Jónas, Oddný og ástand Samfylkingar

Samfylkingin er eins og róni í vímualgleymi, skrifar Jónas Kristjánsson, um frjálshyggjudaður Samfylkingar sem oft er kennt við Tony Blair. Á Facebooksíðu Jónasar andmælir Oddný Harðardóttir fyrrverandi ráðherra og segir flokkinn ekki í greipum blairisma.

Í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki 2007 til 2009 gekk Samfylkingin iðulega lengra í átt frjálshyggju en almennir sjálfstæðismenn. Ráðherrar flokksins, Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson, gumuðu af því að vera félagar í breska Verkamannaflokknum, sem þá var undir stjórn Tony Blair. Varaformaður flokksins boðaði tvítyngda stjórnsýslu, þar sem enska skyldi jafnrétthá íslensku, til að mylja undir banka, erlenda fjárfestingu og sæstreng.

Samfylkingin var frjálshyggjuflokkur fram að hruni, reyndi að koma sér upp flokksauðmönnum s.s. Jóni Ásgeiri og Jóni Ólafs og talaði máli annarra auðmanna sem komust upp á kant við forystu Sjálfstæðisflokksins, t.d. bankastjóra Kaupþings. Á landsfundi Samfylkingar 2003 var enn annar auðmaður, Björgólfur Guðmundsson, eigandi Landsbankans, fenginn í málstofu að ræða útrás íslensks atvinnulífs.

Eftir hrun söðlaði Samfylkingin um og talaði í eitt kjörtímabil fyrir þjóðnýtingu náttúruauðlinda eins og vinstriflokkum er tamt.

Fylgi Samfylkingar hrundi frá 2009, þegar flokkurinn fékk tæp 30 prósent fylgi, til 2013 þegar fylgið féll niður í 12,9 prósent. Kjósendur merktu ekki hjá Samfylkingu að þar væri einhver rauður þráður málefna og sjónarmiða sem hægt væri að treysta. Samfylkingin var eitt í dag og eitthvað allt annað á morgun.

Stóra mál Samfylkingar, ESB-umsóknin, átti að breiða yfir þá náttúru flokksins að bera kápuna á báðum öxlum. En jafnvel það klúðraðist í höndum flokksins með því að umsóknin var sett á ís með formlegri ríkisstjórnarsamþykkt veturinn fyrir kosningarnar 2013. ESB-umsóknin var ekki, þegar á reyndi, það prinsippmál sem Samfylkingin skyldi verja fram í rauðan dauðann.

Samfylkingin var í ríkisstjórn samfleytt frá 2007 til 2013. Á þeim tíma var flokkurinn ýmist frjálshyggjusinnaður eða með þjóðnýtingaráform, líkt og róttækir vinstriflokkar í Evrópu fyrir hálfri öld.

Flokkur sem tekur pólitísk heljarstökk á skömmum tíma getur ekki búist við trausti kjósenda. Samfylkingin skilur ekki þau nauðaeinföldu sannindi að nokkur munur er á frjálshyggju og ríkisvæðingu. Ástandið í Samfylkingu er einmitt þetta: valdavíman 2007 til 2013 gerði flokkinn að pólitískum róna. 


Ísland á ekki aðild að Úkraínudeilunni

Evrópusambandið ásamt Bandaríkjunum og Nató eru í landvinningaleiðangri í Úkraínu og hittu þar fyrir Rússa. Vestur-Evrópuríkin Þjóðverjar og Frakkar hófu árásarstríð gegn Rússum á 19. og 20. öld.

Undir stjórn ESB yrði Úkraína fleygur inn í Rússland og er veruleg ógn við öryggishagsmuni Rússa. Hér er um að ræða dæmigerða valdastreitu stórvelda. Hyggilegast er fyrir smáþjóðir að skipta sér ekki af enda ekki í húfi alþjóðareglur um fullveldi þjóða.

Ísland á ekki aðild að Úkraínudeilunni og ætti ekki að skipa sér þar í flokk.


mbl.is Eigum ekki í prívat útistöðum við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skömm Hallgerðar, Guðni og Freud

Hallgerður er bók eftir Guðna Ágústsson um aðra af tveim alræmdustu kvenpersónum Íslendingasagna, ásamt Guðrún Ósvífursdóttir úr Laxdælu. Báðar eru þær höfundar að drápi ástmanna sinna, Hallgerður Gunnars á Hlíðarenda og Guðrún Kjartans Ólafssonar. Gunnar og Kjartan voru hetjur sem féllu fyrir köldum kvennaráðum. Ættarbönd tengja sögurnar, Hallgerður er föðursystir Kjartans.

Laxdæla leggur á síðustu blaðsíðu Guðrúnu þau orð í munn 'þeim var ég verst, er ég unni mest' sem fara langt með að fyrirgefa henni ódæðið. Hallgerður langbrók fær engin slík orð í Njálu. Hennar síðustu eru ,,hirði ég aldrei, hvort þú ver þig lengur eða skemur" og dæmir þar hetjuna til dauða. Tengdamóðir Hallgerðar segir skömm hennar lengi uppi.

Bók Guðna er útskýring á skömm Hallgerðar. Að skilja er að fyrirgefa og málsbætur Hallgerðar eru slíkar, segir Guðni, að einhliða fordæming er ómakleg.

Hallgerður Guðna Ágústssonar verður fyrir mótlæti í æsku, líklega nauðgað af þræl, gefin gömlum manni, sem þrællinn drepur, fær annan mann sem einnig fellur fyrir þrælnum. Við svo búið sendir Hallgerður þrælinn, sem hún mögulega liggur undir af frjálsum vilja, í opinn dauðann til Hrúts frænda, sem sá þjófsaugun í ásjónu langbrókar þegar hún var barn. Eftir að hún tekur saman við Gunnar verður Hallgerður fyrir einelti af hálfu Bergþóru, konu Njáls, vinar Gunnars. Hallgerður og Berþóra drepa þræla hvor fyrir hinni en bændurnir friðmælast. Hallgerður staðfestir þjófseðlið, sem Hrútur frændi fann hjá henni ungri, lætur enn annan þræl stela mat, fær löðrung fyrir hjá Gunnari bónda sínum og styttist þá í fall hetjunnar.

Hallgerður Guðna er nútímakona sem herðist við hverja raun, lætur engan eiga inni hjá sér, samtímis sem hún er viðkvæm og duttlungafull. Hún gæti verið á alþingi í dag og kemur frænka Guðna í huga sem samjöfnuður.

Vandamálið við Hallgerði hans Guðna er stílbrotið þegar hún neitar Gunnari um lokk til að hann fái varið sig með boganum. Hallgerður elskar Gunnar, þrátt fyrir kinnhestinn, eða kannski vegna hans, og ætti ekki að óska sér dauða hans. Ef hún væri nútímakona.

Til að skilja Hallgerði þarf að leita í smiðju Sigmundar Freud sem skrifaði um mann og samfélag á fyrri hluta síðustu aldar. Undir oki siðmenningar segir frá tveim kröftum sem takast á um heimsyfirráðin í sál manna og samfélagi þeirra. Ástarfýsn og dauðahvöt eru í stöðugri baráttu en búa samt í nábýli.

Hrútur frændi segir samdrátt Hallgerðar og Gunnars ,,girndarráð" beggja og þar er ástarfýsninni lýst. Freud segir um samspil ástarfýsnar og dauðahvatar:

Það er í sadismanum sem okkur lánast að fá skýrasta innsýn í eðli hennar [dauðahvatarinnar] og tengsl við Eros [ástarfýsnina]. En það er þá, sem dauðahneigðin snýr markmiði ásthneigðar sér í hag, en fullnægir þó jafnframt kynhvötinni algerlega. En jafnvel þegar dauðahvötin sprettur upp óblönduð ástarmarkmiði og blind eyðingaröfl geysa fram, þá fer það ekki framhjá okkur að fullnægingu þeirrar hvatar fylgir óvenjumikil narkísk sæla. Það stafar af því að hún lætur gamlan almættisdraum sjálfsins rætast.

Hallgerður var stjórnsöm og ól með sér draum að ráða framvindu stórra mála. Sem kona gat hún ekki valdið vopni svo að nýttist en hún beitti þeim ráðum sem hún kunni, kvennleika, kænsku og kjafthætti. Hárlokkurinn sem hún neitaði Gunnari um á ögurstundu var áhrifaríkasta vopn andstæðinga hetjunnar.

Í hápunkti sögu Hallgerðar og Gunnars deyja þau bæði. Hann deyr karlmennskudauða en hún kvenlægum dauða, er skrifuð úr sögunni með þeim orðum tengdamóður sinnar um langa skömm. Gunnar deyr skjótt og skiur eftir sig orðstí sem aldrei gleymist. Þjóðin kepptist við að gleyma Hallgerði, eins og Guðni bendir á, með því að vera nísk á að gefa stúlkubörnum nafnið.

Skömm Hallgerðar er að hún gaf sig á vald dauðahvötinni til fullnægja almættisdraumi. Og kannski er þar einmitt komin holdi klædd nútímakonan sem vill standa jafnfætis körlum.  

 

 


Bloggfærslur 1. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband