Haukur djöfullinn

Völd eru oftar tekin en fengin með góðu. Þeir sem hyggja á völd þar sem valdamenn eru fyrir eiga nærtækt ráð, aðra en beina atlögu að völdum, sem er að beita styrk sínum á minnimáttar öðrum til viðvörunar.

Þórður kakali Sighvatsson sigraði Brand Kolbeinsson í Haugsnesbardaga 1246. Þórður fór utan í framhaldi og setti vini sína og frændur yfir ríki sitt vestan lands og norðan. Hákon gamli Noregskonungur hélt Þórði í Noregi en sendi hingað út Þorgils skarða Böðvarsson að taka ríki Þórðar, stækka það og leggja undir konung.

Þorgíls skarði hélt fund með nokkrum mönnum Þórðar kakala skömmu eftir heimkomu. Ekki voru allir höfðingjar Sturlunga þar mættir, þá Hrafn Oddsson og Sturlu Þórðarson vantaði. Menn tóku treglega bréfum konungs, sem Þorgils lét lesa upp, án þess að afneita þeim með öllu, og vildu síður víkja frá ráðstöfunum Þórðar.

Í Þorgils sögu skarða tekur Haukur einn á Álftanesi til máls. Ekki er getið um eftirnafn Hauks sem í ættarsögu telst yfirlýsing um ómerking. ,,Það er mín tillaga að unna engis máls á fyrr um hérað en Hrafn og Sturla eru við."

Þorgils var fundurinn mótdrægur enda höfðingjarnir fastheldnir á völdin. Hann grípur tækifærið þegar auminginn Haukur sletti sér í málefni valdamanna og segir honum ekki koma við umræðan. ,,Munu þín orð um hér engis metin en eigi örvænt að menn muni þínar tillögur."

Fundurinn var í ágúst. Í október ríður Þorgils ofan á Álftanes. Á bæjarhlaðinu spyr hann ,,hvar er Haukur djöfullinn?" um leið og hann lemur á manni sem hann hittir fyrst fyrir.

Haukur kemst til kirkju og eiginkonan biður honum griða. Þorgils krefst sjálfdæmis sem hann og fær. Hann dvelur nóttina á Álftanesi. Um morguninn ávarpar hann Gró húsfreyju, segir að sættin skuli ekki vera ,,nauðung" og lætur þau hjón ákveða hæfilegar bætur.

Haukur og Gró gefa Þorgils matvæli og persónulega muni, exi og skrauthring á fingur. Með því að afsala sér persónulegum munum afsakaði Haukur sig frá framhleypninni á fundinum í ágúst og viðurkennir smæð sína andspænis Þorgils.

Þorgils gat sér orð fyrir hörku og málafylgju, fékk ríki og varð vinsæll. Hann var mörgum harmadauði er hann tapaði líftórunni fyrir öðrum höfðingja. En það er jú saga Sturlungaaldar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir hressilegan og þjóðlegan pistil.

Wilhelm Emilsson, 25.4.2015 kl. 19:12

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Þá má varla á milli sjá hvor er meiri drullusokkur Þorgils Skarði eða Þorvaldur Þórarinsson. Það vill svona kóna enginn til höfðingja yfir sér sakir heimsku þeirra.

Halldór Jónsson, 26.4.2015 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband