Alþjóðleg vernd á Íslandi er mótsögn - blekkingariðja kerfisins

Hælisleitandi sem kemur til Íslands biður um hæli hér á landi en ekki á alþjóðlegu landssvæði. Hér gilda íslensk lög og þau eru sett í þágu þjóðarhagsmuna en ekki alþjóðlegra.

Hælisleitendur og flóttamenn eru af ýmsum útgáfum, t.d. pólitískir og efnahagslegir. Orðin sem notuð eru til að lýsa fólki með þennan bakgrunn eru gagnsæ og lýsandi.

Tilraunir kerfisins að búa til hugtök eins og ,,alþjóðlega vernd og um­sækj­anda um alþjóðlega vernd" eru til að slá ryki í augu almennings. Reynt er láta líta svo út að Ísland eigi skyldum að gegna að taka við þessum og hinum vegna alþjóðalegra skuldbindinga.

Höfundar þessarar tilraunar til að blekkja almenning ættu ekki að koma nálægt endurskoðun laga er ná til hælisleitenda og flóttamanna.


mbl.is Hætti að tala um hælisleitendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nám er ekki hraðferð í skóla

Íslensk unglingamenning gerir ráð fyrir að nám til stúdentsprófs taki fjögur til fimm ár. Á þessum tíma vinna unglingar gjarnan með skóla, bæði á sumrin og veturna.

Ráðherra menntamála ákvað að auka hraðann á unglingum í gegnum framhalsskólann. Skólastjórnendur voru flestir gagnrýnir og sömuleiðis þorri kennara. En ráðherra og ráðuneytisfólk þóttist vita betur.

Nemendur virðast sama sinnis og kennarar og skólastjórnendur, a.m.k. þegar þeir fá tækifæri að velja.

 


mbl.is Fáir völdu þriggja ára nám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar endurvekja frjálshyggjuna

84 píratar ákváðu að sjávarútvegsstefna flokksins skuli vera að bjóða út veiðiheimildir á Íslandsmiðum. Þetta er frjálshyggja í sinni tærustu mynd.

Nú virkaði frjálshyggjan ekkert sérstaklega vel á útrásárárum og endaði í hruni.

Ef það er svo að frjálshyggjan hafi slíka yfirburði þá hlýtur að vera sjálfsagt að beita henni á önnur svið samfélagsins. Við hljótum að sjá tillögur um að útboðsaðferðin verði notuð í menntamálum og við rekstur heilbrigðiskerfisins.

Skólar, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar hljóta að fara á uppboð til að kennarar og hjúkrunarfólk ákveði ,,sanngjarnan" kostnað samfélagsins í þessum rekstri.


Forsetinn Kári myndi breyta stjórnmálunum

Kári Stefánsson gæti orðið forseti lýðveldisins, fari svo að Ólafur Ragnar afþakki annað kjörtímabil sem hann þó er búinn að vinna vel fyrir.

Stjórnmálamenningin myndi breytast sjálfkrafa yrði Kári húsbóndi á Bessastöðum.

Með óútreiknanlegan Kára yfir höfði sér myndu stjórnmálamenn kappkosta að ná sem allra breiðustu samstöðu - annars gæti Kári tekið upp á því að synja frumvörpum staðfestingar unnvörpum. Þjóðin kynntist raðþjóðaratkvæðagreiðslum um stór mál og smá.

Stjórnmálastéttin myndi óðara girða sig í brók yrði Kári forseti.

 

 


mbl.is „Sjálfsmorðstilraun stjórnmálamanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsfundur í Berlín; ágústhræðsla Rússa

Stríðsfundur er í Berlín á morgun, þótt ekki sé hann auglýstur sem slíkur. Viðstaddir verða Merkel kanslari Þýskalands, Hollande Frakklandsforseti og sjálf stríðshetja Nató og ESB-sinna, Poroshenko forseti þess hluta Úkraínu sem lýtur stjórninni í Kiev.

Skrifstofa Poroshenko segir að öryggismál og aðlögun Úkraínu að ESB verði til umræðu. Í Úkraínu geisar stríð, sem lítið fer fyrir, á milli stjórnarhersins í Kiev og uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu, sem njóta stuðnings Rússa.

Í Rússlandi er til hugtak kennt við ágústhræðslu. Hræðslan er við ógnaratburði síðsumars sem draga dilk á eftir sér. Rússar töpuðu fyrri heimsstyrjöld við Tannenberg á austurvígstöðvunum í ágúst 1914. Þrem árum síðar voru afdrif hófsamra Rússa innsigluð, þegar Korinlov-uppreisnin, var brotin á bak aftur af rauðliðum. Sýndarréttarhöld Stalíns hófust í ágúst 1937; uppreisnin gegn Gorbatsjov var í ágúst 1991 og í sama mánuði árið 2008 blossaði upp stríð milli Georgíu og Rússlands.

Rússneska fréttastofan TASS segir að bæði Pútín forseti og Medvedev forsætisráðherra eru á Krím um helgina til að minnast fallinna hermanna í Krímstríðinu á 19. öld og í seinni heimsstyrjöld. Í Krímstríðinu áttu Rússar í höggi við þrjú núverandi Nató-ríki; Bretland, Frakkland og Tyrkland. Í seinna stríði herjuðu tvö Nató-ríki á Rússa, Þýskaland og Ítalía.

Pútín og Medvedev eru í Krím til að róa landa sína, segja þeim að rússnesk yfirvöld munu ekki láta Nató-ríkin og skjólstæðinga þeirra í Úkraínu taka sig í bólinu.

Nató- og ESB-sinnar reyna ítrekað að setja Úkraínu-stríðið á svið sem baráttu vestrænna þjóða við rússneska ógn. Almenningur þarna fyrir austan er ekki á sama máli. Einhvers staðar á bilinu 1,5 til 3 milljónir íbúa Úkraínu eru flúnir til Rússlands í leit að betra lífi. Ef Rússland væri undir járnhæl voðalegra manna er óhugsandi að milljónir flyttu þangað af sjálfsdáðun. Þessir þjóðflutningar fá litla umfjöllun. Vestrænir miðlar eru upptekinar af nokkur hundruð þúsundum flóttamanna frá Mið-Austurlöndum sem ríða ESB á slig.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að stjórnin í Kiev styðjist við nýnasíska málaliða til að halda stöðu sinni í austurhluta landsins. Stjórnarherinn er of veikur og fáliðaður til að ráða við verkefnið. Þá eru fréttir af hryðjuverkum skjólstæðinga Nató-ríkja.

Í Úkraínu-stríðinu er að nafninu til í gildi friðarsamkomulag kennt við Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Þau Merkel og Hollande, fyrir hönd Nató-ríkja, stóðu að samkomulaginu ásamt Poroshenko Úkraínuforseta og þeim rússneska Pútin.

Pútín verður ekki á fundinum í Berlín á morgun. Það getur þýtt tvennt. Í fyrsta lagi að Nató-ríkin ætli að tilkynna stóraukinn stuðning við Kiev-stjórnina, sem yrði hvatning til ferkari hernaðaraðgerða. Í öðru lagi að evrópsku Nató-ríkin séu um það bil að gefast upp á Kiev-stjórninni og munu ekki auka stuðninginn enda er Úkraína ónýtt ríki í núverandi mynd og verður ekki bjargað.

Meiri líkur eru á því að evrópsku Nató-ríkin hafi komist að þeirri niðurstöðu að ævintýramennskan sem hófst snemmvetrar 2014, þegar réttkjörnum forseta Úkraínu var steypt af stóli með vestrænum stuðningi, sé ekki áhættunnar virði. Almenningur í Vestur-Evrópu er ekki líklegur að veita stuðning sinn við dýrt stríð og mannfrekt, sem eingöngu er til dýrðar ESB, samanber dagskrá fundarins á morgun um samþættingu ESB og Kiev-Úkraínu.

Það er sérstakur kapítuli hvers vegna í veröldinni Ísland er á lista þeirra ríkja sem styðja hernaðaraðgerðir Nató-ríkja í Úkraínu, sem ekki er aðildarríki Nató og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Ísland varð á sínum tíma aðildarríki Nató vegna þess að þetta var varnarbandalag vestrænna ríkja gegn útþenslu kommúnista.

Við erum orðin, án þess að nokkur umræða hafi farið fram um það, aðili að stríði í Úkraínu þar sem Nató og ESB stækka áhrifasvæði sitt á kostnað Rússlands, sem ekki er undir stjórn kommúnista heldur þjóðernissinna. Ólíkt kommúnisma er rússnesk þjóðernishyggja ekki útflutningsvara.


Björt framtíð styður ríkisstjórnina

Forystumenn Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson formaður og Róbert Marshall þingflokksformaður, viðurkenna að eiga ekkert erindi í stjórnmál með því að segja af sér forystuhlutverkum sínum.

Engu að síður ætla báðir að sitja áfram sem þingmenn og fá öruggar launagreiðslur þótt þeir séu misheppnaðir pólitíkusar að eigin mati. Á almennum vinnumarkaði tíðkast ekki að menn viðurkenna að þeir séu ónýtir starfskraftar en haldi engu að síður áfram störfum.

Þingmenn Bjartar framtíðar, einkum þó Róbert og Guðmundur, munu vitanlega verja ríkisstjórnina falli enda eru launagreiðslurnar fyrir bí verði kosningar. Birgitta Jónsdóttir pírati lék þann leik listavel síðasta kjörtímabil. Hún var erlendis löngum að safna ferðapunktum og sá til þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sig. sat út kjörtímabilið.

Birgitta var að vísu í betri samningsstöðu. Jóhönnustjórnin bjó ekki að starfhæfum meirihluta. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs er með traustan meirihluta. Guðmundur og Róbert kunna að selja sig. Þeir sátu um kjósendur í stórmörkuðum þegar þeir stofnuðu flokkinn; næsta þingvetur sitja þeir fyrir utan þingflokksherbergi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í von um brauðmola.

 


mbl.is Nauðsynleg hreinsun átti sér stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er ekki vinnubúðir; fólk er ekki hráefni

Fólk er ekki hráefni fyrir fyrirtæki að stunda rekstur. Þeir stjórnmálamenn sem líta svo á að efnahagskerfið sem upphaf og endir tilverunnar ættu að íhuga sinn gang.

Við erum með efnahags- og atvinnulíf til að þjóna almenningi. Ekki á hinn veginn að almenningur sé fóður fyrirtækja.

Af því leiðir þurfum við ekki að flytja inn einn einasta einstakling til starfa í lýðveldinu. Ef það er ofgnótt af störfum þá einfaldlega fækkum við þeim - og byrjum á því að fækka láglaunastörfum.

Heimaaldir stjórnmálamenn, sem ekki vilja læra af mistökum nágrannaþjóða okkar, sem fluttu inn vinnuafl í láglaunastörf, og bjuggu þar með til félagslega eymd og þjóðfélagslega ólgu tala ekki í þágu almannahagsmuna.


mbl.is Ísland vantar vinnandi hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandssvindlið og Zimbabwehagkerfið

Íslenska hrunið var afleiðing af hægripólitík sem komst í ógöngur græðginnar. Íslendingar tóku á hruninu með sínum hætti; gjaldþroti banka, stórfelldum inngripum ríkisins í atvinnulíf, gjaldeyrishöftum og saksókn gegn bankamönnum.

Íslenska hrunið var öðrum þræði alþjóðlegt. Viðbrögð erlendra seðlabanka við kreppunni sem gerði alvarlega við sig 2007/2008 voru að prenta peninga. Hugsunin var að peningaflæðið yrði til þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang, búa til störf. Eins og oft með fallegar hugsanir hafa þær leiðinlegar afleiðingar. Peningaprentunin jók efnahagslegt misrétti með því að þeir ríki  urðu ríkari og þeir fátækari fátækari, í það minnsta hlutfallslega.

En peningaprentunin gerði þó sitt gagn, hagvöxtur tók kipp í Bandaríkjunum, sem voru fyrst úti með stórfellt flæði peninga á núllvöxtur og hamlaði því að kreppan í Evrópu myndi dýpka.

Vinstripólitík er um það bil að taka peningaprentun upp á sína arma, en þó með þeirri breytingu að vinstriútgáfan á ekki að stuðla að auknu misrétti. Peningaprentun vinstrimanna skal var í þágu fólksins, ,,peoples QE" heitir það á máli heitasta vinstrimannsins, Jeremy Cobryn sem líkur standa til að verði næsti formaður Verkamannaflokksins.

Peningaflæði fólksins á að fara í stórfelldar framkvæmdir á vegum hins opinbera í stað þess að flæða í banka og fjármálastofnanir sem gera þá ríku ríkari.

Íslendingar vita af reynslu hvernig peningaprentun virkar, hún leiðir til verðbólgu. Vegna þeirrar reynslu gættum við okkur í viðbrögðum við hruninu að blása ekki lífi í verðbólgudrauginn.

Verði peningaprentun í þágu almennings viðurkennd kennisetning meðal vinstrimanna er stefnan tekin á Zimbabwehagkerfið, segir Jeremy Warner í Telegraph.


mbl.is Eitt stórt pýramídasvindl á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsvirðing Kára

Ísland á að leggja sjálfstætt mat á alþjóðamál og byggja utanríkisstefnu sína á því mati. Kári Stefánsson kallar það sjálfsvirðingu að þiggja matsgerðir frá Washington og Brussel um stöðu alþjóðamála.

Kári temur sér rússafóbíu, sem mjög er í tísku, og gengur út á að Pútín og félagar séu illa gerðir, og segir Rússa stefna að ,,heimsyfirráðum."

Það eru undarleg heimsyfirráð sem byrja á því að gefa frá sér, til ESB og Nató, nær alla Austur-Evrópu. Ef slík stefna væri ráðandi í Washington og Brussel þá væri ólíkt friðsælla í heiminum en raun er á.

Sjálfsvirðing Íslands er að leggja sjálfstætt mat á stöðu alþjóðamála. Það eykur ekki sjálfsvirðinguna að vera hlaupatík Washington og Brussel.

 


mbl.is Ylli meira tjóni en nemur Rússagullinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er sopið kálið

Ferðaþjónusta tók við sér svo um munaði þegar krónan féll í kjölfar hrunsins og Ísland varð samkeppnishæft ferðamannaland. Aðrir þættir hjálpa til, t.d. hagvöxtur í Bandaríkjunum og öldrun í Evrópu, sem þýðir að fleiri lífeyrisþegar eru á faraldsfæti utan sumaranna.

Ferðaþjónusta er að nokkru marki tíska og Íslandi tekst nokkuð vel að halda vinsældum sínum hjá þjóðin beggja vegna Atlantsála. En tíska breytist.

Norska krónan lækkar og gerir landið ódýrari en áður. Svæði í Vestur-Noregi og Lófóten gætu heillað erlenda ferðamenn, sem annars ættu leið hingað. Þá er allsendis óvíst að heimshagvöxturinn, knúinn áfram af Bandaríkjunum og Kína, sé til langframa.

Spá um langt vaxtarskeið byggðu á ferðaþjónustu er dálítið djörf.


mbl.is Langt vaxtarskeið er hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband