Ofbeldi, trú og ríki

Noregur varð að einu ríki á elleftu öld þegar Ólafur Haraldsson lauk því verki sem nafni hans Tryggvason hóf, að kristna landið. Báðir Ólafarnir voru herkonungar sem notuðu trú í þágu pólitískra markmiða. Snorri Sturluson lýsir í Heimskringlu verklagi Ólafs Haraldssonar sem fékk viðurnefnið ,,helgi" eftir Stiklastaðafund.

Hann rannsakaði að um kristnihald manna og þar er honum þótti ábótavant kenndi hann þeim rétta siðu og lagði svo mikið við, ef nokkurir væru þeir er eigi vildu af láta heiðninni, að suma rak hann brott úr landi, suma lét hann hamla að höndum eða fótum eða stinga augu út, suma lét hann hengja eða höggva en engi lét hann óhegndan þann er eigi vildi guði þjóna. Fór hann svo um allt það fylki. Jafnt hegndi hann ríka og óríka. Hann fékk þeim kennimenn og setti þá svo þykkt í héruðum sem hann sá að best bar.

Orðræða og aðferðir múslíma að stofna nýtt kalífadæmi fyrir botni Miðjarðarhafs eru að breyttu breytanda sambærileg við háttsemi norsku herkonungana. 

En þar sem ein þúsund ár eru liðin frá trúarpólitískri sameiningu Noregs með tilheyrandi ofbeldi finnst manni þessir múslímar óþarflega fornir í háttum.


mbl.is Lýsa yfir stríði gegn 120 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Már besti kosturinn í Seðlabankann

Már Guðmundsson er sitjandi seðlabankastjóri og besti kosturinn þótt sterkir umsækjendur séu um stólinn. Már er vitanlega ekki hafinn yfir gagnrýni, hann t.a.m. gerði sig sekan um dómgreindarleysi þegar hann lögsótti vinnuveitanda sinn vegna launaþrætu.

Már er maðurinn sem haft hefur yfirumsjón með stöðugustu mynt í heimi frá hruni, íslensku krónunni, í tíð tveggja ríkisstjórna. Hann sýndi verulega diplómatíska hæfileika þegar hann í tíð Jóhönnustjórnarinnar var krafinn um fylgisspekt við evru-línuna, að evran væri framtíðarheimili þjóðarinnar, þrátt fyrir að jaðarríki ESB brynnu upp í evru-báli. Að vísu spilaði Már með í vinstriþvælunni um að við ættum að kyngja Icesave-lögunum en þar gekk hann ekki fram óhóflega.

Gjaldmiðlar, líkt og önnur verðbréf, snúast um trúverðugleika. Már er í fimm ár búinn að eiga virkan þátt í að skjóta stoðum undir krónuna og tekist svo frábærlega að almenningur hefur ekki haft hugmynd um að gjaldeyrishöft væru í gildi. Þá er verðbólgan, sú forna fjandkona, kirfilega bundin í heilbrigðan tveggja prósenta bás.

Már er maðurinn til að festa endurreista krónu í sessi.

 


mbl.is 10 sóttu um stöðu seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkostir við Evrópusambandið

ESB er ekki lengur eini valkosturinn fyrir þjóðríki í álfunni. Til skamms tíma virtist eins og sagan væri hliðholl hugmyndinni um sambandsríki Evrópu. Ráðandi öfl gerðu sitt til að auka á óhjákvæmileika samrunans.

Ekki lengur, segir Daniel Hannan, breskur Evrópuþingmaður og reglulegur gestur á Íslandi. Kjósendur í Evrópu sendu þau skilaboð í síðustu kosningum til Evrópuþingsins að önnur framtíð, byggð á fullveldi þjóðríkja, væri valkostur við Stór-Evrópu með Brussel sem höfuðborg.

Tveir flokkahópar á Evrópuþinginu eru andsnúnir samrunaþróuninni. Hópur Hannan, Evrópskir íhaldsmenn og umbótasinnar, European Conservatives and Reformists (ECR), er þriðji stærsti flokkahópurinn á þinginu. 

Evrópusambandið virkar ekki og skýrasta dæmið um það er viðvarandi atvinnuleysi, allt upp í fjórðungur af vinnuafli sumra landa. 

Æ fleiri átta sig á því að uppskrift ESB að stjórnsýslu og rekstri þjóðfélaga skilar ekki árangri vegna þess að innbyggt í uppskriftina er óstöðugleiki.

Þjóðríki, hvert fyrir sig, eru í stakk búin að gera nauðsynlegar ráðstafanir með tilheyrandi málamiðlunum til að samfélagið sé þokkalega starfhæft. Eins og Ísland er talandi dæmi um.

 


mbl.is Atvinnuleysið 11,6% á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband