Þjóðaratkvæðagreiðslur gera landið stjórnlaust

Landinu verður ekki stjórnað með þjóðaratkvæðagreiðslum. Atkvæðagreiðslur eru einfaldar en stjórnsýsla flókin. Í atkvæðagreiðslum er gert upp á milli tveggja eða fleiri valkosta. Um leið og búið er að velja einn er komin forsenda til að efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um þann veruleika sem blasir við eftir þá fyrri.

Þjóðaratkvæðagreiðslur um helstu álitamál myndi auka ófriðinn í samfélaginu. Þeir sem tapa einni atkvæðagreiðslu munu óðara krefjast nýrrar, ef ekki um nákvæmlega saman málið, þá um einhvern langsóttan anga þess.

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna hrinda sér ekki sjálfar í framkvæmd. Í skjóli upplausnar, sem þjóðaratkvæðagreiðslum fylgir, munu hverskyns kújónar koma með sínar lausnir á því hvernig beri að útfæra niðurstöður atkvæðagreiðslna.

Það er ekki tilviljun að fulltrúalýðræði er ráðandi fyrirkomulag í vestrænum ríkjum. Lýðræði í Vestur-Evrópu átti undir högg að sækja á fyrri hluta síðustu aldar. Ýmsir popúlistar töldu sig hafa fundið upp betri aðferðir en fulltrúalýðræði til að ráða málum til lykta. Popúlisminn og öfgahreyfingar héldust hönd í hönd að grafa undan lýðræðinu.

Ísland fór á mis við lexíu Vestur-Evrópu á fyrri hluta síðustu aldar. Líklega er það helsta ástæðan fyrir því að Píratar, sem eru alþjóðleg stjórnmálahreyfing, nær hvergi fylgi nema einmitt á Íslandi. 


mbl.is Of fráleitt til að móðgast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar og hrár þjóðarvilji

Í forystu Sjálfstæðisflokksins vex þerri hugmynd ásmegin að til að ná kjósendum á sitt band verði flokkurinn að færast nær Pírötum í skoðunum. Bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins tala í þessa átt að undanförnu.

Um þessa stefnubreytingu er það að segja að Píratar eru ekki með nein málefni önnur en þau að vísa öllum helstu málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú stefna virkar fyrir Pírata enda auglýsa þeir sig sem uppreisnarafl gegn málefnum. Píratar eru flokkur hins hráa þjóðarvilja.

Í pólitískum annálum vesturlanda er ákall um hráan þjóðarvilja fylgifiskur upplausnarástands. Þegar konungsríkið Frakkland stóð á barmi byltingar kynnti Rousseau hugmyndina um almannavilja. Eftir hrun þýska keisaradæmisins kom til sögunnar austurríkisfæddur liðþjálfi og boðaði ,,ein Volk, ein Reich". Áhangendur þjóðarvilja láta þess sjaldnast getið, þegar þeir vinna málstaðnum fylgi, að einhver þarf að framkvæma þjóðarviljann. Þegar fólk vaknar upp við þann vonda draum að hafa valið sér yfirvald til að hrinda almannaviljanum í framkvæmd er of seint gripið í rassinn gripið. Í tilfelli Þjóðverja fengu þeir vanheilaga þrenningu ,,ein Volk, ein Reich, ein Führer."

Píratar geta leyft sér ákall til þjóðarvilja vegna þess að þeir eru pólitískt hreinir sveinar. Alveg eins og Dolli í Bæjaralandi eftir fyrra stríð. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hreinn pólitískur sveinn. Flokkurinn er móðurflokkur íslenskra stjórnmála og veitti þjóðinni málefnalega kjölfestu alla lýðveldissöguna.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn tæki upp á því að boða þjóðaratkvæðagreiðslur um helstu mál jafngildir það yfirlýsingu um að flokkurinn standi ekki fyrir nein sérstök málefni. Flokkurinn byði sig fram til pólitískrar verktöku í þágu þjóðarvilja sem væri skilgreindur út í bæ. Aðeins tvær röklegar niðurstöður gætu komið út úr þessu ferli. Að Sjálfstæðisflokkurinn yrði safn skoðanalausra kjána annars vegar og hins vegar að flokkurinn yrði skálkaskjól fasista að framkvæma þjóðarviljann.

Einhver góðviljaður ætti að hnippa í Bjarna og Hönnu Birnu og segja þeim að hvorugt hlutverkið, kjána eða fasista, fari þeim ýkja vel.   

 


mbl.is Björt framtíð eykur fylgi sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband