Davíð: forysta XD nennir ekki flokknum

Davíð Oddsson skefur ekki af því í Reykjavíkurbréfi dagsins. ,,Síðustu árin hefur virst að forystusveitinni [Sjálfstæðisflokksins]sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á landsfundum, því að ekkert þurfi með það að gera."

Önnur tilvitnun:

Nú þykir fínt að reynslulítið fólk, sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.

Vinnubrögðin eins og þau voru fyrr á tíð:

Þótt forystuliðið væri gott var það liðsheildin og baráttuvilji félaganna sem úrslitum réði. Sjálfstæði var tilvísunin og ekki fengin frá auglýsingastofum eins og nú tíðkast. Stjórnarsáttmálar voru samdir af leiðtogunum sjálfum með yfirlegu og samráði en ekki af pólitísku aðstoðarfólki á meðan aðrir átu vöfflur.

Myndin sem dregin er upp af forystu Sjálfstæðisflokksins er hún nenni ekki flokknum. Forystan lítur á almenna sjálfstæðismenn sem ómarktækt fólk með vesen, ef það jánkar ekki stefnumálum sem forystan tekur upp á í stjórnarráðinu en ganga þvert á samþykktir landsfundar, samanber 3. orkupakkann.

Svo er það ,,ættarvitinn" sem á frændfólk í forystu flokksins. ,,En best væri þó að skátarnir segðu honum [Halldóri Blöndal] að ættarvitar hafi aldrei náð nokkurri átt. Aldrei."

Þegar forystan nennir ekki flokknum styttist í að flokksmenn nenna ekki að púkka upp á forystuna. En áður en það gerist fær flokkurinn skell í kosningum. Þannig virkar pólitík. Innanmeinin eru afhjúpuð í kosningum.

 

 

 


Lífið er skoðun

Núvitund gerir það gott sem sjálfshjálp. Markmiðið er að líða vel í eigin skinni, njóta augnabliksins. Að borða eina súkkulaðirúsínu hægt í nokkrar mínútur er lærdómur í núvitund.

Á hinn bóginn, ef við sættumst við tilveruna eins og hún er þá hættum við að berjast fyrir betra lífi, látum okkur líða vel í hlekkjum og lifum ánægð með ömurleika allt í kringum okkur. Þannig gagnrýnir skríbent Guardian núvitundartískuna. Aðgerðasinnar ættu ekki að leggja lag sitt við tískuna að lifa í núinu, sáttir við menn og málefni. Það dregur úr ákefðinni að breyta heiminum.

Markús Árelíus keisari Rómar í den og höfundur Hugleiðinga, punkta sem hann skrifaði fyrir sjálfan sig og ætlaði ekki til birtingar, setti fram það sjónarmið að lífið væri skoðun. Ef manni finnst allt ómögulegt, nú þá blasir ömurleikinn einn við. Aftur, ef sjónarhornið er að lífið sé alveg sæmilegt og vel þess virði að því sé lifað er hætt við að sá sem þannig hugsar sé sáttur svona almennt og yfirleitt.

Vitanlega bjargar það ekki dauðvona gamalmenni að hafa þá skoðun að vera ungt og fílhraust. Skoðun, hver sem hún annars er, þarf að eiga samsvörun við veruleikann. En það er heilmikið til í þessu hjá heimspekikeisaranum, að lífið verður bærilegra með haldgóðum og jákvæðum skoðunum.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að tileinka okkur skoðanir sem vit er í. Það hljómar einfalt en er snúið í framkvæmd. 

 


Bloggfærslur 15. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband