Gyðingleg vangá í Gaza - arabísk morð í Ísrael

Tatar læknir í Gaza segist í viðtengdri frétt hafa spurst fyrir hvers vegna Ísraelar gerðu honum þann óleik að sprengja híbýli fjölskyldunnar. Spurningin ber með sér Tatar læknir gerir ráð fyrir að Ísraelsher sé á eftir hryðjuverkamönnum Hams en ekki friðsömum borgurum þegar þeir sprengja hús og annað á Gaza.

Fyrirspurn Tatar læknis væri ekki gerð nema vegna þess að viðurkennt er að þegar Ísraelsher drepur borgara þá er það af vangá ekki af yfirlögðu ráði.

Hamas-samtökin og önnur sambærileg stunda á hinn bóginn morð á óbreyttum borgurum að yfirlögðu ráði: hvort heldur með því að myrða óvopnaða unglinga, flugskeytum eða sjálfsmorðsárásum í strætisvögnum.

Nokkur munur er á drápum af vangá og morðum.


mbl.is „En við erum fórnarlömbin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú og stríðslöngun

Stríð kalla til sín sérstakar manngerðir sem finna sér hæfilegan vettvang þar sem barist er upp á líf og dauða. Fyrir slíkum mönnum er stríð íþrótt.  Í annan stað eru stríð oft háð með trúarsannfæringu. Ólafur Haraldsson Noregskonungur, sem fékk viðurnefnið ,,helgi" eftir Stiklastaðaorustu, var trúarstríðsmaður.

Skömmu fyrir Stiklastaðaorustu bauðst Ólafi liðssinni glæpamanna sem ólmir vildu reyna sig í hernaði. Sannkristinn Ólafur sá ekkert því til fyrirstöðu að taka í sína þjónustu stigamenn og bauð þeim virðingarstöðu í sínu lið. En þó setti konungur eitt ófrávíkjanlegt skilyrði; stríðshneigðu ofbeldismennirnir yrðu að taka kristna trú áður en þeir fengju að berjast í nafni konungs.

Misindismennirnir, þeir Gauka-Þórir og Afra-Fasti, segjast hvorki heiðnir né kristnir heldur trúa á afl sitt og áræði. Konungur bað þá vel að lifa.

Gauka-Þórir og Afra-Fasti eru sólgnir í stríð og reyna aftur að fá inni í herliði Ólafs. Þeim er hafnað með sömu rökum og áður. Afra-Fasti segir við félaga sinn að þeir geti sem best gengið í lið andstæðinga konungs. 

Þá svarar Gauka-Þórir: ,,Ef eg skal til orustu fara þá vil eg konungi lið veita því að honum er liðs þörf meiri. En ef eg skal á guð nokkuð trúa, hvað er mér verra að trúa á Hvíta-Krist en á annað goð? Nú er það mitt ráð að vér látum skírast ef konungi þykir miklu máli skipta, förum þá síðan til orustu með honum."

Trúleysinginn Gauka-Þórir vill í veikara liðið til að fá meiri áskorun í orustunni. Kristur er í huga Gauka-Þóris eins og hvert annað goð. Ef aðgöngumiðinn í orustuna er skírn er hann ódýr þeim trúlausa.

Félagarnir Gauka-Þórir og Afra-Fasti játuðu kristni og héldu til orustu sem tapaðist. Merking frásagnarinnar er gagnólík eftir því hvort hana les trúmaður eða trúleysingi. En hvorttveggja trúarlegur lestur og veraldlegur gefur til kynna að sumir eru ekki í rónni nema þeir komist í orustu ef stríð er í boði.

Frásögnin af félögunum er í kafla 201 og 204 í Ólafs sögu helga.


Bloggfærslur 15. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband