Miðvikudagur, 8. ágúst 2018
Búrkur og krossar
Búrkur eru fyrir múslímum það sem krossar eru kristnum, segir breskur þingmaður í deilunni klæðaburð múslímakvenna.
Ef svo er segir það heilmikla sögu um trúarbrögðin og hve ólík þau eru. Kristnir, sumir hverjir, bera lítinn kross á brjósti sér, sem hlédrægt og hófstillt tákn um trúarafstöðu. Múslímar á hinn bóginn klæðast trúnni frá toppi til táar og bæta oft við andlitsdulu til að undirstrika að trúin sé mennskunni æðri.
Skýrara getur það ekki verið. Valið stendur á milli einstaklingsfrelsis og trúarsannfæringar.
Í fréttinni, sem vitnað er til hér að ofan, segir að 60 prósent Breta eru hlynntir banni á búrkur á almannafæri.
Skal engan undra.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. ágúst 2018
Þorgerður Katrín: fullveldið er dýrt spaug
Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segir íslensku krónuna dýrt spaug sem við ættum að afleggja. Viðreisn berst fyrir afnámi fullveldis, með inngöngu í ESB, og fyrsta skrefið er að farga krónunni.
Þorgerður Katrín, eins og fleiri ESB-sinnar, þorir ekki að taka umræðuna um fullveldið en heggur þess í stað í krónuna. Hvorki Þorgerður Katrín né aðrir ESB-sinnar leggja til að við tökum upp bandaríska dollara sem lögeyri hér á landi. Þó er dollarinn mun traustari gjaldmiðill en evran.
Krónan aðlagar íslenskt atvinnulíf að raunhagkerfinu. Hvorki dollar né evra myndu gera það. Þorgerður Katrín og ESB-félagar hennar kenna krónunni um hagsveiflur. Það er eins og að kenna hitamæli um veikindi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 8. ágúst 2018
Réttlæti, almannarómur og réttarríkið
,,Mér finnst ég ekki fá réttlæti," er orðið algengt viðkvæði meintra þolenda í dómsmálum þar sem dómstóll sýknar þann ákærða. Í framhaldi tekur við almannarómur (les: samfélagsmiðlar) sem fordæmir þann ákærða og sýknudóminn.
Réttlæti, að ekki sé talað um persónulegt réttlæti, getur ekki gengið framar réttarríkinu sem krefst þess að sönnun á meintum glæp sé hafin yfir allan vafa. Ef ákæruvaldið getur ekki sannað refsiverðan verknað ber að sýkna þann ákærða.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður skrifar grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann kemst að kjarna málsins:
Þessar reglur mega teljast ekkert minna en grunnreglur hins frjálsa samfélags, því þær hindra ríkjandi stjórnvöld í því að beita borgara valdi án nægilegs tilefnis. Þær vernda líka persónuleg réttindi manna að því leyti að þær eiga að hindra að menn séu dæmdir til refsingar fyrir afbrot sem þeir ekki hafa framið. Við vitum vel að reglan kann að leiða til þess að maður sem brotið hefur af sér kann að sleppa ef ekki TEKST að sanna á hann brotið. Það eru útgjöld sem við verðum að sætta okkur við vegna þess að við viljum hindra að saklausir séu dæmdir auk þess sem við viljum ekki að ríkisvaldið hafi heimild til að koma fram refsingum borgara af geðþótta sínum.
Réttarríkið tekur á sig mynd í framhaldi af frönsku byltingunni á ofanverðri 18. öld. Áður hafði ríkisvaldið dæmt menn eftir geðþótta eða almannarómi.
Þannig var Ari Pálsson dæmdur fyrir galdra og brenndur árið 1681. ,,Við rannsókn á málinu voru vitnisburðir mjög Ara í óhag en margir létu uppi grun um að hann myndi valdur að veikindum fólks," segir í samantekt um dómsmálið.
Við viljum ekki dómskerfi þar sem nægilegt er að ,,nógu margir láti upp grun" um sekt til að ákærður maður fái dóm. ,,Réttlæti" almannaróms samfélagsmiðla er ávísun á skipuleg dómsmorð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 7. ágúst 2018
Búrkur tákn undirgefni
Búrkur eru tákn undirgefni kvenna gagnvart karlvæddri múslímatrú. Samkvæmt íslam eru konur annars flokks borgarar.
Samtök múslímaríki viðurkenna ekki mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Í ríkjum múslíma gildir Kaíróyfirlýsingin þar sem konur eru settar skör lægra en karlmenn.
Þá er það spurningin: á konum í vestrænum ríkjum að vera frjálst að gera sig undirgefnar og auglýsa það á almannafæri með klæðaburði?
![]() |
Boris gagnrýndur vegna búrkuskrifa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 7. ágúst 2018
ASÍ og pólitík
Sígilda verkalýðsbaráttan, sem Alþýðusamband Íslands stóð fyrir í áratugi, var að bæta efnisleg lífskjör alls almennings. Kaup og kjör launafólks voru miðlæg, einnig húsnæðismál, og síðar aðgangur að heilbrigðisþjónustu og menntun.
Allt eru þetta efnisleg gæði, ef menntun er skilin sem skólaganga. Á seinni árum er nokkuð áberandi umræða í verkalýðshreyfingunni að stemma stigu við ójöfnuði. Hugsunin er að breitt bil milli þeirra efnaminnstu og efnafólks viti á´vont samfélag.
ASÍ var löngum í nánu samneyti við stjórnmálaflokka. Framan af voru skipulagstengsl milli ASÍ og Alþýðuflokks en á seinni hluta síðustu aldar var Alþýðubandalagið verkalýðsflokkurinn.
Á seinni árum starfar ASÍ með stjórnvöldum hverju sinn og minna ber á flokkspólitík. Það eru eðlileg verkaskipti. Þjóðin kýs sér þing í almennum kosningum og hlutverk ASÍ er ekki að stýra lýðræðislegu ferli heldur vinna innan þess.
Árangur ASÍ síðustu áratugi byggir félagslegri samheldni verkalýðshreyfingarinnar. Eftir hrun, þegar stjórnmálakerfið stóð veikt, örlaði á þeirri viðleitni innan verkalýðshreyfingarinnar að nú skyldi sverfa til stáls og gera hreyfinguna að pólitísku vopni. Verði sú raunin grefur verkalýðshreyfingin sína eigin gröf.
Félagsleg samheldni verkalýðshreyfingarinnar liðast í sundur gefi hún sig að flokkspólitík. Það verður ekki afturhvarf til þeirra tíma þegar stjórnmálaflokkar bitust um að ná völdum í einstökum verkalýðsfélögum. Flokkspólitísk verkalýðshreyfing verður einfaldlega ómerkingur og fær ekki lengur aðild að samráði ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins. Sem hefur verið helsti styrkur ASÍ síðustu áratugi.
![]() |
Drífa býður sig fram til forseta ASÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 6. ágúst 2018
Falsfréttir og frjáls vilji
Við eru ekki frjáls gerða okkar en lifum þó í þeirri blekkingu, sem auðveldar aðgang falsfrétta að vitund okkar og fær okkur að trúa falsinu. Á þessa lund virðast rök metsöluhöfundarins Yuval Noah Harari.
Samþætting líf- og upplýsingatækni gerir okkur varnarlaus gagnvart falsfréttum vegna þess að þær eru sérsniðnar að sjálfsímynd hvers og eins.
Frjáls vilji er lykilhugtak í þessari umræðu. Við þykjumst vita að frjáls vilji sé til. Maður velur sér ristað brauð eða morgunkorn, það er frjáls vilji í verki. Á hinn bóginn getum að aðeins valið milli kosta sem við vitum um.
Í kjörklefanum eru takmarkaðir valkostir. Við merkjum ekki við framboðslista sem ekki er á kjörseðlinum.
Falsfréttir geta talið okkur trú um að færri eða fleiri kostir séu í boði og þannig haft áhrif á möguleika okkar til að iðka frjálsan vilja. En falsfréttir knýja okkur ekki að taka þennan eða hinn kostinn. Við tökum sjálf ákvörðun. Til þess þarf dómgreind. Falsfréttir taka ekki hana frá okkur. En við þurfum að halda dómgreindinni í æfingu með því að beita henni. Annars slævist hún.
Sljó dómgreind leggur trúnað á falsfréttir. Það eru ekki ný sannindi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 5. ágúst 2018
Síðkristni: trú án almættis
Barnatrúin, að guð sé almáttugur skapari himins og jarðar og dæmir synduga og réttláta á efsta degi, á undir högg að sækja síðustu tvær aldir eða svo. Engu að síður skírum við börnin okkar flest hver og tökum vel í að þau fermist.
Við lifum á síðkristnum tíma. Trúin er viðurkennd sem mótandi afl kynslóðanna og ól af sér hugmyndir um mannhelgi sem við viljum ekki án vera. Boðskapur kristin lifir þótt kennivaldið sé nokkuð úr sér gengið.
Þeir sem kynna sér liðna menningarheima eiga það til að uppgötva trú er hálfsefur í vitundarlífinu. Tom Holland heitir höfundur bóka um Forn-Grikki og Rómverja. Hann var, og er líklega, kristinn í almennu útþynntu merkingunni, alin upp í sunnudagaskólum ensku biskpuakirkjunnar en fullorðinn veraldlega þenkjandi. Eins og t.d. sést á meðferð hans á Múhameð og upphafi íslam.
Holland skrifaði grein í New Statesman þar sem hann lýsir endurmati á sjálfum sér og afstöðunni til kristni. Í lok greinarinnar segir hann kristni kenna að göfugra sé að þjást en valda öðrum þjáningum.
Höfundur boðskaparins um að betra sé að þola óréttlæti en beita rangindum er aftur Platón, sá er skrifaði samræður Sókratesar. Í Gorgíasi leiðir Platón fram sannindin: ,,Ég hafði þá á réttu að standa, þegar ég hélt því fram, að hvorki ég né þú né nokkur annar maður kysi heldur að breyta rangt en að þola óréttlæti, þar sem það er í rauninni verra." [475]
Platón spókaði sig í Aþenu 400 árum áður en barnið fæddist í Betlehem.
Lærdómurinn? Jú, barnatrúin á almættið var smávegis misskilningur. Kristni var alltaf meira en Jesúbarnið. Trúin þarf ekki guð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 4. ágúst 2018
Trump og vinsældir fjölmiðlaandúðar
Donald Trump gerir gott mót þegar hann gagnrýnir fjölmiðla fyrir falsfréttir. Guardian, sem tíðkar neikvæðar fréttir af forsetanum, segir frá fjöldafundi forsetans er snerist upp í allsherjarfordæmingu á fjölmiðlum.
Góður rómur var gerður að ásökunum Trump, segir Guardian.
Trump er ekki óhlutdrægur, eins og gefur að skilja. Hann kýs fremur jákvæðar fréttir af sjálfum sér en neikvæðar. Þannig hugsa stjórnmálamenn.
Aftur er ekki einleikið hve margir taka undir ásakanir Trump um hlutdrægni fjölmiðla. Gagnrýni hans fellur í frjóan jarðveg sem var tilbúinn áður en Trump gaf sig að stjórnmálum.
Fjölmiðar héldu að fólki heimsmynd sem var ekki trúverðug. Trump er verkfærið að mölbrjóta þá heimsmynd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 3. ágúst 2018
Verndarhægri og frjáls viðskipti
Til skamms tíma voru frjáls viðskipti hornsteinn hægrimanna. Ekki lengur, skrifar Jeremy Warner í Telegraph.
Verndarstefnu Trump er kennt um, eða þakkað fyrir, að hægripólitík er ekki lengur annað orð yfir viðskiptahagsmuni.
Sígild hægripólitík, íhaldsstefna, snýst ekki um viðskiptahagsmuni. Grunnstefið var verndarstefna gegn róttækni frönsku byltingarinnar.
Hægripólitík er í hamskiptum, þar er umræðan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 3. ágúst 2018
Hagkerfið kólnar - minna til skiptanna
Bankar þjónusta atvinnulífið og samdráttur þar veit á minni umsvif í hagkerfinu. Það þýðir að minna sé til skiptanna milli fjármagns og launa.
Í upptakti kjaraviðræðna næsta vetur verður æ skýrara að samningar munu snúast um að verja áunninn kaupmátt síðustu ára.
Verkalýðshreyfingin verður að sýna að hún þekki sinn vitjunartíma.
![]() |
Minni hagnaður bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)