RÚV tapar ef Hanna Birna stenst atlöguna

Fréttastofa RÚV er kominn með snöruna um um hálsinn í máli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. RÚV stökk til og léði DV-slúðurfrétt trúverðugleika. Í hádegisfréttum í dag kyndir RÚV undir pólitísku slúðuratlögunni að Hönnu Birnu. Þar kemur fyrir þessi stórundarlega setning

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er málið ofarlega í huga þingmanna flokksins þótt skiptar skoðanir séu um það.

Stíllinn er frá Gróu á Leiti. Hvað þýðir að mál sé ,,ofarlega í huga þingmanna"? Að þeir fylgist með fréttum? Og um hvað eru ,,skiptar skoðanir" í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Hvers vegna eru engir þingmenn nafngreindir?

Fréttastofa RÚV tapar trúverðugleika ef Hanna Birna stenst slúður-atlögu DV. Fréttastofan mun þess vegna gera allt sem hún getur til að auka líkurnar á afsögn innanríkisráðherra. 

 


Launasjálftekt stjórnenda - engin pólitísk viðbrögð

Stjórnendur í fjármálastofnunum og stórfyrirtækjum steyptu okkur í hrunið 2008. Stjórnendur keyrðu fyrirtæki í þrot með yfirskuldsetningu og bruðli. Til að ná atvinnulífinu í gang varð að efna til mestu skuldaafskrifta sögunnar. Íslenskir stjórnendur eru sannanlega lélegt vinnuafl og á fáránlega háum launum.

Stjórnendur lærðu ekkert af græðgisvæðingu útrásarinnar. Þeir taka til sín meiri prósentuhækkanir í launum en almennir launþegar og stefna efnahagslegum stöðugleika í hættu.

Lítil sem engin pólitísk viðbrögð eru vegna frétta af launasjálftekt stjórnenda.

Einu sinni voru starfandi í landinu stjórnmálaflokkar sem létu launajafnrétti til sín taka. Hvað varð um þá?


mbl.is Launaskrið stjórnenda staðreynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slúður verður að stjórnsýsluathöfn

Umboðsmaður alþingis hleypur á eftir slúðurfrétt DV um afskipti innanríkisráðherra af störfum Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins þegar hann skrifar ráðherra bréf með ósk um upplýsingar.

Umboðsmaður staðfestir með ósk sinni sérkennilega háttsemi ríkissaksóknara, Sigríðar Friðjónsdóttur, sem bersýnilega var ekki á meintum fundum Stefáns og ráðherra né heldur aðili að meintum símtölum ráðherra og lögreglustjóra. Engu að síður vísar umboðsmaður í samtal sem hann á við Sigríði í gær, áður en hann sendir ráðherra ,,fyrirspurnarbréf" í dag. 

Stefán Eiríksson neitar opinberlega að hann hætti sem lögreglustjóri vegna afskipta ráðherra. Þar með ætti slúðrið að falla niður dautt. Sigríður saksóknari heldur á hinn bóginn slúðrinu lifandi og fær núna umboðsmann alþingis í lið með sér. 

Með því að slúður verður að stjórnsýsluathöfn í höndum umboðsmanns alþingis er komið fordæmi sem pólitískir lukkuriddarar og slúðurfjölmiðlar munu nýta sér. Betri stjórnsýsla verður ekki niðurstaða þeirrar vegferðar.

 


mbl.is Tryggvi krefur Hönnu Birnu um svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagsstríð grefur evrunni dýpri gröf

Núllvöxtur er nýtt norm á evrusvæðinu, segir Jeremy Warner á Telegraph og verður að leita aftur til frönsku byltingarinnar til að finna sambærilega lága ávöxtun á spænskum tíu ára ríkisskuldabréfum. Í annarri frétt, sem Evrópuvaktin segir frá, er 15. öldin viðmið fyrir lága ávöxtun ríkispappíra evru-svæðisins.

Lág ávöxtun ríkisverðbréfa þýðir hræbilleg fjármögnun skulda ríkissjóða, sem ætti öðru jöfnu að vera allgóð tíðindi fyrir skuldugar evru-þjóðir. En lág ávöxtun ríkispappíra segir aðra sögu; að fjárfestar þora ekki að hætta peningunum sínum í raunhagkerfið. Verðmæti verða ekki til hjá ríkinu heldur í raunhagkerfinu, sem sveltur og stefnir í samdrátt.

Efnahagsstríð við Rússa undir þessum kringumstæðum festir í sessi samdráttinn. Evru-þjóðir bjóða þegnum sínum upp á atvinnuleysi mælt í tugum prósenta og dökkar framtíðarhorfur. Í spennitreyju evrunnar geta einstakar þjóðir enga björg sér veitt.


mbl.is Samþykkja víðtækari þvinganir á Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slúður, sannindi og DV-pönk

DV frétt um að Stefán hætti sem lögreglustjóri vegna afskipta innanríkisráðherra er slúður sem enginn staðfestir, hvorki Stefán né Sigríður Friðjónsdóttir, sem af skringilegum vinstripólitískum ástæðum er orðin málsaðili.

Slúður er eðli málsins samkvæmt ekki hægt að hrekja. Reynir Traustason ritstjóri DV rekur blaðamennsku á þeim forsendum að slúður sé sannleikur þangað til það er hrakið. Blaðamennska DV er að birta slúður og vonast til þess að það fái líf, með aðstoð vinstribloggsveita og RÚV.

Reynir kallar sjálfur slúðurfréttamennsku DV að ,,pönkast" í fólki og finnst sómi að.


mbl.is Stefán: Hætti ekki vegna þrýstings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV, RÚV, Sigríður F. og vinstra slúðrið

Vina- og kunningjahópur Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, sem saksótti Geir H. Haarde landsdómsmálinu fyrir vinstristjórn Jóhönnu Sig., er líklegasta uppspretta DV-slúðursins um að Stefán Eiríksson lögreglustjóri hafi skipt um starf vegna inngripa Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.

Eins og spáð var þá stökk RÚV á frétt DV eftir undirbúning bloggsveitar vinstrimanna. Illugi trúir slúðrinu eins og nýju neti en Egill er með efasemdir. DV notar trúgirni Illuga til að réttlæta upphaflega slúðrið, sem er nokkuð nýstárleg aðferð til að afla sér trúverðugleika.

Sigríður Friðjónsdóttir, sem að áeggjan DV beitti embætti ríkissaksóknara í þágu einkaherferðar DV í lekamálinu svokallaða, er orðinn miðpunktur í rammpólitískri slúðurherferð á hendur innanríkisráðherra. Uppspretta slúðursins er býsna nærri Sigríði sjálfri og fer ekki vel á því að embættismaður, sem í ofanálag fer með vald saksóknara, sé í pólitísku drullumalli. 


mbl.is Blæs á fréttaflutning DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán og áhlaup vinstrimanna á Hönnu Birnu

Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins skipti um starf nýverið. DV segir eftir nafnlausum heimildum að Stefán hafi hrökklast undan Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra vegna lekamálsins svokallaða en það er einkaherferð DV í þágu hælisumsækjanda.

Frétt DV var fárra klukkustund gömul þegar bloggsveit vinstrimanna var komin i skotstöðu: Illugi, Egill og Jón Ingi. Bloggsveitin þjónar því hlutverki að gefa heimildalausri frétt DV lögmæti. Það auðveldar RÚV að taka málið upp og þá fær fréttin vængi.

Vinstrimenn geta gert sér vonir um að Stefán sé orðinn þeirra maður enda ráðinn í yfirmannsstöðu í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Dagur ræður ríkjum. Með réttum undirbúningi bloggsveitar og fjölmiðla vinstrimanna gæti Stefán stigið fram sem smurður samfylkingarmaður og sakað Hönnu Birnu um afglöp í starf og mögulega fellt hana af ráðherrastól.

Málið gæti þó verið með fleiri baktjaldafléttum. Stefán lögreglustjóri situr í hæfisnefnd um skipan stöðu seðlabankastjóra og þótti það val hálf-undarlegt, svo ekki sé meira sagt. Maðurinn sem skipaði Stefán í nefndina heitir Bjarni Benediktsson og er bæði fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir skoraði Bjarna á hólm á sínum tíma í formannsslag. Þrátt fyrir tap er Hanna Birna enn valkostur ef Bjarni misstígur sig.

Ef Stefán tekur þátt í DV-plottinu þá gerir hann það sem trúnaðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hæstráðandi sem notar trúnaðarmann sinn til að slátra pólitískum næstráðanda fær ekki mörg prik fyrir snilli í samsærishönnun.

Á talandi stundu er á hinn bóginn líklegast að DV og vinstrimenn standi einir að plottinu. Uppleggið er eitthvað svo vinstriaumkunarvert.

 


Guðmundur Andri og sjálfsmynd vinstrimanna

Vinstripólitík dó með ríkisstjórn Jóhönnu Sig. Fyrsta hreina vinstristjórnin 2009 til 2013 hrundi úr hreinum meirihluta í 12,9 prósent Samfylkingu og 10,9 prósent Vg. Vinstrimenn, sem tölu sig komna til langtímaáhrifa eftir hrun, eru sundraðri en nokkru sinni áður í lýðveldissögunni og standa uppi málefnalausir.

Þjóðin hafnaði tillögu vinstrimanna um allsherjarlausnina ,,göngum i Evrópusambandið" og einnig tilrauninni til að stokka upp stjórnarskrána.

Vinstrimenn reyna að fitja upp á einhverju nýju til að slá sér upp með. Fyrrum fjölmiðlarekandi Baugsveldisins, Gunnar Smári Egilsson, sett á flot hugmyndina um að Ísland sækti um inngöngu í Noreg. Rökstuðningurinn er sá sami og fyrir ESB-aðild; að Ísland sé ónýtt og við séum vonlaus þjóð sem verðum að segja okkur til sveitar.

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og vinstrimaður er orðinn þreyttur á vælinu í félögum sínum um ónýta Ísland. Hann skrifar ádrepu í Fréttablaðið og biður um minni vanmetagrát og pínulítið meiri dómgreind.

Sjálfsmynd vinstrimanna er ónýta Ísland. Afgerandi meirihluti þjóðarinnar hafnar þessari sjálfsmynd. Af því leiðir eru vinstrimenn dæmdir til að vera forsmáður minnihluti. Örvæntingin skilar sér í bjánahugmyndum eins og að Ísland verði hluti af Noregi.


Laun, prósentur og lygi

Forstjórastéttin fleytir rjómann af launakökunni, svo mikið er ljóst. En það er á hinn bóginn ekki svo að að allir launþegar sitji fastir í 2,8 prósent eymdarhækkun. Í hádegisfréttir RÚV segir að launavísitalan hækkaði um tæp sex prósent, sem gefur vísbendingu um launaskrið.

ASÍ og SA semja um lágmarkslaun, sem of eru aðeins viðmið til að byrja samningaviðræður um laun. Jafnvel sumarvinnufólk gat í vor farið fram á hækkun umfram taxta enda ástandið á atvinnumarkaði þannig að eftirspurn er eftir fólki. Sumir opinberir starfsmenn, einkum sérfræðingar, fara einu sinni til tvisvar á ári í launaviðtöl og þar er hægt að hækka sig í taxta með vísun í markaðslaun.

Aðrir, kennarar sérstaklega, hreyfa sig ekki spönn frá taxtarassi; þeirra laun eru skráð og negld niður. 


mbl.is Sala stóreykst á Range Rover-jeppum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launaheimska forseta ASÍ

Allt frá hruni eru lífeyrissjóðirnir ráðandi í mörgum helstu fyrirtækjum landsins. Stjórnir lífeyrissjóðanna eru skipaðar af verkalýðshreyfingunni annars vegar og hins vegar Samtökum atvinnulífsins.

Forseti Alþýðusambandsins ber fulla ábyrgð á útblásnum launum forstjóra og millistjórnenda með því að láta það óátalið að fyrirtæki í eigu lífeyrissjóðanna stundi launabruðl í þágu þeirra best settu.

Valkvæð launaheimska forseta ASÍ er flótti frá ábyrgð.


mbl.is Launaþróun minnir á árin fyrir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband