Raunsæi eða óreiða; Nató eða ekki

Ísland er aðili að Nató frá 30. mars 1949 með samþykkt á alþingi. Mestu götuóeirðir Íslandssögunnar urðu þennan dag, svo að ljóst má vera að skiptar skoðanir voru í lýðveldinu unga um aðildina.

Nató var stofnað sem hernaðarbandalag Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu í upphafi kalda stríðsins. Vitanlegan átti að leggja Nató niður þegar kalda stríðinu lauk fyrir tæpum 30 árum. En það var ekki gert og Nató varð verkfæri Bandaríkjanna og ESB að herja á fjarlæg lönd, t.d. Úkraínu og Írak.

Frá siðferðislegu sjónarmiði ætti Ísland að segja sig úr Nató. En í alþjóðamálum trompar valdið alltaf siðferðið. Ef Ísland tæki siðferðilega rétta afstöðu, og segði sig úr hernaðarbandalaginu, yrði valdatómarúm á Norður-Atlantshafi. Ísland yrði leiksoppur í viðleitni stórvelda, Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands og Evrópusambandsins að tryggja hagsmuni sína í þessum heimshluta.

Það er ekki gott fyrir smáríki að verða leiksoppur stórvelda. Það veit á óreiðu í innanríkismálum þar sem ólíkir hópar viðra sig upp við útlenda hagsmuni. Þess vegna eigum við að halda okkur við skásta kostinn í öryggis- og varnarmálum, standa við samþykktina frá 30. mars 1949 og dvelja áfram í Nató. Jafnvel þótt hernaðarbandalagið sé oftar á röngunni en réttunni hin síðari ár.


mbl.is Ræða afstöðu Íslands í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramadrottningin í KÍ

Ragnar Þór Pétursson var ekki tekinn við formennsku í KÍ áður en vantrausti var lýst á hann. Það er einsdæmi í sögu stéttarfélaga. 43 prósent þingfulltrúa lýstu vantrausti á Ragnar Þór.

Ragnar Þór sló í gegn sem dramadrottning í Kastljósi og með bloggskrifum þar sem hann sagðist ofsóttur af vondu fólki vegna skoðana sinna. Þegar að var gáð reyndust ofsóknirnar þær einar að fyrrum nemandi kærði Ragnar Þór fyrir að sýna sér klám.

Á meðan Ragnar Þór var einn um að skrifa fjölmiðladrama í kringum sína persónu leið honum fjarska vel í sviðsljósinu. En þegar réttar ályktanir voru dregnar af framgöngu hans fannst nýkrýnda formanninum það ekkert sérlega sniðugt.

Menn flýja ekki sjálfa sig. Ragnar Þór mun sýna í starfi sínu hvaða mann hann hefur að geyma. Sá naumi meirihluti sem studdi Ragnar Þór á þingi KÍ mun naga sig í handarbökin fyrir dómgreindarleysið.


mbl.is Formaður KÍ skammaði fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland réðst ekki á Sýrland

Í gær var umræða um afstöðu Íslands til flugskeytaárása á Sýrland. Látið var að því liggja í RÚV, með spurningum til ráðamanna, að Ísland ætti einhvern hlut að máli.

Flugskeytaárásin kemur Íslandi ekki hið minnsta við. Þrjú ríki, Bandaríkin, Bretland og Frakkland ákváðu að skjóta á Sýrland og spurðu hvorki kóng né prest. Alþjóðleg samtök sem Ísland á aðild að, t.d. Sameinuðu þjóðirnar og Nató, voru ekki höfð með í ráðum.

Tilraunir RÚV og annarra álitsgjafa í fjölmiðlum til að gera Ísland meðsekt eru ekki í neinum tengslum við veruleikann.


mbl.is Öryggisráðið felldi tillögu Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband