Rússar og Kínverjar seilast til áhrifa á Íslandi

Eftir að Bandaríkin hættu rekstri herstöðvarinnar á Miðnesheiði árið 2006 settu bæði Rússar og Kínverjar sér það langtímamarkmið að koma ár sinni fyrir borð á Íslandi.

Stefið um vaxtandi áhuga risaþjóðanna í austri er rökstutt með nokkrum dæmum í frétt á breitbart.com.

Hagsmunir Íslendinga eru að vera ekki undir hælnum á neinni stórþjóð. Við getum lítið gert til að auka eða veikja áhuga stórþjóða á okkur enda landapólitík þeirra undir lögmálum sem smáþjóðir stjórna ekki.

Á hinn bóginn getum við með samvinnu við nágrannaþjóðir okkar, einkum Grænlendinga og Færeyinga, en líka Norðmenn og Skota/Breta, bætt stöðu okkar gagnvart ásælni stórþjóða. En utanríkisþjónusta lýðveldisins má þá ekki haga sér eins og undanfarin ár - slefandi yfir kokteilboðum í Brussel.


Óðinn skriðdreki, fótbolti og pansari

Heimsmeistarar Þjóðverja í fótbolta eru helst kenndir við panzer í ítölskum og öðrum rómönskum fjölmiðlum. Panzer er þýskt orð yfir skriðdreka og er ásamt kindergarten og blitz fremur sjaldgæf útflutningsvara frá Þýskalandi, enda kaupa flestir annað þýskt en orð.

Einn fyrsti nothæfi skriðdreki Þjóðverja í fyrri heimstyrjöld hét Óðinn, Wotan upp á þýsku, sem vísar til germanskrar fortíðar.

Í íslenskum konungasögum kemur orðið pansari fyrir í merkingunni brynja. En bryndreki var á íslensku haft um stálbrynjað herskip, hliðstætt Panzerkreuzer. Skriðdreki átti einmitt upphaflega að vera bryndreki á hjólum eða beltum.  


Valdspeki Hamas

Hamas-samtökin á Gaza vilja ekki frið við Ísrael sökum þess að friður grefur undan samtökunum. Tilvist Hamas byggir á þeirri valdspeki að stríð við Ísrael viðheldur yfirvaldi Hamas í Gaza. Hamas fær ekki þrifist án ófriðar.

Yfirvegaðir og velviljaðir álitsgjafar, t.d. Daniel Hannan og Maurice Ostroff, vekja athygli á því að Gaza gæti verið velmegunarsamfélag. Þegar Ísraelar yfirgáfu Gaza fyrir bráðum áratug voru allar forsendur til að búa þegnum Gaza betri lífskjör. Landamærin voru opin og iðnaður, verslun og viðskipti á milli Ísraels, Gaza, vesturbakkans og Egyptalands voru í allra þágu - nema þeirra sem kunna helst vopnaskak og hryðjuverk.

Eftir valdatöku Hamas varð Gaza að eylandi hryðjuverkasamtakanna. Sænski blaðamaðurinn Anders Ehnmark skrifaði fyrir bráðum þrjátíu árum bók um samtök eins og Hamas, sem komast illa og jafnvel aldrei úr stríðsham yfir í það að starfa sem lýðræðislegt yfirvald. Bókin Leyndardómar valdsins, ritgerð um Machiavelli er sennilega ekki til á arabísku.


Eftir Breivik

Norsk lögregluyfirvöld voru gagnrýnd eftir hryðjuverk Andres Behring Breivik fyrir þrem árum. Yfirvöld ræsa viðbragðsáætlun sem samin var eftir hryðjuverk Breivik.

Af fréttaflutningi að dæma ætla norsk stjórnvöld fremur að hætta á að ýkja hættuna af hryðjuverkaógninni en að gera of lítið úr henni.

Fáeinir íslamskir norskir ríkisborgarar sem fóru að stríða í Sýrlandi og boða heimkomu með hávaða eru ástæðan fyrir viðbúnaði norskra yfirvalda.


mbl.is Ekki ástæða til að vara við ferðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur helgi, Magnús blindi og ofbeldisarfurinn

Norsk umræða um hvers konar maður Ólafur konungur Haraldsson var rataði inn blogg Egils Helgasonar. Norðmenn eru uppteknir af Ólafi, sem fékk viðurnefnið helgi eftir Stiklastaðaorustu, enda talinn ljúka því verki sem Haraldur hárfagri hóf þúsaldarfjórðungi áður, að sameina Noreg.

Ómaklegt er að gera Ólaf að sérstökum sakamanni þegar kemur að ofbeldi og pyntingum. Hann var varla hótinu verri en aðrir. Magnús blindi Sigurðsson varð konungur í Noregi hundrað árum eftir fall Ólafs. Hann deildi konungdómi með frænda sínum Haraldi gilla. Þeir stríddu um Noregsríki og komst Magnús undir yfirvald Haralds eftir orustu. Segir í Heimskringlu

Haraldur konungur átti þá stefnur við ráðuneyti sitt og beiddi þá ráðagerðar með sér. Og að lyktum þeirrar stefnu fengust þeir úrskurðir að taka Magnús svo frá ríki að hann mætti eigi kallast konungur þaðan í frá. Var hann þá seldur í hendur konungsþrælum en þeir veittu honum meiðslur, stungu út augu hans og hjuggu af annan fót en síðast var hann geltur.

Ekki fallegar aðfarir. Geltum, einfættum og blindum tókst Magnúsi blinda þó að verða konungur enn um stund áður en hann féll í orustu.


Trú, land, menning og stríð án lausna

Engin saga er til af Palestínuríki, enda er það seinni tíma tilbúningur. Á hinn bóginn bjuggu arabar á landssvæði, sem oft er kallað Landið helga, og rúmar Ísrael, Gaza og vesturbakka Jórdanárinnar.

Ekkert ríki gyðinga var til fyrr en á síðustu öld þegar Ísraelsríki var stofnað af gyðingum með stuðningi Vesturveldanna. Gyðingar, líkt og arabar, eiga sögulegar og menningarlegar rætur í Landinu helga.

Deila gyðinga og araba hjakkar í sömu hjólförunum. Þrettán ára gömul grein eftir helsta sérfræðing Íslendinga um deiluna gæti hafa verið skrifuð í gær. Jú, víst eru iðulega rökin í umræðu um ábyrgð deilenda.

Richard N. Haass segir að deila Ísraelsmanna og Palestínumanna sé hluti af trúarmenningarlegu ástandi í arabaheiminum sem megi helst líkja við Evrópu á 17du öld. Þrjátíu ára stríðið í Evrópu 1618 til 1648 var að stofni trúarbragðastríð en þróaðist í margbrotnar valdaþrætur fursta, smáríkja og stórvelda. Arabaheimurinn er á sambærilegu róli og Evrópa fyrir 350 árum eða þar um bil.

Haass segir enga lausn í sjónmáli, það besta sem við getum er að stemma stigu við útbreiðslu ófriðarbálsins.


mbl.is Yfir 800 Palestínumenn hafa látið lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikael undir Kristínu en yfir Ólafi

Baugsmiðlar eru verkfæri eigenda sinna til hagsmunagæslu en ekki til að þjóna almannahagsmunum. Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins gagnrýndi ítök eigendanna, Jóns Ásgeirs og Ingibjargar, og fékk yfir sig yfirfrakka í formi Mikaels Torfasonar.

Kristín Þorsteinsdóttir, sem talar reglulega fyrir hagsmunum Jóns Ásgeirs, er orðinn yfirmaður Mikaels, sem áður heyrði beint undir forstjóra.

Mikael leggur upp úr því að Kristín sé sinn yfirmaður en ekki þeirra beggja Ólafs - enda yrði Ólafur þar með jafnstilltur Mikael. Í prentútgáfu Morgunblaðsins er þetta orðað svona

Aðspurður segir Mikael að ekki sé verið að lækka hann og Ólaf í tign. Hann sér þó fyrir sér að hann sjálfur muni heyra undir Kristínu. »Í reynd myndi ég segja það. Útgefandinn er auðvitað sá sem gefur út þessa miðla, sem heyra einnig undir forstjóra. Hún tekur við þessu hlutverki af forstjóranum, sem hefur hingað til verið okkar næsti yfirmaður. Raunar tel ég enga breytingu vera á högum mínum og Ólafs.

Þau þrjú munu takast á um síminnkandi hlut fjölmiðlunar í 365 enda stefnir fyrirtækið í það að verða fjarskiptafyrirtæki.


mbl.is Ráðin útgefandi 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Smári fiskar eftir Jón Gnarr-áhrifum

Gunnar Smári Egilsson, hægri hönd Jóns Ásgeirs í fjölmiðlarekstri á tímum útrásar, reynir fyrir sér sem andlegur leiðtogi vanmetakinda sem vilja Ísland sem fylki í Noregi.

Gunnar Smári gerir sér vonir um að verða ,,költ"-fyrirbæri eins og Jón Gnarr.

,,Ísland er of fámennt til að fóstra hæfileikaríkt fólk," segir Gunnar Smári af sinni alkunnu hógværð í viðtali við hérlenda enska útgáfu.

Í útlöndum þótti Jón Gnarr sniðugur og snjall. Fyrstu útlensku viðbrögðin við útspili Gunnars Smára er norskt klapp á kollinn með hæðnisglósum um hégómlega umræðu á fésbók safnaðarins.


Hamas stendur í vegi fyrir friði í Gaza

Hlutlægir greinendur ástandsins í Gaza, t.d. Jeroen Gunning, sem BBC birtir, og Azeem Ibrahim eru sammála um að örvænting Hamas-samtakanna leiddi til blóðbaðsins sem nú stendur yfir.

Landssvæði Palestínumanna er skipt: Gaza, þar sem Hamas ræður, og Vesturbakkanum, þar sem Fatha er yfirvaldið. Munurinn á þessum samtökum er m.a. að Hamas viðurkennir ekki Ísraelsríki og vill vopnaða baráttu en Fatha viðurkennir Ísraelsríki og vill samninga um tveggja ríkja lausn.

Vegna óaldar annars staðar meðal arabískra múslíma, í Egyptalandi, Sýrlandi og Írak missti Hamas fjárstuðning og stóð frammi fyrir gjaldþroti í sumar. Myndun þjóðstjórnar Hamas og Fatha var á dagskrá en fór út um þúfur vegna þess að Hamas neitaði að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis.

Hamas hóf eldflaugaárásir á Ísrael til að knýja fram gagnárásir Ísraelsmanna. Blóðbaðið átti síðan að nota til að auka stuðning við Hamas. Árangurinn má m.a. sjá af fundi vina Hamas í Reykjavík.

Hamas eru hryðjuverkasamtök sem kunna ekki að stjórna nema með ofbeldi. Gaza er slömm, ekki vegna Ísraels, heldur vegna þess að Hamas einbeitir sér að vopnaðri baráttu sem er innblásin trúarofstæki. Tillögur um að gera Gaza að Singapúr Miðjarðarhafs stranda á ofbeldisofstæki Hamas.


mbl.is Segir nokkrum árangri náð á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjöf Íslands; fyrst ESB, núna Noregur

Vanmetakindur þjóðarinnar gefast unnvörpum upp á ESB-umsókninni. Í stað þess að flytja fullveldið til Brussel er komin hreyfing að sækja um aðild að Noregi.

Gunnar Smári Egilsson er höfundur hreyfingarinnar og fær stuðning frá vinstrisinnuðum álitsgjöfum eins og Agli Helga.

Gunnar Smári var hægri hönd Jóns Ásgeirs og réð fyrir fjölmiðladeild Baugsveldisins á tíma útrásar. Gunnar Smári reyndi fyrir sér með prentsmiðjurekstur í Bretlandi og blaðaútgáfu í Danmörku og reið ekki feitum hesti þaðan. Áður en veruleikinn greip í taumana var Smárinn með áætlun um að sigra Bandaríkin með ókeypis Fréttablaði. Hann varð aðstoðar borgarstjóra í nokkra daga - en þá hrundi meirihlutinn.

Gunnar Smári er sem sagt rétti maðurinn til að leiða vanmetakindur þjóðarinnar til fyrirheitna landsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband