Einn prestur á móti 81 milljón múslíma

Þið látið 81 milljón Tyrkja gjalda handtöku yfirvalda á einum presti, sem er með tengsl við hryðjuverkasamtök, sagði Edogan Tyrklandsforseti á útifundi um deiluna við Bandaríkin.

Erdogan blessaður skilur ekki að fyrir þorra Bandaríkjamann, ekki síst fylgismanna Trump, er einn kristinn prestur margfalt meira virði en samanlagður fjöldi múslíma í heiminum.

Tyrknesk yfirvöld handtóku Andrew Brunson mögulega til að þrýsta á að Bandaríkin framselji múslímaklerk í Bandaríkjunum, Fethullah Gulen, sem áður var bandamaður Erdogan, en er sakaður um landráð af stjórninni í Ankara.

Erdogan stendur frammi fyrir þjóðargjaldþroti Tyrkja vegna þess að hann misreiknaði sig og hélt að hægt væri að skipta á sléttu; prestur fyrir múslímaklerk.

 


Vestræn ríki glata samstöðunni

Kanada er pólitísku stríði við Sádí-Arabíu vegna mannréttindabrota múslímaríkisins. Kanadamönnum finnst þeir standa einir. Bandaríkin standa einangruð í viðskiptastríði við klerkaríkið Íran og reyna að kaupa stuðning Bretlands, sem fylgir Evrópusambandinu og vill stunda viðskipti við Íran.

Bandaríkin og Tyrkland deila um viðskipti og mannréttindi. Önnur vestræn ríki sitja hjá. Erdogan Tyrklandsforseti hringir í Pútín í Rússlandi í leit að stuðningi.

Trump vill að Bandaríkin og Rússland nái saman en Evrópusambandið er á móti bættum samskiptum.

Í deilum af þessum toga reyndu vestræn ríki til skamms tíma að sýna samstöðu. Það virðist liðin tíð. Meiri líkur en minni eru á því að enn kvarnist úr samstöðunni. Ástæðan fyrir þessari þróun er að vesturlönd eru ekki lengur sammála um meginsjónarmið annars vegar og hins vegar að hagsmunir vesturlanda eru ekki jafn einsleitir og þeir voru á dögum kalda stríðsins. 


Dagblöð sameinast gegn Trump - og tapa

Bandaríska stórblaðið Boston Globe leiðir óformlegt samráð dagblaða um að mótmæla Trump forseta. Gagnrýni forsetans á falsfréttir eru ástæða mótmælanna, sem munu birtast í leiðurum dagblaðanna.

Samráðið er undir þeim formerkjum að frjálsir fjölmiðlar séu forsenda lýðræðis. En gagnrýni forsetans beinist ekki að fjölmiðlafrelsi heldur falsfréttum. Með samráðinu gegn Trump gera fjölmiðlar ekki annað en að undirstrika að þeir séu á móti forsetanum.

,,Við erum ekki óvinir þjóðarinnar," segir einn ritstjóra Boston Globe. En, óvart, þá hefur forsetinn umboð þjóðarinnar en ekki fjölmiðlar.


Kynjabyltingin: eitt kyn í dag en annað á morgun

Við höfum flest vanist því að líta á fólk sem annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Flestir eru síðan gagnkynhneigðir, en sumir sam- eða tvíkynhneigðir. En nú hefur orðið breyting þar á. Fólk er byrjað að skilgreina kynvitund sína á marga vegu; á milli kynja eða flæðandi frá einu kyni til annars, þar sem sumum finnst þeir ekki tilheyra neinu kyni en öðrum finnst þeir af einu kyni í dag og öðru á morgun.

Ofanritað er inngangur Morgunblaðsins að umfjöllun um fólk sem finnur sig hvorki karl- né kvenkyn.

Kyn er hvorki félagsleg né sálfræðileg skilgreining heldur líffræðileg.

Líffræðileg kyn eru aðeins tvö, karlkyn og kvenkyn. Ef við ætlum að varpa þeim sannindum fyrir róða fer í leiðinni öll líffræði frá Darwin að telja á haugana. En þróunarkenning Darwins er hornsteinn í skilningi okkar á þróun lífs á jörðinni.

Ég get verið Páll í dag en Pálína á morgun. En breytist ekki við það úr karli í konu. Það er einfaldlega ekki hægt.

 

 


Erdogan hótar Trump og Nató

Ef Bandaríkin hætta ekki efnahagsstríðinu við Tyrkland er varnarsamstarf landananna í hættu og þar með Nató-samstarfið, skrifar Erdogan forseti Tyrklands í New York Times.

Tyrkneska efnahagskerfið riðar til falls með 16 prósent verðbólgu og bandarískum viðskiptaþvingunum. Tilefni viðskiptastríðsins er handtaka tyrknesku lögreglunnar á bandarískum presti, sem sakaður er um að styðja tyrkneska hryðjuverkahópa.

Í greininni í New York Times rifjar Erdogan upp samstarf Tyrklands við Bandaríkin frá dögum kalda stríðsins. Kalda stríðinu lauk fyrir 30 árum.

Í seinni tíð er Tyrkland í nánara samstarfi við Rússland en bandalagsríki Tyrkja í Nató um mótun stefnu í miðausturlöndum. Hersveitir Kúrda, sem léku lykilhlutverk í baráttunni gegn Ríki íslams í Sýrlandi og Írak nutu stuðnings Bandaríkjanna og Nató. Tyrkir líta á hersveitir Kúrda sem hryðjuverkamenn.

Erdogan stefnir Tyrklandi í átt að múslímsku trúarríki með sjálfan sig sem kalífa. Hann ákallar guð til hjálpar gegn efnahagsmætti Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi er Erdogan Trump þægilegur andstæðingur, næst á eftir Kim Jong-un í Norður-Kóreu.

 


mbl.is Tyrkneska líran hrynur í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

N-orðið

Ef við notum n-orðið erum við r-tar. Einnig gætum við við verið ásökuð um að vera f-ar. Þá er betra að stunda p-r og vera þar með í hópi g-f.

En svo getum við líka skrifað óskiljanlegar styttingar á orðum; verið hjákátleg og látið aðra um að fylla í eyðurnar.

Teprið gerir menn að sauðum.


mbl.is Segir að Trump sé rasisti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múslímar veðja á guð gegn dollar

Tyrkneska líran í er frjálsu falli, m.a. vegna deilna Tyrkja og Bandaríkjanna um bandarískan prest í tyrknesku fangelsi. Erdogan forseti er þó borubrattur: ,,þið eigið dollara en við eigum allah," segir hann á fjöldafundi í heimahéraði sínu í Tyrklandi, samkvæmt Die Welt.

Erdogan færir Tyrkland í átt að trúarríki. Á gjaldeyrismörkuðum hefur líran fallið um tæp 40 prósent síðustu mánuði. Tyrknesk fyrirtæki með erlendar skuldir stefna í þrot, bankar sömuleiðis.

Síðdegis í dag mun fjármálaráðherra Tyrklands, sem fyrir tilviljun er tengdasonur Erdogan, tilkynna  nýtt ,,viðskiptamódel". Væntanlega eftir forskrift allah, sem stendur með lírunni gegn óguðlegum dollar.   


Ísland hélst í byggð, Grænland ekki

Norræn byggð á Grænlandi lagðist af á 15. öld og lauk þar með um 400 ára sögu. Byggð á Íslandi er ekki nema um 200 árum eldri en saga norrænna manna á Grænlandi. Hvers vegna héldu Íslendingar velli en bræður þeirra og systur dóu út á Grænlandi?

Sjaldnast er ein skýring á endalokum siðmenningar. Grænland byggðist á hlýskeiði, líkt og Ísland, en á 13. öld tók að kólna með fyrirbæri sem kallast litla-ísöld og stóð yfir fram á 19. öld. Grænlendingar voru aldrei fleiri en um 2-3 þúsund en talið er að Íslendingar hafi verið um tíu þúsund í lok landnámsaldar.

Í samantekt á heimasíðu Smithsonian-safnsins á rannsóknum á Grænlandsgátunni er dregin upp sú mynd að skipulega hafi fjarað undan byggðinni. Versnandi afkoma, bæði vegna veðurfarsbreytinga og meiri einangrunar, þegar skip hættu að sigla, ásamt fólksfæð hafi gert íslensku Grænlendingum ómögulegt á byggja landið sem bændur. 

Í stað þess að taka upp lífshætti inúíta, gerast veiðimenn og lifa á selkjöti, ákváðu íslensku bændurnir að bregða búi. Ísland, á hinn bóginn, hélst í byggð enda áfram hægt að stunda þar lífshætti er samsvöruðu sjálfsmynd landsmanna: þeir voru bændur.

 


mbl.is Ráðgátan um norræna byggð á Grænlandi leyst?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netvíma og sjálfshatur

Þekkt einkenni alkahólisma er sjálfshatur. Alkinn veit að neyslan eyðileggur hann sjálfan og fjölskylduna en drekkur samt. Netvíma, sem fæst með tölvuleikjum og áráttunotkun samfélagsmiðla, virðist skila svipaðri niðurstöðu verði neyslan að fíkn.

Netfíklar geta ekki hugsað sér að vera í einrúmi án tölvu eða snjalltækja. Ef þeir eru ekki ,,tengdir" er tilveran óbærileg. Það er ein útgáfa sjálfshaturs að þola ekki að vera einn með sjálfum sér.

Algeng meðferð við alkahólisma er að fá alkann til að horfast í augu við eigin aumingjaskap og vinna sig upp í að vera maður með mönnum - en án áfengis.

Meðferð við netfíkn er lítt komin á rekspöl enda sjúkdómurinn nýr af nálinni. Úrræðin eru þó líkleg til að vera áþekk þeim sem beitt er á alkahólisma. Sá sem ekki þolir sjálfan sig er tæplega í ástandi til að eiga eðlileg samskipti við aðra. 


mbl.is Samfélagsmiðlar draga úr þroska barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvíði á tímum Trump - tvær kerfisbreytingar

Kvíði sem slær út í þunglyndi er vexandi, ekki síst meðal ungu kynslóðarinnar. Sjálfshjálparbækur við kvíða renna út eins og heitar lummur og lyfjafyrirtæki gera það gott í þunglyndislyfjum.

Freistandi er að kenna Trump Bandaríkjaforseta um sálræna kvilla samtímans. Hann er jú vargur í véum lýðgeðheilsu almennings. En, nei, segir dálkahöfundur Guardian, kvíðabylgjan tók að rísa áður en glókollur settist í Hvíta húsið.

Dálkahöfundurinn, Arwa Mahdawi, er ungur að árum. Og kannski þess vegna dettur honum ekkert frjórra í hug en að ójöfnuður, húsnæðiskostnaður og áhyggjur af afkomu séu helstu ástæður vaxandi kvíða.

En þessar ástæður hrökkva ekki til. Meiri ójöfnuður, hærri húsnæðkostnaður og þyngri efnahagur var seinni hluta síðustu aldar án þess að samfélagsleg kvíðaköst gerðu vart við sig.

Ef það er rétt að kvíði sé vaxandi eru ástæðurnar dýpri. Tvær kerfisbreytingar standa yfir þessi árin, önnur tæknileg en hin pólitísk. Þá fyrri má kenna við umbyltingu boðskipta, sem birtist skýrast í samfélagsmiðlum. Boðskiptabyltingin hefur áhrif á sjálfsmynd einstaklinga sem fá áður óþekkta innsýn í einkalífi annarra - eins og það birtist á Facebook og álíka miðlum. Tæknibyltingin býr einnig til aragrúa hópa, og um leið hópsálir, sem boðskiptakerfi fyrri tíðar, sjónvarp, útvarp og dagblöð, gátu ekki sett saman nema þá groddaralega þar sem ein hugmynd var allsráðandi, t.d. fasismi eða kommúnismi.

Seinni kerfisbyltingin, sú pólitíska, er að frjálslynd alþjóðahyggja, sem var ráðandi stjórnmálamenning á vesturlöndum frá lokum seinna stríðs, er að hruni komin. Frjálslynda alþjóðahyggjan boðaði að yfirþjóðlegt vald, Evrópusambandið, Alþjóðabankinn, Sameinuðu þjóðirnar o.s. frv., myndi skipa málum þannig að allir yrðu sáttir (ok, ekki allir en flestir). Það gekk ekki eftir.

Enginn veit hvaða áhrif boðskiptabyltingin mun hafa til lengri tíma. Enn síður er vitað hvaða fyrirkomulag leysir af hólmi frjálslynda alþjóðahyggju.

Maður gæti fengið kvíðakast af minna tilefni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband