Sigmundur Davíð sem stjórnmálahreyfing

Fjölmiðlar líta á Sigmund Davíð sem stjórnmálahreyfingu. Hann má ekki boða fund heima í kjördæminu án þess að fjölmiðlar geri úr því stórpólitískan viðburð.

Sigmundur Davíð má vel við una. Enginn stjórnmálamaður, eftir Davíð Oddsson, er slíkur miðdepill stjórnmálaumræðunnar að enginn kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana.

Sigmundi Davíð eru allir vegir færir í stjórnmálum.


mbl.is „Þetta eru skrýtnir tímar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írska uppgjörið við bankamenn og það íslenska

,,...staðreyndin er að fleiri hafa framið sjálfsmorð á þeim sjö til átta árum, sem liðin eru frá fjármálakreppunni 2007-2008, en voru drepnir á óöldinni í Norður-Írlandi í þrjátíu ár," skrifar Tim Pat Coogan í 1916 á hundrað ára afmæli írsku páskauppreisnarinnar.

Coogan bætir við um írska réttarkerfið: ,,Staðreyndin er, að á aldarafmæli páskauppreisnarinnar, þjónar írska réttarkerfið ekki tilgangi sínum. Það getur ekki tekist á við hvítflipaglæpi."

Enginn írskur hrunvaldur var dæmdur fyrir fjármálaglæpi sem leiddu til írska hrunsins.

Íslenska réttarkerfið stóð sig betur. Fjármálaglæpir voru rannsakaðir og auðmenn dæmdir.


mbl.is Veiktust undan álagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saddam, Pútín og kommúnistaveiðar frjálslyndra

Stærstu mistök Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu í utanríkismálum á þessari öld eru innrásin í Írak árið 2003. Innrásin var réttlætt með þeirri lygi að Saddam Hussein Íraksforseti ætti gereyðingarvopn og væri ógn við heimsfriðinn.

Innrásin í Írak hleypti öllu í bál og brand í miðausturlöndum og leiddi til flóttamannastraums múslíma til Vestur-Evrópu. Meira en áratug síðar sér hvergi til lands í þessum heimshluta.

Í beinu framhaldi af innrásinni í Írak gerðu Bandaríkin og Vestur-Evrópa tilraun til að endurskipuleggja Austur-Evrópu í þágu vestrænna hagsmuna. Með Evrópusambandið og Nató sem verkfæri var rifið í tætlur samkomulag um mörk vestrænna og rússneskra áhrifasvæða. Samkomulagið hafði verið í gildi frá lokum seinni heimsstyrjaldar en endurskoðað eftir fall Sovétríkjanna 1991 og lok kalda stríðsins.

Tilraun Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu að leggja austurhluta álfunnar undir vestrænt áhrifasvæði strandaði í Úkraínu þar sem styrjöld blossaði upp snemma árs 2014. Líkt og nokkur ríki miðausturlanda, s.s. Írak, Sýrland og Líbýa, er Úkraína ónýtt ríki.

Saddam Hussein var drepinn af skjólstæðingum Bandaríkjanna, Gadaffi í Líbýu sömuleiðis. En Janukovits forseti Úkraínu, sem öfl hliðholl Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu steyptu af stóli 2014, náði að flýja til Rússlands. Assad Sýrlandsforseti heldur völdum með stuðningi Rússa.

Pútín Rússlandsforseti er fleinn í holdi vestrænnar útþenslu, bæði í miðausturlöndum og Austur-Evrópu. Þess vegna fær Pútin sömu meðferð og Saddam Hussein um aldamótin. Pútin er sakaður um að vera ógn við heimsfriðinn þar sem hann stendur í vegi fyrir bandarískum og vestur-evrópskum hagsmunum.

Vinstrimenn í Bandaríkjunum (jú, þeir eru til þótt ekki séu þeir sósíalistar) segja herferðina gegn Pútín og þeim sem bera blak af honum minna á kommúnistaofsóknir á MacCarty-tímanum. Þeim svíður sérstaklega að stofnanir í bandarískri umræðu, t.d. New York Times og Washington Post, sem búa að langri hefð frjálslyndis, ganga fram af hörku í kommúnistaveiðum nú um stundir.

Valdastéttin í Washington, máttarstólpar úr röðum demókrata og repúblíkana, er sameinuð í andstöðu sinni við Pútín og Rússland. Þegar maður eins og Donald Trump sigrar forsetakosningarnar getur ástæðan ekki verið önnur en að Pútín standi þar að baki. Spurningin er aðeins að finna sönnunargögnin - búa þau til ef ekki vill betur.

Sigur Trump sýnir kreppu valdastéttarinnar í Bandaríkjunum líkt og Brexit afhjúpaði tilvistarvanda Evrópusambandsins. Í stað þess að horfast í augu við vandann, sem er margvíslegur og fjölþátta, er einfaldara að kenna einhverjum einum um ófarirnar. Pútín Rússlandsforseti þjónar því hlutverki ágætlega.


mbl.is „Þessar upplýsingar eru rangar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband