Helga Vala pantar falsfrétt um WOW

WOW fór í gjaldþrot vegna þess að tekjur félagsins stóðu ekki undir rekstri og skuldum. Hvert mannsbarn sem les fréttir veit þetta. Flestir eldri en tvævetra vita einnig að það er hvorki hlutverk ríkisins að stofna flugfélög né keyra þau í gjaldþrot.

Helga Vala þingmaður Samfylkingar pantar falsfrétt þegar hún biður um ,,skýra mynd af því hvað þeir lög­bundnu eft­ir­litsaðilar vissu og voru að gera í aðdrag­anda falls WOW air og hvort öll­um regl­um hafi verið fylgt."

Í WOW-gjaldþrotinu var þeirri meginreglu fylgt að einkafyrirtæki fór á hausinn þegar það átti ekki fyrir rekstri og skuldum. Allt annað er aukaatriði í málinu.

,,Skýr mynd" af falli WOW fæst ekki með opinberri skýrslu. Slík skýrsla yrði annað tveggja hvítþvottur eða ákæruskjal. Helga Vala hefur engan áhuga á sannleikanum um ris og fall WOW; hún er aðeins að fiska í gruggugu vatni í von um pólitískan ávinning.  


mbl.is Vilja úttekt á aðkomu að WOW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB býr til kjarnorkurafmagn á Íslandi

Á Íslandi er framleitt rafmagn úr kjarnorku og olíu, samkvæmt opinberum gögnum. Hvernig getur það verið? Jú, vegna þess að Ísland er hluti af orkusambandi ESB, sem býr til verslun með mengunarkvóta. RÚV-frétt með vísun í forstjóra Fjarðaráls útskýrir samhengið:

Íslensk raforkufyrirtæki hafa selt úr landi svokallaðar upprunaábyrgðir raforku, sem kalla má grænan stimpil. Árið 2017 átti þetta við um alla raforku til stóriðju og að hluta til annarra. Orkan sem notuð er hér er því ekki skráð endurnýjanleg eða umhverfisvæn á pappírum, heldur líkt og hún sé framleidd með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku. 

Íslensk orkufyrirtæki græða sem sagt á því að gera Ísland að orkusóða. Og orkufyrirtækin vilja innlima Ísland í orkusamband ESB með 3. orkupakkanum.

Við erum á síðasta sjens. Ef höfnum ekki 3. orkupakka ESB ræður heilbrigð skynsemi ekki lengur ferðinni í orkumálum okkar heldur tilbúinn heimur þar sem opinber gögn segja íslenskt rafmagn búið til úr kjarnorku og olíu.


Tvær forsendur fyrir fullvalda lýðveldi

Á tímamótum er litið um öxl og spurt um ástæður fyrir hvernig til tókst, hvort heldur það var vel eða illa. 75 ára lýðveldi er merkilegur áfangi og byggir á fullveldinu frá 1918 og heimstjórninni hálfum öðrum áratug áður. Tvær meginforsendur fullvalda lýðveldis eru þó eldri.

Sú fyrri var færð í letur á 13. öld af Snorra Sturlusyni, sem lagði orð í mun Þorgeirs Þorkelssonar er fór með Ljósvetningagoðorð þegar kristni var lögtekin.

„En nú þykkir mér þat ráð,“ kvað hann, „at vér látim ok eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, ok miðlum svá mál á milli þeira, at hvárirtveggju hafi nakkvat síns máls, ok höfum allir ein lög ok einn sið. Þat mun verða satt, er vér slítum í sundr lögin, at vér munum slíta ok friðinn.

Einn siður og ein lög er boðskapurinn. Lögin byggja á siðagildum, s.s. trú og menningu, er mynda þá samheldni sem þarf til að samfélag þrífist.

Seinni meginforsendan fyrir fullvalda lýðveldi er skráð í merkilegustu stjórnmálaritgerð á nýöld. Jón Sigurðsson skrifaði laust fyrir miðja 19. öld þegar Ísland laut dönskum yfirráðum. (Stafsetning færð til nútíma).

Á þessu yrði sami galli og nú er, og hefir lengi verið, að málefni Íslands er ekki stjórnað svo mjög eftir því sem Íslandi er hagkvæmast, einsog eftir því, hvernig öllu hagar til i Danmörku. Danmörk teymir Island eftir sér í bandi, og skammtar því réttindi, frelsi og menntun eftir því, sem henni þykir hagkvæmast og bezt við eiga. 

Ef við setjum ESB inn í texta Jóns í stað Danmörku má ljóst vera hve sígild ráðleggingin er. Forræði eigin mála er forsenda fyrir hagsæld. Jón sér einstaklinginn og daglega reynslu hans í samhengi við landsmálin. 

Flestir munu skilja af sjálfs síns reynslu, hversu nauðsynlegt er bæði að hver ábyrgist sjálfs síns verk, og svo hitt, að maður viti að hverjum aðgangurinn er. Þetta er ekki sízt nauðsynlegt í stjórnarmálefnum. 

Samantekin eru rök Jóns Sigurðssonar eftirfarandi. Framfarir verða ekki á Íslandi nema Íslendingar hafi forræði eigin mála. Einstaklingar verða að vita hver hin ábyrgu stjórnvöld eru og hafa að þeim aðgang. 

Snorri og Jón í hnotskurn: samheldni þjóðarinnar og innlend stjórn er lykillinn að farsæld. Eins og 75 ára lýðveldissaga ber ótvírætt með sér. 


mbl.is Hátíðardagskrá 17. júní um landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð Bandaríkjanna og Rússlands - landafræðin og kenningin

Kenning frá 19. öld mælir fyrir um stríð á milli Bandaríjanna og Rússlands. Nýleg útgáfa kenningarinnar er bók með lýsandi heiti, Hefnd landafræðinnar, eftir Robert D. Kaplan.

Í grófum dráttum gengur kenningin út á að samfellda landflæmið Evrópa-Asía krefst ráðandi miðlægs afls, rússneska keisaraveldisins frá 16. öld og kommúnista á 20. öld. Miðlæga aflið er nauðsynlegt til að halda jafnvægi og stöðugleika á kjarnasvæði landflæmisins. En um leið og jafnvægi og stöðugleiki er náð verður miðlæga aflið ógn við nágranna sína.

Eftir fall Sovétríkjanna brjótast út stríð á þessu svæði vegna skorts á miðlægu afli; í Téténíu, Georgíu og síðast Úkraínu. Rússland undir Pútín verður nýja miðlæga aflið og skapar festu. Sterkt Rússland þykir aftur ógn við Evrópu, Í valdamiðstöðum ESB-ríkja er stöðugur ótti um að Pútín sé með puttana í innanríkismálum Vestur-Evrópuríkja. Hræðslan nær til Bandaríkjanna, Trump er sagður hafa orðið forseti árið 2016 með stuðningi Pútín.

Landafræðikenningin um yfirvofandi stríð Bandaríkjanna og Rússlands gefur sér að Vestur-Evrópa verði hjálenda Rússlands - sem er svolítið langsótti - og ógni þar sem stöðu Bandaríkjanna.

Engu að síður er áhugavert að þrátt fyrir yfirlýstan áhuga Trump að vingast við Pútín kemur það fyrir lítið. Tortryggni einkennir samskipti stórveldanna.

Ef, umræðunnar vegna, það sé gefið að valdastreita aukist milli Bandaríkjanna og Rússlands þarf að gera ráð fyrir Kína í þeirri jöfnu. Kína er hvorki náttúrulegur bandamaður Bandaríkjanna né Rússlands. Trúlega þjónar það kínverskum hagsmunum að hæfileg tortryggni ríki á milli Rússlands og Bandaríkjanna án þess að til átaka komi. 

 


mbl.is Sakar New York Times um landráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð: forysta XD nennir ekki flokknum

Davíð Oddsson skefur ekki af því í Reykjavíkurbréfi dagsins. ,,Síðustu árin hefur virst að forystusveitinni [Sjálfstæðisflokksins]sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á landsfundum, því að ekkert þurfi með það að gera."

Önnur tilvitnun:

Nú þykir fínt að reynslulítið fólk, sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.

Vinnubrögðin eins og þau voru fyrr á tíð:

Þótt forystuliðið væri gott var það liðsheildin og baráttuvilji félaganna sem úrslitum réði. Sjálfstæði var tilvísunin og ekki fengin frá auglýsingastofum eins og nú tíðkast. Stjórnarsáttmálar voru samdir af leiðtogunum sjálfum með yfirlegu og samráði en ekki af pólitísku aðstoðarfólki á meðan aðrir átu vöfflur.

Myndin sem dregin er upp af forystu Sjálfstæðisflokksins er hún nenni ekki flokknum. Forystan lítur á almenna sjálfstæðismenn sem ómarktækt fólk með vesen, ef það jánkar ekki stefnumálum sem forystan tekur upp á í stjórnarráðinu en ganga þvert á samþykktir landsfundar, samanber 3. orkupakkann.

Svo er það ,,ættarvitinn" sem á frændfólk í forystu flokksins. ,,En best væri þó að skátarnir segðu honum [Halldóri Blöndal] að ættarvitar hafi aldrei náð nokkurri átt. Aldrei."

Þegar forystan nennir ekki flokknum styttist í að flokksmenn nenna ekki að púkka upp á forystuna. En áður en það gerist fær flokkurinn skell í kosningum. Þannig virkar pólitík. Innanmeinin eru afhjúpuð í kosningum.

 

 

 


Lífið er skoðun

Núvitund gerir það gott sem sjálfshjálp. Markmiðið er að líða vel í eigin skinni, njóta augnabliksins. Að borða eina súkkulaðirúsínu hægt í nokkrar mínútur er lærdómur í núvitund.

Á hinn bóginn, ef við sættumst við tilveruna eins og hún er þá hættum við að berjast fyrir betra lífi, látum okkur líða vel í hlekkjum og lifum ánægð með ömurleika allt í kringum okkur. Þannig gagnrýnir skríbent Guardian núvitundartískuna. Aðgerðasinnar ættu ekki að leggja lag sitt við tískuna að lifa í núinu, sáttir við menn og málefni. Það dregur úr ákefðinni að breyta heiminum.

Markús Árelíus keisari Rómar í den og höfundur Hugleiðinga, punkta sem hann skrifaði fyrir sjálfan sig og ætlaði ekki til birtingar, setti fram það sjónarmið að lífið væri skoðun. Ef manni finnst allt ómögulegt, nú þá blasir ömurleikinn einn við. Aftur, ef sjónarhornið er að lífið sé alveg sæmilegt og vel þess virði að því sé lifað er hætt við að sá sem þannig hugsar sé sáttur svona almennt og yfirleitt.

Vitanlega bjargar það ekki dauðvona gamalmenni að hafa þá skoðun að vera ungt og fílhraust. Skoðun, hver sem hún annars er, þarf að eiga samsvörun við veruleikann. En það er heilmikið til í þessu hjá heimspekikeisaranum, að lífið verður bærilegra með haldgóðum og jákvæðum skoðunum.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að tileinka okkur skoðanir sem vit er í. Það hljómar einfalt en er snúið í framkvæmd. 

 


Pirraðir þingmenn, er það frétt?

Maður spyr sig.


mbl.is „Orðnir langþreyttir og pirraðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðflokkurinn er farvegur fullveldisins

Einn þingflokka stendur Miðflokkurinn vaktina fyrir fullveldi þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum sínum. Æ fleiri sannfærast um að 3. orkupakkinn er úlfur í sauðagæru. Samþykkt orkupakkans fæli í sér að forræði þjóðarinnar í raforkumálum færi til Brussel.

Í dag skrifa fimm hæstaréttarlögmenn grein í Morgunblaðið sem vara við innleiðingu orkupakkans. Í vikunni gerði fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingar grein fyrir andstöðu við orkupakkanum í sama blaði með snjöllum rökstuðningi.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar er á móti orkupakkanum.

Miðflokkurinn sá til þess að umræðan héldi áfram þegar aðrir þingflokkar vildu ganga í ESB-takti fyrir björg og framselja yfirráðin yfir orku landsins til útlendra hagsmunasamtaka.

Orkupakkameirihluti alþingis er svo blindur á eigin flónsku að hann gerir samninga sín á milli um þingmál en heldur Miðflokknum, er talar fyrir meirihluta þjóðarinnar, utangarðs. Skilaboðin frá Austurvelli eru þau að Miðflokkinn þarf að efla til að þjóðin haldi fullveldinu. Og það styttist í kosningar. 

Það blasir við öllum nema orkupakkameirihlutanum á alþingi að eina skynsamlega ráðstöfunin er að taka 3. orkupakkann af dagskrá og fá undanþágu frá orkustefnu ESB. Rökin eru kristaltær: Ísland er ekki tengt orkukerfi Evrópu. Skýr fordæmi eru fyrir undanþágum á þessum grunni. Við tökum ekki upp lög og reglur um lestir og skipaskurði með sömu rökum.

Þjóðin þakkar Miðflokknum en orkupakkameirihlutinn á alþingi má vara sig.

 


mbl.is Undirritað samkomulag dugði ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logi enn í eineltinu

Formaður Samfylkingar, Logi Einarsson, stóð að ólögmætri uppsögn kennara á Akureyri, sem þótti hafa rangar skoðanir á samkynhneigð.

Aftur er runninn eineltishamur á Loga, sem vill útskúfa Miðflokkinn á alþingi fyrir ranga umræðu.

Logi notar sígilt bragð við eineltið, það eru ,,við 54 þingmenn" sem fordæmum 9 þingmenn Miðflokksins.

Síðast þegar að var gáð voru einir 7 þingflokkar á alþingi en ekki tveir eins og Logi vill vera láta; eineltisflokkurinn annars vegar og hins vegar Miðflokkurinn..


Eftirspurn er eftir falsfréttum

Að því marki sem falsfréttir eru ekki uppspuni frá rótum, sbr. Elvis lifir, heldur túlkun á atburðum líðandi stundar er eftirspurn eftir falsfréttum.

Fólk vill reglulega fá staðfestingu á eigin fordómum: Trump er vondur, veðurfar er manngert, konur eru fórnarlömb og svo framvegis.

Fréttir, ólíkt veðurfari, eru manngerðar. Þær eru skráðar með ákveðnu hugarfari og settar í samhengi. Vinstripólitískar fréttir fær maður á RÚV og Kjarnanum en hægripólitískar Evrópusinnaðar í Fréttablaðinu. Morgunblaðið hýsir blaðamenn sem bæði eru til hægri og vinstri; þess vegna skoðar maður alltaf hvaða blaðamaður skrifar tiltekna frétt þar á bæ.

Vitanlega eru til miðlar sem freista þess að gæta hlutlægni og sanngirni í öflun frétta og framsetningu þeirra. En þeir eru færri núna eftir að samkeppnin við samfélagsmiðla hófst.

Réttu viðbrögðin við falsfréttum eru ekki að reyna að kveða þær í kútinn, það er ekki hægt, heldur gera almenning meðvitaðan um hvernig fréttir verða til. Það er vel hægt.

 


mbl.is 86% láta blekkast af falsfréttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband