Ríkisstjórnin opnar ekki á verðbólgu - punktur

Staðfesta ríkisstjórnarinnar að gera ekki kjarasamninga sem hleypa verðbólgunni skilar árangri þegar frá líður, þótt nú sé gert hróp að stjórninni, m.a. með raðfréttum almannatengla verkalýðsfélaga í RÚV.

Það má vel vera að opinberir starfsmenn þurfi nokkrar vikur eða mánuði að skilja að verðbólgusamningar eru ekki í boði en þá verður svo að vera.

Þegar kjörtímabilið verður gert upp verður spurt um staðfestu á óvissutímum. Núna eru slíkir tímar.


mbl.is Vita ekki fyrirfram hvað þarf til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór og íslenska hrokaheimskan

Í útrásinni var ásetningur stjórnvalda að Ísland yrði fastaríki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem stærri ákvarðanir heimsmála ráðast. Á svið viðskipta átti Ísland að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð.

Maðurinn sem er holdgervingur innistæðulausra draumóra um Ísland sem stórveldi í heimspólitík og alþjóðaviðskiptum er Halldór Ásgrímsson utanríkis- og forsætisráðherra á útrástíma. Hér er tilvitnun í Halldór sem varpar ljósi á íslenska hrokaheimsku

Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð," sagði Halldór í ræðu sinni. Sagði hann það tækifæri vera vegna þess að á Íslandi störfuðu kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hefðu kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda.

Þekktasti baráttumaður mannréttinda á seinni hluta 20stu aldar, Martin Lúther King, gerði orðin ,,ég á mér draum" ódauðleg. Að Halldór Ásgrímsson skuli nota nota sömu orð að lýsa íslenskri hrokaheimsku í sinni ömurlegustu mynd er handan þess að manni þyki það leitt. 

Þegar útlendingur segir okkur að ekki þýði að hugsa smátt rjúka halldórar landsins upp til handa og fóta og tala upphátt um stórveldið Ísland er gefi tóninn í heimsmálum og afl í alþjóðafjármálum.

Við hugsum stærst þegar við gætum þess vel sem okkur er treyst fyrir. Íslendingum er hvorki treyst fyrir heimsfriðnum né peningavaldi alþjóðasamfélagins. Okkur er treyst fyrir landinu sem við búum, arfi liðinna kynslóða og framtíð óborinna Íslendinga. Förum vel með allt þrennt. Þá erum við stór.  


mbl.is Þýðir ekki að hugsa smátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heildarhagsmunir í jafnlaunalandi

Ísland er jafnlaunaland, þótt ekki fái allir sömu laun. Jafnlaunaland erum við engu að síður þar sem launabil hæstu og lægstu launa er óvíða minna. Við kreppuna, þegar allir tekjuhópar þjóðfélagsins tóku á sig högg, var þess gætt að lægstu tekjuhóparnir yrðu fyrir sem minnstum skaða.

Samkvæmt greiningu Landsbankans vex kaupmáttur tekjulægstu hópanna hraðar en þeirra tekjuhærri. Það er staðfesting á ríkjandi jafnlaunahugsun.

Verkalýðshreyfingin, í gegnum eignarhald lífeyrissjóðanna, er í færum að viðhalda og tryggja framgang jafnlaunastefnunnar. En þá þarf verkalýðshreyfingin að vera ábyrg og horfa ekki til smáatriðanna heldur heildarhagsmuna.

Ýmis ummæli undanfarið, sem fallið hafa á vettvangi kjarabaráttunnar, eru til muna herskárri en ástæða er til. Launafólk á Íslandi býr við trygga atvinnu og vaxandi kaupmátt og er í öfundsverðri stöðu í samanburði við nærfellt öll Evrópulönd. Engu að síður er talað eins og hér sé staða launafólks ómöguleg. 

Útspil Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanns VR, um að gerður verði heildarkjarasamningur á vinnumarkaði er jákvætt skref í þá átt að þoka umræðunni í farveg sem veit á lausn en ekki deilur.

Heildarkjarasamningar byggðir á jafnlaunahugmyndafræði eru leiðin út úr verkfallsátökum síðustu vikna.


mbl.is Milljarðar í verkfallssjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband