Auðmannaútgáfur, fækkun blaðamanna og gæðin

Björgólfur Guðmundsson átti Morgunblaðið, Jón Ásgeir Fréttablaðið og 365 miðla (og á enn) og Bakkavararbræður Viðskiptablaðið á tímum útráar fyrir hrun.

Blaðamannastéttin tútnaði út enda í mörg horn að líta í landi auðmanna. RÚV, sem fall af rekstri annarra miðla, bætti við sig fréttamönnum.

En svo sprakk stórabóla, auðmenn týndu tölunni og blaðamönnum fækkaði.

Áhöld eru um hvort högg sjái á vatni í gæðum fjölmiðlunar þótt blaða- og fréttamönnum fækki úr 300 í 240.


Haukur djöfullinn

Völd eru oftar tekin en fengin með góðu. Þeir sem hyggja á völd þar sem valdamenn eru fyrir eiga nærtækt ráð, aðra en beina atlögu að völdum, sem er að beita styrk sínum á minnimáttar öðrum til viðvörunar.

Þórður kakali Sighvatsson sigraði Brand Kolbeinsson í Haugsnesbardaga 1246. Þórður fór utan í framhaldi og setti vini sína og frændur yfir ríki sitt vestan lands og norðan. Hákon gamli Noregskonungur hélt Þórði í Noregi en sendi hingað út Þorgils skarða Böðvarsson að taka ríki Þórðar, stækka það og leggja undir konung.

Þorgíls skarði hélt fund með nokkrum mönnum Þórðar kakala skömmu eftir heimkomu. Ekki voru allir höfðingjar Sturlunga þar mættir, þá Hrafn Oddsson og Sturlu Þórðarson vantaði. Menn tóku treglega bréfum konungs, sem Þorgils lét lesa upp, án þess að afneita þeim með öllu, og vildu síður víkja frá ráðstöfunum Þórðar.

Í Þorgils sögu skarða tekur Haukur einn á Álftanesi til máls. Ekki er getið um eftirnafn Hauks sem í ættarsögu telst yfirlýsing um ómerking. ,,Það er mín tillaga að unna engis máls á fyrr um hérað en Hrafn og Sturla eru við."

Þorgils var fundurinn mótdrægur enda höfðingjarnir fastheldnir á völdin. Hann grípur tækifærið þegar auminginn Haukur sletti sér í málefni valdamanna og segir honum ekki koma við umræðan. ,,Munu þín orð um hér engis metin en eigi örvænt að menn muni þínar tillögur."

Fundurinn var í ágúst. Í október ríður Þorgils ofan á Álftanes. Á bæjarhlaðinu spyr hann ,,hvar er Haukur djöfullinn?" um leið og hann lemur á manni sem hann hittir fyrst fyrir.

Haukur kemst til kirkju og eiginkonan biður honum griða. Þorgils krefst sjálfdæmis sem hann og fær. Hann dvelur nóttina á Álftanesi. Um morguninn ávarpar hann Gró húsfreyju, segir að sættin skuli ekki vera ,,nauðung" og lætur þau hjón ákveða hæfilegar bætur.

Haukur og Gró gefa Þorgils matvæli og persónulega muni, exi og skrauthring á fingur. Með því að afsala sér persónulegum munum afsakaði Haukur sig frá framhleypninni á fundinum í ágúst og viðurkennir smæð sína andspænis Þorgils.

Þorgils gat sér orð fyrir hörku og málafylgju, fékk ríki og varð vinsæll. Hann var mörgum harmadauði er hann tapaði líftórunni fyrir öðrum höfðingja. En það er jú saga Sturlungaaldar.


Yfirvofandi innrás og hrunið handan við hornið

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að haustið 1939 sáu embættismenn merki yfirvofandi þýskrar innrásar í Danmörku - um hálfu ári áður en hún var gerð. Upplýsingum þess efnis var komið til Íslands og stjórnvöld undirbjuggu að gera danska konungsvaldið innlent.

Allt gekk þetta eftir. Þjóðverjar réðust inn í Danmörku 9. apríl 1940. Daginn eftir var gengið frá því í Reykjavík hvernig skyldi fara með vald sem áður var hjá konungi.

Víkur nú sögunni til 21. mars 2006, tveimur og hálfu ári áður en íslenska bankakerfið hrundi. Þann dag kom um skýsla Danske Bank um fjármálakerfið á Íslandi. Fyrirsögnin er Iceland: Geysir Crisis.

Í skýrslunni er dregin upp skýr og svört mynd af stöðu fjármálafyrirtækja á Íslandi. Þar segir

We look at early warning indicators for financial crises and conclude that Iceland looks worse on almost all measures than Thailand did before its crisis in 1997, and only moderately more healthy than Turkey before its 2001 crisis.

Danirnir vita sem er að Íslendingum hættir til að bægja frá sér vondum tíðindum frá Kaupmannahöfn ef þau þjóna ekki íslenskum hagsmunum. Þeir undirstrika að hér sé ekki um að ræða danska greiningu á íslensku ástandi heldur eru þeir fleiri sem bera ugg í brjósti, m.a. Seðlabanki Íslands. Eða eins og segir í skýrslunni

We have long been sceptical about the sustainability of the Icelandic boom. And we have not been alone. Reports from the IMF and the OECD, as well as the Financial Stability report from the Sedlabanki (the Icelandic central bank), prepared in 2004 and 2005 all seemed wary of the situation. The imbalances have only grown worse since then.

Nú skyldi ætla að við skýra viðvörn um yfirvofandi hrun myndu íslensku bankarnir grípa til aðgerða sem dygðu til að halda sjó. En nei, ekkert slíkt var gert. Það voru hönnuð leiktjöld. Þykjustukuap Al Thani í Kaupþingi voru leiktjöld. Hlutabréfakaup Kaupþings banka í sjálfum sér voru leiktjöld.

Íslensk stjórnvöld voru tilbúin með neyðarráðstafanir í október 2008, þegar bankarnir hrundu, líkt og þau voru undirbúin innrás Þjóðverja í Danmörku vorið 1940.

Íslenskir bankamenn sem fengu skýrar viðvaranir tveimur og hálfu ári fyrir hrun gerðu ekkert nema að hanna leiktjöld til að mæta löngu fyrirséðri hættu.

Hvað hefur þjóðin gert til að verðskulda jafn voðalegt fólk og íslenska bankamenn?


mbl.is Tengingin við Hreiðar og Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband