Árni Páll grætur nýsköpun Össurar

Björt framtíð var hönnuð af Össuri Skarphéðinssyni þegar hann var utanríkisráðherra. Hann fékk tvo samfylkingarkettlinga, Guðmund Steingrímsson, sem dvalið hafði um hríð í Framsóknarflokknum, og Róbert Marshall til að vera andlit flokksins.

Björt framtíð þjónaði tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi að rjúfa einangrun Samfylkingar í ESB-málum og í öðru lagi að sópa upp óánægjufylgi Samfylkingar. Björt framtíð varð ,,mjúkur" flokkur, ekki með einarða afstöðu í neinu máli en sammála flestu til vinstri og frjálslegu. ESB-stefna flokksins var að ,,kíkja í pakkann".

Flokkshönnunin klúðraðist. Í stað þess að sópa upp óánægjufylgi þá geirnegldi Björt framtíð stærsta ósigur nokkurs stjórnarflokks í Vestur-Evrópu eftir stríð. Fylgi Samfylkingar hrapaði úr tæpum 30 prósentum í 12,9% í síðustu kosningum. ,,Kíkja í pakkann" stefnan hjálpaði Samfylkingu lítt enda ESB-málið sjálfdautt fyrir kosningar þegar vinstristjórnin gerði hlé á aðildarferlinu.

Skiljanlega grætur Árni Páll Árnason formaður Samfylkingar pólitíska nýsköpun hins síkáta Össurar.


mbl.is Skylda að reyna ríkisstjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varoufakis líkir ESB við Sovétríkin

Evrópusambandið er eins og Sovétríkin. Almennt var vitað að þau hryndu en ekki hvernig eða nákvæmlega hvenær.

Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands, býður upp á þessa líkingu á heimasíðu sinni, þar sem hann endurbirtir viðtal við sig í L'Espresso.

Í lok viðtalsins boðar Varoufakis evrópska hreyfingu róttækra til að bjarga Evrópusambandinu frá sjálfu sér.


Múslímavæðing Evrópu: harkan sigrar mýktina

Gagnrýnin bók á múhameðstrú er ein söluhæsta fagbókin í Noregi í ár. Höfundurinn Hege Storhaug segir í viðtali við Aftenposten: múslímsk gildi eru hörð en okkar mjúk. Hörðu gildin sigra.

Björn Bjarnason segir frá tilraunum danskra yfirvalda að halda á lofti dönskum menningarverðmætum. Góða fólkið með mjúku gildin gagnrýnir slíka tilburði með þeim rökum að dönsk menning ,,ögri" menningu innflytjenda.

Prófessor Robert Skidelsky segir meginhvata múslímavæðingar Evrópu vera vestrænt skilningsleysi á trúarfestu múslíma sem ráði ferðinni andspænis vestrænni veraldarhyggju.

Múslímar aðlagast ekki vestrænni menningu. Frjálslynda vestræna hefðin á engin svör við múslímavæðingu Evrópu. Evrópskur almenningur snýr sér til harðari pólitískra gilda sem veita þeim múslímsku viðnám. Trúarharka kallar á pólitíska hörku.


Blankir arabar sýna stríðsþreytu

Samtímis fréttum af falli íslamsks leiðtoga uppreisnarmanna í Sýrlandi gerast þau tíðindi að fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna fái uppreisnarmenn suður af höfuðborg Sýrlands, Damaskus,  að flytja sig um set til samherja sinna í norðurhluta landsins.

Samkvæmt Guardian vekja vopnahléssamningar milli stríðandi fylkinga vonir um að hægt verði að koma á friðarferli í Sýrlandi.

Olíuríkin sem styðja meginfylkingarnar í borgarastríðinu í Sýrlandi eru Íran, sem styður stjórn Assad forsta, og Sádi-Arabía, er fjármagnar uppreisnarhópa. Íran er öflugasta ríki shíta-múslíma en Sádi-Arabía er höfuðból súnní-múslíma.

Verðfall olíu og fyrirsjáanlega minni eftirspurn í framtíðinni, m.a. vegna alþjóðlegra aðgerða til að draga úr hlýnun jarðar, skerðir möguleika olíuríkjanna að fjármagna ófrið í Sýrlandi og Írak.

Ríki íslams, öfgasamtök sem hyggjast stofna nýtt kalífadæmi að hætti miðaldamúslíma, eru ekki hátt skráð meðal múslíma. Samkvæmt stórri könnun meðal araba, sem Spiegel greinir frá, eru nærri níu af hverjum tíu með neikvæða afstöðu til Ríkis íslam. Könnunin leiðir í ljós blendna afstöðu til lýðræðis. 71 prósent telja múhameðstrú og lýðræði samræmast en 48 prósent eru þeirrar skoðunar að lýðræði henti ekki þeirra landi. Arabarnir eru með neikvæða afstöðu til eina lýðræðisríkisins í þessum heimshluta: 85 prósent eru mótfallin viðurkenningu á Ísrael.

Trúardeilur og skortur á lýðræðishefðum eru ekki einu stríðshvatarnir í miðausturlöndum. Stórveldin, Bandaríkin og Rússland, eru á bakvið og toga í spotta. Stríðsþreyta skilar ekki endilega friði í nálægri framtíð.


mbl.is Uppreisnarleiðtogi látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frosti og bankar sem spilavíti

Á meðan bankar búa til peninga í formi útlána er viðvarandi freistnivandi, sem felst í því að afkoma bankafólks ræðst af veltu. Því meiri velta því hærri laun. Freistnivandi bankafólks er sá sami og manns sem gengur inn í spilavíti vitandi að hann getur framleitt peninga ef hann tapar veðmálum.

Bankafólk kemst upp með leikinn svo lengi sem fjármálakerfið hrynur ekki. Og ef illa fer er alltaf hægt að kenna öðrum um, t.d. fjármálaeftirlitinu, líkt og gerðist hér á landi í kjölfar hrunsins. Í öðru lagi veit bankafólk að án starfandi banka er raunhagkerfið dauðadæmt.

Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins er manna duglegastur hér á landi að kynna kosti fyrirkomulag sem heitir á ensku ,,full reserve banking" og byggir á þeirri hugmynd að seðlabankar eigi einir að gefa út peninga. Viðskiptabankar starfi á  þeim grunni að útlán skuli ekki hærri en innlán.

Fjármálakreppan síðasta er hvati til að skoða ofan í kjölinn kosti og ókosti kerfis sem felur í sér stöðugleika en gæti á hinn bóginn hamlað vexti. Kapítalisminn er eyðandi afl, eins og Karl Marx benti á, en nýsköpun sprettur úr áburðinum sem eyðileggingin skilur eftir sig.


mbl.is Bönkum bannað að búa til peninga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólasaga Össurar

Jólin eru tími ævintýra. Ævaforn frásögn frá upphafi tímatals okkar minnir á trú, von og kærleika. Lengri dagur boðar bjartari tíð og þá eru jólín bókahátíð þar sem höfundar bera á borð skáldskap sinn.

Á jóladag er lítið í fréttum og kærkomið tækifæri að taka snúning á fjölmiðum með eins og einni örsögu um sjálfan sig.

Hvað er fallegra en saga af stjórnmálamanninum síkáta sem gerði smáfylkinguna að stórflokki um hríð en berst nú hetjulega gegn illum öflum sem vilja kveða hann í kútinn? Hetjan okkar lætur ekki deigan síga gagnvart innanflokksbófum með þeim beittu rökum að grasrót smáfylkingarinnar standi með honum.

Sögur eins og jólasaga Össurar eru viðbit með jólamatnum. Þær eru samdar til að nafn og persóna söguhetjunnar festist í minni. Það líður að formannskjöri smáfylkingarinnar. Trú, von og kraftaverk þarf til að aflóga töskuberar verði teknir í smásætið. En jólin eru tími ævintýra.

 


mbl.is Þyrfti að henda Össuri öfugum út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Línurit um evruna sem söguleg mistök

Uppsláttarfrétt Die Welt í morgun er að Finnar telji evruna söguleg mistök. Með fréttinni er sláandi línurit sem sýnir þrjár kreppur í finnskri efnahagssögu.

Með sjálfstæðum gjaldmiðli unnu Finnar sig hratt og vel úr tveim kreppum. Þriðja kreppan, sem nú stendur yfir, er til muna verri en hin tvær - enda Finnar bundnir í báða skó með evru sem gjaldmiðil.

Finnar horfa öfundaraugum til Svía. Efnahagskerfi Svía hefur frá kreppuárin 2008 vaxið um átta prósent, þökk sé sjálfstæðum gjaldmiðli. Á sama tíma hefur orðið sex prósent samdráttur í efnahagskerfi Finna.

Paul Krugman nóbelsverðlaunahafi í hagfræði talar enga tæpitungu: Finnar áttu aldrei að taka upp evru. Því miður fyrir þá er hægara sagt en gert að hverfa úr evru-samstarfinu.


mbl.is Hefðu aldrei átt að taka upp evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Bragi skilur ekki utanríkismál

Úkraína er ein spillingarhrúga í aldarfjórðung þar sem auðmannaklíkur stela öllu steini léttara. Barátta um forræði yfir Úkraínu stendur á milli Bandaríkjanna og ESB annars vegar og hins vegar Rússa. Úkraínudeilan er gamaldags stórveldaþræta um áhrifasvæði.

Íslendingar ættu ekki að troða illsakir við Rússa sem reyndust okkur vel þegar við glímdum við gömlu nýlenduveldin í Evrópu. Bretland beitti okkur viðskiptaþvingunum, og neitaði íslenskum fiskiskipum löndun í Bretlandi, vegna útfærslu landhelginnar 1952. Stjórnvöld í Moskvu hlupu undir bagga og keyptu af okkur frystan fisk. Löndunarbann Breta stóð í fjögur ár og átti að knýja okkur til uppgjafar í landhelgisdeilunni. Rússaviðskiptin voru vörn Íslands gegn yfirgangi Breta.

Við skuldum hvorki Bandaríkjunum né Evrópusambandinu liðveislu í Úkraínudeilunni. Bandaríkin sýndu það árið 2006, þegar þau hurfu með liðsafla sinn á Miðnesheiði nánast í skjóli nætur, að þau láta þrönga þjóðarhagsmuni ráða ferðinni í utanríkismálum og skeyta hvorki um heiður né skömm. Evrópusambandið lagðist á árarnar með Bretum og Hollendingum í Icesave-deilunni í því skyni að íslenskur almenningur axlaði ábyrgð á skuldum einkabanka.

Sitjandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, skilur ekki utanríkismál. Hann lætur embættismenn segja sér fyrir verkum. Þetta eru sömu embættismennirnir og vildu að Ísland axlaði Icesave-ábyrgðina og ætluðu að fórna fullveldinu með ESB-aðild.

Gunnar Bragi mun ekki skilja utanríkismál úr þessu. Hann er óhæfur að fara með utanríkispólitíska hagsmuni þjóðarinnar.


mbl.is Fullkomlega eðlilegt að fara varlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágir vextir auka misrétti - hagsæld auðmanna

Lífeyrissjóðum og verkalýðshreyfingunni er stundum gefið að sök að halda uppi vaxtastigi. Vextir eiga samkvæmt kennslubókum í hagfræði að vinna með hagkerfinu; vera lágir þegar slaki er í efnahagsstarfseminni en háir í þenslu.

Vegna mikils slaka efnahagslífs vestan hafs og austan frá kreppunni 2008 eru vextir í sögulegu lágmarki. Afleiðing af lágum vöxtum er stóraukið efnahagslegt misrétti. Auðmenn nýta sér lága vexti í fjárfestingar, t.d. hlutabréf og fasteignir, en stóraukið peningamagn í umferð eykur verðgildi slíkra fjárfestinga. Almenningur fær brauðmolana í formi aðeins skárri atvinnuframboðs en annars væri.

Tilkynning Seðlabanka Bandaríkjanna í síðustu viku um að vaxtahækkunarferli stæði fyrir dyrum markar endalok hagsældar auðmanna vestan hafs. Alexander Friedman fagnar ákvörðuninni um leið og hann tíundar hve auðmenn græddu á lágum vöxtum en almenningur tapaði.

Seðlabanki Evrópu keyrir enn lágvaxtastefnu og auðmenn munu halda áfram að græða á kostnað almennings í evru-ríkjunum.


mbl.is Eign lífeyrissjóða aukist um 10,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran er vond hagfræði og misheppnuð pólitík

Evran er hagfræðileg mistök. Hún skilar lágum hagvexti en miklu atvinnuleysi. Evran átti að auka samhljóm Evrópu en skilar öndverðri niðurstöðu.

Vegna evrunnar og afleiðinga af innleiðingu hennar vex sundurþykkja í Evrópu.

Samfylkingin, eini ESB-flokkur landsins, er fangi vondrar hagfræði og misheppnaðra stjórnmála.


mbl.is Telja Finnland betur sett án evrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband