa hátt um það.

Hernaðarviðvera þarf ekki að þýða vopnaskak sérsveitanna, en felur alltaf í sér hernaðarviðbúnað í einu formi eð öðru.

Bandaríkin eru réttnefnd heimslögga. Önnur spurning er hversu áhrifarík þessi alheimslögga er.

 


Samherji kaupir umfjöllun

Á fésbók birtist texti í þágu Samherja sem almannatengslafyrirtækið KOM kaupir. Textinn auglýsir Samherja sem fórnarlamb í deilum við Seðlabanka. Í Viðskiptablaðinu, en þaðan eiga eigendur KOM rætur sínar, er grein sem rekur raunir Samherja.

Þessi aðferð, að kaupa sér stöðu á fjölmiðlamarkaði í deilum við yfirvöld, er ættuð úr smiðju Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Hann og Þorsteinn Már forstjóri Samherja voru viðskiptafélagar í Glitni og e.t.v. fleiri útrásarævintýrum.

Samherjamenn una því ekki að vera teknir til rannsóknar. Þeir vilja vera ríki í ríkinu, hafnir yfir lög og rétt. Í Samherjalandi eru sumir jafnari en aðrir, rétt eins og á tímum útrásar. Við vitum öll hvernig fór fyrir þeirri sjóferð.

Úrásin kenndi okkur klíkuauðvald er vond tegund auðvalds. Útrásin kenndi okkur líka að veikar stofnanir eru ávísun á alræði auðmanna. Við afþökkum Samherjaland.


Bölvun Íraks-stríðsins

Beint samhengi er á milli flóttamannavanda mið-austurlanda, uppgangs Ríki íslams og lamaðs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna annars vegar og hins vegar Íraks-stríðsins 2003.

Bandaríkin og Bretland höfðu forystu um að steypa Saddam Hussein einræðisherra af stóli. Yfirskinið var að Hussein ætti gereyðingarvopn - sem aldrei fundust.

Eftir fall Hussein gekk í garð borgarastyrjöld, sem leysti úr læðingi öfgaöfl eins og Ríki íslam. Borgarastyrjöldin í Írak smitaði út frá sér og Sýrland varð fórnarlamb.

Bandaríkin vilja gjarnan taka Hussein á Assad Sýrlandsforseta í öryggisráðinu og fá alþjóðlega samþykkt fyrir aðgerðum. Bölvun Íraks-stríðsins hvílir eins og mara á alþjóðasamfélaginu, og vestrænum almenningi, og Bandaríkin komast hvorki lönd né strönd.

Bandaríkin eru nógu öflug að steypa ríkisstjórnum af stóli en of veik til að setja saman lífvænleg samfélög eftir fall einræðisherra. Þá skortir Bandaríkin dómgreind til að skilja hvenær stórveldi ætti að halda að sér höndunum fremur en að grípa til aðgerða.

 


mbl.is Trúverðugleikinn í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrifrjálshyggja Samfylkingar og Corbyn-áhrifin

Sigur sósíalistans Corbyn í formannskjöri breska Verkamannaflokksins er uppreisn gegn vinstrifrjálshyggju Tony Blair. Samfylkingin var stofnuð í anda vinstrifrjálshyggju, reyndi m.a. að koma sér upp sínum eigin auðmönnum,  Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, til að borga ferðalag háskólaelítunnar til fyrirheitna landsins, ESB.

Róttækir vinstrimenn í Bretlandi eru í uppgjöri við málpípur vinstrifrjálshyggjunnar, Guardian og Observer, svo dæmi séu tekin. Ef Corbyn væri íslenskur ætti hann heimilisfestu í Vinstri grænum.

Össur Skarpéðinsson, machiavellistinn sem hann er, veit hvert vötnin falla. Um aldamótin gekk hann rösklega fram að gæta þess að Alþýðubandalagið kæmi ekki í heilu lagi inni í Samfylkinguna. Núna sér Össur þann kost vænstan að Samfylkingin verði lögð inn i Vinstri græna.

 


mbl.is Samfylking og VG í eina sæng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband