Gleymda fréttin sem afhjúpaði tvískinnung þingmanna

Lítið fór fyrir RÚV-frétt sem birtist fyrir rúmri viku um að alþingismenn ýmist sjálfir eða stofnunin greiði fyrir vinnuna sem fyrirspurnir þingmanna kosta.

Þingmenn, sumir hverjir, eru fyrirspurnarglaðir í meira lagi. Sumar fyrirspurnirnar eru út í bláinn. Þingmaður Pírata spurði um óskráðar reglur þingheims.

Með fyrirspurnum þykjast þingmenn sinna eftirlitsskyldu sinni. Í reynd er þorri fyrirspurna til að vekja athygli á þingmanninum sjálfum.

En, sem sagt, fyrirspurnir kosta skattborgara stórfé. Og nú krefjast opinberar stofnanir aukaframlags vegna vinnu við að svara hégómlegum spurningum þingmanna.

Hver fer aftur með fjárveitingavaldið? Jú, alþingi. Og hver fer með eftirlitið að fjármunum almennings sé vel varið? Jú, alþingi.

Er ekki kominn tími til að almennir borgarar fái vettvang, sérstaka stofnun, er hafi eftirlit með þeim sem hafa eftirlit? 

 


ESB-her til hliðar við Nató

Evrópskur her þykir nauðsynlegur í höfuðstöðvum ESB í Brussel af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að Bandaríkin, sem í reynd stjórna Nató, eru orðin óútreiknanleg undir Trump.

Í öðru lagi, og sú ástæða er mikilvægari, er að engar sögur eru til um stórveldi fyrri tíðar sem ekki höfðu yfir her að ráða. Og ESB ætlar sér að verða stórveldi.

Forseti Frakklands segir að auka þurfi varnir ESB. Herir eru alltaf settir á laggirnar til að verjast. En einkenni stórvelda, allt frá dögum Róm, er að að þau þenjast út - oftar en ekki með hervaldi.


mbl.is Auka þurfi varnir ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnuaflið er tannlæknar

Mörg hundruð prósent munur á tannlæknaþjónustu hér á landi og Póllandi skýrir formaður íslenskra tannlækna með þessum orðum:

Hugs­an­lega sé verið að nota ódýr­ari hrá­efni þar en hér og þá sé vinnu­afl al­mennt ódýr­ara í lönd­um Aust­ur-Evr­ópu en hér á landi. Hún seg­ir að fé­lag­inu hafi verið til­kynnt um nokk­ur til­vik þar sem vinnu er­lendra tann­lækna hafi verið ábóta­vant.

Vinnuaflið sem hér er um að ræða eru tannlæknar. Annað tveggja eru þeir of dýrir hér á landi eða of ódýrir í Póllandi.

Tannlæknar á Íslandi eru óðum að komast í sömu stöðu og gleraugnasalar. Erlend samkeppni þrýstir verðinu á þjónustu þeirra niður.

 

mbl.is Fara í hópum til tannlækna í útlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalistar gegn menntun - listi yfir óvini launþega

Sósíalistaflokkurinn telur vinstriflokkana, Samfylkingu og Vinstri græna, óvini launafólks og stéttabaráttunnar.

Málgagn Sósíalistaflokksins, Miðjan, sem bróðir Gunnars Smára formanns flokksins, ritstýrir birtir lista yfir menntun þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna.

Hvorki ritstjórinn, Sigurjón, né formaðurinn státa af lengra námi en nemur grunnskóla. Þeir fundu einn þingmann með með enga aðra menntun grunnskólapróf í samanlögðum þingmannahópi Samfylkingar og Vinstri grænna. Grunnskólaprófið er feitletrað á listanum, til að undirstrika velþóknun á þeim staka þingmanni.

Boðuð valdataka sósíalista kallar á víðtæka afmenntun; Sigurjón og Gunnar Smári eru þar í góðum málum.


McCain skóp Trump en hataðist við hann

Johan McCain er einn aðalhöfundur nýja kalda stríðsins milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins annars vegar og hins vegar Rússlands. Náinn samstarfsmaður McCain, Adam Shaakasvili, tengir bandaríska þingmanninn bæði við stríð Rússa og Georgíu sumarið 2008 og yfirstandandi borgarastyrjöld í Úkraínu, sem hófst fyrir fjórum árum.

Hugmyndafræði McCain var að Bandaríkin í samvinnu við Evrópusambandið og Nató myndu leggja undir sig heiminn með vopnavaldi í nafni frjálslyndis. Til að það gengi eftir yrði að knésetja Rússland, gera það að hjálendu vestrænna ríkja.

Rússum gast ekki að einpóla heimi Bandaríkjanna. Pútín Rússlandsforseti varaði Bandaríkin við í frægri ræðu í Munchen í Þýskalandi árið 2007 að bandarískt heimsforræði væri óhugsandi. Í sumar útskýrði Pútín í sjónvarpsviðtali hvernig einpóla hugmyndafræði McCain og félaga er bein ástæða fyrir upplausn alþjóðakerfisins þar sem átök og óvissa eru ráðandi.

MaCain studdi innrás Bandaríkjanna í Írak 2003, sem var tilraunaverkefni fyrir einpóla heim. Þrátt fyrir ósigurinn þar var haldið áfram; Líbýu og Sýrlandi var steypt í borgarastyrjaldir samhliða sem öryggishagsmunum Rússlands var stöðugt ógnað.

Bandaríkjamenn urðu þreyttir á stríðsátökum, kusu Trump til forseta 2016 sem lofaði færri hernaðarævintýrum í útlöndum og gaf upp á bátinn drauminn Bandaríkin sem alheimslögreglu.

Í þessum skilningi skóp McCain Trump - og hataðist við hann. Nú er McCain allur; heimsmyndin sem hann stóð fyrir er að hruni komin.

 


mbl.is John McCain látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill Helgason og frábær blaðamennska

Egill Helgason segir forsíðu Time, þar sem Trump er að drukkna, dæmi um frábæra blaðamennsku.

Forsíðan vekur tilfinningar, Þórðargleði andstæðinga Trump en samúð stuðningsmanna.

Einu sinni þótti það frábær blaðamennska þegar hún jók skilning á samfélagsmálum, upplýsti og höfðaði til skynsemi fólks.

En nú er blaðamennska frábær þegar hún vekur tilfinningar, því sterkari því betra.

Samkvæmt nýju skilgreiningunni eiga blaðamenn að stunda gjörninga en ekki skrifa fréttir.


Hjávísindi og hlýnun jarðar

Jörðin hlýnar og kólnar á víxl án þess að maðurinn komi nærri. Íslendingar byggðu Grænland á miðöldum vegna þess að þar var hlýtt. Litla ísöld gekk í garð á 14. öld, Grænland varð óbyggilegt og Ísland næstum því.

Vísindamenn, í samstarfi við stjórnvöld og alþjóðlegar stofnanir, reyna að telja okkur trú um að gróðurhúsalofttegundir, sem maðurinn framleiðir, valdi hlýnun jarðarinnar. Vísindamenn, sem þannig tala, eru í hlutverki presta fyrri tíðar sem boða heimsendi á fölskum forsendum.

Það eru til, góðu heilli, vísindamenn sem ekki kaupa hjávísindin. Þeir eru yfirleitt of gamlir til að láta múta sér með styrkjum frá stjórnvöldum sem vilja kaupa sér fyrirframgefnar niðurstöður.

Roy Spencer fór nýlega yfir stöðu hjávísindanna sem eru fjármögnuð af vanheilögu bandalagi vísindamanna og stjórnvalda. Hann gefur dæmi um svindlið.

Kary Mullis, nóbelsverðlaunahafi, segir ekki vott af sönnun um að maðurinn valdi loftslagsbreytingum. 

Hjávísindin halda áfram að telja okkur trú um að svart sé hvítt og hvítt svart. Um leið grafa þau undan tiltrú á vísindin almennt og yfirleitt. Sem er heldur miður.

 


mbl.is Hlýnunin á eftir að koma fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar gagnrýna - en aldrei sjálfa sig

Sögulega er eitt hlutverk fjölmiðla að gangrýna, veita aðhald þeim sem fara með völd og mannaforráð í samfélaginu. Fyrir daga samfélagsmiðla voru fjölmiðlar nær einráðir um þetta hlutverk. Þorri fjölmiðla tók hlutverkinu af ábyrgð. En það breyttist með samfélagsmiðlum.

Á samfélagsmiðlum er fyrst skotið en síðan spurt. Í samkeppni við samfélagsmiðla taka fjölmiðlar æ oftar upp ósiðinn.

Fjölmiðlar er iðnir við kolann, að gagnrýna meinta máttarstólpa samfélagsins, en þeir gagnrýna nær aldrei hvern annan. Engu að síður eru fjölmiðlar valdamiklir samfélaginu. Í samvinnu við samfélagsmiðla stjórna þeir stærstum hluta umræðunnar. 

Það þarf mann eins og Brynjar Níelsson til að stunda fjölmiðlarýni þar sem spurt er gagnrýnna spurninga. Fjölmiðlar ýmist þegja um misnotkun fjölmiðlavalds eða snúast til varnar félögum sínum í starfsstéttinni. Bein og óbein skilaboð fjölmiðla eru að þeir séu hafnir yfir gagnrýni. Þess vegna eru fjölmiðlar orðnir keimlíkir samfélagsmiðlum. 


ASÍ: faglegt eða pólitískt?

,,Vor í verkó," var slagorð sem leiddi til stjórnarbyltinga í Eflingu og VR, tveim stærstu félögum innan Alþýðusambandsins, ASÍ. Sósíalismi og skæruverkföll voru meðal þess sem boðið var upp á undir merkjum slagorðsins.

Eftir því sem nær dregur ASÍ-þingi, þar sem velja skal forystu til næstu ára, verður spurningin áleitnari hvort hreyfingin ætli sér að verða byltingarafl eða starfa faglega.

ASÍ er ekki lengur fjöldahreyfing. Aðeins örfá prósent félagsmanna tóku þátt í kosningunum til Eflingar og VR. Í dag auglýsir VR eftir félögum sem nenna að mæta á ASÍ-þingið í október.

Um leið og ASÍ gerir sig að byltingarafli verður umboðsleysi hreyfingarinnar afhjúpað. ASÍ verður ekki tekið alvarlega, hvorki af stjórnvöldum né Samtökum atvinnulífsins, enda fyrirfram vitað að enginn áhugi er meðal almennra félagsmanna að gera Ísland að sósíalistaríki með tilheyrandi óðaverðbólgu og eymd.

Ef ábyrgir aðilar taka ekki höndum saman og forða ASÍ frá kjánavæðingu er hætt við að hryggstykki verkalýðshreyfingarinnar verði að ómarktæku nátttrölli.


mbl.is „Kraumandi pólitík“ í ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stúlkur læri undirgefni gagnvart körlum

Múslímastúlkur eru látnar bera höfuðklúta strax í leikskóla til að þær venjist undirgefni gagnvart körlum. Þýsk kvenréttindasamtök krefjast þess að bann verði lagt á að stúlkur undir 18 ára aldri beri höfuðklúta á almannafæri, segir í Die Welt.

Danir hafa þegar bannað þann múslímasið að konur hylji sig frá toppi til táar á almannafæri. Tillaga þýsku kvenréttindasamtakanna miða að vernd stúlkna sem hvorki hafa aldur né aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér.

Múslímakarlar eru ekki líklegir að taka tillögunni fagnandi. Trúin veitir körlum forréttindi umfram konur, sem eiga að lúta vilja feðra sinna, eiginmanna, bræðra og frænda. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband