Rauðu ljósin 2006, hrunið og WOW-augnablikið

Sumarið 2006 skall á Íslandi litla kreppan sem var unndanfari hrunsins 2008. Sérfræðingar Danske bank sögðu íslensku bankana stefna í þrot. Stjórnmálastéttin á Íslandi lagðist á sveif með útrásarauðmönnum og bankafólki og hélt fjármálakerfinu á floti í tvö ár.

Á þessum tveim árum voru bankarnir rændir að innan. Hrunið 2008 var ekki aðeins efnahagslegt heldur pólitískt og siðferðilegt. Dómsmálin eftir hrunið sýna svart á hvítu að glæpir voru framdir á tímabilinu sem gjaldþrota fjármálakerfi var haldið á lífi með opinberum stuðningi.

Þegar stórfyrirtæki, núna kölluð kerfislega mikilvæg, lenda í vanda eru ósjálfráð viðbrögð stjórnmálamanna að verja kerfið. Orðræða eins og birtist í leiðara Fréttablaðsins er haldið á lofti: WOW er svo mikilvægt félag að það má ekki fara á hausinn.

Á milli kapítalisma og siðleysis er örfín lína. Eðlilegt er í kapítalisma að fyrirtæki fari í gjaldþrot. Freistnivandi stjórnmálamanna er að kippa markaðslögmálum úr sambandi. Siðleysinu er boðið heim: gróðinn einkavæddur en tapið þjóðnýtt.

WOW flaug sitt fyrsta flug vorið 2012. Samfellt góðæri er landinu síðustu sex ár. Alþjóðlega eru vextir á þessu tímabili í sögulegu lágmarki. Fjármagnsfrek fyrirtæki í útþenslu nutu góðs af. Samt er WOW á barmi gjaldþrots.

Rekstur WOW skilaði helsta eiganda sínum, Skúla Mogensen, auðæfum. Hann keypti eitt dýrasta einbýlishúsið á Seltjarnarnesi og glæsilega sumarhöll úti á landi. Núna þegar hann reynir að þjóðnýta tapið á rekstri WOW segist Skúli aðeins vera að þessu til að skaffa almenningi ódýr flugfargjöld. Og jólasveinninn kemur til byggða í ágúst.

Niðurstaða: WOW er ekki sjálfbært í góðæri og verður það enn síður þegar að kreppir. Stjórnmálamenn og aðrir handhafar ríkisvaldsins eiga ekki að þjóðnýta tapið heldur láta kapítalismanum um að vinna sitt verk. Ekki bjóða siðleysinu heim í annað sinn á áratug.

 


mbl.is Hafa tvisvar kyrrsett flugvélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband