Egill skuggastjórnandi sigar fjölmiðlum á Sjálfstæðisflokkinn

Egill Helgason er skuggastjórnandi fjölmiðla, samkvæmt því sem segir í fræðigrein Birgis Guðmundssonar í Stjórnmálum og stjórnsýlu.

Skuggastjórnandi setur valin viðfangsefni í brennidepil umræðunnar til að fjölmiðlar fylgi í humátt á eftir. Með því að móta sjónarhorn á fréttaumræðuna er búið að ákveða skilaboð fréttanna.

Skoðanamyndun af þessu tagi er lævís vegna þess að hún er ekki upp á yfirborðinu. Í grein Birgis viðurkenna viðmælendur hans skuggastjórnun Egils.

Nýtt dæmi er hvernig Egill sigar blaðamönnum á Sjálfstæðisflokkinn vegna Úkraínudeilunnar með skýrum skilaboðum um hvernig skuli ,,vinkla" fréttaflutninginn. Fyrsta setning skuggastjórnandans segir:

Um fátt er nú meira rætt en ringulreiðina sem ríkir varðandi utanríkismál innan Sjálfstæðisflokksins.

Þar með er tóninni sleginn og búið til sjónarhorn á fréttir um Úkraínudeiluna og hver áherslan skuli vera; ágreiningurinn í Sjálfstæðisflokknum. Gangi skuggastjórnunin fyrir sig eins og upp er lagt munu önnur sjórnarhorn víkja fyrir línu skuggastjórnandans.

 


Innviðir Grikklands verða þýskir

Þjóðverjar yfirtaka rekstur flugvalla í Grikklandi vegna þess að evran gerir Grikki sjálfa of fátæka að reka innviði landsins.

Útlendingar munu yfirtaka arðbærustu innviði Grikklands og reka á eigin forsendum.

Nýnýlenduvæðing myndi þetta heita í þriðja heiminum.


mbl.is Þjóðverjar taka við rekstri 14 flugvalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eygló með allskonar fyrir aumingja

Eygló Harðardóttir húsnæðisráðherra er með hugmyndir um ,,allskonar fyrir aumingja", segja Samtök leigjenda um fyrirhugaðar breytingar á húsaleigulögum.

,,Allskonar fyrir aumingja" er orðalag um vöggustofusamfélag þar sem ríkið stýrir smæstu málum þegnanna sem landið búa.

Rikisstjórnin ætti að láta það vera að auka vöggustofuvæðingu samfélagsins.

 


Er Pútín enn að berja eiginkonu sína?

Utanríkismál snúast ekki um einstaklinga heldur sambúð þjóðríkja. Sambúð þjóðríkja ræður stríði og friði en ekki hitt hvort einn þjóðarleiðtoginn sé geðþekkari en hinn.

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, býr að yfirgripsmikill þekkingu um alþjóðastjórnmál og er með alla burði til að greina flekaskil stórveldaátaka. En jafnvel hann fellur í þá gryfju að persónugera Úkraínudeiluna í Pútín og nánustu samverkamönnum hans. Björn vísar af heimasíðu sinni á ,,fréttaskýringu" sem hann sjálfur þýddi úr Radio Free Europw og birti á heimasíðu Varðbergs. Þegar maður eins og Björn leyfir sér utanríkispólitíska léttúð af þessu tagi er hætt við að ýmsir aðrir telji óhætt að þenja sig án þess að eiga innistæðu fyrir.

,,Fréttaskýringin" er eins og margar aðrar um að Pútín og valdastéttin í Moskvu séu svona og hinsegin en mest þó ómöguleg. Það stendur yfir skipuleg áróðursherferð sem byggir á formúlu kalda stríðsins sem lauk fyrir aldarfjórðungi. Maður, sem Björn Bjarnason virðir án efa, Georg Kennan, varaði sterklega við þegar núverandi stefna Nató-ríkja var mótuð - og hvílir á þeirri forsendu að Rússlandi stjórni voðalegir menn.

Í utanríkispólitísku samhengi er aukaatriði hvernig persóna Pútin er. Rétt eins og það var utanríkispólitískt smámál hvort Bill Clinton bandaríkjaforseti svæfi hjá lærlingi í Hvíta húsinu eða ekki.

Það er á hinn bóginn ekki aukaatriði að í Úkraínu, sem á landamæri að Rússlandi, eru núna hernaðarráðgjafar, bæði frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Það er gömul saga og ný að auðvelt er að hefja stríðsátök en fjarska erfitt að binda endi á þau.

Rússar líta svo á að þegar hermenn Nató eru komnir að þröskuldi föðurlandsins sé tilvist ríkisins ógnað. Enginn rússneskur leiðtogi getur liðið að Úkraína verði Nató-ríki. Alveg sama hvaða rússneskur forseti væri við völd þá myndi hann bregðast við með sambærilegum hætti og Kennedy bandaríkjaforseti árið 1962 í Kúbudeilunni. Hernaðarógn á bæjarhlaðinu má ekki líða.

Þegar eitt ríki byggir upp hernaðarmátt við landamæri annars ríkis er það yfirlýsing um óvináttu. Ef ríkið sem verður fyrir óvináttunni bregst ekki við er litið svo á að það þori ekki að verja sig. Í framhaldi gerir herskáa ríkið ýmsar kröfur á hendur huglausa ríkisins sem það síðarnefnda verður að sætta sig við enda búið að játa sig sigrað. Þetta er alþjóðastjórnmál 101 og er í gildi allar götur frá Pelópsskagastríðinu frá fimmtu öld fyrir Krist þegar Meleyingar stóðu frammi fyrir óvígum aþenskum her og voru spurðir hvort þeir vildu deyja eða lifa sem undirsátar Aþenu.

Úkraína er stórt land með um 43 milljónum íbúa. Rússar geta ekki lagt landið undir sig, til þess er það of víðlent og fjölmennt. En þeir geta séð til þess, og munu gera, að í Úkraínu verði til langs tíma borgarastyrjöld sem nú þegar hefur kostað 4500 mannslíf. Þegar borgarastyrjöld geisar í Úkraínu er engin leið fyrir Nató að smíða stöndugt ríki til að ógna öryggishagsmunum Rússlands. Rússar geta hvenær sem er bætt í mannskapinn sínum eigin hermönnum og kallað uppreisnarmen. Nató mun fyrr heldur en seinna standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort ekki eigi að senda fleiri hernaðarráðgjafa til Úkraínu að hressa upp á stjórnarherinn. Afleiðingin verður skelfileg fyrir óbreytta borgara, fyrir utan hættuna að úr verði stærsta styrjöld í Evrópu frá seinna stríði.

Pútín er á sjötugsaldri og hann mun eins við öll hrökkva upp af einn góðan veðurdag. Annar leiðtogi tekur við Rússlandi sem mun hugsa á sömu nótum um öryggishagsmuni ríkisins og Pútin.

En kannski mun Bjarmalandsför Nató heppnast, Pútin eða eftirmaður hans hrökklast frá völdum og einhver ráðþægur Bandaríkjunum og ESB fær völdin í Moskvu. Hvað er líklegt að gerist í framhaldinu? Hvað er það sem gerist þegar leppur erlends hervalds fær ríki til að stjórna? Hvað gerðist í Suður-Víetnam, hvað er að gerast í Afganistan og Írak? Jú, leppstjórnin ræður ekki við eitt eða neitt enda skortir hana lögmæti meðal íbúanna. Það ríkir stjórnleysi þar sem ólíkir hópar ota sínum tota með vopnum og sprengjuregni.

Rússland er kjarnorkuríki. Ef Nató tekst að valda stjórnleysi í víðáttumesta ríki jarðarinnar með eldflaugar er bera kjarnorkusprengjur spyrðu Íslendingar hvorki um makríl né heilsufar eiginkonu Pútíns. Þeir myndu spyrja um hlut íslenskra stjórnvalda í mestu utanríkispólitísku mistökum 21. aldarinnar.

 


mbl.is Notuðu rangar tölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband