Forsetinn Kári myndi breyta stjórnmálunum

Kári Stefánsson gæti orðið forseti lýðveldisins, fari svo að Ólafur Ragnar afþakki annað kjörtímabil sem hann þó er búinn að vinna vel fyrir.

Stjórnmálamenningin myndi breytast sjálfkrafa yrði Kári húsbóndi á Bessastöðum.

Með óútreiknanlegan Kára yfir höfði sér myndu stjórnmálamenn kappkosta að ná sem allra breiðustu samstöðu - annars gæti Kári tekið upp á því að synja frumvörpum staðfestingar unnvörpum. Þjóðin kynntist raðþjóðaratkvæðagreiðslum um stór mál og smá.

Stjórnmálastéttin myndi óðara girða sig í brók yrði Kári forseti.

 

 


mbl.is „Sjálfsmorðstilraun stjórnmálamanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsfundur í Berlín; ágústhræðsla Rússa

Stríðsfundur er í Berlín á morgun, þótt ekki sé hann auglýstur sem slíkur. Viðstaddir verða Merkel kanslari Þýskalands, Hollande Frakklandsforseti og sjálf stríðshetja Nató og ESB-sinna, Poroshenko forseti þess hluta Úkraínu sem lýtur stjórninni í Kiev.

Skrifstofa Poroshenko segir að öryggismál og aðlögun Úkraínu að ESB verði til umræðu. Í Úkraínu geisar stríð, sem lítið fer fyrir, á milli stjórnarhersins í Kiev og uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu, sem njóta stuðnings Rússa.

Í Rússlandi er til hugtak kennt við ágústhræðslu. Hræðslan er við ógnaratburði síðsumars sem draga dilk á eftir sér. Rússar töpuðu fyrri heimsstyrjöld við Tannenberg á austurvígstöðvunum í ágúst 1914. Þrem árum síðar voru afdrif hófsamra Rússa innsigluð, þegar Korinlov-uppreisnin, var brotin á bak aftur af rauðliðum. Sýndarréttarhöld Stalíns hófust í ágúst 1937; uppreisnin gegn Gorbatsjov var í ágúst 1991 og í sama mánuði árið 2008 blossaði upp stríð milli Georgíu og Rússlands.

Rússneska fréttastofan TASS segir að bæði Pútín forseti og Medvedev forsætisráðherra eru á Krím um helgina til að minnast fallinna hermanna í Krímstríðinu á 19. öld og í seinni heimsstyrjöld. Í Krímstríðinu áttu Rússar í höggi við þrjú núverandi Nató-ríki; Bretland, Frakkland og Tyrkland. Í seinna stríði herjuðu tvö Nató-ríki á Rússa, Þýskaland og Ítalía.

Pútín og Medvedev eru í Krím til að róa landa sína, segja þeim að rússnesk yfirvöld munu ekki láta Nató-ríkin og skjólstæðinga þeirra í Úkraínu taka sig í bólinu.

Nató- og ESB-sinnar reyna ítrekað að setja Úkraínu-stríðið á svið sem baráttu vestrænna þjóða við rússneska ógn. Almenningur þarna fyrir austan er ekki á sama máli. Einhvers staðar á bilinu 1,5 til 3 milljónir íbúa Úkraínu eru flúnir til Rússlands í leit að betra lífi. Ef Rússland væri undir járnhæl voðalegra manna er óhugsandi að milljónir flyttu þangað af sjálfsdáðun. Þessir þjóðflutningar fá litla umfjöllun. Vestrænir miðlar eru upptekinar af nokkur hundruð þúsundum flóttamanna frá Mið-Austurlöndum sem ríða ESB á slig.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að stjórnin í Kiev styðjist við nýnasíska málaliða til að halda stöðu sinni í austurhluta landsins. Stjórnarherinn er of veikur og fáliðaður til að ráða við verkefnið. Þá eru fréttir af hryðjuverkum skjólstæðinga Nató-ríkja.

Í Úkraínu-stríðinu er að nafninu til í gildi friðarsamkomulag kennt við Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Þau Merkel og Hollande, fyrir hönd Nató-ríkja, stóðu að samkomulaginu ásamt Poroshenko Úkraínuforseta og þeim rússneska Pútin.

Pútín verður ekki á fundinum í Berlín á morgun. Það getur þýtt tvennt. Í fyrsta lagi að Nató-ríkin ætli að tilkynna stóraukinn stuðning við Kiev-stjórnina, sem yrði hvatning til ferkari hernaðaraðgerða. Í öðru lagi að evrópsku Nató-ríkin séu um það bil að gefast upp á Kiev-stjórninni og munu ekki auka stuðninginn enda er Úkraína ónýtt ríki í núverandi mynd og verður ekki bjargað.

Meiri líkur eru á því að evrópsku Nató-ríkin hafi komist að þeirri niðurstöðu að ævintýramennskan sem hófst snemmvetrar 2014, þegar réttkjörnum forseta Úkraínu var steypt af stóli með vestrænum stuðningi, sé ekki áhættunnar virði. Almenningur í Vestur-Evrópu er ekki líklegur að veita stuðning sinn við dýrt stríð og mannfrekt, sem eingöngu er til dýrðar ESB, samanber dagskrá fundarins á morgun um samþættingu ESB og Kiev-Úkraínu.

Það er sérstakur kapítuli hvers vegna í veröldinni Ísland er á lista þeirra ríkja sem styðja hernaðaraðgerðir Nató-ríkja í Úkraínu, sem ekki er aðildarríki Nató og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Ísland varð á sínum tíma aðildarríki Nató vegna þess að þetta var varnarbandalag vestrænna ríkja gegn útþenslu kommúnista.

Við erum orðin, án þess að nokkur umræða hafi farið fram um það, aðili að stríði í Úkraínu þar sem Nató og ESB stækka áhrifasvæði sitt á kostnað Rússlands, sem ekki er undir stjórn kommúnista heldur þjóðernissinna. Ólíkt kommúnisma er rússnesk þjóðernishyggja ekki útflutningsvara.


Bloggfærslur 23. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband