Fjölmiðlanauðgun - hagsmunir hverra?

Nauðgun er glæpur gegn einstaklingi. Rannsókn á slíkum glæp fer ekki fram í fjölmiðlum heldur á vettvangi og stofnunum, þar sem heilbrigðistarfsfólk, lögregla og réttargæslumenn koma við sögu.

Réttarkerfið dæmir hvort tiltekin kynferðisleg samskipti fólks sé nauðgun. Málsmeðferðin í dómskerfinu er hlutlæg og formleg eins og vera ber í réttarríki.

Engin rök hafa komið fram í umræðunni, um hvort meint nauðgunartilfelli skuli rata í fjölmiðla nokkrum dögum fyrr eða síðar, sem renna stoðum undir þá kröfu fjölmiðla að þeir fái upplýsingar um meintar nauðganir um leið og þær berast á borð lögreglu. Á hinn bóginn eru ríkir rannsóknahagsmunir sem mæla með því að lögregla fái réttmætt svigrúm til að vinna sína vinnu án þess að vera í beinni útsendingu fjölmiðla.

Ef það er svo, sem sumir halda fram, að umræða um nauðganir sé í þágu fórnarlamba nauðgana, þá er ekkert sem bannar fórnarlömbum nauðgana, bæði meintra og dæmdra, að stíga fram, undir nafni eða í skjóli nafnleysis, og segja sína sögu. Fjölmiðlar birta slíkt efni reglulega.

Hlutverk lögreglu er fyrst og fremst að komast til botns í þeim málum sem berast inn á hennar borð. Hvort fjölmiðlar fái upplýsingar nokkrum dögum fyrr eða síðar er aukaatriði.


mbl.is Það hefði verið betra að bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víkingafræði á Íslandi

Víkingaöldin stóð frá um 800 til 1200 og heitir svo sökum þess að bændur á Norðurlöndum gerðu útrás í vestur, suður og austur. Þeir settust að þar sem áður var byggð, t.d. Írlandi, Englandi, Frakklandi, Eystrasaltslöndum og Rússlandi. Einnig náum þeir óbyggð lönd eins og Færeyjar, Ísland og Grænland.

Ritaðar heimildir um víkingaöldina eru mestar og bestar á íslensku.

Víkingafræði með íslenska sagnaarfinn sem undirstöðu ætti að kenna hér á landi.


mbl.is Bjóða upp á víkinganám í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagsauður, launaójöfnuður og pólitík

Bandaríkin gefa tóninn í pólitískri umræðu á vesturlöndum. Um aldamótin síðustu kom út bók þar í landi um hnignandi félagsauð. Bowling alone eftir Robert Putnam skóp fræðasmiðjur vestan hafs og austan um tapaða félagslega samkennd vestrænna samfélaga.

Fimmtán áður síðar er Putnam enn á ferðinni með pólitíska stefnubók, - um launaójöfnuð í þetta sinn. Bókin Our kids, the american dream in crisis gerir launaójöfnuð að samfélagsóvini númer eitt.

Kynningin á bókinni, bæði hjá Putnam sjálfum, og samstarfsmönnum hans ber öll einkenni þess að nú skal launaójöfnuður settur á pólitíska dagskrá.

Launaójöfnuður í Bandaríkjunum hólfar tekjuhópa í efnahagslegar stéttir. Himinn og haf skilur að efstu og neðstu stéttirnar. Annars staðar í heiminum, til dæmis á á Norðurlöndum, og Íslandi sérstaklega, er ekki sá launamunur að fólk skiptist í stéttir sem eiga nánast ekkert sameiginlegt. Framhaldskólakennari á Íslandi er í sama launaflokki og Meðal-Jóninn á ASÍ-taxta. Börn ófaglærðra ganga í sama skóla og börn prófessora hér á landi.

Engu að síður munum við heyra á næstunni margt um voðalegan skaða íslenskan sem hlýst af því að ekki séu allir með sömu launin. Bandaríkin vísa veginn í pólitískri umræðu og bylgjan um launaójöfnuðinn er rétt að rísa.


Bloggfærslur 4. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband