1. des. uppgjörið: 1944-Ísland sigrar 2007-Ísland

Níu ára stjórnarkreppu eftirhrunsins lauk með innreið ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í stjórnarráðið. Í stjórnarkreppunni var barist tvær útgáfur af Íslandi. Fyrri útgáfuna má kenna við lýðveldið, 1944-Ísland, sem felur í sér hægfara þróun borgaralegs samfélags, byggt á fullveldi og jöfnuði.

Seinni útgáfan, Útrásar-Ísland, fær auðkennið 2007, algleymisár útrásarinnar. Árin fyrir 2007 stóðu Íslendingar í banka- og viðskiptaútrás, sem féll með hruninu. Í beinu framhaldi var reynd pólitísk útrás, með umsókn um ESB-aðild. Ævintýramennska einkennir þessa útgáfu og henni fylgja öfgar. Ísland er ýmist best í heimi eða ónýtt.

Samfylkingin er aðalflokkur 2007-Íslands. Flokkurinn var klappstýra útrásarauðmanna fyrir 2007 og keyrði áfram umsókn Íslands um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna - og faldi kostnaðinn. Eftir hrun verður Samfylkingin eini flokkur landsins sem stefnir Íslandi í Evrópusambandið. ESB-umsóknin frá 16. júlí 2009 er getin, fædd og alin í Samfylkingunni.

Aðalflokkur 1944-Íslands er Vinstri grænir. Þar á bæ lifði glóð lýðveldiskynslóðarinnar. Frá Vinstri grænum, og forverum þess flokks, Alþýðubandalaginu, komu menn eins og Ragnar Arnalds, stofnandi Heimssýnar, og Ólafur Ragnar, sem kippti fótunum undan ESB-umsókninni með því að vísa Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki einu sinni heldur tvisvar.

Fyrir gráglettni örlaganna sátu andstæðir pólar íslenskra stjórnmála, Samfylking og Vinstri grænir, saman í fyrstu ríkisstjórninni eftir hrun. Reynt var að blanda saman olíu og vatni með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Stöðugur ófriður var innan ríkisstjórnar; landsbyggðin í stríði við 101-Reykjavík; stjórnarskráin í uppnámi og Ísland við það að verða hjáleiga Breta og Hollendinga. Ef ekki beint, vegna Icesave-laganna, þá óbeint með inngöngu í Evrópusambandið.

Þótt stöðugur hagvöxtur væri nær alla stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna, Jóhönnustjórnarinnar 2009-2013, dugði það ekki til. Þjóðin fékk viðbjóð. Samfylkingin setti heimsmet í fylgistapi stjórnarflokks í lýðræðisríki, fór úr 30 prósentum 2009 niður í 12,9 prósent 2013 og fylgi Vinstri grænna helmingaðist.

1944-Íslandi var hleypt af stokkunum með nýsköpunarstjórninni á sjálfu lýðveldisárinu. Í henni sátu Sjálfstæðisflokkur, höfuðból borgaralegra stjórnmála, Alþýðuflokkur (Samfylking) og Sósíalistaflokkur (Vinstri grænir). Stjórnin dó ótímabærum dauðdaga þrem árum seinna vegna fullveldismála - afstöðunnar til hersins á Miðnesheiði.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er endurnýjun 1944-Íslands. Stjórnin er skipuð sömu flokkum og nýsköpunarstjórnin með einni mikilvægri undantekningu. Í stað Samfylkingar/Alþýðuflokks er kominn Framsóknarflokkurinn. Elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins með sterkar rætur í bændasamfélaginu sem fóstraði þjóðina og fæddi í þúsund ár.

1. desember 2017 markar skil í stjórnmálasögunni. Lýðveldið er komið til þroska, útrásargelgjan verður senn bernskuminning.


Moskva, Stalíngrad og Ísland

Leikur Íslands við Nígeríu verður háður í Volgograd sem einu sinni hét Stalíngrad og var vettvangur hildarleiks í seinna stríði.

Við spilum fyrst í Moskvu þar sem Napóleon beið ósigur og síðan í Stalíngrad en Rússlandsför Hitlers lauk þar.

Sögueyjan spilar sína leiki á söguslóðum. Nema hvað.


mbl.is Argentína, Nígería, Króatía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skandalar eru framleiddir

Vonandi fáum við ekki skandala, segir Grétar Þór stjórnmálafræðingur, en hyggur ekki að því að hneykslismál eru oftar en ekki tilbúin framleiðsla félagsmiðla og fjölmiðla.

Framleiðslan er tiltölulega einföld. Fyrsta verkefnið er að undirbúa jarðveginn. Halldór Auðar Svansson þyrlar upp mold vegna þöggunar á kynferðisbrotum; aðrir dunda sér við undirbúning á öðrum hneykslunarefnum.

Eftir að jarðvegurinn er undirbúinn er fundinn flugufótur fyrir samsæriskenningum sem þegar er búið að setja á flot. Fjölmiðar eins og Stundin, RÚV og Kjarninn koma inn í spilið, gera fréttamál um tittlingaskít. Þá taka samfélagsmiðlar við og magna upp fréttirnar. Jón Þór pírati orðar þetta smekklega: ,,Deilið og taggið vin í VG," þegar hann smíðar sína samsæriskenningu til að sprengja ríkisstjórnina.

,,Þegar bloggheimar loga" endurvinna fjölmiðlar það efni sem best brennur og þar með er komin hringrás tittlingaskítsins sem verður að skítahaug með fnyk í allar áttir. Sem sagt skandall.


mbl.is „Vona að við fáum enga skandala“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur á milljarða - en aðeins eina æru

Ólafur Ólafsson fjárfestir á milljarða í peningum. Brotabrot af þeim notar hann til að freista þess að endurreisa það eina sem enginn á nema eitt stykki af: æruna.

Al Thani-málið var flétta Ólafs og félaga hans í Kaupþingi að telja almenningi trú um voldugur alþjóðlegur fjárfestir tryði á framtíð Kaupþings. En viðskiptin, þar sem Al Thani átti að hafa keypt hlutabréf í Kaupþingi voru aðeins í þykjustunni. Alveg eins og þegar Ólafur í þykjustunni fékk þýskan banka í lið mér sér að kaupa Búnaðarbankann.

Það tókst að koma lögum á Ólaf í Al Thani-málinu. Sumir endurreisa æruna með því að játa brot sín og bæta fyrir með betri verkum. Ólafur kaupir sér lögfræðiþjónustu.


mbl.is Mál Ólafs Ólafssonar tekið fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband