Davíð, Björn og tvær ólíkar útgáfur af frelsi

Davíð Oddsson og Björn Bjarnason ræða frelsið út frá EES-samningnum og þriðja orkupakkanum. Davíð skrifar í leiðara Morgunblaðsins í dag:

Nú er það raunar svo að orðið frjálslyndi er notað með misjöfnum hætti í umræðum um stjórnmál og því varla nothæft lengur. Stundum er átt við klassískt frjálslyndi, þar sem sá frjálslyndi styður frelsi einstaklingsins og vill hemja útþenslu og yfirgang ríkisins, en stundum er þvert á móti átt við vinstri stefnu þar sem hinn „frjálslyndi“ er hallur undir aukið ríkisvald og hefur takmarkaðar áhyggjur af því þó að það þrengi að einstaklingnum.

Í framhaldi ræðir Davíð gagnrýni Arnars Þórs Jónssonar á 3. orkupakkann sem skerðir frelsi Íslendinga til að fara með þá náttúruauðlind sem raforka verður til úr.

Björn Bjarnason skrifar sl. laugardag:

Á Morgunblaðinu er lýst efasemdum um frjáls viðskipti eins og þau þróast með EES-samningnum og hart barist gegn þriðja orkupakkanum. Þá sætir framganga Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans harðri gagnrýni.

Björn Bjarnason gefur sér að EES-samningurinn sé ,,frjáls viðskipti". Davíð Oddsson er aftur þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé til marks um vinstra ,,frjálslyndi" ríkisafskipta þar sem yfirþjóðlegt vald þrengir að fullveldi þjóða og sjálfræði einstaklinga.

Í áratugi eru þeir Davíð og Björn samherjar í pólitík og alltaf undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Frelsið er nafn á tímariti sem þeir báðir studdu með ráðum og dáð en Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritstýrði lengst af.

Umræðan um þriðja orkupakkann leiðir í ljós gagnólíkan skilning helstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins á frelsinu. Hér er komin skýringin á því hvers vegna það er Sjálfstæðisflokknum erfiðara en öðrum stjórnmálaflokkum að takast á við orkupakkann. Grundvallarmál er í húfi.

Frelsi er nátengt hugmyndinni um sjálfstæði og að einstaklingar og þjóðir hafi forræði eigin mála. Engin spurning er að þriðji orkupakkinn flytur úr landi hluta af fullveldi okkar. Ef við samþykkjum pakkann frá Brussel er skert frelsi okkar til að taka ákvarðanir um mikilvæga náttúruauðlind. Við eigum ekki að samþykkja þá frelsisskerðingu.

 


Bloggfærslur 11. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband