Bloggher Samfó og Pírata - Göbbelsaðferðin

Aðferð áróðursmálaráðherra Þriðja ríkisins, Jósef Göbbels, var að endurtaka sömu lygina nógu oft til að almenningur tryði. Bloggher Samfylkingar og Pírata klappar sama steininn í dag og í gær.

Samræmdu skilaboðin eru þessi: Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Tilbrigðin eru ýmis, s.s. Vinstri grænir gefast upp, Bjarni Ben. sterkari en Katrín, uppgjöf VG og svo framvegis.

Tilefni samræmdu skilaboðanna er ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ár.


Rússar spyrja um heilsu heimilisdýra njósnarafjölskyldu

Skrípal fjölskyldan hélt ketti og marsvín sem ættu að hafa orðið fyrir sömu eitrun og feðginin, segir í frétt Welt um viðbrögð rússneskra yfirvalda við ásökunum Breta.

Bretar standa á því fastar en fótunum að útsendarar Moskvu hafi eitrað fyrir Skrípal-feðginunum með eitri sem var smurt á útidyr íbúðarhúss fjölskyldunnar.

Já, en hvað um heimilisdýrin?


mbl.is Bretar geta ekki hundsað spurningar Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færri fjölmiðlar og falsfréttum fækkar

Fjölmiðlum fækkar og heimur versnandi fer, er viðkvæðið á fjölmiðlum eins og Kjarnanum, Hringbraut og Stundinni. En það er öðru nær. Við erum betur sett með færri fjölmiðla en fleiri.

Netútgáfur spruttu eins og gorkúlur á haug fyrir fáeinum árum. Í flestum tilfellum er markmið netútgáfna, t.d. þeirra sem nefndar eru hér að ofan, að hafa áhrif á samfélagsumræðuna fremur en að miðla fréttum.

Umræðumiðlar eru ein helsta uppspretta falsfrétta. Ástæðan er sú fréttirnar eru umbúðir utan um pólitísk skilaboð. Fréttir eru ekki lengur upplýsingar heldur álitsgjöf fólks með pólitíska dagskrá.

Netútgáfurnar sem hanga á horriminni vilja fá peninga frá ríkinu til að standa undir rekstrinum. Það væri út í bláinn af ríkinu að niðurgreiða falsfréttir.


Jón Gnarr og dauði Bjartrar framtíðar

Björt framtíð var aukaflokkur Samfylkingar. Bullbandalag Jóns Gnarr, Besti flokkurinn, gekk inn í Bjarta framtíð til að skaffa fólki af sama sauðahúsi þægilega innivinnu - hátt kaup en litla viðveru.

Píratar þrengdu nokkuð kost Bjartar framtíðar enda róið á sömu mið. Þegar Jón Gnarr bað um bitling frá Bjartri á síðasta ári fékk hann afsvar. Gnarrinn gekk óðara í Samfylkinguna út á peninga, sem koma frá ríkinu til að standa undir lýðræðinu.

Guðlaug Kristjánsdóttir, sem ekki veitti samþykki fyrir fjárútlátum til Jóns Gnarr, er nú gengin úr Bjartri framtíð. 

Þægileg innivinna og bitlingar skapa flokka og tortíma.


mbl.is Segja sig úr Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump snýr baki við Sýrlandi - Rússar, Tyrkir og Íranir sigra

Trump varð forseti út á loforð um að hætta hernaðarævintýrum í miðausturlöndum, t.d. Sýrlandi, Írak og Líbýu þar sem Obama forseti og fyrri valdamenn í Washington stóðu fyrir misheppnuðum valdaránum í nafni vestræns frjálslyndis. Þótt Hvíta húsið tempri yfirlýsingu Trump er ljóst hvert stefnir.

Ráðamenn Rússlands, Tyrklands og Íran hittast til að ræða framtíð Sýrlands. Bandaríkin eiga ekki aðild. Til skamms tíma var yfirlýst stefna Bandaríkjanna að Assad forseti skyldi víkja. Hann er skjólstæðingur Íran og Rússlands. Erdogan Tyrklandsforseti vildi Assad einnig feigan í embætti en lætur líklega kaupa sig með vilyrðum um ítök í Kúrdabyggðum í Norður-Sýrlandi.

Mistök vestrænna ríkja í miðausturlöndum frá aldamótum verða þeim dýrkeypt. Kenningar um endalok vestrænna áhrifa í þriðja heiminum fá byr undir báða vængi.

 


mbl.is Hefja byggingu fyrsta kjarnorkuvers Tyrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spjaldtölvur til góðs og ills

Spjaldtölvur eru þénugt verkfæri í skóla, geta bæði geymt námsefni og vinnu nemenda. En hængurinn er sá að spjaldtölvur geta unnið gegn þeirri viðleitni kennara og foreldra að koma böndum á þann tíma sem börnin nota í snjalltæki.

Engin leið er að gefa eina allsherjarreglu um skynsama notkun snjalltækja í námi. Nema kannski eina.

Meðalhófið.


mbl.is Gagnrýnir spjaldtölvuvæðingu skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti-fréttir og guðlegir fjölmiðlar

Fréttir um framtíðina eru spásagnir um óorðna hluti. Enginn veit með nokkurri vissu hvað framtíðin ber í skauti sér. Eftirspurnin er þó fyrir hendi og gæti-fréttir reyna að anna henni.

Fjölmiðlar vilja vera hluti af daglegu lífi fólks. Til skamms tíma þótti nóg að þeir flyttu nýlegar fréttir, svo fóru þeir að flytja rauntímafréttir í beinni útsendingu. En núna er það ekki nóg. Gæti-fréttir segja okkur hvað gerist í framtíðinni.

Við gætum dregist inn í tollastríð Kína og Bandaríkjanna; Grænlandsjökull gæti bráðnað; plast gæti ógnað lífríki sjávar; Norður-Kórea gæti hrundið af stað kjarnorkustyrjöld og svo framvegis. Flestar gæti-fréttir boða hörmungar í einni eða annarri mynd.

Löngu fyrir daga fjölmiðla sáu prestar um fréttir af framtíðinni. Trúarmiðstöðvar eins og Delfí í Forn-Grikklandi voru uppspretta gætu-frétta. Opin spurning er hvort það sé framför að heimildarmenn gætu-frétta samtímans séu af holdi og blóði.

 


mbl.is Ísland gæti dregist inn í tollastríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír þingmenn Pírata og falskar háskólagráður

Þrír þingmenn Pírata skreyta sig með háskólagráðum í lögfræði, stærðfræði og stjórnmálafræði án þess að hafa útskrifast úr háskóla með gráðurnar. Pírataþingmennirnir kynna sig með þessum gráðum til að gera sig trúverðuga.

Fölsk háskólapróf eru líkt og falsfréttir; ætlaðar til að afvegaleiða almenning.

Píratar, sem þykjast daginn út og inn berjast gegn spillingu, ættu að byrja tiltektina heima hjá sér.


Norsk yfirráð yfir Íslandi óásættanleg

Norðmenn líta á Ísland sem hjálendu sína gagnvart EES-samningnum. Ef eitthvað er ákveðið í Osló skal það samþykkt í Reykjavík, er viðkvæðið. Tímabært er að íslensk stjórnvöld hætti að vera leiðitöm þeim norsku og nýti fullveldisrétt okkar.

Norskir embættismenn ákváðu að raforkuframleiðsla í Noregi skyldi fara undir yfirstjórn Evrópusambandsins og var það gert undir formerkjum EES-samningsins. Engin gaumur var gefinn íslenskum hagsmunum, frekar en fyrri daginn.

Ef yfirstjórn raforkumála hérlendis flyst til Brussel myndast íhlutunarréttur Evrópusambandsins í virkjanaumræðu á Íslandi. Það má ekki gerast. Alþingi og ríkisstjórn eiga að vera samstíga um að stöðva norsk-evrópska atlögu að fullveldinu.


mbl.is Noregur hunsað hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vælið í Woodstock-kynslóðinni og börnum hennar

Woodstock-kynslóðin, 65 ára og eldri, kenndi börnum sínum eftirfarandi: við viljum lífsgæði, forréttindi - og það strax - en alls ekki axla ábyrgð á lífi okkar, segir í gagnrýni á þessar tvær kynslóðir í Welt.

Nokkuð til í þessu, með fyrirvara um alhæfingar. Á Íslandi vælir Woodstock-kynslóði um bág kjör aldraða. Þetta er sú kynslóð sem best hefur haft kjörin allra kynslóða Íslandssögunnar. Hún getur hætt að vinna í blóma lífsins, 65-70 ára, á góðum lífeyri og á meiri eignir en sögur fara af öðrum kynslóðum. Vælir samt út í eitt um hve lífið sé skítt.

Börn þessarar kynslóðar, á fimmtugs og sextugsaldri, bera mesta ábyrgð á hruninu og þar var ekki ábyrgðinni fyrir að fara. Hugmyndi var að veðsetja óbornar kynslóðir Íslendinga með Icesave I-III. Góðu heilli voru ekki öll eplin skemmd. Ólafur Ragnar af Woostock-kynslóðin gekkst fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og barn kynslóðarinnar, Sigmundur Davíð, fann leið til að láta þrotabú bankanna bera skaðann. (Meðal annarra orða: hvers vegna er ekki komin stytta af Sigmundi Davíð við hlið Jóns Sig. á Austurvelli?)

Heimtufrekju tveggja kynslóða til lífsgæða, sem ekki eru sjálfbær, er tímabært að reisa skorður við. Það má byrja á því að hækka lífeyrisaldurinn upp í 75 ár. Vinnandi fólk hefur minni tíma í vælið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband