Grikkland gjaldþrota á mánudag

Grikkland verður gjaldþrota á mánudag og líklegast samdægurs kveður landið evru-samstarfið. Jafnvel harðir ESB-sinnar vita að dagar Grikklands eru taldir. Opinberar skuldir eru ósjálfbærar og engar líkur að grískt efnahagslíf greiði skuldirnar hérna megin næstu aldamóta.

Spurningin er aðeins; á hvaða mánudegi gefst gríska Jóhönnustjórnin upp. Við þekkjum það á eigin skinni að vinstrimenn i ríkisstjórn halda endalaust í draumóra um að heimurinn bjargi þeim frá eigin heimsku. Heimurinn starfar ekki í þágu þeirra fávísu. Skuldadagar koma, fyrr en seinna.

Roger Bootle útskýrir á yfirvegaðan hátt hvers vegna Grikkland hlýtur að hrökkva úr evru-samstarfinu við gjaldþrot.

Íslenskir ESB-sinnar eiga nokkurt verkefni fyrir höndum að útskýra hvers vegna Evrópusambandið brýtur gegn þjóðarhagsmunum aðildarríkis og fleygir Grikkjum fyrir ljónin.

ESB-sinnar á Fróni halda þeirri firru á lofti að Evrópusambandið gangi aldrei á þjóðarhagsmuni aðildarríkja sinna.

Við skulum sjá til, einhvern næsta mánudaginn, hvernig þjóðarhagsmunum Grikkja er best borgið með evru og í Evrópusambandinu.


Samherji og HB Grandi; verkföll í borg og landsbyggð

Þau orð Björns Snæbjörnssonar formanns Starfsgreinasambandsins að Samherji láti starfsmenn fyrirtækisins njóta velgengninnar en HB Grandi ekki vekja ahygli á þeirri staðreynd að verkfallsdeilurnar sem nú standa yfir eru tvíþættar.

Öðrum þræði snúast þær um sanngjarna skiptingu rekstrarafkomu fyrirtækja milli fjármagnseigenda og launþega. Hinum þræðinum eru verkföll háð vegna reiði sem tilfinningin um að vera snuðaður vekur.

Samherji er landsbyggðarfyrirtæki og hefur tekist að virkja starfsmenn með sér. HB Grandi er höfðuborgarfyrirtæki sem ekki er í sömu tengslum við starfsfólkið.

Það er verkefni stjórnenda fyrirtækja annars vegar og hins vegar forystu verkalýðsfélaga að vinna saman að því að laga sambúð fyrirtækja og launþega.


mbl.is „Þessi aðgerð efldi okkar fólk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagafjörður, Úkraína og brotin valdakerfi

Í dag eru 769 ár frá Haugsnesbardaga, blóðugustu orustu Sturlungaaldar. Þórður Sighvatsson sigraði Brand Kolbeinsson og réð þar með yfir Norðurlandi öllu ásamt Vesturlandi. Skagafjörður var á Sturlungaöld það sem Úkraína er í dag, vettvangur þar sem örlög brotins valdakerfis ráðast.

Haugsnesbardagi varð á miðri Sturlungaöld en það er 40 ára tímabil, 1220 til 1264, sem markar endalok valdakerfis þjóðveldisaldar sem stóð i 300 ár. Önnur orusta í Skagafirði, Örlygsstaðabardagi, gerði úti um vonir Sturlunga að ná landsyfirráðum. Enginn íslensku goðanna var í færum að koma á nýju valdakerfi. Tilgangslaus manndráp stóðu yfir í áratugi áður en yfir lauk.  

Engin einhlít skýring er á því hvers vegna goðakerfið liðaðist í sundur. Innlendar ástæður, s.s. valdabarátta höfðingja, og erlendar, ásælni Noregskonungs, voru meginskýringar en þær eru hvergi nærri tæmandi. Valdakerfi verða til undir ákveðnum kringumstæðum, í okkar tilfelli þegar Ísland var fullbyggt, og þau halda velli uns sagan úrskurðar þau úrelt.  

Valdakerfið í Evrópu er 70 ára gamalt, varð til eftir lok seinni heimsstyrjaldar, þegar sigurvegararnir, Bandaríkin og Sovétríkin, skiptu með sér álfunni.

Valdakerfi Evrópu stóð af sér hrun Sovétríkjanna fyrir aldarfjórðungi. Þrjú öfl þrengdu sér inn í valdatómið sem Sovétríkin skildu eftir; Bandaríkin, Evrópusambandið og Rússland. Valdaöflin þrjú eru hver með sína skoðun á skipan mála á meginlandi Evrópu og það er undirrót átakanna.

Úkraína er, eins og Skagafjörður á Sturlungaöld, miðlægt svæði. Veldi Sturlunga voru vestan og austan Skagafjarðar en Haukdæla fyrir sunnan. Úkraína er á milli Evrópusambandsins og Rússlands.

Vegna miðlægrar legu er Úkraína kjörlendi uppgjörs brotins valdakerfis. Landið er vettvangurinn þar sem blóðsúthellingar ákveða framtíð álfunnar. Líkur eru meiri en minni að baráttan dragist á langinn og tvísýnt er að það takist að halda átökunum innan landamæra Úkraínu. 

 

 


mbl.is „Af Rússlandi stafar ógn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband