Trump gerir hægrimenn að hetjum vinstrisinna

Vinstrisinnar flykkjast að hægrimönnum, segja þá hetjur og fyrirmyndir. Bush-feðgarnir eru komnir á stall hjá vinstrimönnum, John McCain líka og meira að segja fyrrum skúrkar úr CIA og FBI eru í náðinni hjá vinstrimönnum.

Hvers vegna? Jú, sökum þess að ofantaldir eru meðal andstæðinga Trump. Það er nóg.

Vinstriútgáfan Guardian hefur áhyggjur af þessari þróun.

Skiljanlega. Þegar yfirlýstir hægrimenn eru orðnir átrúnaðargoð er fátt um fína drætti á vinstri væng stjórnmálanna.


WOW-hagfræðin

„Það er hinn mikli vöxt­ur ferðaþjón­ust­unn­ar og bati viðskipta­kjaranna sem núna eru að ganga til baka sem keyrðu upp gengið," segir bankastjóri Seðlabankans um hádegisbil í gær.

Tveim klukkustundum síðar tilkynnti WOW flugfélagið að það hefði tryggt sér fjármagn til að halda áfram rekstri. Tvennt gerðist lóðbeint í framhaldi á mörkuðum. Hlutabréf Icelandair féllu um 3 prósent og krónan veiktist um hálft prósent.

Hlutabréfamarkaðurinn gerir ráð fyrir að ferðamenn verði áfram fluttir til Íslands undir kostnaðarverði. Tapið er borið uppi af eigin fé flugfélaganna, og núna lánum, svo lengi sem það endist. Gjaldeyrismarkaðurinn er ekki bjartsýnn, krónan veiktist í stað þess að styrkjast.

Seðlabankastjóri og markaðurinn segja sömu söguna. Vöxtur ferðaþjónustunnar er kominn að endimörkum. Í stað þess að horfast í augu við veruleikann er búin til froða. Síðustu dagar bankakerfisins fyrir hrunið eru kenndir við Al-Thani, svindlið um að olíufursti treysti gjaldþrota Kaupþingi fyrir peningunum sínum. Síðustu vaxtadagar ferðaþjónustunnar verða merktar Al-WOW. Framburðurinn er svona: al-vá.


mbl.is Seðlabankinn á varðbergi vegna stöðunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9% vextir WOW og ónefndir fjárfestar

6,3 milljarðar komnir í hús hjá WOW í lánsfé á 9 prósent vöxtum. Engir fjárfestar eru nefndir en hvað eru nöfn á milli vina. Níu prósent vextir eru faldir inn í tryggingum, ónefndum vitanlega, og í smáu letri.

Eftir þetta glæsilega og gegnsæja útboð hlýtur WOW að gera upp vanskilin við Isavia upp á einn til tvo milljarða.

Við sem heima sitjum samfögnum að viðskiptalíkan WOW njóti alþjóðlegs trausts. Og moldin rýkur í logni.


mbl.is Skuldabréfaútboði WOW air lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaðarvitund góða fólksins

Góða fólkið er með böggum hildar yfir framúrkeyrslu vegna fullveldishátíðar á Þingvöllum í sumar. Sérstaklega fer fyrir brjóstið að lýsing vegna sjónvarpsútsendingar kostaði 20 milljónir króna.

Nú eru 20 milljónir nokkur peningur. Fyrir þá fjármuni mætti t.d. kaupa hálfa litla íbúð í vesturbænum, eða kannski þriðjung.

Viðtaka fólks sem kemur til landsins í óleyfi kostar aftur 5 til 6 milljarða á ári. Góða fólkið kemur ekki með dæmi um hvernig mætti nota brot af þeirri fjárhæð til að hýsa heimilislausa Íslendinga.

Kostnaðarvitund mæld í fáeinum milljónum er sterkari hjá góða fólkinu en kostnaður upp á milljarða. Kannski ætti góða fólkið ekki að vera með í ráðum þegar kostnaður er veginn og mældur. En góða fólkið kann að stjórna, svo mikið er víst, sjáið bara ráðhúsið og orkufyrirtæki borgarinnar.


Skúli selur aðgang að ríkisstyrkjum

WOW tapar 3,4 milljörðum króna í ár. Það skuldar lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli upp á einn til tvo milljarða króna og gengur illa að fá 4 til 6 milljarða króna lán á alþjóðlegum mörkuðum til að halda félaginu í rekstri.

Samt ætlar eigandi WOW, Skúli Mogensen, að selja hlutafé fyrir 22-23 milljarða króna eftir eitt og hálft ár.

Skúli treystir Kötu Jakobs., Bjarna Ben. og Sigurði Inga til að opna ríkissjóð svo hann geti orðið margfaldur milljarðamæringur á því að selja ósjálfbæran taprekstur.

Skúli er snjall markaðsmaður.


mbl.is WOW á markað innan 18 mánaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnustaðamenning vinstrimanna

Vinstrimenn stjórna Reykjavíkurborg og Orkuveitunni frá hruni eða í áratug. Í ráðhúsinu er gerir kvenkyns yfirmaður undirmann að ,,dýri í hringleikahúsi" samkvæmt dómi. Í undirstofnunum borgarinnar ganga karlkyns yfirmenn fram af óháttvísi gagnvart undirmönnum, ekki síst konum.

Vinnustaðamenning vinstrimanna er ekki upp á marga fiska.

Og sjálf Líf, sem þykist hafa áhyggjur af vinnustaðamenningunni, ullar framan í kjörna fulltrúa almennings.


mbl.is Skoði skaðlega vinnustaðamenningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni, 1980 þurfti að tryggja flugsamgöngur, ekki núna

Á sínum tíma var Flugleiðum bjargað, og raunar fyrirtækið búið til úr Flugfélagi Íslands og Loftleiðum, til að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu.

Ef WOW hyrfi af sjónarsviðinu yrði það högg fyrir ferðaþjónustuna en flugsamgöngum við Ísland er borgið, einfaldlega vegna þess að mörg flugfélög leggja leið sína hingað.

Ef það er rétt að stjórnvöld íhuga stórfelld ríkisafskipti af flugrekstri með því að halda þrotafélagi á lofti til að vernda ferðaþjónustuna ættu þau að hugsa sig um tvisvar.

Það þjónar aðeins skammtímahagsmunum að niðurgreiða flug til Íslands. Til lengri tíma litið boða slíkar ráðstafanir stórfellt tap, bæði efnahagslega og í siðlausum viðskiptum þar sem einkafyrirtæki hirða gróðann en velta tapinu yfir á skattborgara.


mbl.is Bjarni blandar sér í umræðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oflækningar boðnar út

Þöggun ríkir um oflækningar enda veigamiklir hagsmunir í húfi - einkum sérfræðilækna. Útboð á heilbrigðisþjónustu í þágu sérfræðilækna hvetur til oflækninga. Sérfræðilæknar ávísa hver á annan enda kallar sérfræðin, eigi hún að standa undir nafni, á fullvissu. Þar á ofan bætast fjárhagslegir hagsmunir þar sem sérfræðilæknar fá greiðslu fyrir hverja heimsókn.

Eina vitræna heilbrigðisþjónusta á vegum ríkisins er að heilsugæslan sé fyrsti áfangastaður fólks með meinsemd. Heimilislæknir vísar til sérfræðings ef þörf þykir. Sérfræðilæknar vilja ekki að heimilislæknar séu fyrsti kostur, það truflar flæði sjúklinga og fjármuna.

Sérfræðilæknar fá pólitískan stuðning fyrir einkaaðgang að opinberu fé vegna þess að einkarekstur þykir fínt orð en ríkisrekstur ekki. 

 


mbl.is Ræði álitamálin ekki í fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sómi Jóns Þórs pírata

Pírataþingmaðurinn Jón Þór Ólafsson krefur forseta alþingis svara um heimboð forseta danska þingsins í sumar.

Jóni Þór þykja skoðanir forseta danska þjóðþingsins óæskilegar og mætti ekki vinnuna, frekar en aðrir þingmenn Pírata, þegar Pia Kjæarsgaard ávarpaði fund alþingis á Þingvöllum. Jón Þór situr sjálfur í forsætisnefnd alþingis og tók þátt í að bjóða Kjærarsgaard til landsins. 

Lokaliður spurningalistans til forseta alþingis hljómar svona: ,,Hvaða ástæður hefðu nægt til að forseti Alþingis hefði afturkallað boð sitt til forseta danska þingsins á hátíðarþingfundinn á Þingvöllum og hversu langan fyrirvara hefði þurft að hafa til að sómi hlytist af?"

,,Til að sómi hljótist af," Jón Þór, þarf maður að haga sér sómasamlega. Allir með eðlilegan skammt af heilbrigðri skynsemi vita það.


Rauðu ljósin 2006, hrunið og WOW-augnablikið

Sumarið 2006 skall á Íslandi litla kreppan sem var unndanfari hrunsins 2008. Sérfræðingar Danske bank sögðu íslensku bankana stefna í þrot. Stjórnmálastéttin á Íslandi lagðist á sveif með útrásarauðmönnum og bankafólki og hélt fjármálakerfinu á floti í tvö ár.

Á þessum tveim árum voru bankarnir rændir að innan. Hrunið 2008 var ekki aðeins efnahagslegt heldur pólitískt og siðferðilegt. Dómsmálin eftir hrunið sýna svart á hvítu að glæpir voru framdir á tímabilinu sem gjaldþrota fjármálakerfi var haldið á lífi með opinberum stuðningi.

Þegar stórfyrirtæki, núna kölluð kerfislega mikilvæg, lenda í vanda eru ósjálfráð viðbrögð stjórnmálamanna að verja kerfið. Orðræða eins og birtist í leiðara Fréttablaðsins er haldið á lofti: WOW er svo mikilvægt félag að það má ekki fara á hausinn.

Á milli kapítalisma og siðleysis er örfín lína. Eðlilegt er í kapítalisma að fyrirtæki fari í gjaldþrot. Freistnivandi stjórnmálamanna er að kippa markaðslögmálum úr sambandi. Siðleysinu er boðið heim: gróðinn einkavæddur en tapið þjóðnýtt.

WOW flaug sitt fyrsta flug vorið 2012. Samfellt góðæri er landinu síðustu sex ár. Alþjóðlega eru vextir á þessu tímabili í sögulegu lágmarki. Fjármagnsfrek fyrirtæki í útþenslu nutu góðs af. Samt er WOW á barmi gjaldþrots.

Rekstur WOW skilaði helsta eiganda sínum, Skúla Mogensen, auðæfum. Hann keypti eitt dýrasta einbýlishúsið á Seltjarnarnesi og glæsilega sumarhöll úti á landi. Núna þegar hann reynir að þjóðnýta tapið á rekstri WOW segist Skúli aðeins vera að þessu til að skaffa almenningi ódýr flugfargjöld. Og jólasveinninn kemur til byggða í ágúst.

Niðurstaða: WOW er ekki sjálfbært í góðæri og verður það enn síður þegar að kreppir. Stjórnmálamenn og aðrir handhafar ríkisvaldsins eiga ekki að þjóðnýta tapið heldur láta kapítalismanum um að vinna sitt verk. Ekki bjóða siðleysinu heim í annað sinn á áratug.

 


mbl.is Hafa tvisvar kyrrsett flugvélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband