Óli/Óli-málið og löggan hans Jóns Ásgeirs

Lögreglumaður hjá sérstökum saksóknara tók upp á því einn góðan veðurdag að vitna í þágu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem gjarnan er kenndur við Baug. Lögreglumaðurinn fann hjá sjálfum sér hvöt að bera sannleikanum vitni.

Vitnisburður lögreglumannsins er ómetanlegur í þágu málsvarnar Jóns Ásgeirs og var kynnt á forsíðu Fréttablaðsins. Óli/Óli-málið er einnig kynnt á forsíðu Fréttablaðsins til að veita öðrum auðmanni hjálparhönd.

,,Nú taka fjölmiðlarnir við," skrifaði ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins í leiðara í von um að lesendur væru ókunnugir þeirri staðreynd að Jón Ásgeir er eigandi blaðsins.

Auðmenn frá tímum útrásar eiga þeirra sameiginlegu hagsmuna að gæta að lenda ekki í fangelsi. Fjölmiðlar á vegum auðmanna sjá um að klæða þessa hagsmuni í trúverðugan búning lögreglumanna og lögfræðinga.


Hægrivelferð og ógnarvæntumþykja

Undirstöðuþættir velferðarsamfélagsins, að heilbrigðis- og menntamál skulu í meginatriðum vera á opinberum forræði, eru þverpólitískir. Hægrivelferð sem Íslendingar njóta byggir á hófsömu ríkisvaldi sem stuðlar að réttlæti og jafnrétti í samfélaginu en kæfir ekki einstaklinginn með alltumlykjandi ógnarvæntumþykju.

Hægrivelferð hafnar því að ríkið eigi að skaffa almenningi húsnæði. Það er ekki hlutverk ríkisins að ákveða hvernig fólk býr, þótt sjálfsagt sé að opinbert fé fari í að aðstoða þá sem höllustum fæti standa í húsnæðismálum. 

Ógnarvæntumþykja ríkisvalds þróast einatt þannig að ógnin vex en væntumþykjan minnkar.

Vinstrimenn eru sérfræðingar í ógnarvæntumþykju.

 

 

 

 


Pútín fyrirlítur Tsipras en er vinur hans

Svikin eru þegin með þökkum en svikarinn er fyrirlitinn. Á þessa leið teiknar þýska útgáfan Die Welt upp samskipti Tsipras forsætisráðherra Grikklands og Pútíns Rússlandsforseta. Fyrirsögn fréttarinnar er: Fyrirlitningin skín af andliti Pútíns.

Tsipras er í Moskvu til að sýna Evrópusambandinu fingurinn. Grikkland er gjaldþrota en vill nýjan björgunarpakka frá Brussel án íþyngjandi skilmála. ESB-ríkin telja tímabært að Grikkir uppfylli samninga sína um uppstokkun á opinberum rekstri.

Evrópusambandið er í viðskiptastríði við Rússa vegna Úkraínu-deilunnar. Að forsætisráðherra Grikklands skuli yfir höfuð fara til Rússlands er svik við samstöðu ESB-ríkja. De Welt tekur saman yfirlit yfir umfjöllun evrópskra fjölmiðla um heimsókn Tsipras með fyrirsögninni Nytsamur fábjáni.

Í Telegraph er haft eftir Tsipras að hann sé forsætisráðherra fullvalda ríkis og sé með fulla heimild til að móta utanríkisstefnu Grikklands samkvæmt því. Með slíkri yfirlýsingu grefur forsætisráðherrann undan tiltrú á Evrópusambandinu.

Pútin Rússlandsforseti má vel við una. Óvinir óvinanna eru vinir hans.

 


Ekki-umræðan um ESB

Evrópuumræðan á Íslandi er löngu hætt að snúast um kosti þess og galla að ganga í Evrópusambandið. Þeir sem mæla með inngöngu, ESB-sinnar, eru löngu hættir að ræða Evrópusambandið og hvað það stendur fyrir og framtíðarhorfur þess.

Nei, öll umræðan af hálfu ESB-sinna gengur út á að halda þjóðaratkvæði um ESB-málið. En það voru einmitt ESB-sinnar sem höfnuðu tillögu Sjálfstæðisflokksins 16. júlí 2009 um að þjóðin fengi að taka afstöðu til þess hvort sótt skyldi um aðild.

Rök ESB-sinna hafa verið þau að ekki væri hægt að taka afstöðu til ESB-aðildar fyrr en samningur lægi fyrir. Eftir að ESB-ferlið strandaði og afturköllun umsóknarinnar komst á dagskrá tóku ESB-sinnar að kyrja þann söng að þjóðin yrði að fá að segja sitt álit á málinu.

Þjóðin sagði sitt álit á málinu í þingkosningunum 2013 þegar eini ESB-flokkurinn, Samfylking, fékk 12,9 prósent fylgi. Þjóðin kaus til meirihluta á alþingi flokka sem eru með margsamþykktar ályktanir um að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.

ESB-sinnar munu halda áfram ekki-umræðunni um Evrópusambandið trúir þeirri hugsjón að betra sé að veifa röngu tré en öngvu.

 


mbl.is Fækkar sem vilja þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband