Tvennar kosningar: ný leiktjöld er niðurstaðan

Íslendingar fóru í gegnum tvennar rammpólitískar kosningar á árinu, til forseta og þings. Á yfirborðinu var látið eins og eitthvað stórkostlegt væri í húfi. Talað var um ,,nýja Ísland" og kerfisbreytingar í grunnatvinnuvegum og stjórnskipun.

Nú liggur niðurstaðan fyrir. Skipt verður um leiktjöld þegar nýr forseti flytur þjóðinni nýársboðskap sinn.

Umbúðastjórnmál láta ekki að sér hæða.


mbl.is Stílbreytingar á nýársávarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og Brexit í ár, evran 2017

Hagfræðingar voru flestir þeirrar skoðunar að hvorki myndu Bretar kjósa sig úr Evrópusambandinu né Donald Trump verða forseti. Hagfræðingar eru fangar stærðfræðilíkana sem eru úr takti við veruleikann, skrifar Robert Skidelsky.

Trump veðjaði á óánægju bandarískra verkamanna með lægri laun og töpuð störf, einkum vegna samkeppni frá Kína. Hagfræðingar sáu ekki heildarmyndina, voru fangar eigin kenninga.

Sömu kenningar sögðu að Bretar þyrðu ekki að segja upp aðild að ESB af ótta við efnahagslegt tap. En Brexit varð niðurstaðan og hagfræðinni eru sprengdar fýlubombur.

Um evruna eru hagfræðingar ekki eins vissir og kjör Clintons og nei við Brexit. Evran er viðurkennt pólitískt verkefni fremur en að gjaldmiðillinn sé byggður á hagkenningum. Pólitík í Evrópu verður evrunni þung í skauti næsta árið, með kosningum í Þýskalandi og Frakkalandi þar sem andstæðingum evru og ESB er spáð auknu fylgi.

En það verður ekki hægt að kenna hagfræðingum um að mislesið lífslíkur evrunnar. Hún er fyrst og fremst afurð pólitísku elítunnar á meginlandinu sem dreymir um Stór-Evrópu.


mbl.is Þriðji stærsti banki Ítalíu þarf aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-Pútín friðarbandalagið og herskáir vinstrimenn

Hægrimaðurinn Patrick J. Buchanan varar við samvinnu herskárra vinstrimanna í Demókrataflokknum og kaldastríðshauka í Repúbikanaflokknum, sem vilja grafa undan friðarbandalagi Donald Trump og Pútín Rússlandsforseta.

Buchanan er ritstjóri tímaritsins The American Conservative og var ráðgjafi forseta Repúblíkana, þeirra Nixon, Ford og Reagan. Stuðningur hans við Trump og friðarstefnu gagnvart Rússum er á öndverðum meiði við herskáa stefnu Obama forseta og Clinton-hjónanna.

Í Bandaríkjunum er vaxandi vitund um að herská stefna vinstrimanna og kaldastríðshauka úr röðum hægrimanna geti leitt til hernaðarátaka við Rússland, jafnvel þriðju heimstyrjaldar.

Donald Trump er talinn geta dregið úr spennu milli kjarnorkuveldanna, sem hófst við lok kalda stríðsins með útþenslu áhrifasvæðis Nató að rússnesku landamærunum. Í tímaritinu National Interest er vegvísir að raunsærri pólitík Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi.

Vinstrimenn í Evrópu eru óðum að átta sig á að bandalag Pútín og Trump boðar hamskipti í pólitískri orðræðu. Síðustu árin eru vinstrimenn í fararbroddi kaldastríðsáróðurs um að Rússland sé upphaf og endir illskunnar í heiminum, hvort heldur í Úkraínu eða Sýrlandi. Þar eru evrópskir vinstrimenn málpípur Obama forseta og Clinton-hjónanna.

Miðstöð herskárra vinstrimanna í Evrópu er Evrópusambandið. Innvígðir ESB-sinnar, til dæmis Guy Verhofstadt og Joschka Fischer, eru óþreytandi að útmála Rússland sem óvin siðmenningar.

Dýpri rökin fyrir afstöðu evrópskra vinstrimanna til Rússlands eru þau að án óvinar í austri er ekki hægt að forða Evrópusambandinu frá upplausn.

 


mbl.is Hefði getað sigrað Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drottningin studdi Brexit

Lengsti starfandi stjórnmálamaður og þjóðhöfðingi í víðri veröld, Elísabet Bretadrottning, studdi úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Elísabet, líkt og margir þjóðhöfðingjar, sem ekki hljóta lýðræðislega kosningu, gat ekki stutt Brexit opinberlega. Götublaðið Sun sagði frá orðum drottningar við matarboð þar sem hún sagðist hlynnt úrsögn Breta.

Sun þótti ekki áreiðanleg heimild um orð drottningar, sem féllu nokkru fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Fréttamaður BBC staðfestir núna að fleiri en ein heimild er fyrir stuðningi Elísabetar við Brexit.

Brexit er afleiðing af misheppnuðu Evrópusambandi, segir fyrrverandi stjóri Seðlabanka Englands.


Heimurinn sem auðnaróðal

Í nýrri bók Sverris Jakobssonar um Sturlungaöld er í inngangi vitnað í Konungsskuggsjá þar sem segir að það ríki megi kalla ,,auðnaróðal" sem margir konungar bítast um og er það ,,týnt ríki". Í nútíma eru slík ríki kölluð ónýt ríki og fer fjölgandi: Úkraína, Sýrland, Írak, Jemen og Líbýa.

Meginástæða fyrir fjölgun ónýtra ríkja er að heimurinn var frosinn í köldu stríði frá miðri síðustu öld og fram undir aldamót. Vorþíðan fyrir aldarfjórðungi leiddi ekki til frelsunar heldur hamfara.

Heiminum var í grófum dráttum skipt í tvo hluta þar sem vestrænt frjálslyndi undir forystu Bandaríkjanna réð ferðinni annars vegar og hins vegar austrænn sósíalismi í skjóli Sovétríkjanna. Frjálslyndið var takmarkað við hagsmuni Bandaríkjanna, því kynntust Chilebúar 1973 þegar lýðræðislegri stjórn Allende var steypt. Fimm árum áður reyndu íbúar Tékkóslóvakíu á þolrif sovéskra hagsmuna. Niðurstaðan var sú sama, stjórnarskipti í boði handhafa valdsins í viðkomandi heimshluta.

Hvergi var tvískipting heimsins í austur og vestur skýrari en í Evrópu þar sem Berlínarmúrinn skipti Þýskalandi í tvennt og um leið allri álfunni. En nánast fyrirvaralaust, mælt í sögulegum tíma, féll Berlínarmúrinn haustið 1989. Tveim árum síðar fóru Sovétríkin á ruslahaug sögunnar.

Lok kalda stríðsins voru á yfirborðinu jákvæð en leystu úr læðingi ófyrirséða strauma og stefnur. Áður voru tvö meginhugmyndakerfi, vestrænt frjálslyndi og sósíalismi, sem aðrir straumar urðu að laga sig að. Forspáin gerði ráð fyrir að vestrænt frjálslyndi yrði ríkjandi um alla heimsbyggðina - eftir fall sósíalismans. En sú forspá gekk ekki eftir. Hvers vegna?

Jú, heimshlutanum sem kenndi sig við vestrænt frjálslyndi var haldið saman af bandarískum hagsmunum í einn stað og sovéskri ógn í annan stað. Stærsta og mikilvægasta verkefni vestræns frjálslyndis í Evrópu á dögum kalda stríðsins var Evrópusambandið. Bandaríska leyniþjónustan CIA fjármagnaði samvinnu Vestur-Evrópuríkja, sem síðar varð ESB.

Eftir fall Sovétríkjanna rataði Evrópusambandið í ógöngur. Það stækkaði í austur, innbyrti fyrrum lénsríki sósíalismans, en vestrænt frjálslyndi fylgdi ekki í kjölfarið. Í Póllandi og Ungverjalandi trompar þjóðernishyggja frjálslyndið. Jafnvel í kjarnaríkjum ESB, Þýskalandi og Frakklandi, er frjálslyndið á undanhaldi fyrir þjóðernissjónarmiðum.

Innvígðir ESB-sinnar, t.d. fyrrum forsætisráðherra Belgíu, Guy Verhofstadt, gráta þann tíma þegar sovéska ógnin skóp Evrópusambandinu stöðugleika og framtíðarvonir. Verhofstadt og hans líkum freista þess að gera Pútín og Rússland að nýjum óvini til að sameinast gegn. Hængurinn er sá að ólíkt Sovétríkjunum, sem voru alþjóðlega viðurkenndur merkisberi sósíalisma, standa Pútin og Rússland ekki fyrir neina hugmyndafræði - aðeins takmarkaða rússneska hagsmuni. Rússagrýlan varð að steini fyrir aldarfjórðungi og verður ekki vakin til lífs.

Vestrænt frjálslyndi er hvorttveggja án sameiginlegs óvinar og bandarísks leiðtoga - eftir kjör Trump. Í augum frjálslyndra er Trump And-Kristur holdi klæddur. Kjör hans í embætti er sagt verk sjálfs myrkrahöfðingjans í Moskvu.

Ónýtu ríkin, sem helst eru í fréttum, s.s. Úkraína og Sýrland, eru vitnisburður um endimörk vestræns frjálslyndis. Ef heimurinn allur á ekki að verða að samfelldu auðnaróðali verða bæði afkvæmi kalda stríðsins að víkja fyrir einhverju haldbetra. En, eins og segir í jólasálminum, ,,hvað það verður veit nú enginn." Hvort það verði ,,ákaflega gaman þá" er alls óvíst.

 

 


mbl.is Heimurinn orðinn hræddari og klofnari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táradalur fjölmenningar og síðasti maðurinn

Endalok sögunnar er bók sem kom út fyrir aldarfjórðungi og spáði sigri frjálslyndrar heimssýnar. Bókin kom út í lok kalda stríðsins sem sýndi fram á gjaldþrot kommúnisma.

Fjölmenning er birtingarmynd frjálslyndra stjórnmála síðustu áratugi. Í húsi fjölmenningar áttu femínistar og múslímar íbúð hlið við hlið. Enn trúa sumir á fjölmenningu jafnvel þótt múslíminn sé löngu búinn að kveikja í íbúð femínistanna, gott ef ekki afhausa íbúana í leiðinni.

Siðvitund frjálslyndra fjölmenningarsinna er mannhverf. Undirtitill bókarinnar Endalok sögunnar er ,,síðasti maðurinn". Mannmiðjukenningunni yfirsást eitt atriði sem trúuðum - hvort heldur kristnum, gyðingum eða múslíum - er alla tíð fullljóst: maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Trúarsiðferði byggt á manneskjunni einni saman er hús reist á sandi.

Maðurinn er þrátt fyrir allt aðeins kjötklumpur og í þokkabót fjarska ódýr í framleiðslu. Aðeins þeir með alvarlegt heilkenni vantrúar láta sér detta í hug að setja manninn á stall og tilbiðja kjötklump.

Fjölmenningin er orðin að táradal vegna útvötnunar á siðagildum sem héldu saman menningarsamfélögum. Útvötnuðu gildin sóttu réttlætingu í æðri hugmyndakerfi, s.s. kommúnisma og kristni. Á árinu sem er líða mátti sjá viðspyrnu gegn fjölmenningunni. Næstsíðasti maðurinn er ekki búinn að segja sitt síðasta orð. 


mbl.is Sönn fjölmenning í jólaguðspjallinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta símtal kalda stríðsins - 25 ára afmæli orustunnar um Evrópu

Sovétríkin liðuðust í sundur fyrir 25 árum. Tveim klukkustundum áður en Mikhail Gorbatsjov, síðasti leiðtogi kommúnistaríkisins, sagði af sér hringdi hann í George W. Bush Bandaríkjaforseta. Vinátta forsetanna tveggja er rauður þráður í gegnum símtalið.

Eftir fall Sovétríkjanna var talið að sambúð Rússlands og Bandaríkjanna gæti batnað. En það fór á annan veg. Bandaríkin, í samstarfi við Evrópusambandið og Nató, þrengdu að öryggishagsmunum Rússlands og settu upp herstöðvar við vesturlandamæri Rússa.

Mótmæli Rússa voru að engu höfð. Þegar Úkraína stefndi í faðm Bandaríkjanna gripu Rússar inn í atburðarásina, innlimuðu Krímskaga og studdu uppreisnarhópa í austurhéruðum Úkraínu.

Rússar litu svo á að sívaxandi veldi Bandaríkjanna, ESB og Nató myndi leiða til einangrunar Rússlands og hnignunar. Höfundur að nafni Alexander Dugin greindi stöðu mála þannig Evrópa yrði vígvöllurinn á milli Bandaríkjanna og Rússa. Innan Evrópusambandsins er sannfæring um að Rússar styðji stjórnmálaöfl sem vilja endalok ESB einmitt út frá þessari forsendu. Bók Dungin, Fjórða pólitíska kenningin, á eftir kommúnisma, kapítalisma og fasisma, er sögð leiðarvísir að Evrasíuríki Rússlands og Evrópu er stæði andspænis Bandaríkjunum.

Sigri Donald Trump í Bandaríkjunum er fagnað í Moskvu. Á heimskorti rússneskra ráðamanna er Evrópa enn vígvöllurinn og Trump færir álfuna nær Rússlandi. Sannfærðir ESB-sinnar, eins og Joschka Fischer, fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, eru sama sinnis og tala um vestræn endalok.

Í þessu ljósi ber að skilja áhyggjuleysi Rússa af tilkynningu Donald Trump um að stórauka kjarnorkuvígbúnað Bandaríkjanna. Kjarnorkuvopn styrkja ekki stöðu Bandaríkjanna í Evrópu heldur veikja. Trump ætlar sér samhliða að draga úr stuðningi við Nató sem er helsta verkfæri vestrænna ríkja í útþenslunni til austurs. Vinstrimenn í álfunni eru með böggum hildar og spyrja hvað bíði Evrópu í bandalagi Pútín og Trump.


mbl.is Aðeins Rússar trúðu á sigur Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúfrelsi undir vernd Assad

Uppreisnarhópar, margir fjármagnaðir af Bandaríkjunum, héldu Aleppo í fimm ár. En ekki fyrr en stjórnarher Assad Sýrlandsforseta nær völdum geta kristnir íbúar borgarinnar um frjálst höfuð strokið. Samkvæmt vestrænum fjölmiðlum er Assad fjöldamorðingi og harðstjóri.

Líkt og Saddam Hussein í Írak er Assad ríkisleiðtogi í landi án lýðræðishefða. Ekkert ríki í menningarheimi múslíma í miðausturlöndum býr við lýðræði og mannréttindi á vestræna vísu. Besti vinur Bandaríkjanna í þessum heimshluta, að Ísrael frátöldu, er Sádí-Arabía sem er fjölskyldufyrirtæki Sádí-ættarinnar og rekið samkvæmt sharía-lögum. Konur eru annars flokks borgarar og refsingar í stíl við miðaldir með opinberum hýðingum og aftökum.

Bandaríkin sáu sér leik á borði, sem eina risaveldið, og gerðu innrás í Írak 2003 til að umbylta ríkinu í vestrænt lýðræðisríki hliðhollt stjórnvöldum í Washington. Ááætlunin fór út um þúfur, eftir mannfall og margvíslegar hörmungar yfirgáfu Bandaríkin Írak með skottið á milli lappanna. Eftir stóð ónýtt ríki þar sem áður ríkti stöðugleiki.

Í Sýrlandi stóð til að skipta um ríkisstjórn án innrásar. Eftir að uppreisn braust út 2011 hvatti Obama Bandaríkjaforseti Assad til að segja af sér. Uppreisnarmenn fengu fjármagn og vopn frá Bandaríkjunum og lögðu undir sig stór landssvæði. Fljótlega kom á daginn að hófsamir uppreisnarmenn voru í minnihluta en harðlínumenn úr röðum súnní-múslíma réðu ferðinni. Engu að síður bitu Bandaríkin það í sig að Assad yrði að víkja.

Rússar skárust í leikinn fyrir rúmlega ári og liðsmenn Assad sneru vörn í sókn. Richard N. Haass rekur mistök Bandaríkjanna til þess að senda ekki herlið til Sýrlands. En Bandaríkin reyndu þá herfræði í Írak og hún mistókst.

Um 500 þúsund manns eru þegar drepnir í Sýrlandsstríðinu og tíu milljónir eru á flótta. Ekki sér fyrir endann á átökum. En vonandi sér fyrir endann á misheppnaðri íhlutun Bandaríkjanna í þessum heimshluta.


mbl.is Fyrsta jólamessan í Aleppo í 5 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-Baugsmiðill í tíu ár

Tilfallandi athugasemdir urðu Ekki-Baugsmiðill með sérstakri færslu 30. desember 2006. Baugur, sem þá var viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, lagði undir sig meirihluta íslenskra fjölmiðla og boðaði útrásartrú þar sem postularnir voru íslenskir auðmenn.

Eftir hrun reydust postularnir flestir ótíndir glæpamenn og komust margir undir manna hendur og hlutu dóma. Baugsmiðlarnir, með 365 í fararbroddi, tóku til við að berja á dómskerfinu og finna því allt til foráttu sökum þess að postularnir fengu málagjöld.

Blaðamennska Baugsmiðla smitaði aðra fjölmiðla, engan þó eins mikið og RÚV, er hefur þá köllun að gera trúarsetningu úr Gróu á Efstaleiti og það sem henni er hugstæðast hverju sinni.

En Baugur er gjaldþrota líkt og mörg önnur hlutafélög postulanna. Nú hillir undir eigendaskipti á 365-miðlum þar sem Jón Ásgeir þynnir út sinn eignarhlut og kannski að hann selji allt klabbið.

Af því tilefni er tímabært að taka út auðkennið ,,Ekki-Baugsmiðill" á forsíðuhaus Tilfallandi athugasemda. Tíu ár slaga upp í að vera 20 prósent af ævilengd höfundar. Merkilegur andskoti hve lítið hefur breyst.


mbl.is Greiða 2.200 milljónir fyrir ljós- og fjar­skipta­hluta 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorðingja fagnað og þökkuð frelsun

Vestrænir fjölmiðlar lýsa Assad Sýrlandsforseta sem fjöldamorðingja en íbúar Aleppo þakka honum frelsun borgarinnar. Uppreisnarmenn eru horfnir á braut, komnir til Idlib-héraðs í Norður-Sýrlandi þar sem 12-15 uppreisnarhópar hyggjast stofna íslamskt ríki.

Uppreisnarmenn eru að stórum hluta fjármagnaðir af vestrænum ríkjum, Bandaríkjunum fyrst og fremst, sem vilja Assad forseta feigan. Rússar styða Assad og hann virðist njóta töluverðs stuðnings meðal sýrlensku þjóðarinnar.

Vestrænir fjölmiðlar eiga erfitt með að koma til skila blæbrigðum borgarastríðsins í Sýrlandi. Heimsmynd fjölmiðla er svart-hvít og skiptir deiluaðilum í vonda menn og góða. En þannig er heimurinn ekki, hvorki í Sýrlandi né annars staðar.


mbl.is Fögnuður brýst út í Aleppo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband