Alræðisríki starfsfólks Fiskistofu

Starfsfólk Fiskistofu hefur haft helgina til að meðtaka tíðindin um að stofnunin verður flutt til Akureyrar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að dreifingu opinberra starfa.

Það má hafa margar skoðanir á því hvort Fiskistofa sé betur staðsett í Hafnarfirði eða Akureyri.

En kenna fyrirhugaðan flutning við starfshætti alræðisríkis er bratt. Hvaða alræði setti Fiskistofu niður í Hafnarfirði? 


mbl.is Minnir á vinnubrögð í alræðisríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn brjálaðir út í betri hag heimilanna

Vinstrimenn eru brjálaðir út í fulla atvinnu, lágt atvinnuleysi og hagvöxt. Vinstrimenn telja ekki ástæðu til að fagna batnandi hag heimilanna.

Nei, þegar allar kennitölur íslenska hagkerfisins eru betri en flestra annarra ríkja, og miklu betri en í Evrópusambandinu, þá er herútboðið hjá vinstrimönnum enn það sama: verum brjáluð, skrifar Margrét Tryggvadóttir fyrrum þingmaður í málgagnið og telur Ísland óalandi og óferjandi.

Og hver er ástæða brjálæðisins og heimsósómaskrifanna?

Jú, neysluviðmið.

Íslenskum vinstrimönnum líður ekki vel nema allt sé í kalda koli. Einmitt þess vegna eigum við ekki fyrir nokkra muni að hleypa þeim í stjórnarráðið.


mbl.is Eignastaða batnar með hækkandi verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið mest pólitískt en minnst efnahagslegt

Okkur birtist hrunið í október 2008 sem gjaldþrot banka og ógn við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar nokkru síðar - í Icesave-málum. Í kjölfarið varð að stokka upp eignarhald á atvinnulífinu og margur pappírsgróðinn hvarf eins og dögg fyrir sólu á meðan annar myndaðist fyrir tilstilli afskrifta.

Efnahagsleg áhrif hrunsins á almenning voru á hinn bóginn mun minni. Blessuð íslenska krónan, sem vinstrimenn þreytast ekki á að formæla, sá til þess að atvinnuleysi var nálega ekkert, nema í skamma stund eftir hrun, og hagvöxtur tók fljótlega við sér.

Við vorum fljót að jafna okkur efnahagslega eftir hrun. Á hinn bóginn verðum við töluvert lengur að ná nýju pólitísku jafnvægi.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem var hryggstykki stjórnmálanna í áratugi, laskaðist verulega við hrunið. Vinstrimenn töldu sig komna til langtímavalda með ríkisstjórn Jóhönnu Sig. fengu framan í sig blauta tusku kjósenda vorið 2013 sem höfnuðu forsjá þeirra. 

Framsóknarflokkurinn er sigurvegari eftirhrunsstjórnmálanna. Enda gerði flokkurinn með rétta afstöðu í öllum stærstu málunum; stóð með krónunni, er á móti ESB-aðild og hafnaði Icesave-lögunum.

Á hinn bóginn er langur vegur að nýtt jafnvægi sé komið á stjórnmálin, eins og sást í sveitarstjórnarkosningum í vor. 


mbl.is Lífsgæðin svipuð og fyrir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landafræði og saga trompa stjórnmál

Á síðustu 100 árum eru öll ríki á meginlandi Evrópu búin að gera innrás í nágrannaríki, orðið fyrir innrás eða byltingu - oft var allt þrennt hlutskipti Evrópuríkis á meginlandinu. Í því ljósi er skiljanlegt fylgi við yfirþjóðlegar stofnanir, eins og Evrópusambandið, á meginlandinu.

Bretaland á hinn bóginn er eyja sem varð síðast fyrir innrás fyrir þúsund árum, í lok víkingaaldar þegar afkomendur Göngu-Hrólfs í Normandí gerðust herrar Englands undir forystu Vilhjálms sigurvegara.

Bretar líta á meginland Evrópu sem uppsprettu ásækins valdboðs, fyrst konungar Spánar og Frakklands síðar Napoleón, þá Hitler og núna Evrópusambandið.

Á þess leið er greining dálkahöfundarins Bruce Andersson á stöðu Bretlands í Evrópusambandinu. Greiningin er ein af mörgum sem útskýrir það sem margir telja óhjákvæmilegt; að Bretland sé á leiðinni úr Evrópusambandinu.

Ef Bretland á litla samleið með Evrópusambandinu sökum landafræði og sögu þá er Ísland enn fjær því að eiga erindi inn í félagsskap meginlandsríkjanna.


ESB-Össur verður Kínasinni

Össur Skarphéðinsson hratt ótímabærri ESB-umsókn úr vör í utanríkisráðherratíð sinni. Jafnframt hélt hann áfram vinnu við gerð fríverslunarsamnings við Kína. ESB-aðild og fríverslun við Kína er mótsögn sökum þess að Evrópusambandið sér um fríverslunarsamninga fyrir hönd aðildarríkja sinna.

Ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu yrði að segja upp fríverslunarsamningi við Kína. En sé mark takandi á fyrrum utanríkisráherra er ESB-umsóknin dauð og grafin. Össur er búinn að gefa ESB-aðild upp á bátinn og mærir Kína í bak og fyrir.

Mannréttindasinnum í Samfylkingunni hlýtur að vera skemmt.


Sígildi stjórnmála: 10 ára goðadeila Davíðs og Ólafs Ragnars

Tíu ár eru síðan Ólafur Ragnar Grímsson forseti neitaði að skrifa undir fjölmiðlalög ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Fjölmiðlalögin áttu að takmarka veldi auðmanna, einkum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem átti stærstan hlut fjölmiðla í landinu.

Synjun Ólafs Ragnars á fjölmiðlalögum staðfesti yfirvald auðmanna sem fóru sínu fram hvað sem leið lögum og reglum. Afleiðingin birtist í hruninu fjórum árum síðar.

Oft er litið á slaginn um fjölmiðlalögin sem orustu á milli Davíðs Oddsonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Jón Ásgeir reyndi ýmist að kaupa Davíð eða eyðileggja stjórnmálaferil hans.

Jón Ásgeir er engu að síður réttur og sléttur fjármálamaður með hugann við auðssöfnun. Völd í hans huga eru verkfæri til að eignast peninga.

Þegar Ólafur Ragnar synjaði fjölmiðlalögum staðfestingu var hann fyrst og fremst að veita Davíð Oddssyni pólitískt högg. Þeir tveir voru höfuðandstæðingar íslenskra stjórnmála allt frá Viðeyjarstjórninni 1991 þegar Davíð innbyrti Alþýðuflokk Jóns Baldvins frá Ólafi Ragnari sem vildi halda í vinstristjórn Steingríms Hermannssonar.

Ólafur Ragnar fann sér nýjan pólitískan vettvang þegar hann náði kjöri til forseta 1996. Meginástæðan fyrir kjöri Ólafs Ragnars, sem var þekktur pólitískur vígamaður á vinstrikantinum, var einmitt að litið var á hann sem mótvægi við hægrimanninn Davíð Oddsson sem gerðist nokkuð einráður í flokkastjórnmálum á þessum tíma.

Ólafur Ragnar og Davíð eru í þeim skilningi líkir goðum á þjóðveldisöld, t.d. Arnkeli Þórólfssyni og Snorra Þorgrímssonar í Eyrbyggju, að deilur þeirra voru málefnalega persónulegar. Harðsnúnir stuðningsmenn eru í liði beggja sem gera sitt til að málefnadeilur verði sem persónulegastar.

Mikilvægasta deilan í aðdraganda forsetasynjunar á fjölmiðlalögum var í febrúar sama ár. Davíð og Ólafur Ragnar tókust á um hlutverk forseta Íslands, þar sem Davíð lagði áherslu á hlutlausan þjóðhöfðingjaþáttinn en Ólafur Ragnar veigameiri hlutverk forsetans í stjórnskipuninni. Lagaþrætur eru einmitt drjúgur þáttur í deilum goða á þjóðveldisöld.

Forsetinn fór halloka í febrúardeilunni. Nánustu stuðningsmenn forsetans létu þau boð út ganga að það yrði að setja Davíð stólinn fyrir dyrnar með öllum tiltækum ráðum. Tækifærið kom um sumarið.

Ólafur Ragnar vísaði ekki með aukateknu orði í febrúardeilu þeirra Davíðs þegar hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar 2. júní 2004. Allir sem fylgjast með stjórnmálum vissu þó að meira bjó að baki en snotur orð um að á hafi ,,skort sam­hljóm­inn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mik­il­vægu máli."

Nærfellt allir vinstrimenn studdu Ólaf Ragnar þegar hann veitti Davíð þungt pólitískt högg með synjun fjölmiðlalaga. Vinstrimönnum fannst ekkert athugavert við það að Ólafur Ragnar muldi undir þekktasta auðmann landsins sem hélt fjölmiðlum í heljargreipum. Mestu skipti að Davíð yrði fyrir pólitískri hneisu. Davíð hætti í stjórnmálum rúmu ári eftir synjun fjölmiðlalaga.

Jón Ásgeir og auðmannahópurinn skildi eftir sig nær gjaldþrota þjóð og forseta sem átti um sárt að binda vegna vinfengi við auðmenn. Icesave-málið var efnahagspólitískt uppgjör við skuldir auðmanna. Ríkisstjórn vinstrimanna, Jóhönnustjórnin, vildi fyrir alla muni hengja óreiðuskuldir einkabanka um háls almennings að kröfu Breta og Hollendinga.

Ólafur Ragnar synjaði Icesave-lögum staðfestingar í tvígang, 2010 og 2011, eftir umtalsverðan þrýsting frá sjálfssprottnum samtökum. Vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sú fyrsta hreina í lýðveldissögunni, átti allt undir framgangi Icesave-laganna. Þjóðin hafnaði lögum ríkisstjórnarinnar í tveim þjóðaratkvæðagreiðslum og vinstristjórnin bar ekki sitt barr eftir það.

Vinstrimenn töldu forsetann fremja pólitískan höfuðglæp með synjun Icesave-laganna og sóru af sér fyrrum oddvita sinn. Vinstrimenn blésu til vinsældakeppni um heppilegasta áskoranda Ólafs Ragnars í forsetakosningunum 2012 og fundu sjónvarpskonu. Ólafur Ragnar sigraði afgerandi og fékk meðal annars stuðning frá Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins.

Tíu ára afmæli goðadeilu Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars um fjölmiðlalögin er áminning um að stjórnmál eru nokkru meira en summa þátttakendanna og heldur minna en hlutlæg vísindi. Stjórnmál eru sögulega skilgreind og iðkun þeirra samspil oddvita, stuðningsmanna, stofnana og almennings.

 

 

 


Þorvaldur, frumburðarrétturinn og landráðin

Landráðamönnum er ætlaður sérstakur staður í víti Dantes, með höfuðglæpamanni kristni, sjálfum Júdasi Ískaríot.

Landráð eru að svíkja kyn sitt, samlanda, undir erlend yfirráð. Þeir sem kunna fyrir sér í miðaldasögu, t.d. Robert Bartlett, segja þjóðerni haldast í hendur við réttlæti. Réttlæti er torsótt í framandi menningarheimi. Að svíkja þjóð sína undir útlendinga er að taka frá þeim frumburðarréttinn.

Þorvaldur Gylfason prófessor og stjórnlaganefndarmaður vill breyta skilgreiningu á landráðamanni. Þorvaldur, sem heyktist á því að bjóða sig fram til alþingis þegar skoðanakannanir sýndu litla eftirspurn, vill meina að landráðamaður sé sá sem ekki fellst á forræði Þorvaldar og félaga yfir stjórnarskrá lýðveldisins.

Þorvaldur telur frumburðarrétt sinn að sýsla með stjórnarskrá lýðveldisins. Alþingi, sem samkvæmt stjórnarskrá er einu heimilt að breyta stjórnarskránni, er til trafala frumburðarrétti Þorvaldar. Nóta bene: komist Þorvaldur til áhrifa á alþingi er allt í lagi að véla þar um stjórnarskrána - en þangað til alls ekki.

 

 


Skrifað undir stríðsástand í Evrópu

Á morgun eru liðin 100 ár frá morði Frans Ferdínand erkihertoga Austurríkis-Ungverjalands. Morðið er upphaf fyrri heimsstyrjaldar. Daginn fyrir morðafmælið skrifa leiðtogar Evrópusambandsins undir samning við Úkraínu sem Rússar telja beina ógn við sína hagsmuni.

Úkraína ætlar sér að verða aðildarríki Evrópusambandsins. Góðkunningi Íslendinga, Stefan Füle stækkunarstjóri ESB, þakkar Pororsénkó forseta Úkraínu sérstaklega fyrir ótvíræða yfirlýsingu um að Úkraína sækist eftir ESB-aðild.

Rússland er voldugasti nágranni Úkraínu og er með öll ráð landsins í hendi sér. Í Kreml er litið á Porosénkó forsta Úkraínu sem nasista en það orð nota Rússar yfir verstu óvini sína.

Morðið á Frans Ferdínand og samningur ESB og Úkraínu eiga það sameiginlegt að þar skerast í odda meginhagsmunir andstæðra stórvelda. Evrópusambandið ætlar sér að verða stórveldi á meginlandi Evrópu og Rússland er eina ríkið sem stendur í vegi fyrir yfirvaldi ESB. Úkraína er mikilvægasta ríkið á landamærum ESB og Rússlands.

Samstarfssamningur ESB og Úkraínu mun leiða til varanlegs stríðsástands í Austur-Evrópu þar sem stórveldi álfunnar takast á um völd og yfirráð.


mbl.is „Frábær dagur fyrir Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll: ESB-umsókn er töfralausn

„Það hefur sýnt sig að yfirlýsing um að stefnt sé að Evrópusambandsaðild er töfralausn við fjármálalegum óstöðugleika og aðstæðum á borð við þær sem Íslendingar standa nú frammi fyrir," sagði Árni Páll Árnason, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, og núna formaður, í samtali við Viðskiptablaðið í október 2008.

Ætli Árni Páll sé enn sama sinnis?


Ekki þverfótað fyrir erlendri fjárfestingu

Erlent fjármagn leitar í íslenskt atvinnulíf sem aldrei fyrr; ferðaþjónusta, tæknigeirinn og byggingarmarkaður trekkja fjármagn frá útlöndum. Erlendar fjárfestingar eru stuðningsyfirlýsing við efnahagsstefnu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs, þar sem stöðugleiki er i fyrirrúmi.

Krónuhagkerfið íslenska sýnir fram á hagvöxt á pari við það sem best gerist á alþjóðavísu og margfalt betri en evru-hagkerfið.

Lág verðbólga og lítið atvinnuleysi eru jafnframt hagtölur sem Ísland státar af umfram flest önnur lönd.


mbl.is Svíar eignast meirihlutann í Advania
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband