Heimurinn breyttist, en ekki Nató

Berlínarmúrinn féll 1989 og Sovétríkin tveim árum síðar; kommúnisminn dó. En Nató, stofnað um miðja síðustu öld til höfuðs útþenslu Sovétríkjanna, lifði áfram og þurfti ný verkefni.

Hernaðarbandalag eins og Nató þrífst ekki nema í viðsjárverðum heimi. Þegar friðvænlegra verður í heiminum gerir Nató sitt til að blása í glæður ófriðar. Tilvera Nató hvílir á ógn og ef ógnarástand er ekki fyrir hendi verður að búa það til.

Eftir fall Sovétríkjanna varð Nató verkfæri í útþenslupólitík Evrópusambandsins annars vegar og hins vegar Bandaríkjanna. ESB lagði undir sig Austur-Evrópu og hætti ekki fyrr en öryggishagsmunum Rússlands var ógnað nógu mikið til að stríð braust út í Úkraínu, sem enn er óleyst. Þar fékk Nató aukið vægi og hlutverk.

Bandaríkin notuðu friðinn eftir fall kommúnismans í verkefnið ,,breytum miðausturlöndum í vestrænar hjálendur." Innrásin í Írak 2003 var upphafið, síðar kom Sýrlands-stríðið og Líbýu-upplausnin. Auðvitað allt í nafni lýðræðis. Allt mistókst þetta en Nató var viljugt verkfæri.

Ísland á ekki annan kost en að vera í Nató. Þegar bandalagið var stofnað var ekki um annað að velja en taka þátt. Bein afleiðing af seinna stríði var að tvö hugmyndakerfi börðust um heimsyfirráð. Annað má kenna við vestrænt lýðræði en hitt var kommúnismi.

Eftir fall kommúnismans átti vitanlega að fylgja stefnu afvopnunar og bera virðingu fyrir gagnkvæmum öryggishagsmunum þjóðríkja. En það var ekki gert. Sigurvegarar kalda stríðsins, Bandaríkin og Vestur-Evrópa, ESB, kusu útþenslu og átök í stað samlyndis og friðar.

Áfram þarf Ísland að vera hluti af Nató. Engir aðrir raunhæfir kostir eru í boði. En það er engin ástæða til að líta svo á að Nató sé friðelskandi fyrirbæri. Raunsæi og heimska er sitthvað. 


mbl.is NATO breytist með heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð, Björn og tvær ólíkar útgáfur af frelsi

Davíð Oddsson og Björn Bjarnason ræða frelsið út frá EES-samningnum og þriðja orkupakkanum. Davíð skrifar í leiðara Morgunblaðsins í dag:

Nú er það raunar svo að orðið frjálslyndi er notað með misjöfnum hætti í umræðum um stjórnmál og því varla nothæft lengur. Stundum er átt við klassískt frjálslyndi, þar sem sá frjálslyndi styður frelsi einstaklingsins og vill hemja útþenslu og yfirgang ríkisins, en stundum er þvert á móti átt við vinstri stefnu þar sem hinn „frjálslyndi“ er hallur undir aukið ríkisvald og hefur takmarkaðar áhyggjur af því þó að það þrengi að einstaklingnum.

Í framhaldi ræðir Davíð gagnrýni Arnars Þórs Jónssonar á 3. orkupakkann sem skerðir frelsi Íslendinga til að fara með þá náttúruauðlind sem raforka verður til úr.

Björn Bjarnason skrifar sl. laugardag:

Á Morgunblaðinu er lýst efasemdum um frjáls viðskipti eins og þau þróast með EES-samningnum og hart barist gegn þriðja orkupakkanum. Þá sætir framganga Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans harðri gagnrýni.

Björn Bjarnason gefur sér að EES-samningurinn sé ,,frjáls viðskipti". Davíð Oddsson er aftur þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé til marks um vinstra ,,frjálslyndi" ríkisafskipta þar sem yfirþjóðlegt vald þrengir að fullveldi þjóða og sjálfræði einstaklinga.

Í áratugi eru þeir Davíð og Björn samherjar í pólitík og alltaf undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Frelsið er nafn á tímariti sem þeir báðir studdu með ráðum og dáð en Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritstýrði lengst af.

Umræðan um þriðja orkupakkann leiðir í ljós gagnólíkan skilning helstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins á frelsinu. Hér er komin skýringin á því hvers vegna það er Sjálfstæðisflokknum erfiðara en öðrum stjórnmálaflokkum að takast á við orkupakkann. Grundvallarmál er í húfi.

Frelsi er nátengt hugmyndinni um sjálfstæði og að einstaklingar og þjóðir hafi forræði eigin mála. Engin spurning er að þriðji orkupakkinn flytur úr landi hluta af fullveldi okkar. Ef við samþykkjum pakkann frá Brussel er skert frelsi okkar til að taka ákvarðanir um mikilvæga náttúruauðlind. Við eigum ekki að samþykkja þá frelsisskerðingu.

 


Tyrkjarán án Tyrkja; belgískur burstamaður á íslenska ábyrgð

Tyrkjaránið 1627 var án Tyrkja, það frömdu Norður-Afrískir Berbar ásamt evrópskum umskiptingum. Maðurinn sem móðgaði tyrkneska fótboltalandsliðið með uppþvottabursta reyndist Belgi en ekki Frónbúi.

Burstamálið verður engu að síður íslensk ábyrgð.

Sumt stendur eins og stafur á bók þótt varla sé fyrir því flugufótur.


mbl.is Maðurinn með burstann fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið, fullveldið og sagan

Frá hruninu 2008 hafa sex ríkisstjórnir setið stjórnarráðið. Fimm stjórnmálaflokkar náðu manni inn á alþingi 2007. Tíu árum síðar buðu 11 flokkar fram lista í þingkosningum og átta náðu fulltrúum inn á þing.

Samhliða fjölgun stjórnmálaflokka verður örari endurnýjun þingliðs og yngra fólk fær ábyrgðastöður. Þingið eftir kosningarnar árið 2016 var það yngsta í sögu lýðveldisins.

Pólitískur óstöðugleiki einkennir Ísland síðasta áratug. Ef allt hefði verið með felldu hefðu kosningar farið fram 2011, 2015 og aftur í sumar. En við kusum til þings árin 2009, 2013, 2015 og 2017.

Eftir hamfarir af mannavöldum, s.s. stríð, efnahagshrun og samfélagsátök, er algengt að stjórnkerfi þjóðríkja taki stakkaskiptum. Hrunið 2008 var ekki séríslenskt og pólitískur óstöðugleiki ekki bundinn við Ísland. Sigur Trump og enn frekar Brexit eru afleiðingar af fjármálakreppunni 2008.

Hrunið bjó til fyrstu hreinu vinstristjórn lýðveldissögunnar, Jóhönnustjórnina 2009-2013. Fullveldismál, þ.e. ESB-umsóknin, felldi þá stjórn með brauki og bramli.

Sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur braut í blað í lýðsveldissögunni með því að tveir flokkar sem ekki höfðu starfað saman frá 1946 fóru í eina sæng, Sjálfstæðisflokkur annars vegar og hins vegar Vinstri grænir/Alþýðubandalag/Sósíalistaflokkur.

Vonir stóðu til að stöðugleiki yrði meiri með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Þær hafa ekki gengið eftir nema að hluta. Þriðji orkupakkinn sýnir ótvírætt að fullveldismál, sem klufu nýsköpunarstjórnina 1946, eru enn eldfimasta deilumál íslenskra stjórnmála.

Með mörgum flokkum og óreyndu ungu fólki erum við ekkert sérstaklega vel undir það búin að leysa verkefnið sem stofnað var til á Þingvöllum 17. júní 1944.


Múslímskt réttlæti að taka barn af lífi

Opinberar aftökur tíðkast í Sádi-Arabíu til að halda þegnunum innan ramma laga og réttar. Aftökur á börnum eru viðvarandi, samkvæmt viðtengdri frétt. Sádí-Arabía er leiðandi múslímaríki og fjármagnar moskur á vesturlöndum sem kenna súnní-útgáfu af íslam.

Íran er öflugasta ríki shíta-múslíma. Þar lokuðu yfirvöld nýlega 547 skemmtistöðum þar sem ,,íslömsk gildi" voru ekki höfð í heiðri. Menningarglæpir eins og að leika bannaða tónlist og siðleysi sem felst í röngum klæðaburði fá refsingu í múslímaríkjum.

Allt eru þetta vel þekktar staðreyndir. Trúarmenning múslíma og réttarfar þeirra er gagnólíkt vestrænum gildum. Múslímar lifa í allt öðrum menningarheimi en vesturlandabúar.

Almennt er siðum og lögum sem á þeim byggja ætlað að gera samfélög starfhæf. Sádí-Arabía og Íran eru starfhæf samfélög. 

Tvær andstæðar ályktanir er hægt að draga. Í fyrsta lagi að trúarmenning múslíma sé frumstæð og verði að nútímavæða með góðu eða illu. Írak-stríðið 2003-2010 gefur ekki til kynna að sú leið sé heppileg. Í öðru lagi að leyfa múslímum að hafa sína hentisemi heima fyrir en takmarka með öllum tiltækum ráðum að trúarmenning þeirra festi rætur á vesturlöndum. Það er bæði gerlegt og skynsamlegt.

 

 


mbl.is Biðla til stjórnvalda í Sádi-Arabíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingaskiptin í Sjálfstæðisflokknum og þriðji hópurinn

Helmingaskiptin innan Sjálfstæðisflokksins eru sögulega á milli velferðarfrjálslyndra annars vegar og hins vegar viðskiptafrjálshyggjumanna. Þriðji hópurinn í flokknum átti aldrei aðild að helmingaskiptunum enda í grunninn hlynntur málamiðlunum.

Þriðji hópurinn er íhaldssamur í lífsviðhorfum, tregur til átaka en er fullveldi þjóðarinnar kært.

Velferðarfrjálslyndið og viðskiptafrjálshyggjan náðu saman um EES-samninginn sem framtíðarfyrirkomulag um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

Þegar það rann upp fyrir þriðja hópnum að EES-samningurinn felur í sér viðtækt framsal á fullveldi þjóðarinnar, eins og best sést á 3. orkupakkanum, snerist þriðji hópurinn gegn forystu flokksins.

Og nú logar móðurflokkur íslenskra stjórnmála stafnanna á milli. 


Sigurður Ingi malbikar með rafmagni

3. orkupakkinn er eins og malbik í frönsku Ölpunum, segir Sigurður Ingi formaður Framsóknar í örvæntingarfullri leit að réttlætingu fyrir framsali á náttúruauðlind Íslands til ESB.

Nærtækara væri fyrir Sigurð Inga að líkja rafmagni við kjöt. Þrátt fyrir sérstöðu Íslands í heilbrigði dýra má ekki leggja hömlur á innflutning á hráu kjöti. ESB notar EES-samninginn til að grafa undan hreinleika íslenskrar kjötframleiðslu.

Og fari svo hrapalega að alþingi samþykki 3. orkupakkann munu ESB-reglur gilda um framleiðslu og dreifingu rafmagns. Í framhaldi verður lagður sæstrengur.

Sigurður Ingi malbikar þá hálendi Íslands með evrópsku rafmagni.


mbl.is „Þér er ekki boðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gulli berst fyrir pólitísku lífi sínu - með þögninni

Guðlaugur utanríkis ber mestu ábyrgðina á klúðrinu með 3. orkupakkann. En í stað þess standa í brúnni felur ráðherra sig neðan þilja og lætur tvær konur taka ágjöfina, Þórdísi iðnaðarráðherra og Áslaugu Örnu.

Gulli er nokkuð slyngur að koma sér undan ábyrgð. Hann t.d. slapp við afleiðingarnar að vera á framfæri Baugs á tímum útrásar. 

En hvort það dugi til í þetta sinn að þegja sig frá ábyrgð á eftir að koma í ljós. 


Óheft flæði fullveldis úr landi

3. orkupakkinn tekur völdin af alþingi í raforkumálum þjóðarinnar og færir þau til Brussel. Ef alþingi samþykkir orkupakkann er ákvörðunarvald yfir virkjunum á Íslandi flutt til meginlands Evrópu.

Þjóð sem ekki ræður eigin náttúruauðlindum er komin í stöðu hjálendu. Útlent yfirvald setur aldrei hagsmuni hjálendunnar í forgang. Það leiðir af eðli málsins, útlenda yfirvaldinu eru einfaldlega aðrir hagsmunir kærari en hjálenduþjóðar.

Æ skýrara verður að þvílíkt feigðarflan það yrði að samþykkja þriðja orkupakka ESB. Miðflokkurinn er halreipi þjóðarinnar á alþingi.


mbl.is Verið að samþykkja óheft flæði raforku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn og Samfylking: kljúfum Sjálfstæðisflokkinn

Þingmenn Viðreisnar og Samfylkingar sjá tækifæri að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn með því að leggjast á sveif með forystu Sjálfstæðisflokksins og samþykkja 3. orkupakkann.

Almennir sjálfstæðismenn eru í miklum meirihluta á móti 3. orkupakkanum. Nú þegar er umræða um stofnun nýrrar stjórnmálahreyfingar til höfuðs orkupakkanum. Fyrir hafa þekktir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins lýst yfir tiltrú á Miðflokknum, sem einn flokka stendur gegn samþykkt orkupakkans á alþingi.

Forysta Sjálfstæðisflokksins er komin í fangið á yfirlýstum ESB-sinnum sem eru meira en tilbúnir að kljúfa móðurflokk íslenskra stjórnmála. Forysta og þingflokkur sjálfstæðismanna eru strandaglópar á þingi og er hafnað af flokksmönnum. Þetta er afleiðingin af hrikalegu klúðri sem rekja til sambandsleysis við kjósendur.  


mbl.is Kallaði Steingrím harðstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband