Jón Ásgeir: Davíð ofsækir mig ekki (lengur)

Jón Ásgeir Jóhannesson, kenndur við Baug, hélt því lengi fram að valdamesti maður landsins, Davíð Oddsson, sæti um sig og sigaði lögreglunni á Baug. Í áravís var það viðkvæði Jóns Ásgeirs að Davíð Oddsson væri fjandmaður sinn.

Nú ber svo við að Jón Ásgeir skrifar grein í blað sitt og kennir Davíð ekki um ófarir sínar heldur Hæstarétti Íslands.

Útspil fjölmiðlaauðmannsins hlýtur að teljast þroskamerki.


Illugi á framfæri Orku Energy

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra er á framfæri Orku Energy; þaðan fékk hann laun þegar hann var launalaus vegna hrunmála og Orka Energy bjargaði Illuga frá gjaldþroti með því að kaupa af honum íbúðina og leigja tilbaka.

Orka Energy stórgræðir á framfærslu menntamálaráðherra Íslands. Fyrirtækið sem starfar í útlöndum teflir fram ráðherra til að tryggja sér viðskiptasamninga. Illugi skipulagði ferð til Kína í þágu Orku og skreytti ferðina með nokkrum embættismönnum í undirstofnunum ráðuneytisins til að láta líta svo út að hér væri ekki ferð til að gjalda Orku Energy greiða.

Engin brýn ástæða var fyrir Kínaferð Illuga, önnur en hagsmunir Orku Energy. Ráðherra mátti sjálfur gerst vita um vanhæfi sitt gagnvart öllum málum sem snertu Orku Energy og átti að halda sér í mílu fjarlægð frá fyrirtækinu.

Hrunmálið sem gerði Illuga að próventukarli hjá Orku Energy var seta hans í Sjóð 9 hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Glitni. Það er sorrí saga um mann sem átti að vita betur.

Illugi heldur ekki máli sem ráðherra. Hann getur ekki þjónað almannahagsmunum þegar hann er ekki sinn eigin maður heldur annarra.


mbl.is Illugi þurfti að selja íbúðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkföll í sósíalisma og fasisma - og hamingjan

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins boðar sósíalískar lausnir í atvinnulífinu þar sem heildarsamtök atvinnurekenda og launþega ákveða í sameiningu launin í landinu.

Þegar frumlegasti hugsuðurinn á alþingi, Pétur Blöndal, dregur rökrétta ályktun af samfélagslegri ábyrgð stéttafélaga fær hann ásökun um fasisma.

Flestir vita um sögulegan skyldleika sósíalisma og fasisma. Hitler kallaði flokk sinn þjóðernissósíalista; Mússólíni var sósíalisti á yngri árum og Stalín nefndi sósíaldemókrata sósíalfasista.

Orð eins og sósíalismi og fasismi eru sögulega hlaðin og eftir því vandmeðfarin. Hitt er óumdeilt að samfélag okkar er þannig úr garði gert að við erum háð hvert öðru í meira mæli en löngum áður. Útivinnandi foreldrar er háð kennurum í leik- og grunnskólum, að þeir taki við börnunum fimm daga vikunnar; sjúklingar eru háðir hjúkrunarfólki og bændur dýralæknum. Svo dæmi séu tekin.

Þegar samfélag er jafn samfléttað og raun ber vitni er vafasamt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að tilteknir hópar eigi skilyrðislausan verkfallsrétt til að beita gegn samborgurum sínum. Verkföll snúast iðulega um gíslatöku á almannahagsmunum og það er misbeiting á verkfallsréttinum.

Á meðan við pælum í eðli verkfalla og hvort skuli takmarka verkfallsréttinn í nafni samfélagsábyrgðar skulum við hugga okkur með því að við erum næst hamingjusamasta þjóð í heimi.


Grikklandsmánudagurinn nálgast; ásakanir um and-evrópsku

Grikkland skrapar botninn í leit að evrum að borga ríkisskuldir sem landið stendur ekki undir. Á fundi fjármálaráðherra evru-ríkja svaraði Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, spurningu fréttamanns um hvort áætlun væri til um Grexit, þ.e. að Grikkland færi úr evru-samstarfi: ,,ef ábyrgur aðili myndi segja já, slík áætlun væri til, þá vitum hvað myndi gerast," sagði sá þýski og vísaði til viðbragða markaða. Hann bætti við: ,,ef sá ábyrgi segði nei, þá vitum við að þið mynduð ekki trúa honum."

Á fundi fjármálaráðherrana á föstudag bar minna á viðtengingarhætti. Gríski fjármálaráðherrann, Varoufakis, var sakaður um kunnáttuleysi, að sólunda dýrmætum tíma og blekkingar.

Blaðamenn Die Welt segja niðurstöðu fjármálaráðherra evru-ríkjanna að unnið verði að Grexit. Samhliða útgönguáætlun fyrir Grikkland er vilji til að styrkja miðstýringu evru-svæðisins og koma í veg fyrir annað grískt ástand.

Áætlanir um aukna miðstýringu steyta á því skeri að enginn pólitískur vilji er í evru-ríkjunum að auka sameiginlega ábyrgð, t.d. með einum atvinnuleysissjóði fyrir allt evru-svæðið eða með útgáfu sameiginlegra evru-skuldabréfa.

Miðstýrt evru-fjármálaráðuneyti í Brussel, sem eingöngu væri með refsivald en ekki fjárráð til að miðla fjármunum á milli evru-ríkja, væri í reynd skattaeftirlit en ekki fjármálaráðuneyti.

Evrópusambandið stendur frammi fyrir djúpri gjá milli veruleika veiks evru-samstarfs og óskhyggju um að evru-ríkin höguðu sér eins og heildstætt þjóðríki.

Fjármálaráðherra Slóveníu spurði þann gríska Varoufakis á fundinum á föstudag hvort ekki skyldi unnið að varaáætlun, ef Grikkland yrði gjaldþrota. Svar Varoufakis var að ásaka slóvenska starfsbróður sinn um að vera ,,and-evrópskur."

Þegar raunsæi er orðið ,,and-evrópskt" er illa komið fyrir Evrópusambandinu.


mbl.is Ganga í sjóði opinberra stofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðmannaútgáfur, fækkun blaðamanna og gæðin

Björgólfur Guðmundsson átti Morgunblaðið, Jón Ásgeir Fréttablaðið og 365 miðla (og á enn) og Bakkavararbræður Viðskiptablaðið á tímum útráar fyrir hrun.

Blaðamannastéttin tútnaði út enda í mörg horn að líta í landi auðmanna. RÚV, sem fall af rekstri annarra miðla, bætti við sig fréttamönnum.

En svo sprakk stórabóla, auðmenn týndu tölunni og blaðamönnum fækkaði.

Áhöld eru um hvort högg sjái á vatni í gæðum fjölmiðlunar þótt blaða- og fréttamönnum fækki úr 300 í 240.


Haukur djöfullinn

Völd eru oftar tekin en fengin með góðu. Þeir sem hyggja á völd þar sem valdamenn eru fyrir eiga nærtækt ráð, aðra en beina atlögu að völdum, sem er að beita styrk sínum á minnimáttar öðrum til viðvörunar.

Þórður kakali Sighvatsson sigraði Brand Kolbeinsson í Haugsnesbardaga 1246. Þórður fór utan í framhaldi og setti vini sína og frændur yfir ríki sitt vestan lands og norðan. Hákon gamli Noregskonungur hélt Þórði í Noregi en sendi hingað út Þorgils skarða Böðvarsson að taka ríki Þórðar, stækka það og leggja undir konung.

Þorgíls skarði hélt fund með nokkrum mönnum Þórðar kakala skömmu eftir heimkomu. Ekki voru allir höfðingjar Sturlunga þar mættir, þá Hrafn Oddsson og Sturlu Þórðarson vantaði. Menn tóku treglega bréfum konungs, sem Þorgils lét lesa upp, án þess að afneita þeim með öllu, og vildu síður víkja frá ráðstöfunum Þórðar.

Í Þorgils sögu skarða tekur Haukur einn á Álftanesi til máls. Ekki er getið um eftirnafn Hauks sem í ættarsögu telst yfirlýsing um ómerking. ,,Það er mín tillaga að unna engis máls á fyrr um hérað en Hrafn og Sturla eru við."

Þorgils var fundurinn mótdrægur enda höfðingjarnir fastheldnir á völdin. Hann grípur tækifærið þegar auminginn Haukur sletti sér í málefni valdamanna og segir honum ekki koma við umræðan. ,,Munu þín orð um hér engis metin en eigi örvænt að menn muni þínar tillögur."

Fundurinn var í ágúst. Í október ríður Þorgils ofan á Álftanes. Á bæjarhlaðinu spyr hann ,,hvar er Haukur djöfullinn?" um leið og hann lemur á manni sem hann hittir fyrst fyrir.

Haukur kemst til kirkju og eiginkonan biður honum griða. Þorgils krefst sjálfdæmis sem hann og fær. Hann dvelur nóttina á Álftanesi. Um morguninn ávarpar hann Gró húsfreyju, segir að sættin skuli ekki vera ,,nauðung" og lætur þau hjón ákveða hæfilegar bætur.

Haukur og Gró gefa Þorgils matvæli og persónulega muni, exi og skrauthring á fingur. Með því að afsala sér persónulegum munum afsakaði Haukur sig frá framhleypninni á fundinum í ágúst og viðurkennir smæð sína andspænis Þorgils.

Þorgils gat sér orð fyrir hörku og málafylgju, fékk ríki og varð vinsæll. Hann var mörgum harmadauði er hann tapaði líftórunni fyrir öðrum höfðingja. En það er jú saga Sturlungaaldar.


Yfirvofandi innrás og hrunið handan við hornið

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að haustið 1939 sáu embættismenn merki yfirvofandi þýskrar innrásar í Danmörku - um hálfu ári áður en hún var gerð. Upplýsingum þess efnis var komið til Íslands og stjórnvöld undirbjuggu að gera danska konungsvaldið innlent.

Allt gekk þetta eftir. Þjóðverjar réðust inn í Danmörku 9. apríl 1940. Daginn eftir var gengið frá því í Reykjavík hvernig skyldi fara með vald sem áður var hjá konungi.

Víkur nú sögunni til 21. mars 2006, tveimur og hálfu ári áður en íslenska bankakerfið hrundi. Þann dag kom um skýsla Danske Bank um fjármálakerfið á Íslandi. Fyrirsögnin er Iceland: Geysir Crisis.

Í skýrslunni er dregin upp skýr og svört mynd af stöðu fjármálafyrirtækja á Íslandi. Þar segir

We look at early warning indicators for financial crises and conclude that Iceland looks worse on almost all measures than Thailand did before its crisis in 1997, and only moderately more healthy than Turkey before its 2001 crisis.

Danirnir vita sem er að Íslendingum hættir til að bægja frá sér vondum tíðindum frá Kaupmannahöfn ef þau þjóna ekki íslenskum hagsmunum. Þeir undirstrika að hér sé ekki um að ræða danska greiningu á íslensku ástandi heldur eru þeir fleiri sem bera ugg í brjósti, m.a. Seðlabanki Íslands. Eða eins og segir í skýrslunni

We have long been sceptical about the sustainability of the Icelandic boom. And we have not been alone. Reports from the IMF and the OECD, as well as the Financial Stability report from the Sedlabanki (the Icelandic central bank), prepared in 2004 and 2005 all seemed wary of the situation. The imbalances have only grown worse since then.

Nú skyldi ætla að við skýra viðvörn um yfirvofandi hrun myndu íslensku bankarnir grípa til aðgerða sem dygðu til að halda sjó. En nei, ekkert slíkt var gert. Það voru hönnuð leiktjöld. Þykjustukuap Al Thani í Kaupþingi voru leiktjöld. Hlutabréfakaup Kaupþings banka í sjálfum sér voru leiktjöld.

Íslensk stjórnvöld voru tilbúin með neyðarráðstafanir í október 2008, þegar bankarnir hrundu, líkt og þau voru undirbúin innrás Þjóðverja í Danmörku vorið 1940.

Íslenskir bankamenn sem fengu skýrar viðvaranir tveimur og hálfu ári fyrir hrun gerðu ekkert nema að hanna leiktjöld til að mæta löngu fyrirséðri hættu.

Hvað hefur þjóðin gert til að verðskulda jafn voðalegt fólk og íslenska bankamenn?


mbl.is Tengingin við Hreiðar og Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði, siðastríð og valdaskak

Fráfarandi framkvæmdastjóri Nató og forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, stingur niður penna til að ræða Úkraínudeiluna. Fyrirsögnin er Siðastríð við Rússland.

Rasmussen hafnar alfarið að átökin um Úkraínu séu stórveldaátök Bandaríkjanna og Evrópusambandsins annars vegar og hins vegar Rússlands og ætti að skoða í landfræðilegu og sögulegu samhengi.

Nálgun Nató-mannsins er að stríðið við Rússland sé um siðagildi, sbr. fyrirsögnina. Hann segir Pútín reka þar austurfrá ,,fullveldislýðræði" sem kæfir frjáls skoðanaskipti og stýrir fjölmiðlum í þágu valdhafa.

Á móti fullveldislýðræði Rússa teflir Rasmussen fram vestrænu frjálslyndu lýðræði.

Hængurinn á málflutningi Rasmussen er einkum sá að Evrópusambandið, sem einn aðili Úkraínudeilunnar, stundar fullveldislýðræði, t.d. með því að láta þjóðir kjósa aftur ef þær kjósa rangt í fyrstu umferð. Írland hafnaði Lissabonsáttmálanum en var látið kjósa aftur. Þá er það ekki í samræmi við frjálslynt lýðræði að koma í veg fyrir að þjóðir kjósi um um sáttmála eins og þann sem kenndur er við Lissabon og stýrir verklagi Evrópusambandsins. Sum ESB-ríki eru heldur ekki fyrirmyndarríki lýðræðis, t.d. Ungverjaland. Ítalía, meðan Berlusconi naut við, var með fjölmiðlakerfi áþekkt því rússneska.

Lýðræði er rekið með ólíkum hætti á ólíkum stöðum. Það gildir bæði um Vestur-Evrópu innbyrðis og í samanburði milli fjarlægari lýðræðisríkja.

Tilraun Rasmussen til að klæða hefðbundið valdaskak stórvelda í siðgæðisbúning er ekki trúverðug.

 


Sálin hans Páls

Páll Skúlason er látinn. Páll stundaði heimspeki í landi með skamma hefð fyrir þeim fræðum sem Forn-Grikkir grundvölluðu. Heimspeki má bæði nota til að rýna og rífa niður kennisetningar sem og til að auka skilning mannsins á sjálfum sér og eftirsóknarverðu samfélagi. Páli var seinni tegund heimspekinnar tamari, að byggja upp.

Í kennslu tók hann dæmi af öðrum frumkvöðli mennta og fræða, Sigurjóni Björnssyni, sálfræðingi, sem nýkominn úr námi fékk spurninguna ,,hvað er sál?". Sigurjóni vafðist tunga um tönn og gárungarnir skeyttu á hann milliheitinu ,,sálarlausi." Enginn efast um sálina, sagði Páll, þótt við getum ekki auðveldlega skilgreint hana. Sama gildir um heimspeki.

Páli var heimspeki meira en fræðigrein. Hún var lífsháttur. Þegar hann hitti gamla nemendur spurði hann ,,hvað ertu að lesa?" til að fá pælingu sem gæti orðið upphaf samræðu.

Sálin hans Páls er orðinn hluti eilífðarumræðunnar.

Blessuð sé minning Páls Skúlasonar.  


Lorca var drepinn af mönnum Franco

Spænska skáldið Federico García Lorca var tekið af lífi án dóms og laga í upphafi spænsku borgarastyrjaldarinnar. Leynd hefur verið um örlög Lorca en nú hafa opinber skjöl, sem tekin voru saman á sjöunda áratug aldarinnar, sýnt fram á að fasistar, sem hershöfðinginn Franco leiddi, handtóku Lorca og tóku af lífi.

Guardian birtir frásögn af gögnunum sem voru tekin saman af lögregluyfirvöldum í Granada á sínum tíma.

Lorca var höfundur leikritanna Blóðbrúðkaups og Hún Bernhörðu Alba. Hann var sósíalisti og studdi spænska lýðveldið sem fasistar steyptu.

Lengi var þráttað um kringumstæður þess að Lorca var drepinn og látið að því liggja að hann hafi fallið í átökum. Ævisagnaritari Lorca segir gögnin, sem nú liggja frammi, sýna svo ekki verði um villst að fasistar handtóku Lorca og myrtu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband