Fimmtudagur, 8. ágúst 2019
XD-söfnun í þágu þjóðarhagsmuna
Almennir sjálfstæðismenn standa fyrir undirskriftasöfnun til að knýja á um lýðræðislega kosningu innan flokksins um afstöðuna til 3. orkupakkans.
Orkupakkkinn felur í sér framsal á fullveldi þjóðarinnar í orkumálum. Evrópusambandið fær ítök í ákvörðunum um virkjanir hér á landi. Orkupakkinn leggur grunn að sæstreng milli Íslands og Evrópu er fæli í sér stórfellda hækkun á orkureikningum íslenskra heimila og fyrirtækja.
Undirskriftarsöfnunin er rafræn. Slóðin er xd5000.is
![]() |
Fengið mikil og góð viðbrögð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. ágúst 2019
Dómari: tjáningarfrelsið má takmarka ef upplifun er vond
Héraðsdómur segir ótvírætt að uppsögn Kristins Sigurjónssonar hafi
í reynd falið í sér takmörkun á tjáningarfrelsi hans. Kemur þá til skoðunar hvort sú takmörkun hafi engu að síður verið heimil, enda er tjáningarfrelsið ekki algilt
Síðan segir dómarinn að Kristinn hafi kveðið fast að orði og nefnir dæmi um það:
Orðfærið er á köflum gróft, sbr. orðalagið að troða sér, eyðileggja og kerlingar. Verður ekki í efa dregið að ummælin h afi verið til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á aðra, t.d. samstarfsfólk stefnanda og nemendur háskólans.
Fæstir sem tala íslensku myndu telja tilfærð dæmi gróft orðbragð, þótt ekki sé kurteist að segja konur kerlingar.
Svo kemur þessi snilldarlega rökfærsla dómarans:
Samkvæmt framanrituðu stefndi sú takmörkun á tjáningarfrelsi stefnanda sem fólst í uppsögn hans að lögmætu markmiði, þ.e. að verndun réttinda annarra, þar á meðal samstarfsfólks stefnanda og nemenda háskólans, til að upplifa að háskólinn starfaði í reynd eftir gildum jafnréttis. (undirstrikun pv)
Í héraðsdómi Reykjavíkur er tjáningarfrelsið ekki merkilegra en svo að sjálfsagt er að reka fólk úr starfi ef það tjáir sig þannig að einhver fái vonda ,,upplifun."
Þessi dómur er bein árás á tjáningarfrelsið.
![]() |
Kristinn mun áfrýja til Landsréttar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 7. ágúst 2019
Sósíalismi féflettir aldraða fasteignakaupendur
,,Óhagnaðardrifinn" fasteignamarkaður er kjörorð sósíalista á Fróni síðustu árin. Ástæðan er að vegna húsnæðisskorts eftir hrun hækkaði fasteignaverð úr hófi. Félag eldri borgara í Reykjavík reyndi ,,óhagnaðardrifna" byggingu blokkar og kemur nú með bakreikninga, að sögn vegna óvænts kostnaðar.
Það er misskilningur að það sé einhver kostnaðarauki. Kostnaðurinn hefur alltaf legið fyrir en það sem þeir gera er að vanreikna verðmætið. Þeir reikna of lágt verð frá upphafi þar sem þetta er óhagnaðardrifið hjá þeim, segir í svari MótX.
Sósíalismi er kostnaðaraukinn. Og það ætti ekki að koma á óvart. ,,Óhagnaðardrifið" samfélag var reynt í Sovétríkjunum sálugu og í Venesúela um þessar mundir.
Sósíalismi þýðir sjálfkrafa kostnaðarauka. Deilan snýst alltaf um hver eigi að bera kostnaðaraukann.
![]() |
Verktakinn aldrei lent í öðru eins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 7. ágúst 2019
Boris, Trump, Sesar og frásagnarvald
Nýr forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, náði stjórn á frásögninni af Brexit og er þess vegna með betri vígstöðu en forveri sinn, May bjargarlausa.
New York Times breytti fyrirsögn á forsíðufrétt þar sem hún þótti styðja frásögn Trump um hatursglæpi. Þorri stærstu fjölmiðla Bandaríkjanna hatast við Trump og berst við hann um yfirráðin yfir frásögninni. Forsetinn mátti ekki fá stuðning við sína útgáfu á forsíðu óvinarins.
Það er ekki nýtt að frásögnin býr til stórmenni er valda straumhvörfum. Á fyrstu öld fyrir Krist varð Júlíus Sesar alvaldur í Róm á grunni frásagna af stórsigrum hans yfir Göllum sem byggðu núverandi Frakkland og Belgíu. Sesar skrifaði sjálfur um hetjuverk sín í þriðju persónu og sendi til Rómar. Eftir fall Sesars leið lýðveldið undir lok.
Við skiljum heiminn með frásögn. Sá sem ræður frásögninni stjórnar því hvernig við skiljum menn og málefni. Frásögn er vald.
Á Íslandi er RÚV vinstrimönnum heilagt. Ekki vegna þess að þar starfi svo frábærir fagmenn er finna fréttir sem enginn annar getur. Heldur af hinu að RÚV leggur línurnar um frásögnina, raðar upp fréttum til að leiða áheyrendur inn í frásagnarheim vinstrimanna.
Vandinn hjá RÚV og vinstrimönnum er að síðan Birgitta var og hét vantar þá persónu til að hengja á frásögnina. Allar frásagnir þurfa persónur; litlu gulu hænuna, Bjart í Sumarhúsum, Gunnar á Hlíðarenda.
En, vitanlega, það er þrautin þyngri að smíða stórsögu um persónur í íslenska nálægðarsamfélaginu. Frásögnin hér heima hlýtur alltaf að vera svolítið nær veruleikanum en stórsögurnar um Bóris bjarta, Trump djarfa og Sesar goðumlíka.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. ágúst 2019
Fólkið gegn forystu Sjálfstæðisflokksins
Almennir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins safna liði til að leiðrétta ranga stefnu forystu flokksins í fullveldismáli. Orkupakkinn er spurning um hvort Íslendingar haldi áfram fullu forræði yfir raforkumálum þjóðarinnar eða láti Evrópusambandið fá íhlutunarrétt í mikilvægri náttúruauðlind.
Í marga mánuði virðir forysta flokksins almenna umræðu flokksmanna að vettugi. Eðlilega sárnar flokksmönnum að forystan láti málefnaleg rök sem vind um eyru þjóta og haldi sínu striki og ætlar ótrauð að knýja í gegn mál sem heggur að fullveldi þjóðarinnar.
Forysta sem ekki tekur mark á vilja flokksmanna er komin út í ófæru. Án almennra flokksmanna er enginn flokkur, aðeins umboðslaus forysta.
![]() |
Undirskriftum sjálfstæðismanna safnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 5. ágúst 2019
Þöggun: orkupakkinn þolir ekki umræðu
RÚV, auðvitað, gekk í lið með talsmönnum 3. orkupakkans og gerði að fyrstu frétt kröfu um þöggun á umræðu. Samkvæmt RÚV er hættulegt að kunnáttumenn eins og Arnar Þór Jónsson fjalli um ,,viðkvæmt" mál á borð við orkupakkann.
Hvað er ,,viðkvæmt" í orkupakkaumræðunni? Jú, ESB-sinnar og forysta Sjálfstæðisflokksins sitja uppi með gjörtapaða stöðu.
Annar kunnáttumaður á sviði laga skrifaði undir nafnleynd, líklega vegna hættu á pólitísku einelti, pistil á heimasíðu Ögmundar Jónassonar. Þar er m.a. vakin athygli á þeirri mótsögn orkupakkasinna að þeir ætla samtímis að innleiða lög og reglur ESB um samtengingu orkukerfa - út á það gengur orkupakkinn - en jafnframt þykjast koma í veg fyrir lagningu sæstrengs.
Einfaldasta og öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir sæstreng er að hafna 3. orkupakkanum. Það má bara ekki segja það upphátt. Sannleikurinn er ,,viðkvæmur".
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 4. ágúst 2019
Björn: orkupakkinn er pólitísk óvissa
Einn helsti talsmaður 3. orkupakkans, Björn Bjarnason fyrrv. ráðherra, viðurkennir að pólitísk óvissa sé fylgifiskur pakkans. Fjöldahreyfing er stofnuð til að stöðva innleiðingu pakkans, almennir sjálfstæðismenn andmæla stefnu forystunnar, þjóðin er á móti og fylgið hrynur af flokknum.
Óvissa er vægt til orða tekið, nær væri að tala um pólitískar hamfarir. Móðurflokkurinn er í sömu stöðu og strax eftir hrun, bjargarlaus og rökþrota.
Sjálfstæðisflokkurinn er við það að tapa forystuhlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum. Himinn og haf er á milli ráðherra flokksins sem kalla orkupakkann þýðingarlaust smámál en er stórhættulegt valdaframsal á fullveldi þjóðarinnar í augum andstæðinga pakkans.
Forysta Sjálfstæðisflokksins er einangruð í málinu. Öll rök falla til Dýrafjarðar og sá fjörður er í fullvalda Íslandi.
Eftir það sem á undan er gengið yrði versta niðurstaða Sjálfstæðisflokksins að fá orkupakkann samþykktan. Á yfirborðinu liti samþykkt út eins og stórsigur. En þegar sæstrengsumræðan fer á fullt í kjölfarið mun opinberast að varnir Íslands eru stórum veikari, einmitt vegna orkupakkans. Sjálfstæðisflokkur sem skipulega veikir fullveldi landsins er skrímsli sem eyðir sjálfu sér.
Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur fáeina daga að vakna og bregðast við áður en óbætanlegt tjón hlýst af. Annars verður ,,smámálið", orkupakkinn, litla þúfan sem veltir fylgishlassi Sjálfstæðisflokksins og dreifir því um víðan völl.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 3. ágúst 2019
Þórdís og bréfið til Brussel
ESB-sinnar og orkupakkafólkið vitnar í Úlfljótsgrein Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar til stuðnings 3. orkupakka ESB. Þar eru tvær lykilefnisgreinar. Sú fyrri er þessi:
Flutningur raforku hér á landi er í höndum Landsnets hf. og eru eigendur þess vinnsluaðilar raforku. Slíkt eignarhald væri að öllu jöfnu ekki í samræmi við ákvæði þriðju raforkutilskipunarinnar. Ekki er þó nauðsynlegt að gera breytingar þar á í tilefni af innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt þar sem Íslandi var veitt undanþága frá þessu skilyrði tilskipunarinnar í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017.
Það sem sagt liggur fyrir að Ísland getur fengið undanþágu frá tilskipun ESB um raforku. Seinni lykilefnisgreinin:
Mikilvægt er að hafa í huga, þegar rætt er um valdheimildir ACER, sem eru í höndum ESA gagnvart EFTA-ríkjunum, að þessar stofnanir geta einungis tekið bindandi ákvarðanir þegar eftirlitsaðilar í ríkjunum geta ekki náð samkomulagi sín á milli um atriði er varða grunnvirki yfir landamæri. Með öðrum orðum þá gilda þær einungis þegar álitamálið lýtur að tengingum milli landa með flutningslínu eða sæstreng. (undirstr. pv) Raforkukerfi Íslands er ekki tengt við önnur lönd. Af þeim sökum geta ekki komið upp þau tilvik að ESA beiti hinum bindandi valdheimildum gagnvart Orkustofnun.
Í viðtengdri frétt segir að engar hugmyndir eru uppi um að leggja sæstreng til að flytja raforku frá Íslandi til Evrópu.
Að þessu gefnu, undanþágur eru í boði frá raforkutilskipun ESB, og enginn sæstrengur er í bígerð þá er einboðið að Íslandi fái undanþágu frá öllum 3. orkupakkanum. Allur pakkinn skiptir engu máli fyrir Ísland á meðan enginn er sæstrengurinn. Til hvers að fórna sjálfstæðisstefnunni fyrir eitthvað sem engu máli skiptir?
Þórdís, málið er einfalt. Þú sendir Brussel línu um að Ísland segi sig frá raforkumálum í EES-samningnum. Í Brussel hljóta menn að fallast að þetta sjónarmið. Hvorki á Ísland hagsmuni á evrópskum raforkumarkaði né ESB í íslenskri raforku. Við skulum hafa það þannig um hríð.
Og Þórdís, bara okkar á milli, þá mun ég hvorki senda þér né Gulla reikning upp á 25 milljónir fyrir þessa ráðgjöf. Hún er ókeypis.
(Ofanritaður texti var skrifaður 14. nóvemer í fyrra. Enn er tækifæri til að skrifa bréf til Brussel.)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 2. ágúst 2019
Heilög Katrín og einkalíf annarra
Hvað fólk hugsar og talar í einkalífi er, samkvæmt siðferði og lögum, einkamál.
Fáeinir þingmenn stunduðu einkalíf sín á milli og voru hljóðritaðir með ólögmætum hætti.
Heilög Katrín ætti ekki að fara í hlutverk faríseans þegar klausturmál ber á góma. Hver veit hvað hún sjálf hugsar og talar í sínu einkalífi?
![]() |
Skilji ekki alvarleika orða sinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. ágúst 2019
Frakkar steiktir, Englendingar bara svalir
Falsfrétt mbl.is, meðfylgjandi, er að manngert veður sé um það bil að steikja Frakka. Handan Ermasundsins er England sem býr að hvað lengstu samfelldu hitamælingum á byggðu bóli.
Meðalhitinn í júlí nýliðnum var 17,5 C, sem er 1,3 gráðum kaldara, já kaldara, en árið 1783.
En falsfréttir fjölmiðla eru ábyggilega áreiðanlegri en raunmælingar á hitastigi.
![]() |
Óhugnanleg gervispáin rættist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)