Embættismenn móta ekki pólitíska stefnu

Forstjóri sjúkratrygginga er kominn langt út fyrir starfssvið sitt þegar hann kærir heilbrigðisráðherra.

Steingrímur Ari er sérstakur áhugamaður um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Ráðherra er það ekki.

Ef Steingrímur Ari vill hafa pólitísk áhrif ætti hann að reyna fyrir sér á þeim vettvangi. En hann á ekki að reka opinbert embætti eins og útibú frá frjálshyggjufélagi.


mbl.is Telur ráðherra brjóta gegn lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar játa rógburð

Píratar skutu æru Braga Guðbrandssonar í kaf með slúðri úr Stundinni. Hlutlæg rannsókn sýnir það svart á hvítu.

Í stað þess að biðja Braga afsökunar á rógburðinum og forsprakkinn, Halldóra Mogensen segi af sér þingmennsku, hefja Píratar árásir á velferðarráðuneytið.

Píratar stunda ekki stjórnmál heldur mannorðsmorð og undirróður.

 


mbl.is Píratar draga hæfi ráðuneytis í efa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin burðardýr heimshagkerfisins

Eftir seinni heimsstyrjöld sáu Bandaríkin um að endurreisa heimshagkerfið. Uppbygging í Evrópu og Asíu með Marshall-aðstoð, sem barst líka til Íslands, var óhugsandi án Sáms frænda.

Eftir stríð urðu Bandríkin forysturíki hins frjálsa heims andspænis alþjóðlegum kommúnisma Sovétríkjanna. En vegna yfirburðanna komust bandalagsþjóðirnar upp með viðskiptahindranir til að verja heimamarkað. 

Trump var forseti út á loforð um að bæta hag bandarísku millistéttarinnar og láglaunafólks. Til að þeirra hagur batni verða Bandaríkin að afnema viðskiptahætti sem mótuðust eftir seinna stríð þegar Bandaríkin höfðu efni á að vera burðardýr heimshagkerfisins.

Sovétríkin féllu fyrir bráðum 30 árum. Heimskommúnismi er ekki lengur sameiginlegur óvinur vestrænna ríkja. Trump forseti er afleiðing af pólitískum og efnahagslegum vatnaskilum en ekki orsök þeirra.


mbl.is Trump: „Engar hindranir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennarar, ljósmæður og orðræðan um eymd

Ljósmæður féllu í sama pytt og grunnskólakennarar. Báðar stéttirnar töluðu starfið sitt niður og útmáluðu sig með eymdarkjör. Þegar starfsstétt segist vera að bugast vegna þess að fáeinar krónur vantar í launaumslagið er hætt við að dómgreindin sé orðin lélegri en tekjurnar.

Eymdarorðræðan er til að ávinna stétt samúð með fjölmiðlaumræðu og skætingi á samfélagsmiðlum. En löngu áður en umræðan hreyfir við almenningi er viðkomandi starfsstétt orðin félagslegt rekald. Grunnskólakennarar fokkuðu upp félagslegri samheldni með vælinu og heildarsamtök kennara eru komin á vonarvöl vegna innanmeina.

Ljósmæður eru verðugar góðra launa. Þær eru sannkallaðir lífgjafar. En þær mættu temja sér meira raunsæi í málflutningi og hætta eymdarorðræðunni.  


mbl.is Segir ljósmæður í þröngri stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump vill Pútín, ESB segir nei

Trump Bandaríkjaforseti vill að Rússland fái sæti á fundum G7-ríkjanna. Evrópuríkin segja nei, við viljum ekki Pútín í hópinn og bera við Úkraínudeilunni.

G7-ríkin eru öll Nató-ríki utan Japan. Fyrir 4 árum var sameiginlegt verkefni þeirra að taka Úkraínu undan áhrifasvæði Rússlands og færa undir forræði Evrópusambandsins og Nató. Líkt og hafði verið gert með önnur Austur-Evrópuríki s.s. Pólland, Eystrasaltslöndin, Rúmeníu og fleiri eftir fall Sovétríkjanna.

Afleiðingin af útþenslu Nató/ESB var að í Úkraínu braust út borgarastyrjöld. Landið er í reynd klofið, vesturhluta landsins sitja skjólstæðingar Nató/ESB-ríkja en austurhlutanum stýra uppreisnarhópar studdir Rússum, sem jafnframt innlimuðu Krímskaga.

Bandaríkin undir Obama, forvera Trump, og ESB-ríkin litu á Rússland sem óvinveitt ríki. Þegar Trump var kjörinn forseti 2016 var búin til saga um að Rússar hefðu tryggt sigur hans. Engin innistæða er fyrir þeirri sögu.

Trump vill þíðu í samskiptum við Rússa og Pútín forseta. Herská ESB-ríki eru mótfallin. Guardian segir reyndar að nýr forsætisráðherra Ítalíu sé hlynntur aðild Rússa að G7-hópnum.

Samskipti Rússar og vestrænna ríkja eru verri en þau hafa verið frá falli Sovétríkjanna. Þriðja heimsstyrjöldin er rædd sem möguleiki af Pútín í rússnesku sjónvarpi.

Að það sé Trump sem er friðardúfan í samskiptum við Rússland en ESB-ríkin öskrandi ljón segir heilmikla sögu um ástand alþjóðamála. 

 


mbl.is Á móti endurkomu Rússlands í G7-hópinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baldur um Bragamál

Baldur Hermannsson skrifar stöðufærslu á Fésbók:

Þá vitum við það: Bragi er kóngurinn, Stundin er skítasnepill, Halldóra Mogensen og Þórhildur Sunna rógberar, Þorsteinn Víglundsson hroðvirkur bjáni ... sem sagt: ekkert nýtt.

Næsta mál, takk.


mbl.is Ráðuneytið samþykkir beiðni Braga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningatilraun í Sviss - og á Íslandi

Svisslendingar greiða þjóðaratkvæði á sunnudag um að bylta peningakerfi landsins. Tillagan er um að afnema leyfi banka til að lána peninga sem þeir eiga ekki.

Alþjóðlega bankakerfið gengur út á að bankar láni peninga án þess að eiga þá. Í þeim skilningi búa bankar til peninga. Kerfið er kallað brotaforðakerfi (fractional reserve). Brotaforðakerfið er já, eins og nafnið bendir til, brothætt. Kerfið veldur óstöðugleika og bankakreppum. En það virkar í þeim skilningi að veita framleiðsluhagkerfinu eldsneyti.

Í stað brotaforðakerfis er hugmyndin að þjóðnýta bankakerfið með því að svissneska ríkið sé eitt um að búa til peninga. Viðskiptabankar geta áfram lánað fé - en aðeins innistæður. Fjármálagreinendur, t.d. Martin Wolf á Financial Times, vona að Svisslendingar samþykki tillöguna enda þörf á nýmælum í bankarekstri.

Tillögunni verður á hinn bóginn líklega hafnað í Sviss. Hatrömm andstaða fjármálakerfisins skiptir þar mestu og Svisslendingar eru íhaldssamir.

Á hinn bóginn stendur yfir peningatilraun á Íslandi, sem þó er ekki skipulögð, en gengur út á þjóðnýtingu bankakerfisins. Bankakerfið hér á landi varð ríkiseign eftir snjalla samninga ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs við þrotabú einkabankanna.

Einn banki af þremur, Arion, verður gerður að einkabanka. Samhliða er unnið að endurskipulagi á verkaskiptum seðlabanka og fjármálaeftirlitsins um aðhald og eftirlit með bankastarfsemi. Enginn veit hvað kemur úr íslensku tilrauninni, enda hún ekki skipulögð sem tilraun, heldur að setja saman sjálfbært bankakerfi.

En kannski tekst að setja saman fjármálakerfi hér á landi sem ekki er með innbyggðan óstöðugleika, þjónar almenningi og fyrirtækjum án þess að drottna yfir þeim og elur ekki á sjálftöku bankafólks. Sem sagt, stórt kannski, enda búum við í ófullkomnum heimi.


Pólitískur íslam og hliðarsamfélagið

Múslímatrú -íslam - er pólitísk í eðli sínu. Trúarmenning múslíma gerir ráð fyrir trúarlögum - sharía - sem standi ofar landslögum. Vestræn kristni er ópólitísk, gerir ráð fyrir að trú sé einkamál, ekki málefni samfélagsins.

Ríkjandi sjónarmið í trúarmenningu múslíma er að fordæma þá sem ganga af trúnni, jafnvel að það sé líflátssök. Þetta viðhorf er algerlega andstætt vestrænu trúfrelsi.

Þegar múslímar festa rætur í vestrænum samfélögum mynda þeir nánast sjálfkrafa hliðarsamfélag, sem mótað er af múslímskri trúarmenningu.

Austurrísk yfirvöld freista þess að uppræta hliðarsamfélag múslíma með því að loka moskum sem tilbiðja dauða og tortímingu. 

Íslensk yfirvöld eiga að sjá til þess að múslímar myndi ekki hliðarsamfélag á Íslandi. 


mbl.is Vísa klerkum úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín um hægri hlátur og vinstri grát

Ef stjórnmál væru leikrit vildu sjálfstæðismenn sjá gleðileik en vinstri grænir harmleik. Í hnotskurn; hægri hlátur og vinstri grátur. Á þessa leið greinir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna eðlismun stjórnmálamenningar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.

Nokkuð til í þessu hjá forsætisráðherra. Annað hitt, sem Katrín sagði þó ekki, er að stjórnmál eru að hluta leiksýning.

Í góðæri er meiri hlátur en grátur. Það hallar á vinstrimenn í leit að tragedíu. Hvað gera bændur þá? Jú, setja upp leiksýningu. Sviðið er alþingi og leikþátturinn heitir veiðileyfagjöld útgerðarinnar. Aukaleikarar eru Samfylkingarþingmenn og nýja vinstrið í Viðreisn.

Leikþátturinn vekur með vinstrimönnum grát og gnístran tanna, eins og til er ætlast. 

Sýningin fær frábæra aðsókn fjölmiðla og hreyfir við viðkvæmustu taugum áhorfenda, einkum til vinstri. Lokaatriðið er þegar Katrín afturkallar frumvarp um breytt veiðileyfagjöld. Tilfinningaflóðið, sem leikverkið vakti, náði tilgangi sínum og hreinsaði pólitískar sálir vinstrimanna.

Tjaldið fellur og þinglok eru handan við hornið. Enn er góðæri og hægrimenn fara hlæjandi inn í sumarið. Vinstrimenn eru snöktandi eftir sýninguna og líður giska vel enda spáð rigningarsumri. Allt er eins og það á að vera.


mbl.is Ánægð með stjórnarsamstarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk ríkisstjórn, veik stjórnarandstaða

Ríkisstjórnin er sterk í krafti pólitískrar breiddar. Stjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þekur pólitíska litrófið. Þá er samstaða í ríkisstjórninni sem hélt þrátt fyrir tilraunir stjórnarandstöðunnar að skapa óeiningu, t.d. í landsdómsmálinu.

Stjórnarandstaðan er veik af sömu ástæðu og ríkisstjórnin er sterk. Pólitísk breiddin í stjórnarandstöðunni er slík að óhugsandi er að hún verði valkostur við sitjandi ríkisstjórn.

Styrkur stjórnarinnar vex eftir því sem þjóðin venst henni. Engir trúverðugir valkostir eru við núverandi meirihluta. Uppgangur pólitískra lukkuriddara á vinstri kantinum, s.s. sósíalista og sjóræningja, gerir stjórnarandstöðuna enn ótrúverðugri. 


mbl.is Óeining í minnihlutanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband