Moskumálið og pólitísk vankunnátta

,,Moskumálið" svokallaða í kosningabaráttunni til borgarstjórnar Reykjavíkur vorið 2014 er með tvær skýrt aðgreindar hliðar.

Önnur hliðin snýst um það hversu heppilegt sé að framandi trúarsöfnuður fái lóð undir tilbeiðsluhús í þjóðbraut. Moska í Sogamýri með níu metra háum bænaturni yrði eitt af kennileitum höfuðborgar Íslands og gæfi alranga mynd af menningu okkar og siðum. Umræða á þessum forsendum er algerlega lögmæt og snýst ekki um fordóma gagnvart trú eða uppruna fólks.

Hin hliðin á moskumálinu lýtur að pólitískri umræðuvenju. Það þjónaði hagsmunum Samfylkingar og vinstrimanna að setja ummæli forystumanns Framsóknarflokksins um afturköllun lóðaloforðs til félags múslíma sem fordóma gagnvart trúarhópi. En það var á hinn bóginn meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins sem hafði dregið lappirnar við að úthluta með formlegum hætti umræddri lóð til múslíma. Ef útspil oddvita Framsóknarflokksins var merki um fordóma þá hlýtur dráttur á úthlutun lóðarinn til safnaðar múslíma að vera það líka. Og ekki eru múslímar enn búnir að fá lóðina.

Fjölmiðlar elta netumræðuna og stukku strax á það sjónarhorn vinstrimanna um að Framsóknarflokkurinn væri á móti múslímum og stundaði kynþáttafordóma. Fyrir utan hefðbundna hneigð fjölmiðla til vinstrislagsíðu var fordómasjónarhornið fjörugri fréttir en skipulagssjónarhornið. Þegar val fjölmiðla stendur á milli þess fjöruga og hins hversdagslega er fyrri kosturinn ávallt tekinn.

Tilgangur vinstrimanna með ásökunum um fordóma var vitanlega að fæla fylgi frá Framsóknarflokknum. Eins og stundum þegar hátt er reitt til höggs mistekst atlagan. Moskumálið jók fylgi Framsóknarflokksins.

Til að taka þátt í stjórnmálum af einhverri alvöru þarf að skilja pólitíska umræðu og samspilið við fjölmiðla. Þorsteinn Magnússon skilur ekki hvernig kaupin gerast á fjölmiðlaeyrinni. Hann skrifar um úrsögn sína úr Framsóknarflokknum

Umræðan sem fram­boðið efndi til var að mínu mati til­efn­is­laus, meiðandi í garð múslima og til þess fall­in að ýta und­ir for­dóma og mis­mun­un. [...] Formaður og flest annað lyk­ilfólk í for­ystu Fram­sókn­ar­flokks­ins lét hjá líða að gera op­in­ber­lega at­huga­semd­ir við fram­göngu fram­boðsins í Reykja­vík meðan á kosn­inga­bar­átt­unni stóð.

Framsóknarflokkurinn efndi ekki til umræðu um fordóma - heldur andstæðingar flokksins. Fjölmiðlar endurvörpuðu þeirri umræðu. Ef forystufólk flokksins á landsvísu hefði farið að ráðum Þorsteins og tekið undir ásakanir vinstrimanna væru framsóknarmenn að grafa sína gröf. En til þess var gildran spennt af hálfu vinstrimanna. 

Þorsteinn Magnússon er ekki vel skynugur á pólitík. Þegar hann tilkynnti framboð sitt í 2. til 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík kynnti hann sig sem ,,frjáls­lynd­an miðju­mann" og fékk óðara á sig stimpil að vera ESB-sinni. Þorsteinn varð að senda frá sér leiðréttingu sem hann hefði ekki þurft að gera ef hann kynni undirstöðuhugtök stjórnmálaumræðunnar annars vegar og hins vegar hefði haft rænu á að taka fram afstöðu sína til helsta deilumáls samtímastjórnmálanna, - afstöðuna til aðildar að ESB.

Þorsteinn gerir vel í því að draga sig úr pólitísku starfi. Hann og stjórnmál eiga ekki vel saman.

 

 

 

 

 


mbl.is Hættir í Framsókn vegna moskumáls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-sinnar viðskila við veruleikann

ESB-umsóknin var í fimm ár helsta pólitíska umræðuefnið hér á landi. Á þeim tíma var aldrei meirihlutavilji, hvorki á alþingimeðal almennings, fyrir því að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu.

Samfylkingin, sem miðstöð ESB-sinna, reyndi ýmsar útgáfur af ESB-stefnunni, s..s ,,kíkja í pakkann," og ,,viðræðustefnu" í stað aðildarstefnu. En allt án árangurs. Viðræðustefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. beið skipbrot 2011 þegar ESB neitaði að opna viðræður um sjávarútvegsmál nema Ísland staðfesti að landið væri í aðlögunarferli inni í ESB með því að breyta fiskveiðistefnu sinni til samræmis við stefnu ð'ESB.

Í stefnumótunarræðu Junckers , forseta framkvæmdastjórnar ESB til næstu fimm ára, segir að Evrópusambandið muni ekki taka við nýjum aðildarríkjum næstu fimm árin. Sumir ESB-sinnar, t.d. Stefán Ólafsson, gripu tækifærið fegins hendi og töldu að núna mætti hætta að ræða ESB-umsóknina í hálfan áratug og meta stöðu og framtíðarhorfur ESB.

Stefán er undantekningin sem sannar regluna um að ESB-sinnar á Íslandi eru algerlega viðskila við veruleikann. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingar notar yfirlýsingu Junckers til að herja á ríkisstjórn Íslands fyrir að hafa ,,sett umsóknina í uppnám." Árni Páll þykist ekki vita að það var ríkisstjórn Samfylkingar og Vg sem lagði ESB-umsóknina formlega á ís, þ.e. með sérstakri ríkisstjórnarsamþykkt, í aðdraganda þingkosninganna 2013.

Fréttablaðið, undir ritstjórn Ólafs Stephensen, er helsta málgagn ESB-sinna. Á forsíðuuppslætti í dag er haft eftir sendiráði ESB á Íslandi að yfirlýsing Juncker fyrir þrem dögum væri ómarktæk: Aðildarviðræður gætu hafist á ný, segir í fyrirsögn málgagnsins. Fyrirsögnin staðfestir að engar viðræður eru í gangi milli Íslands og ESB.

Í meginmáli fréttarinnar segir á hinn bóginn:

Því mætti líta á yfirlýsingu Junkers í Evrópuþinginu sem pólitíska yfirlýsingu, byggða á raunsæju mati á stöðu þeirra viðræðna sem í gangi eru.

Hvaða viðræður eru í gangi? Alls engar og hafa ekki verið í þrjú ár.

ESB-sinnar vilja ekki skilja að til að Ísland taki upp þráðinn þar sem frá var horfið 2011 verður að koma til nýr meirihluti á alþingi, ný ríkisstjórn og afgerandi vilji þjóðarinnar til að ganga í Evrópusambandið. Ekkert af þessu gerist í fyrirsjáanlegri framtíð.


Bloggfærslur 18. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband